Rabarbía – vöruhönnun sem bregst

Rabarbía er vörumerki bænda á Löngumýri á Skeiðum. Þetta var verkefni í samvinnu við Listaháskóla Íslands og mér til mikillar gleði var útkoman brjóstsykur úr rabarbara.

Ég fór í frú Laugu í gær og verslaði eina Rabarbía brjóstsykurstöng til að prófa. Umbúðirnar voru skemmtilegar, löng og þykk brjóstsykurstöng umvafinn grænu innan í pappa sem líkir eftir rabarbara. Þegar það átti að prófa þetta vandaðist hins vegar málið. Stöngin er þykk og hörð og til að fá eitthvað sem passar í munn þarf að brjóta. Handaflið dugði til að smækka stilkinn niður í allmarga minni stilka, en þeir voru þá enn stærri en karamella ætti að vera svo vel væri.

Vonbrigðin voru svo talsverð, þetta er rjómakaramella sem minnir á Werther’s Original, það er fínt í sjálfu sér en ekki það sem ég hélt að ég væri að kaupa. Rabarbarinn finnst vart í þessu, einstaka sinnum hélt ég að ég hefði fundið rabarbarabragð en það var í svo miklum minnihluta að grátlegt var.

Umbúðirnar og frágangurinn eru hérna að gera vörunni talsverðan óleik með því að gera kaupanda erfitt um vik að gæða sér á henni. Stilkurinn er flottur en ekki nothæfur, betur væri ef stilkurinn væri niðursneiddur innan umbúðanna þannig að auðvelt væri að stinga hverri flís í munn án þess að þurfa að grípa til hamars og annara vopna gegn ofurbrjóstsykrum.

Hvað bragðið varðar þá ættu Rabarbía og karamellumeistarinn Örvar Birgisson að margfalda rabarbaramagnið. Það er engum greiði gerður að selja þetta sem rabarbaravöru þegar bragðið finnst vart nema með einbeittum vilja, yfirgnæft af rjómanum.

Mig langar ofsalega að fá mér rabarbarasælgæti af lífrænum rabarbaraökrum, en það þarf þá að bragðast rétt en ekki eins og rjómi!

Comments are closed.