HM:D15 – Dagur 2 í Camp Ísland

Mig grunar að Davíð hafi ekki tekið eftir því, að þó að Björn Bjarnason hafi mælt með því að hér yrði stofnaður íslenskur her, þá fór það aldrei í gang. Davíð stendur því fast á því að Ísland sé nú herstöð, og hann sem yfirmarskálkur því alvaldur. Það skýrir auðvitað drottningarviðtölin hans og það hvernig hann gerir lítið úr öllum öðrum en sjálfum sér í samtölum, eini maðurinn sem kemur illa út er auðvitað Davíð marskálkur sjálfur.

Spurning hvort að Davíð mæti í tindátabúningi á 17. júní? Íbúar Camp Ísland eiga þá væntanlega að hrópa ferfalt húrra fyrir honum.

Í dag kláraðist riðlakeppnin á HM, á morgun hefjast 16-liða úrslit. Það er ekki hægt að segja annað en að þetta hafi verið skemmtilegasta HM í áraraðir. Mörg óvænt úrslit, nærri öll liðin hafa lagt áherslu á sóknarknattspyrnu og mörkin eru að meðaltali 4 í leik eða svo held ég. Knattspyrnuheimurinn er að breikka, sem að má sjá á því að stórveldi eru felld af ríkjum sem að voru lægra skrifuð.

Belgía 3-2 Rússland
Fyrir mótið bjóst ég við skemmtilegum tilþrifum frá Belgum. Það hefur látið standa á sér en í þessum leik sýndu þeir loksins það sem að ég beið eftir. Nokkrar breytingar á liðinu frá síðasta leik (enda arfaslakir þar) og þetta byrjar fjörlega. Walem skorar úr aukaspyrnu á 7. mínútu og Belgar sækja stíft á dapra Rússana. Ungstirnið Sychev kemur inn sem varamaður hjá Rússum, honum hefur verið líkt við Michael Owen, ungur, snöggur og flinkur framherji. Hann bjargaði þeim einmitt gegn Túnis, og hér tekur hann strax málin í sínar hendur, á sendingu á Becashtnych sem að jafnar metin á 52. mínútu. Belgar eiga unga sóknarmenn líka, Wesley Sonck er skipt inná og nokkrum sekúndum síðar skorar hann með skalla eftir hornspyrnu, þetta er á 78. mínútu. Marc Wilmots kemur svo Belgum í 3-1 á 82. mínútu með góðu skoti fyrir utan vítateig, og Belgar virðast öruggir í 16-liða úrslit. Sychev er ekki sammála, skorar á 89. mínútu og nú vantar Rússa aðeins eitt mark enn til að komast áfram. Talsverð læti í Rússunum lokamínúturnar en það dugar ekki til, Belgar vinna verðskuldaðan sigur á Rússum og senda þá heim.

Japan 2-0 Túnis
Túnis voru þokkalegir á móti Rússum og voru óheppnir að tapa þeim leik en áðurnefndur Sychev kom þar Rússum til bjargar. Fyrri hálfleikur var mikil ládeyða, en Japanir gerðu skiptingar í hálfleik og þær skiluðu sér. Varamaðurinn Moroshima skorar glæsilegt mark á 48. mínútu eftir sendingu frá varamanninum Ichikawa. Á 75. mínútu á svo Ichikawa góða sendingu fyrir markið og þar mætir Hidetoshi Nakata og skallar boltann í markið. Japanir verið sprækari, kannski orðnir þreyttir enda búnir að vera á fullri keyrslu allt mótið.

Pólland 3-1 Bandaríkin
Svakalegar upphafsmínútur, Pólland skorar á 3. mínútu, Olidasebe með skot í þverslána og inn. Á 4. mínútu skorar Landon Donovan mark fyrir Bandaríkin en það er dæmt af, hann braut á varnarmanni Pólverja. Á 5. mínútu skora svo Pólverjar aftur, nú Kryzalowisch. Algjör handboltabyrjun, sóknir á báða bóga. Pólverjar bakka svo og Bandaríkjamenn hefja miklar sóknaraðgerðir sem að stranda á hávaxinni og þéttri vörn Pólverja. Pólverjar fá reyndar betri færi, hraðaupphlaup þeirra mjög hættuleg og varnarmönnum Bandaríkjanna reynist erfitt að taka boltann af mönnum á ferð. Bandaríkin gefast upp á að gefa bolta inn í þéttsetinn teiginn og fara að skjóta á markið af mislöngu færi. Á 65. mínútu kemur Zewlakow inná og skorar mínútu síðar, 3-0! Ungstirnið Landon Donovan skorar á 83. mínútu og Bandaríkin fá nokkur færi en tekst ekki að skora. Þurfa nú að treysta á Suður-Kóreu til að komast áfram í 16-liða úrslit.

