Monthly Archives: November 2004

Uncategorized

Discovery

Settist fyrir framan sjónvarpið í kvöld (sem er frekar óvenjulegt nema klukkan sé 21:00 á mánudegi) og límdist alveg fyrir framan Discovery Channel.

Ólíkir og magnaðir þættir sem þarna voru.

Einna merkilegust fannst mér þó athugasemd indversks læknis, hann hafði starfað í Indlandi og svo seinna farið til Bretlands. Nú var hann kominn til Savannah í Georgíu og þar fékk hann vikulega jafnmörg fórnarlömb skotsára og hnífsstungna og hann hafði fengið á rúmlega 4 árum í Bretlandi. Stór hluti skotsáranna var vegna slysaskota. Ofbeldiskúltúrinn sem þarna er samhliða auðveldu aðgengi að skotvopnum þýðir bara að lífið er orðið afkaplega hverfult þarna niður frá.

Það fór betur fyrir fimmtuga karlinum sem kom á slysadeildina með hnífsblað fast í hálsinum en leit fyrst út fyrir. Hann hafði verið að rífast við konuna og var að ganga út úr dyrunum þegar hún stökk á eftir honum og stakk steikarhníf aftan í hálsinn þannig að blaðið brotnaði í manninum. Einhvern veginn tókst henni að sleppa við að skera sundur mænutaug þannig að karlanginn endaði ekki lamaður frá hálsi og niður úr.

Mér finnst reyndar magnað hversu langt fólk hleypir þessum myndatökumönnum reyndar, kvöldið endaði á American Casino þar sem við urðum vitni að týpískum vinnustaðamálum þar sem innri valdabarátta kom berlega í ljós. Leiðinlegt til þess að vita að einn skrautlegasti karakterinn sé látinn (sjá dánarorsök hér).

Uncategorized

Eru grunnskólar ekki rekstur?

Nú barma sveitastjórnir sér sem og þingmenn og segja að nú fari þjóðfélagið í hundana vegna kennaranna. Sveitarfélög segja að rekstrarfé þeirra hverfi en þá er spurningin… er ekki rekstrarféð einmitt til að borga rekstur sveitarfélaga, og er ekki grunnskólinn hluti af rekstri sveitarfélaga?

Minnkar rekstrarfé? Í hvað ætla sveitarfélögin að setja peningana okkar í ef ekki skólana? Sveitarfélögin eiga vissulega bágt en þar líkt og annar staðar þarf að forgangsraða og í mínum huga eru skólarnir þar efstir. Ríkið hefur verið mjög ósveigjanlegt enda getur það bara sett lög á hvað sem er ef viðkomandi spilar ekki eftir þeirra nótum, sveitarfélögin finna verulega fyrir þessu en ríkið sér víst fram á það góða tíð að skattalækkanir eru fjölmargar á dagskrá. Svo segja menn að peningarnir séu ekki til fyrir samneysluna? Sjúkrahús og skólar fjársveltir… hvert fer peningurinn?

Uncategorized

Skammist ykkar

ASÍ á að skammast sín fyrir að hafa tekið höndum saman með ríkisstjórninni og sett þumalskrúfur á kennara sem standa nú frammi fyrir því “vali” að taka samningi sem er að efni til 95% eins og sá sem var felldur með 93% atkvæða eða hafna honum og taka því sem gerðardómur velur samkvæmt loðnum forskriftum og getur því farið enn verr en núverandi tilboð. Starfsgreinasambandið lætur líka urra í sér, vilja að kennarar séu áfram á sama bás og þeir hafi verið og orðið leiðrétting er þeim gjörsamlega framandi.

Einar Oddur á jafnframt að skammast sín fyrir að gefa í skyn að sveitarfélög fari á hausinn við það eitt að greiða kennurum þessi lúsarlaun, í hvern andskotann eru sveitarfélögin að eyða pening í ef ekki menntamálin! Þetta er einföld spurning um forgangsröðun og þar eiga menntamál að vera ofarlega ef ekki bara efst.

Ríkisstjórnin ætti að skammast sín en er búin að skíta svo í skóinn sinn og minn í þessu og öðrum málum að þessi skítlegheit sjást varla á haugnum þeirra og þeir hafa aldrei getað skammast sín. Ekki hafði kjaradómur miklar áhyggjur af verðbólgu þegar laun þingmanna snarhækkuðu degi eftir síðustu kosningar.

Þessi 25% sem talað er um er einstaklega villandi tala, næsta ágúst koma þarna 9% inn í EN LAUN FLESTRA KENNARA HÆKKA EKKI VIÐ ÞAÐ þar sem um er að ræða skólastjórapottana sem flestir kennarar hafa. Þessi 9% “hækkun” verður því varla sjáanleg á radar launagreiðenda, helvíti vel sloppið að segjast vera að hækka um 9% en gera það ekki. Þarna er bara um bókhaldstrikk að ræða, í stað þess að kennarar fái þennan pening sem launapotta þá eru þeir nú fastir í laununum. Það munar engu í umslaginu fyrir þá.

