HM:D13 – Attack of the clones

Jesús minn almáttugur. Er reyndar yfirlýstur guðleysingi en þegar grípa verður til stórra upphrópanna þá skilja allir þessa. Við Sigurrós skruppum á Star Wars:Episode 2, langa myndin með B-myndanafninu. Auk þess að hafa þetta B-myndanafn þá eru samtöl og leikur af B-standard, hægri vinstri, besti leikarinn er án efa Yoda, sem að er tölvuteiknaður. Umgjörð myndarinnar er að sjálfsögðu mjög flott, öll grafík er flott, umhverfi, farartæki og fleira, tæknileg útfærsla næstum gallalaus (næstum því…). Yoda að berjast er án efa atriði myndarinnar. Sé horft framhjá öllum bardögunum og eltingarleikjunum hins vegar þá er þetta frekar óburðug mynd með ósannfærandi söguþræði, vondum samtölum og stirðbusalegum leik undir slappri leikstjórn. Ég telst hins vegar til örfárra sem að líta svona á myndina, flestir gleyma sér bara í sprengingunum, rifnum fötum, geislasverðum og Mættinum. Verði þeim að góðu, þetta er að sjálfsögðu upplifun að sjá svona stóra (löng og mikið af brellum) mynd, en hefði hún ekki getað orðið betri ef að alvöru höfundur hefði skrifað samtölin og stoppað í götin í handritinu og alvöru leikstjóri hefði leikstýrt góðum leikurum? Svona er maður nú, krefst alltaf þess besta.

Við fórum á myndina í Smárabíói, enda bestu salirnir þar. Ekki alveg eins kalt núna og síðast, skondið að vera í stuttermabol í 20°C hita úti, fara svo inn í sal og vera kominn í 12°C, ennþá á stuttermabolnum. Sætin eru hins vegar algjör martröð fyrir þá sem að vilja halda bakinu á sér í lagi. Í hléinu var ég á leiðinni aftur í salinn en fékk þá gífurlegt þursabit, nokkuð sem ég hef ekki fengið mánuðum saman. Seinni hluta myndarinnar horfði ég á í reygðri stellingu til að halda bakinu þokkalegu. Ég ætla nú að benda Smárabíósmönnum á að þessi bök eru stórhættuleg, hef heyrt sjúkraþjálfara segja að þetta séu allra verstu bök sem að baksjúklingar geta fundið á þessu landi.

Ég býst við því að þeir muni gera eitthvað í þessu, af hverju að eyða milljónum í fín sæti, flotta sali og góða aðstöðu þegar að þeir svo gera alla bakveika sem þangað fara í bíó. Það væri best fyrir þá og viðskiptavini þeirra ef þeir myndu breyta bökunum til hins betra og geta þá auglýst sig sem bakvænt bíó, eða bara ergónómískt (ergónómía er fræðin sem miðar að því að gera aðstöðu manna betri, stólar sem að fara ekki illa með bakið, skæri sem að meiða ekki þá sem þau nota, betri lyklaborð, betri mýs og svo framvegis).

Þá að boltanum sem er að sjálfsögðu að rúlla af miklum móð.

Svíþjóð 1-1 Argentína
Chamot spjaldasafnari, Almeyda og Aimar komnir í byrjunarlið Argentínumanna. Argentínumenn byrja mjög sterkt og eiga leikinn, Svíar verjast hins vegar og gera það vel. Hálfleikur nálgast og Argentínumenn farnir að pirrast á því að geta ekki skorað hjá sterkri vörn og góðum markmanni Svía, gemlingurinn Claudio Caniggia brúkar kjaft á bekknum og er rekinn upp í stúku, ekki glæsilegur sprettur á þessu HM hjá honum. Anders Svensson, sem að hefur nýst manni vel í Championship Manager í gegnum tíðina, skorar úr glæsilegri aukaspyrnu á 59. mínútu og Svíar eru í góðum málum. Argentínumenn sjá nú fram á að vera slegnir út og halda áfram að ógna marki Svía, það er ekki fyrr en á 88. mínútu að þeir skora. Ortega fær víti, tekur það sjálfur en Hedman ver, Crespo nær boltanum og skorar. Við endursýningu kemur í ljós að Crespo er kolrangstæður í raun, var kominn samhliða Ortega þegar að hann tók vítið, markið er því ólöglegt en línuvörðurinn klikkar á að dæma. Svíar eiga svo dauðafæri, en leiknum lýkur með jafntefli. Svíar komnir áfram en stórveldið Argentína fer heim með fyrstu flugvél, þvílíkt áfall fyrir þá sem og keppnina. Bielsa hefði betur tekið Saviola með.

