Andlát – Sigríður

Alltaf vill lífið minna á sig. Í gærmorgun mætti ég klukkan 8 í skólann og fyrir utan að ég skrapp í kvöldmat heim og fékk mér klukkutímadúr þá, þá var ég sleitulaust til 12:30 á hádegi í dag. 28 tíma törn.

Þegar ég kem svo heim uppgefinn sest ég niður og ætla að fletta í Mogganum áður en ég fæ mér loksins langþráðan svefn. Þegar ég er að fletta framhjá minningargreinunum rek ég allt í einu augun í nafn sem ég kannast við og myndin staðfestir það. Þarna var að finna minningargreinar um Sigríði Reynisdóttur.

Þetta kom mér mjög á óvart, og það að minnst er á mig óbeinum orðum í fyrstu minningargreininni lætur smá hroll hríslast um mig. Ég var sumsé þjálfari MK fyrir Gettu Betur árið 1996. Í liðið voru valin þau Sigríður, Björn og Stefán. Hvað árangur liðsins varðar þá er það nokkuð ljóst að ég var ekki að átta mig nógu vel á muninum á því að vera þjálfari liðs eða þátttakandi, nokkuð sem margir góðir leikmenn í ýmsum greinum hafa rekið sig á.

Þau voru öll nokkuð svipaðar týpur, og kom vel saman. Við lestur minningargreinanna komst ég að því að Sigríður og Björn höfðu svo byrjað saman eftir þetta, þau voru það lík þau tvö að það kemur mér ekkert á óvart.

Lífið er stutt og ófyrirsjáanlegt, fögnuður minn yfir að skila loksins lokaverkefninu vék fyrir alvarleika lífsins, gæðastúlka missir lífið og eftir situr unnustinn og aðrir og skilja ekki ástæðuna.

Ég votta Birni og öðrum vinum og vandamönnum Sigríðar mínar innilegustu samúðaróskir.

Comments are closed.