Ársyfirlit

Árið 2004 reyndist mjög viðburðaríkt bæði í einkalífinu og heiminum.

Ég ætla að renna lauslega yfir það, en sleppa neikvæðninni og minnist því ekki aukateknu orði meir á Íraksstríðið, fjölmiðlafrumvarpið og aðra skandala ríkisstjórnar, kennaraverkfallið eða fleiri skammarleg mál Íslendinga.

21. apríl settum við Flókagötuna á sölu.

4. maí var mér boðin ný vinna sem ég þáði og dró aðrar umsóknir til baka, enda sú sem mér fannst mest spennandi. 6. maí lauk ég loks námi í tölvunarfræði. 3 ára námi lokið á 5 árum.

27. maí festum við svo kaup á nýrri íbúð og seldum um leið á Flókagötunni. Þægilegt að gera þetta svona með klukkutímamillibili á sama stað. Það vantar ekki að við pössum upp á skipulagninguna.

6. júní mættum við svo í brúðkaup Óskars og Sóleyjar og 19. júní í brúðkaup Báru og Jóns Grétars.

Í millitíðinni hafði ég mætt í mína eigin útskrift og fengið þar plagg upp á B.Sc. gráðuna.

29. júní fluttum við yfir í Betraból útgáfu 2 þar sem við unum okkur vel í dag.

EM var á fullu þennan tíma og lauk svo 4. júlí með úrslitum sem skapraunuðu mér mjög.

5. júlí dúkkuðu hins vegar upp tveir Hollendingar sem við lóðsuðum um þvert yfir Suðurlandið. Indælis fólk og skemmtilegur tími með þeim. Við höfðum náð að klára Arnarsmárann áður en þau komu og þau fengu svo að sjá tóma Flókagötuna áður en við skiluðum Betrabóli hinu fyrsta.

Jolöndu grunaði ekki að Jeroen hefði haft leynilegt samráð við okkur og því kom bónorðið henni á óvart. Ég á enn eftir að klára myndbandið frá ferðinni og stóru stundinni og senda þeim.

Við tók svo ágætis tími í einkalífinu fram eftir árinu.

Ákvað að gamni að fá smá lista yfir þær kvikmyndir og bækur sem ég mundi eftir að rita í dagbókina og sá/las í fyrsta sinn í ár.

Svona var það!

Comments are closed.