Nígería 0-0 England
Fyrir leikinn bjóst ég við Nígeríumönnum mjög grimmum, það væri of mikill skandall ef að þeir fæmu án stiga frá þessu móti. Á þennan leik er hins vegar ekki orðum eyðandi, 3 færi á lið og svo þess á milli gerðu þau sitt besta til að tefja tímann. Vildu greinilega bara sættast á leiðinlegt og ljótt 0-0 jafntefli og það fengu þeir. Leiðinlegasti leikur HM.

Slóvenía 1-3 Paragvæ
Paragvæ byrja af krafti, þeir þurfa sigur og ætla sér greinilega að fá hann. Á 20. mínútu fær Paredes sitt annað gula spjald og er réttilega rekinn út af. Paragvæ eru orðnir 10 og þurfa nú virkilega að bretta upp ermarnar. Þeir gera það og setja mikla pressu á Slóvenana. Slóvenar hressast síðustu mínútur hálfleiksins þegar þreytan fer aðeins að segja til sín hjá Paragvæum, og skora í viðbótartíma, boltinn fer klaufalega í gegnum klofið á Chilavert og af fæti hans í markið eftir skot frá endalínu. Slóvenar byrja seinni hálfleik af krafti og fá fjölda færa. Nú er ég eiginlega farinn að afskrifa Paragvæ. Nelson Cuevas er skipt inná í lið Paragvæ og er ekki búinn að vera nema 5 mínútur á vellinum þegar hann skorar jöfnunarmarkið með góðu einstaklingsframtaki á 66. mínútu. Paragvæ eiga von, en þurfa að vinna, helst með tveimur til að vonin rætist. Varamaðurinn Jorge Campos kemur svo Paragvæ yfir á 73. mínútu með góðu langskoti. Cuevas tryggir svo sigurinn með glæsilegum tilþrifum og neglir í þverslá og inn á 84. mínútu. Hann meiðist svo og er tekinn útaf á 90. mínútu. Var inná í tæpan hálftíma og skoraði tvö mörk, ekki slæmt. Frábær barátta í liði Paragvæ, hjálpuðu sjálfum sér til að ná í 16-liða úrslit.

Spánn 3-2 Suður-Afríka
Spánverjar gera miklar breytingar, leyfa fleiri leikmönnum að taka þátt, sem ég er bara ánægður með. Á 4. mínútu missir Arendse markvörður SAF boltann frá sér klaufalega og Raúl skorar auðvelt mark. Spánverjar halda áfram að sækja og nýju mennirnir eru sprækir og vilja sanna sig. Suður-Afríkumenn berjast vel og ná að jafna á 31. mínútu, Benni McCarthy klárar loks færi á þessu móti. Mendieta vinnur aukaspyrnu á 45. mínútu og skorar úr henni sjálfur, Arendse illa staðsettur. Lucas Radebe jafnar á 53. mínútu með skalla, Suður-Afríka að spila ágætlega og fjarri því að láta traðka á sér. Á 56. mínútu gefur svo Joaquin glæsilega sendingu inn á teig sem að Raúl skallar í netið. 3-2 fyrir Spán. Suður-Afríkumenn berjast áfram en ná ekki að setja fleiri mörk, þeir detta því úr leik eftir hetjulega frammistöðu.

Áhugavert:

  • Góð greining á klúðri stórveldanna
  • Comments are closed.