Í augnablikinu getur verið…

Það er einhver hiksti hlaupinn í beininn (router) sem stýrir netsamskiptum Betrabóls við umheiminn. Svo virðist sem að við sveiflumst inn og út þessa dagana.

Ekki var þessi morgun glæsilegur, erum rétt komin frá heimilinu þegar bíllinn leikur á reiðiskjálf og undarlegir skruðningar berast, þjösnaðist í gegnum Kópavogsgjána og fór svo loks út í kant þar sem færi gafst og ég var ekki fyrir umferðinni, Sigurrós náði sér í leigubíl og hélt í vinnuna.

Aðstæður til dekkjaskipta voru ömurlegar og því hringdi ég í Vöku og pantaði bíl til að sækja mig og minn. Rétt eftir að ég er búinn að hringja sé ég tvo bíla frá Krók birtast í 10 metra fjarlægð, hinum megin við eyjuna. Þar er víst aðstaða þeirra. Sat þó og beið áfram.

Við rúntuðum svo með bílinn í Skipholtið þar sem Toyotunni var skilað alveg upp að dyrum og björgunaraðgerðir hafnar. Pabbi mætti á svæðið en hann hafði ætlað að stússast aðeins í Toyotunni og hafði farið fýluferð upp í vinnu á meðan að ég rúntaði um með bílinn á pallinum.

Í ljós kom að Vökumaðurinn var náfrændi minn, en við sjáumst svo sjaldan að við vissum ekkert hver hinn var. Pabbi lánaði mér svo sinn bíl og fór í stússið með Toyotuna. Glæsilegt alltaf að eiga hann að.

Úr umferðinni í gær er það annars að frétta að aftaníossi dagsins var ökumaður jeppans PN 923. Fær litlar þakkir fyrir það.

Comments are closed.