Hvernig þessi 16% hækkun sem eftir stendur reiknast upp í óðaverðbólgu í þjóðfélaginu og 30% kostnaðarauka sveitarfélaga geta bara brellumeistarar í bókhaldi svarað.

Önnur villandi tala er lækkun kennsluskyldu sem furðu margir virðast halda að þýði minni vinnu fyrir kennara! Þarna er bara verið að koma til móts við þá staðreynd að kennarar nota margir frítíma sinn til að vinna ólaunað til að undirbúa eða yfirfara námsefni, þarna er verið að minnka þann tíma sem kennarar eru í sjálfboðavinnu. Það er vissulega til bóta en þýðir sko alls ekki minni vinnu fyrir kennara.

Að gera kennara, sem NÆR ALLIR viðurkenna nú orðið að hafi orðið eftir á í launaþróun, ábyrga fyrir því að ASÍ og aðrir hlaupi nú upp og segi “við viljum fá sömu hækkun þó að við viðurkennum að kennarar hafa orðið eftir á” er hræsni og bölvaður óþverri.

Ég borga skattana mína og útsvarið og ætlast til þess að peningarnir fari í mikilvægustu málin fyrst, heilbrigðis- og menntamál. Allt annað er og á að vera í öðru sæti því að án heilbrigðis og án menntunar þá erum við bara aumingjar.

Þessi samningur frestar bara vandanum, grunnskólakennarar eru enn langt á eftir þeim sem eitt sinn voru þeim samstíga í launum í áþekkum störfum. Næst þegar samningar verða lausir er alveg eins líklegt að kennarar fari aftur í verkfall og reyni að þokast enn lengra í átt að réttlæti. Dóri verður varla forsætisráðherra þá og er því bara að reyna að sleppa billega í þessu eins og öðru.

Uncategorized

Hafragrautur, meyjarsamloka og grjótnám

Skrifað undir nýjan kjarasamning kennara í dag en það vekur reyndar nokkra furðu þar sem þetta virðist vera miðlunartillagan sem var felld með 93% atkvæða nema hvað hækkun vegna potta verður 3 í stað 2.5 og eingreiðslan hækkar örlítið. Engu líkara en að kennaraforystan sé dauðhrædd um að gerðardómur muni gera enn verr fyrir kennara en þetta rusl.

Svínbeygingarhótunin sem lögin fela í sér með fyrirmælum til gerðardóms greinilega að virka. Svona gera menn ekki! Nú er spurning hvort að kennarar taki þessari afsmán eða treysti á happdrætti svínbundins gerðardóms.

Magnað að stétt sé bundin af kjarasamningum óskyldrar stéttar í sínum samningamálum eins og lögin kveða á um. Þetta getur varla staðist vinnuréttindalög?

Jæja, þetta er álíka rugl og Maríu mey samlokan (sjá einnig hér).

Grein í Wired um menn sem virðast hafa verið að spila EVE! Grjótnám er meðal stærstu atvinnuvega þar.

Uncategorized

Írak og Sólveig, newspeak og unglingabólur

Jæja veturinn lét sjá sig í dag. Blindbylur eftir hádegi og það tók tæpan klukkutíma að komast úr vinnunni minni, til Sigurrósar og svo heim.

Í Bandaríkjunum fara nú hreinsanir fram, á meðan bíður vísindasamfélagið eftir því að sjá hvort að miðaldastefna Bush-stjórnarinnar gangi lengra í að banna eða skerða vísindalega starfsemi.

Sólveig “Skeljungs-frú” Pétursdóttir skammaði stjórnarandstöðuna fyrir að vilja “ístöðuleysi” í málum Íraks eftir að þeir vildu draga til baka stuðning íslensku ríkisstjórnarinnar (ekki þjóðarinnar, það er á hreinu að hún er andvíg) við innrásina þar. Uppbyggingarstarf væri hafið og innrásinni lokið, þó svo að reyndar bardagar geisuðu enn.

Hvenær bjó einhver til þann staðal að það að vera þrjóskur og þver gegn öllum staðreyndum væri að vera staðfastur, og að taka mark á þeim gögnum sem liggja fyrir og vilja fara eftir þeim væri ístöðuleysi?

Þetta er svo mikið “newspeak” að það er sárgrætilegt að sjá fjölmiðla apa svona vitleysu eftir. Það er eitt að vera staðfastur og trúa á sitt, en þegar öll rök og reynsla sýna fram á hið gagnstæða, þá er ekki lengur um staðfestu að ræða heldur sjálfsblekkingu eða lygar.

