Græni gripurinn (uppfærður)

Já, það er aldrei skortur á vanvitum sem vilja skipta heiminum í þá sem eiga það skilið að vera efnaðir og þá sem eiga það ekki skilið að geta menntað sig. Greinarhöfundur telur sumsé að búið sé að sanna það að ríkt fólk sé gáfaðra en aðrir, börn þeirra erfi gáfurnar og því eigi bara að sleppa því að veita öllum tækifæri á menntun, óháð efnahag.

Það minnir mig á grein í Fréttablaðinu í gær (bls. 56) eftir Þórð Pálsson, forstöðumann greiningardeildar KB banka, þar sem arðsemi námsins er hinn heilagi sannleikur. Ég held að við færum illa út úr því ef að heil kynslóð útskrifaðist sem lögfræðingar og viðskiptafræðingar. Það vill nefnilega svo til að mörg verðmætustu störf þjóðfélagsins eru með neikvæða arðsemi, kennarar, hjúkrunarfólk og aðrar mannauðsstéttir sem eru hverju þjóðfélagi lífsnauðsynlegar. Nei, heilagi sannleikurinn er arðsemi sem er mæld í krónum. Þess vegna er ekkert mál að hækka skólagjöld og minnka skólagöngu og "gagnslaus" bókleg fög sem koma menntun ekkert við eins og bókmenntir og listasaga. Heimskur er heimaalinn maður sagði einhver staðar, hluti atvinnulífsins lítur greinilega svo á að öll menntun umfram reikningshald og skrift sé óþarfi. Þarna sést í forpokuðu stórbændurna sem vildu ekki að lýðurinn menntaði sig, það væri óþarfi sem skilaði ekki neinu í gogginn.

Sem betur fer eru fæstir svona þenkjandi. Í gær var verið að kynna fartölvu sem beðið hefur verið eftir, hún er ætluð börnum í þróunarlöndunum og mun kosta um $115 eða um 7 þúsund krónur. Eins og sjá má af myndunum er hún litrík og fjölhæf. Já, fyrir þá sem eru að velta því fyrir sér þá er sveifin á henni aflgjafi. Með því að snúa henni í eina mínútu er hægt að hafa hana í gangi í rúman hálftíma.

Í framhaldi af mynd gærdagsins um fasisma þá benti D10 mér á þetta myndband. Samtökin sem minnst er á þarna er að finna hérna. Svo ég vitni í stórmenni bókmenntasögunnar, þá er þetta fólk klikk, held ég hafi áður andvarpað yfir því að þetta lið er á góðri leið með því að gera draum sinn að okkar martröð.

Comments are closed.