HM:D19 – Aftur til vinnu

Fyrsti dagur í vinnu í dag eftir fótboltaleyfið mitt, kom í ljós að ég hafði klikkað illilega á þessu þar sem að síðustu leikir 16-liða úrslita voru í dag. Ég ætlaði upphaflega að mæta í vinnuna, skjótast svo í burtu og sjá fyrri leikinn endursýndan og þann seinni í beinni og koma svo aftur, en þar sem að ég var dreginn út úr bænum í vinnuerindi varð ekki af því. Eftir vinnu var það svo beint í skólann og þegar ég kom heim voru 25 mínútur búnar af endursýndum leik Suður-Kóreu og Ítalíu.

Ég vil fá ríkissaksóknara til að rannsaka það hvaða Gestapo hefur dúkkað upp hér á Íslandi. Ómerktir bílar elta mótmælendur, mótmælendur eru handteknir í klárlega ólöglegum aðgerðum lögregluyfirvalda, yfirmenn ljúga blákalt og svo fá menn nafnlausar hótanir sem koma líklega frá aðilum innan löggæslu Íslands (Friðarspillar hf.). Að lögreglan sé orðin einkahersveit Davíðs (sem að útskýrir herbúðalíkinguna hans) er ógnvænleg tilhugsun, ég endurtek fyrri orð um þriðja ríkið, svona byrjaði þetta þar, ef við erum ekki vakandi vöknum við ekki fyrr en við megum ekki anda nema að biðja leyfis svartklæddra manna. Heimurinn er í vondum málum eftir 11. september, og þar vega ofstækismenn með sprengjur mun minna en skrifstofublækur andskotans sem nú teikna upp nýjar miðaldir og ný ríki myrkraveldis bæði hér á landi sem og í hinum vestræna heimi.

Í skólanum fékk ég að vita að ég hefði verið samkvæmur sjálfum mér í miðannarprófunum, 6.5 í hvoru fyrir sig. Ekki góðar einkunnir en prófin komu mér talsvert á óvart í efnistökum þannig að ég verð að taka því.

Á meðan ég var í skólanum tók píanóið hennar Sigurrósar sig á loft, híft út um svalirnar á Kambsveginum og svo aftur inn um svalirnar hér í Betrabóli. Sigurrós situr nú við það og mér heyrist hún vera í ágætri þjálfun þrátt fyrir litla iðkun undanfarna mánuði.

Japan 0-1 Tyrkland
Missti af leiknum sökum vinnunnar, og gef mér ekki tíma til að sjá endursýninguna núna. Er ánægður með að Tyrkirnir eru komnir áfram, finnst skrítið hvað mörgum er eitthvað illa við þá, þeir voru betra liðið gegn Brasilíu en áttu svo reyndar tvo daufa leiki. Liðið er hins vegar þrusugott og spilar fínan bolta. Einstaka aðrir eru þó sammála mér um Tyrkina (og reyndar Spánverja líka). Fínt skallamark hjá Tyrkjum, heyrði að restin af leiknum hefði verið í daufari kantinum. Japanir virðast hafa haft 6 miðjumenn… kannski of þétt?

Suður-Kórea 2-1 Ítalía (gullmark)
Missti af fyrstu 25 mínútunum eins og áður segir, en það sem ég sá af fyrri hálfleik var að Suður-Kórea réði leiknum. Mín ágiskun því sú að Ítalirnir hafi skorað og svo hörfað, sama gamla taktíkin og þeir hafa beitt undanfarna áratugi. Vítið sem Suður-Kórea fékk var rétt, en spyrnan var jafn slök og öll hin vítin sem hafa verið varin hingað til. Hvað er að þessum mönnum, atvinnumönnum í íþróttinni, sem að geta ekki tekið vítaspyrnu skammlaust heldur rúlla boltanum eftir jörðinni að markinu. Það á að taka þetta með nákvæmninni, helst í hliðarnetin og það frekar ofarlega. Skallamarkið hjá Vieri auðvitað flott, maðurinn óstöðvandi í teignum, glæsilegur skalli þó að verið væri að klæða hann úr treyjunni í loftinu. Í lok hálfleiksins fékk Coco slæmt högg og það fossblæddi úr skurðinum við gagnaugað, kom inná nokkuð spaugilegur með grisju um hausinn og leit nú út eins og fótboltastrumpur, hvítur kollur, blár að ofan og í hvítum buxum. Stuðningur áhorfenda alveg magnaður, ef eitthvað meiri en í síðasta leik þeirra. Trappatoni notar sínar skiptingar til að bakka í vörn á meðan að Hiddink skiptir fleiri sóknarmönnum inná. Ítalirnir ætla greinilega að reyna að halda 1-0. Ítalirnir aðeins sprækari í seinni hálfleik en ég sá þá í þeim fyrri, en Suður-Kórea ræður þó ferðinni. Bæði lið með færi, en Suður-Kórea jafnar á 88. mínútu. Vieri svo með dauðafæri en orðinn þreyttur og tekst að klúðra rækilega. Síðustu mínútur leiksins eru nú eins og handboltaleikur, liðin skiptast á sóknum og bæði komast í þvílík dauðafæri. Þá er komið að framlengingu, þar eru Suður-Kóreumenn áfram sterkari. Totti fær sitt annað gula spjald og er rekinn útaf, rangur dómur þar sem að hann lét sig ekki detta (í þetta eina sinn). Sóknir Suður-Kóreu skila þeim að lokum gullmarki, enda hefði mér ekki litist á blikuna fyrir þá í vítakeppni. Fínn sigur hjá góðu liði Suður-Kóreu sem að fæstir virðast reyndar kunna að meta samkvæmt því sem ég heyri? Ítalir úr leik sem mér finnst gott mál enda dauðþreyttur á þessum sið þeirra að skora eitt mark og bakka svo.

Enn og aftur voru leikirnir leiknir í grenjandi rigningu. Það virðist vera sem svo að allir leikir héðan í frá verði í grenjandi rigningu enda rigningartíminn nú kominn fyrir alvöru. Þessi rigningartími ber einn og sér mikla ábyrgð á því að þetta hefur verið HM óvæntra úrslita, bæði var keppni flýtt vegna hans (sem að leiddi til minni undirbúnings stórveldanna en áður) og bleytan hefur haft sitt að segja í leikjum keppninnar. Það er þó fínt að fá nýtt blóð í knattspyrnuna, og á heimsvísu held ég að þetta HM muni efla hana. Þvílíkur grís hjá rottunni honum Blatter að fá upp í hendurnar HM þar sem að úrslitin fara svona skemmtilega fyrir heimsbyggðina. Ekki hefur hann gert mikið gott sjálfur, hið andstæða raunar.

Áhugavert:

  • Every dial you take
  • Comments are closed.