Sólveig veit vonandi annars að ástandið í Írak er nú mun verra fyrir lífsgæði almennra borgara en þegar Saddam var við völd (þó að maður verji þann fant ekki, þá er hann nábróðir Bush hvað fjölda myrtra kemur). Það sem er að gerast í Írak er hrein og bein slátrun en fjölmiðlar þegja þunnu hljóði og segja bara “10 hermenn og 65 andspyrnumenn létust, einhverjir óbreyttir borgarar eru taldir hafa fallið” þegar þessir óbreyttu borgarar eru í hundruða- og þúsunda tali ekki bara drepnir heldur eru eftirlifandi verulega þjáðir, margir örkumla eftir sprengjuregn og fárveikir vegna næringarskorts og sjúkdóma.

Nei, Sólveigu finnst stjórnarandstæðan ætla að gera Írökum grikk með því að Ísland taki til baka stuðning sinn við ólöglegt stríð. Hún stígur ekki meira í vitið þarna en í öðrum málum sem hún hefur vasast í, hennar arfleifð verður ekki meiri en svo en að gullna klósettið hennar verður talinn hápunktur ferils kerfiskerlingar.

Æjá, hún gæti kannski sagt okkur hvernig gengur í Írak? Smá morð og svona, það er nú ekkert milli vina og eins flugvallar er það?

Þá er það tenglasúpa dagsins, fyrsti tengillinn vekur ugg í brjósti margra: Workers told: computers could blind you! Ekki kemur fram hvort CRT (venjulegir) og LCD (flatskjáir) séu jafn varasamir.

Komin er fram kenning um að unglingabólur, sem mörgum finnst óaðlaðandi, séu einmitt til þess gerðar að minnka líkur á kynmökum unglinga! Náttúruleg getnaðarvörn?

Slúttum þessu á Cocaine haul hidden in giant squid og fótboltafléttu með Kína og Hong Kong.

Uncategorized

Vín í Skotlandi, Atlantis við Kýpur og íslensku sóðarnir

Einar Örn er með áhugaverðan pistil um íslensku sóðana á síðunni sinni.

Skotar gæla nú við það að næstu aldamót geti þeir verið farnir að rækta vín og í staðinn flytjist viskígerð til Íslands og Noregs, sökum veðurfarsbreytinga. Ég vil nú frekar vínið en viskíið.

Elín er alltaf jafn dugleg á BBC vaktinni, nýjasta fréttin þaðan er að það er enn einu sinni búið að finna Atlantis.

Uncategorized

Ásmundur, Davíð, Halldór, Ol Dirty Bastard

Þingskjal númer 353 frá árinu 2004 er ekki ýkja orðmargt. Þetta eru lög sett á verkfall grunnskólakennara. Í þeim er að finna magnaða klausu sem ég veit ekki til að hafi sést áður í lögum sem sett hafa verið gegn verkfalli.

Við ákvarðanir um laun félagsmanna skv. 1. gr. og önnur starfskjör þeirra skal gerðardómurinn einnig hafa hliðsjón af kjörum þeirra sem sambærilegir geta talist að menntun, störfum, vinnutíma og ábyrgð en jafnframt gæta þess að stöðugleika efnahagsmála og forsendum annarra kjarasamninga sé ekki raskað.

Við þessu er afar einfalt útspil. Ég ætla nú að athuga hvort vinnuveitandi minn geti ekki gert við mig kjarasamning sem gengur út á það að ef að laun kennara verða ekki 200 þúsund krónur hið minnsta, raski það samningi mínum.

Það eru ekki margar stéttir sem fá svona skít hraunað yfir sig, en eins og Ásmundur sagði sjálfur “þetta er jú bara kvennastétt” og eins og Davíð sagði í þætti í gær “er svo mikil karlremba” þá er þetta kannski ekki ýkja undarlegt.

Íslendingar eru allt of duglegir að láta opinbera starfsmenn og pólitíkusa komast upp með þvætting sem að myndi leiða til uppsagnar þeirra í flestum ríkjum Vestur-Evrópu. Á Íslandi þurfa þeir hins vegar ekki einu sinni að biðjast afsökunar heldur yppa öxlum og segja “svona er þetta”.

Hver sá sem tekur “svona er þetta” sem góðu og gildu svari á næstum því skilið að fá útreiðina sem hann fær.

Enda þetta á fréttum úr hipp-hopp heiminum þar sem þeir eru orðljótari en við eigum að venjast, en kunna líka stundum að afsaka sig ólíkt okkar “háu” herrum og frúm. ODB var annars sá meðlimur WTC sem var með bestu tónlistina.

