Laun unglækna

Bjarni Þór Eyvindsson, fyrrverandi formaður Týs, félags ungra sjálfstæðismanna í Kópavogi og fyrrum skólafélagi, er núverandi formaður unglækna. Hann var að barma sér yfir því að fyrsti launatékki unglækna verði lægri en fyrsti launatékki kennara EF kröfur kennara nást fram. Það sem Bjarni Þór minnist hins vegar ekki á er hversu hratt læknirinn hækkar í launum og að kennarar hækka á snigilshraða þannig að eftir ekki mjög marga launatékka er læknirinn kominn með meiri laun og eftir nokkuð fleiri launatékka, rúmlega tvöföld laun kennarans sem útskrifaðist á sama tíma. Enn fremur er augljóst að læknar eru margir að taka á sig yfirvinnu sem kennarar geta ekki þó þeir vildu, þannig er kerfið. Tekjumöguleikar eru því mun betri hjá læknum.

Í mínum huga eru nokkrar stéttir sem eru það nauðsynlegar samfélaginu að þær eiga að vera á topplaunum, þetta er starfsfólk í menntakerfinu og heilbrigðiskerfinu. Án menntunar, og án heilsu, þá er maður bara hálfur maður og varla það.

Mér fannst þetta frekar ódýrt skot hjá drengnum enda var það gripið af talsmönnum sveitarfélaga sem merki um heimtufrekju kennara. Læknar eiga auðvitað að fá góð laun og málið er, að þeir fá það.

Unglæknar hins vegar fara heldur illa út úr þessu, fyrir utan þennan 205 þúsund kall þá eru þeir á tvö- og stundum þreföldum vöktum. Mér líður ekkert allt of vel að fara á slysadeild og vita það að unglæknirinn sem er að sinna mér er búinn að vera að vinna í 18 tíma og á 6 tíma eftir. Þetta er hvorki hollt fyrir lækninn né sjúklingana. Þetta þarf að laga líka og ég held að þjóðfélagslega sé það mikilvægara mál en fyrsti launaseðillinn (sem mætti vera hærri reyndar).

Bjarni Þór kom sér þarna í mjúkinn hjá mörgum, spennandi að sjá framhaldið eftir þetta ódýra og þrönga útspil. Unglæknar þurfa bara að hafa sama kjark í kjarasamningum og kennarar, en ekki hanga utan á þeim og segja “við viljum meira en þeir”. Kennarar hafa sýnt að þeim er fúlasta alvara, unglæknar þurfa að gera það sama.

Flestir kennarar óska unglæknum vel í þeirra kjarabaráttu.

Comments are closed.