Monthly Archives: July 2004

Uncategorized

Fyrsti vinnudagur

Fyrsti vinnudagur eftir 2 vikna sumarfrí (þar sem eknir kílómetrar urðu líklega 2100 talsins).

Mér finnst siðblinda Ameríkana alveg mögnuð, þeim er nokk sama hvort að þú ert saklaus uns sekt er sönnuð, ef þú ert handtekinn þá geturðu lent á vefmyndavél eins og þessari Jail Cam! Fávitar.

Grikkir ætla að beygja sig og leyfa byssur á Ólympíuleikunum. Spennandi að sjá hvorir drepa fleiri óbreytta borgara, ameríski herinn í Afganistan og Írak eða öryggisverðir Bandaríkjanna í Aþenu!

Uncategorized

Not Another Teen Movie

Síðasti sumarfrísdagurinn minn. Eytt í alls herjar leti enda enn að ná mér eftir veikindin og hósta enn eins og múkki í nikótínnauð.

Fékk annars þann dóm að líklega væri þetta ekki bronkítis heldur væri astminn að ágerast og kannski að verða alvöru astmi hjá mér. Ó vei.

Horfðum í kvöld á Not Another Teen Movie sem kom skemmtilega á óvart. Í henni var kaldfyndinn húmor sem maður er ekki vanur og miskunnarlaust gert grín að ýmiss konar unglingamyndum fyrr og síðar. Að auki voru þarna nektar og kynlífsatriði sem maður er ekki vanur úr neinni bandarískri bíómynd. Fær alveg fínustu einkunn, grín-háð af bestu gerð!

Uncategorized

Að starfa án þess að hugsa

Það var frekar lágt á öllum risið þegar skriðið var framúr klukkan hálf-fjögur í morgun.

Við mættum tímanlega í nýja rýmið í Leifsstöð þar sem Hollendingarnir okkar skráðu sig inn. Við tók kveðjustund, mikill söknuður að þessu skemmtilega fólki.

Þegar þau voru í biðröð í að komast í öryggishliðið bað Sigurrós þau um að stilla sér upp fyrir eina lokamynd. Þetta tók smá tíma og á meðan fór einhver öryggisvörður að hrópa “Halló! Halló!” og héldum við að hann væri óþolinmóður að fá næsta aðila í gegnum tékkið.

En nei, þegar Sigurrós var búin að taka myndina kom hann askvaðandi, kastaði ekki á okkur kveðju en sagði með þjósti “opnaðu vélina!” “það er bannað að taka myndir hér”. Ef um hefði verið að ræða venjulega filmuvél hefði hann væntanlega rifið filmuna úr eða að minnsta kosti skemmt hana með ljósi. Þetta hefði getað eytt FRÁBÆRUM myndum úr ferð þar sem þau trúlofuðu sig og urðu líklega ástfangin af Íslandi. Ómetanlegar minningar sem öryggisvörðurinn hikaði ekki við að eyða.

Sem betur fer var þetta stafræn myndavél (ekki að hann hafi vitað hvað það var sýndist okkur) og þegar Sigurrós sýndi honum að hún hefði eytt myndinni hélt hann á brott án þess að yrða meir á okkur.

Þjóstið sem hann sýndi í þessum samskiptum hleypti hrikalega illu blóði í okkur enda ekki vön svona fasískum samskiptum við aðra Íslendinga. Jolanda sagði að hún hefði verið hrædd um að hann hefði ætlað að berja Sigurrós, svo vel virkaði hann á viðstadda.

Hefði verið um filmuvél að ræða efa ég ekki að allt hefði orðið brjálað þarna því að það er ekki séns að ég láti svona óþokka eyðileggja ómetanlegar minningar án baráttu.

Myndin sem Sigurrós tók sýndi ekkert nema Jeroen, Jolöndu og fyrir ofan þau skilti sem á stóð Öryggisskoðun (minnir mig… við erum ekki með mynd þannig að ekki man ég hvað stóð á því). Enginn tækjabúnaður, starfsmenn né andlit annara farþega sáust á myndinni og því óskiljanlegt með öllu að eyða þyrfti myndinni. Ég sé ekki neina ástæðu fyrir því að bannað sé að taka svona myndir, þegar þetta var afstaðið sáum við glitta í skilti á vegg þarna bak við farþega þar sem myndavél var innan í bannhring. Ef við hefðum tekið eftir þessu áður hefði þetta líklega ekki gerst.