Portúgal 0-1 Suður-Kórea
Portúgalir geta komist áfram ef þeir fá stig og Bandaríkjamenn tapa. Geggjuð læti á vellinum þar sem 65.000 áhorfendur öskra úr sér lungun og raddböndin, ógurlegasti dynur sem ég hef heyrt, og var þó á HM98 þar sem króatísku áhangendurnir voru svakalegir og sungu án hvíldar í 2.5 tíma. Bæði lið láta boltann ganga vel og spila fínan fótbolta, minni hreyfing er á leikmönnum Portúgal en Suður-Kóreu, og því komast Evrópustjörnurnar lítt áleiðis að marki. Luis Figo lætur stela af sér boltanum hægri vinstri og virðist bara ekki vaknaður. Suður-Kóreumenn spila fínan fótbolta, boltinn gengur vel og mikil hreyfing þannig að alltaf er hægt að finna lausan mann, komnir með hollenska stílinn alveg fantaflottann. Ná reyndar ekki að skapa sér marktækifæri enda vörn Portúgala glaðvakandi í þetta sinn. Suður-Kóreumenn fara mjög fast í alla bolta og það pirrar Portúgalina. Joao Pinto tapar boltanum hvað eftir annað og lætur það fara í taugarnar á sér, fer í vafasama tæklingu á 27. mínútu og fær rauða spjaldið fyrir. Strangur dómur en fyllilega samkvæmt bókinni. Portúgalir bakka aftar og markmenn sjá varla boltann í hálfleiknum. Suður-Kórea byrjar seinni hálfleikinn af miklum krafti, Portúgalir halda sig aftarlega og leyfa þeim að koma, gæti reynst hættulegt gegn kvikum og snöggum andstæðingum. Á 65. mínútu fær Beto sitt annað gula spjald fyrir minniháttar brot og nú eru Portúgalir aðeins 9 á vellinum, og þulirnir froðufellandi (enda mikil eftirsjá að þessu frábæra liði). Portúgalir eflast við þetta en Suður-Kóreumenn hægja ferðina, á 70. mínútu fá þeir hornspyrnu og Park Ji Sung tekur vel á móti boltanum og klárar glæsilega, 1-0 og Portúgalir tveimur færri og marki undir og því á heimleið. Nú hefst einhver svakalegasti kafli keppninnar, Portúgalir verða hamrammir og skipta yfir í 3-2-3 leikkerfi, varnartröllið Couto færir sig fram í miðherjann og gerir þar mikinn usla. Allir leikmenn Portúgals berjast eins og ljón og Suður-Kóreumenn bakka gegn svona brjálæðingum. Portúgalir eiga færi eftir færi, og varamaðurinn Nuno Gomes klikkar hrikalega þegar hann kemst einn á móti markmanni en hálfsest á boltann. Sergio Conceiçao á skot í stöngina og boltinn skýst meðfram marklínunni og burt, skömmu seinna á hann glæsispyrnu sem markmaðurinn ver, grey töframaðurinn gráti næst að sjá boltann forðast netið eins og heitan eldinn. Vitor Baia bjargar þrisvar maður á móti manni þegar að portúgalska vörnin er búin að minnka niður í 2 menn. Mikil læti og dramatík síðustu mínúturnar en inn vildi boltinn ekki. Loksins sáum við hvernig Portúgal getur leikið fótbolta, en það kom tveimur og hálfum fótboltaleik of seint. Dómarinn var arfaslakur og ósamkvæmur sjálfum sér, en það eru Bandaríkin sem komast áfram á þessu eina marki Suður-Kóreu. Mikil synd. Nú er bara vonandi að Suður-Kórea slái næstu andstæðinga sína út, Ítali.

Áhugavert:

  • Ticket policy prompts Hispanic fan to sue U.S. Soccer Federation
  • Comments are closed.