Monthly Archives: October 2005

Uncategorized

Ömmumatur

Eftir tiltekt í dag í vinnuherberginu, sem er búin að standa til í eitt ár, var okkur boðið í mat til ömmu.

Eftir besta snitzel sem ég fæ (verð að véla uppskriftina úr henni) sáum við hjónin svo Stelpurnar í fyrsta sinn. Áttu góða spretti.

Uncategorized

SnapDragon, Gallery uppfærsla

Ég verð nú að segja að Snap Dragon virðist hafa verið mun hættulegri en möndlugjöfin á jólunum.

Þeir sem nota hið frábæra myndakerfi Gallery2 ættu að ná í uppfærslu , frekar öflugur lúsarskratti sem fannst. Uppfærslan er mjög einföld, þetta er þvílíkt snilldarverk sem þessi sjálfboðaliðahópar hefur unnið að.

Uncategorized

Sprettigluggi

Er núna að þýða TinyMCE yfir á íslensku.

Það eru til ýmis íslensk tækniheiti sem maður notar lítið, eins og bilslá (space á lyklaborði).

Sum orð eru bara það sniðug að maður ætti samt að temja sér notkun þeirra, til dæmis sprettigluggi (popup) og þumla (thumbnail). Ekki alveg eins viss með frosning.

Blogg er þarna þýtt sem raus og bloggarar rausarar. Sjálfur held ég dagbók og er því ekki rausari!

Sjá nokkur orð frá tölvuorðanefnd sem og orðabankann.

Uncategorized

Ég er ástfanginn… af kóða

Eftir rúm fimm ár hef ég loksins uppfært dagbókargræjuna mína þannig að ég sjái feitletraðan texta sem feitletraðan en ekki sem <b>kóða</b>, og svo framvegis.

Tilefnið eru ástarfundir mínir með TinyMCE sem Egill kynnti mig fyrir.

Vefumsjónarkerfið sem aðrir íbúar nota var í áttina, þar gátu þeir sett inn tengla, myndir, feitletrun og fleira á svipaðan hátt og í Word, en núna, þegar ég uppfæri hjá þeim, mun þetta batna til mikilla muna, sérstaklega hvað myndir varðar, en þær voru helsta vandamálið hingað til.

Uncategorized

Mjallhvít

Í nótt datt inn á veraldarvefinn stafræn útgáfa af ævintýrinu um Mjallhvít. Hana má lesa með myndum á þessari síðu. Þess ber að geta að pappírsútgáfan var gefin út 1852, sjálfum finnst mér bara skemmtilegt að sjá gamla stafsetningu og orðalag.

Bætti aðeins um betur og smellti mynd úr bókinni á færsluna um Mjallhvít á íslenska og enska Wikipedia.

Aðeins að nútíma listsköpun, þessi græja, I/O Brush virðist vera algjörlega geggjuð! Mig langar í svona og er þó með teiknifatlaðri mönnum!

P.S. Mjallhvít var áður nefnd í þessari færslu. Nú eru þrjú verkefni í fyrri umferð:

  • Íslenzk grasafræði
  • Rímur af Grámanni í Garðshorni
  • Járnsíða eðr Hákonarbók

“Húsabætur á sveitabæjum” er í annari umferð. Tvö verkefni til viðbótar bíða þess að ég sleppi þeim lausum, sem ég geri þegar einhver hinna fara úr fyrstu umferð, og eitt er líklega á leiðinni til viðbótar á morgun eða svo. Passa að hafa alltaf auðvelt verkefni í gangi þannig að fólk getur prufað að prófarkalesa einfaldan og skýran texta til að byrja með.

P.P.S. Skrifaði smá kynningu á þessu í júlí.

Uncategorized

é eða è?

Á meðal þess sem ég stunda þessa dagana er að senda gömul íslensk rit á vef Dreifðra prófarkalesara.

Þar er nú farið að há mér vanþekking á eldri tíma ritháttum, eitt rit til dæmis inniheldur á, ó, í, ú eins og eðlilegt er, en einnig è í stað é. Þá er spurning hvort þetta hafi verið upphafleg ætlun höfundar eða tæknileg lausn í prentsmiðju? Fleiri álíka mál sem ég er að vasast í.

Einhver þarna úti sem hefur þekkingu og vilja til að aðstoða við svona atriði?

Uncategorized

Græðgi

Íslenskukorn dagsins:
græðgi og gróði eru ekki sama orðið.

Græðgi er neikvætt hugtak yfir hátterni.

Fyrir þá sem enn aðhyllast fegurð græðginnar, blindaðir af orðinu gróði, má benda á hvernig þessu er háttað í ensku þar sem “greed” og “profit” sýna hve fjarskyld hugtökin eru í raun og veru.

Góðar stundir.

Uncategorized

Tröllasaga

Einu sinni var lítil stúlka sem hét Súsanna. Hún var voða hrædd við tröll.

Einu sinni var lítill strákur sem hét Bjössi. Hann var líka voða hræddur við tröll.

Þó að byssur virki ekki á tröll þá ákváðu þau samt að finna eins margar byssur og þau gætu og láta Halla fá þær. Hann gæti verndað þau gegn tröllum með því að skjóta þau!

Það er nefnilega ekkert öryggi betra en falskt öryggi.

Uncategorized

Eitt ár hjá DP-EU

Í gær var það ársafmæli mitt hjá DP og í dag ársafmæli hjá DP-EU. Vefurinn allt að því söng afmælissönginn fyrir mig!

Happy birthday to you!
Happy birthday to you!
Happy birthday dear stalfur,
Happy DP-EU birthday to you!

Af því tilefni sendi ég inn auðvelt íslenskt rit, “Húsabætur á sveitabæjum” sem er gefið út eftir Suðurlandsskjálftana 1896.

Í öðrum fréttum er það helst að ég sendi inn umsókn í dag. Í félag sem ég hafði áður sagt mig úr. Meira síðar.

Uncategorized

Eitt ár hjá DP

Nú í dag er slétt ár síðan að ég skráði mig hjá Distributed Proofreaders. Af því tilefni skilaði ég af mér endanlegri stafrænni útgáfu (fjórum reyndar) af Sæfarinn (Ferðin umhverfis hnöttinn, neðansjávar) eftir Jules Verne, þýðing frá 1908. Ætti að birtast á Project Gutenberg innan tíðar.