En þetta gerðist og varpaði skugga á heimför vina okkar og gerði okkur bálvond. Ég hef sent þeim fyrirspurn um þetta og bíð spenntur eftir svari sem útskýrir af hverju mér leið eins og ég væri staddur í þriðja heims bananalýðveldi í Leifsstöð.

Ekki besta afmælisgjöfin sem Sigurrós hefði geta óskað sér, að kveðja góða vini og fá skömm í hattinn frá dónalegum öryggisverði.

Talandi um fasíska stjórnarhætti, í Ameríku hefur nú tekist að henda burtu fáránlegu verkefni sem átti að geyma allar upplýsingar um alla flugfarþega án þess einu sinni að tryggja öryggi þeirra. Peningurinn sem fór í þetta verkefni hefði án efa getað gert meira gagn í hjálparstarfi og þar unnið gegn hryðjuverkum.

Bjarti punkturinn í dag var sá að við seldum gamla hjónarúmið.

Uncategorized

Kveðjukvöld

Aftur rólegur dagur. Við Jeroen báðir heilsuveilir og héldum áfram að spila tölvuleiki. Stelpurnar fóru hins vegar og fengu sér bragðaref í Álfheimaísbúðinni (slíkt hnossgæti er ekki til í Hollandi).

Ég kom svo loks aftur að Catan-borðinu, hafði hingað til aðeins náð að leika einu sinni og unnið í það skiptið. Núna voru það hins vegar Hollendingarnir sem lönduðu sitt hvorum sigrinum og því tapaði Ísland 2-1 í einvígi þjóðanna í Catan.

Kveðjumáltíðin var svo á Madonnu en Hollendingarnir vildu óðir og uppvægir borga fyrir okkur matinn. Mun notalegri staður en Rossopomodoro og með betri mat að auki.

Uncategorized

Verslunardagur

Dagurinn í dag var mikill afslöppunardagur. Við strákarnir lékum okkur í tölvunum, þar sem ég tók meðal annars þátt í hollenskum “Viltu vinna milljón leik”, á meðan að stelpurnar skemmtu sér á Laugarvegi og í Kringlunni.

Í kvöld fór Sigurrós svo á reunion hjá MR á meðan að Jeroen og Jolanda fóru í göngutúr um Smárahverfið og ég hékk enn veikur heima og las fréttir.

Uncategorized

Allir í Bláa lónið, nema ég

Dagurinn í dag ekki verið glæsilegur, það sem byrjaði sem hálsbólga og breyttist svo í kvef virðist nú vera komið á enn eitt stigið, ég hósta og hósta og það surgar í lungunum þannig að minnir á bronkítis kastið sem ég fékk í nóvember.

Dagurinn hjá hinum var all miklu betri. Sigurrós fór með þau í Bláa lónið og Fjölskyldugarðinn. Hún eldaði svo súrsæta svínakjötsréttinn sinn í kvöldmat og vakti hann mikla lukku. Þau spiluðu svo Catan en ég hékk áfram í tölvunni og gerði aftur fátt af viti þar nema að lesa frétt um Maradona yngri og álíka.

Uncategorized

Geysir og Gullfoss

Klukkan var um ellefu þegar við héldum frá Sælukoti og á Selfoss.

Eftir kaffistopp hjá tengdó héldum við á Geysi og Gullfoss (í þessari röð). Strokkur var kenjóttur og gosin af öllum stærðum, mjög óútreiknanlegur sem, ásamt rigningu, gerði myndatökur frekar erfiðar.

Gullfoss vakti mikla athygli Jeroens og Jolöndu. Þau höfðu séð margvíslega fossa (í fyrsta sinn eiginlega!) á ferð okkar en aldrei ímyndað sér að til væri foss af þessari stærðargráðu.

Á heimleiðinni fórum við Þrengslin, svona til að sýna þeim enn meira af landinu okkar. Við áðum við Raufarhólshelli en þar sem við vorum ekki með útbúnað né nennu fórum við ekki lengra en að mynni hans. Greinilega stórgrýtt yfirferðar.

Við komum svo loks heim í Kópavoginn eftir þessa þeysireið okkar um Suðurlandið undanfarna daga. Hitinn var að ágerast og mældist ég með 39 gráðna hita. Ég fúnkera einstaklega illa ef ég er með hita og því spiluðu hin Catan án mín. Ég kláraði að lesa Chasm City og hékk svo í tölvunni og gerði fátt af viti.