Uncategorized

Eurotrip & Minority Report

Stundum þarf maður bara að reyna að gleyma því að lygarar og morðingjar sitja við völd á Íslandi, svo ekki sé minnst á erlenda brúðustjórnendur þeirra.

Því horfðum við á Eurotrip í gær sem reyndist hin besta skemmtun, samansafn af skondnum atriðum með húmorinn í lagi. Fínt til að aðeins kitla brosvöðvana sem hafa lítið getað aðhafst undanfarnar vikur.

Í dag var það svo meðmyndin sem nefnist Minority Report. Öðruvísi mynd með áhugaverðum pælingum, myndir úr hugskoti Philip K. Dicks standa oftast feti framar. Nóg er eftir af sögum hans sem ekki er búið að kvikmynda.

Uncategorized

Kennarar steypa okkur í glötun?!

Samkvæmt frumvarpinu skal gerðardómurinn hafa hliðsjón af almennri þróun á vinnumarkaði frá gerð síðasta kjarasamnings deiluaðila að því leyti sem við á. Við ákvarðanir um laun félagsmanna og önnur starfskjör þeirra skal gerðardómurinn einnig hafa hliðsjón af kjörum þeirra sem sambærilegir geta talist að menntun, störfum, vinnutíma og ábyrgð en jafnframt gæta þess að stöðugleika efnahagsmála og forsendum annarra kjarasamninga sé ekki raskað.

Hann [Halldór Ásgrímsson] sagði, að ríkisstjórnin hafi lagt áherslu á mikilvægi þess að fylgja aðhaldssamri efnahagsstefnu til að tryggja áframhaldandi stöðugleika í efnahagslífinu á næstu árum þrátt fyrir aukin umsvif vegna stóriðjuframkvæmda. Þetta eigi bæði við um stefnuna í peningamálum og fjármálum ríkis og sveitarfélaga. Í þessu samhengi sé brýnt að launastefna ríkis og sveitarfélaga komi ekki af stað víxlhækkunum verðlags og launa sem aftur hefði í för með sér aukna verðbólgu og rýrnun kaupmáttar. Þessu frumvarpi sé ætlað að stuðla að framgangi þessara markmiða.
(mbl.is)

Já. Laun kennara geta raskað stöðugleika efnahagsmála? Þetta er enn ein snilldarröksemdafærslan frá mönnunum sem eru að sökkva stóru landsvæði í drullupoll sem að auki verður ekki arðbær samkvæmt neinum útreikningum sem hafa verið gerðir og kostar ekki nema gífurlega gommu milljarða króna.

Þegar að við verðum enn að borga upp og þrífa þennan drullupoll (sem stíflast eftir 50 ár eða svo samkvæmt nýjustu tölum) þá skulum við muna það að gáfumennin sem sátu við völd studdu ekki bara þátttöku Íslands í stríði sem kostaði tugþúsundir óbreyttra borgara lífið, heldur töldu kennara eina og sér geta valdið verðbólgu og rýrt kaupmátt fyrir það eitt að krefjast þess að laun þeirra væru leiðrétt eftir hræðilega samninga þar á undan.

Gargandi snillingar.

Uncategorized

Glórulaus andúð á morðingjum og lygurum?

Davíð Oddsson utanríkisráðherra og Colin Powel utanríkisráðherra Bandaríkjanna ætla að ræða um í Washington í næstu viku hvernig Íslendingar taki á sig meiri kostnað af rekstri Keflavíkurflugvallar.

Ráðherra flutti ræðu um utanríkismál á Alþingi fyrir hádegi. Hann lýsti áhyggjum af andúð fjölmiðla og stjórnmálamanna á Bandaríkjunum sem hann líkir við glórulausa fordóma og ítrekaði stuðning stjórnvalda við innrásina í Írak. (textavarp.is)

Já. Gott að hann ítrekaði stuðning stjórnvalda, ekki þjóðarinnar. Glórulausir fordómar? Ég hefði nú haldið að allar skýrslurnar sem hafa komið fram varðandi afglöp, yfirhylmingar og vísvitandi lygar stjórnvalda í Bandaríkjunum væri nógur rökstuðningur. Þú Davíð Oddsson, ert blindur maður að kasta grjóti úr eigin glerhöll.

Nokkrir þingmenn hafa lagt fram
Frumvarp til laga um lágmarkslaun
.

Gunnar benti á tvo vefi, þar á meðal Sorry Everybody sem að sannfærði mann um að það eru ekki allir Kanar ofstatrúarmenn. Ein mynd er með íslenskum texta (maður tekur viljann fyrir verkið) og þessi er líka góð.

Að léttari fréttum, Confused sheep wrecks car og NASA to study Rain Man’s mind.