Uncategorized

Skaftafell – Sælukot

Veðrið var orðið frekar tæpt í morgun, við pökkuðum í rigningarúðanum og eftir morgunmat í útieldhúsinu á Bölta héldum við beina leið á Vík þar sem áð var til að fá hádegismat.

Því næst lá leiðin í Sælukot, ég reyndar orðinn frekar slappur þannig að ákveðið var að gista bara þessa einu nótt þar í stað tveggja.

Hengirúmið var mikið notað af hinum þremur, við skruppum svo á Hellu í sund og fengum okkar að borða á Kanslaranum.

Heim aftur í Sælukot og þau spiluðu Catan á meðan að veiki ég las bara bók.

Uncategorized

Jökulsárlón

Eftir bónorðið í gær fórum við á Hótel Skaftafell og fengum þar þokkalegan mat. Við spurðum (án þess að Jeroen og Jolanda skildu orð) hvort ekki væri hægt að gera eitthvað spes fyrir þau í tilefni dagsins. Hótel Skaftafell gaf þeim eftirrétt með tveimur sósuhjörtum sem mæltist vel fyrir og fá þeir þakkir fyrir það.

Eftir morgunmat var haldið að Jökulsárlóni og biðum við þar í einn og hálfan tíma eftir að röðin kæmi að okkur að komast í siglingu um lónið. Þessar 90 mínútur nýttum við í að ganga niður að sjó og fylgjast þar með sel sem færðist sífellt nær landi, sáum aldrei meira en rétt í trýnið á honum þó en undir lokin var hann all nærri.

Eftir siglinguna (bláu ísjakarnir vöktu mikla athygli) héldum við í Skaftafell og fengum okkur súpu í bensínskálanum beint á móti Hótel Skaftafelli. Við Jeroen vorum orðnir eitthvað framlágir þarna vegna smá slappleika.

Eftir súpuna fékk mannskapurinn sér blund áður en haldið var í Flosalaug, hún reyndist ísköld og jafn lítil og okkur minnti. Við flúðum því snögglega í heitu “pottana”.

Við kíktum því næst í þjónustumiðstöðina þar sem við ætluðum að gæða okkur á hamborgurum, en viti menn, einkarekstur hættur og veitingasala þar með líka. Því átum við aftur á Hótel Skaftafelli en í þetta sinn hamborgara.

Því næst var haldið “heim” á Bölta þar sem við spiluðum Malefiz í tvo tíma áður en ég fór afskaplega slappur upp í rúm. Veikindi að láta á sér kræla.

Kláraði þó að lesa The Soddit sem Sigurrós gaf mér fyrir þó nokkru. Gott spoof á The Hobbit og aðrar álíka sögur.

Uncategorized

Sælukot – Skaftafell – Bónorð!

Mikill ferðadagur í dag.

Héldum í morgun úr Sælukoti og þræddum helstu ferðamannastaði Suðurlands, Seljalandsfoss, Skógarfoss, Dyrhólaey og Reynisdranga, áðum í Vík og fengum hamborgara áður en við byggðum smá vörðu í Laufskálavörðu, svo var það Stjórnarfoss, Foss á Síðu, Dverghamrar og loks renndum við í hlað á Bölta í Skaftafelli.

Þar sem sólin skein og klukkan var rétt rúmlega 17 og veðurspá morgundagsins að auki frekar vafasöm ákváðum við að flýta óvæntu uppákomunni.

Ég tilkynnti Jeroen því að það væri núna sem hann ætti að láta verða af þessu. Hann klæddi sig í betri buxur og því næst þrömmuðum við öll að Magnúsarfossi og svo Svartafossi í Skaftafelli.

Þegar hér var komið voru flestir frekar þreyttir enda búinn að vera langur og mikill dagur, gangan upp brekkuna við Skógarfoss var til dæmis nokkuð strembin.

En stefnan var sett á Sjónarnípu, með útsýni yfir Skaftafellsjökul. Eftir talsvert skraf og ráðagerðir höfðum við Sigurrós nefnilega orðið sammála um að það væri staður sem að Jeroen vildi, mjög íslenskur (jökull + útsýnið) og gullfallegur, sérstaklega í sólskininu.

Á meðan að við Sigurrós settum myndavélar í gang hvíslaði Jeroen að Jolöndu og þegar að við gáfum merkið um að allt væri tilbúið fór hann á hnén og bað hennar þarna, hátt yfir jöklinum í glampandi sól.