Monthly Archives: January 2002

Uncategorized

Vélbúnaðardagur

Fór í dag í Hugver og sótti þangað aðalvefþjóninn minn sem hafði verið í skoðun hjá þeim sökum gruns um gallað móðurborð. Ekkert kom í ljós því miður þannig að ég ætla að leyfa vélinni að keyra aðeins til prufu og sjá hvort vandamálið kemur upp aftur.

Í leiðinni verslaði ég svo 300W aflgjafa í vélina heima, ekki ýkja hljóðlátur svo sem (fæstir eru það) en mun betri en traktorinn sem var í til bráðabirgða.

Núna er ég svo að reyna að koma vefþjóninum á lappir um leið og ég er að reyna að finna út af hverju harður diskur sem Kári á vill ekki hlaðast upp.

Sem betur fer fór Sigurrós í sumarbústaðaferð um helgina þannig að ég get fiktað í tölvum út um allan bæ án þess að vera að vanrækja hana 🙂

Uncategorized

HM 2002 og Blatter

Það fór eins og ég óttaðist þegar ég heyrði fyrst af því hversu mikið Kirch Group vildi fá fyrir sjónvarpsréttinn hér á landi, að RÚV hefur ekki efni á því að borga þá svínslega upphæð. Núna þegar þeir hafa gert það opinbert að þeir sjá sér það ekki fært að kaupa réttinn virðist allt vera að springa réttilega í háaloft.

Maðurinn sem er ábyrgur fyrir sölunni til Kirch (sem að eru að blóðsjúga allar þjóðir með fáránlegum kröfum sínum) heitir Sepp Blatter, og hann hefur tilkynnt það að hann ætli að stefna á að vera endurkjörinn forseti FIFA. Ég er svo hneykslaður á embættisverkum þessarar skrifstofublókar að mér langar einna mest til að fara sjálfur í framboð á móti, enda lítur út fyrir að enginn leggi í þessa mannleysu.

Áhugavert lesefni:

  • Norskt lagakerfi lætur undan þrýstingi Hollywood
  • Uncategorized

    Fyrsti skóladagurinn

    Mætti í kvöld í fyrsta tímann minn á þessari önn, í hinu geysifróðlega fagi Gluggaforritun 1 sem að byggist á MFC-forritun (hér fá allir gæsahúð og grænar bólur sem þekkja til, enda einstaklega ljótt dæmi). Eftir smá rannsóknarvinnu kom svo í ljós að ég þarf einnig að taka Stýrikerfi 1, þar sem að skólinn hefur breytt námsáætlun frá því að ég var þar, þannig að námskeiðið Tölvur og stýrikerfi er orðið eiginlega úrelt. Þetta þýðir aukakostnað upp á rúmar 12.000 krónur fyrir 2 bækur sem ég þarf í því fagi. Hrafn deildarstjóri var mjög liðlegur og potaði mér inn í það fag.

    Uncategorized

    Ég hef aflið

    Fyrirsögnin er smá tilvitnun í Hann-Mann (He-Man) þar sem hann hefur upp sverð sitt og segir “I have the poweeeeeer!”.

    Í gær dó sumsé ein þeirra véla sem að við höfum heimavið, eftir að ég hafði bætt hörðum diski við í hana. Ítrekaðar tilraunir til að koma henni í gang skiluðu engu og því tók ég greyið með mér í vinnuna. Eftir vinnu var svo hafist handa við lífgunartilraunir, og eftir nokkrar prufur var orðið ljóst að aflgjafinn (power supply) var líklegasti sökudólgurinn. Eftir mikið moj fann ég loks aflgjafa sem að passaði (áður hafði ég fundið 4 aflgjafa sem að voru of gamlir) og mér til mikillar ánægju fór vélin í gang eftir aðgerð.

    Búinn að skrúfa tölvur sundur og saman lengi vel, en þetta er í fyrsta sinn sem aflgjafi deyr hjá mér, spurning um að fara að redda sér nýjum þó, þar sem sá sem ég fann er svolítið aldurhniginn.

    Uncategorized

    Kuldalegt

    Vaknaði 5.30, fór á fætur 6.45, ekki alveg viss af hverju ég náði bara rúmlega 4 tíma svefni í nótt.

    Tókum niður jólaskrautið í vinnunni í dag, og þær mæðgur tóku það niður hérna heima. Það verður allt svo kuldalegt þegar að það er svona dimmt úti og jólaskreytingarnar hverfa alls staðar. Mér finnst vanta einhver janúarljós og litagleði, spurning um að hafa Hawaii-þema í vinnunni fram til vors?

    Skaust örsnöggt í Grafarvoginn, fannst mjög skondið að keyra upp Ártúnsbrekkuna og vera allt í einu kominn í vetrarríkið sem að ríkir fyrir ofan snjólínu, allt hvítt fyrir ofan Ártúnsbrekku en ekki snjókorn fyrir neðan. Snjólínan er sumsé í ofanverðri Ártúnsbrekku.

    Ansvítans vél hérna heima sem að neitar að starta sér, svona lagað pirrar mig.

    Uncategorized

    Aftur í hverfið (back in the hood)

    Skruppum í mitt gamla hverfi, Vesturbæinn (í Kópavogi fyrir þá sem halda að heitið sé frátekið fyrir 101), í kvöld, og hittum þar nokkur skyldmenni Sigurrósar sem voru að kveðja Ingunni frænku hennar áður en hún snýr heim til Seattle.

    Ekkert annað markvert gert í dag, vantaði allan neista til að gera eitthvað sniðugt.

    Áhugavert lesefni:

  • The emotional machine
  • Uncategorized

    Hvað gera leiðtogar…

    Skömm að sjá svona lagað hér á landi. Ég líkt og aðrir þegnar þessa þjóðfélags borga skatta, mínir skattar eiga að fara í að uppfylla þrjár grundvallarkröfur: heilsa, menntun og öryggi.

    Mínir skattar eiga ekki að fara í einhver gæluverkefni stjórnmálamanna, eins og fokdýr sendiráð í Japan né klósett upp á margar milljónir. Mínir skattar eiga að tryggja grundvallarréttindi allra borgara landsins, að þeir hafi efni á því að vera heilbrigðir (og þurfi ekki að bíða í áraraðir eftir einföldum aðgerðum), að þeir hafi efni á að mennta sig og að þeir séu öryggir (löggæsla, mannvirki standist kröfur og séu vel gerð og svo framvegis). Því miður er ég ekki forsætisráðherra, núverandi ríkisstjórn er að elta einhverjar grillur í stað þess að útrýma biðlistum eftir aðgerðum og öðrum ósóma sem að minnsta málið væri að vinna gegn.

    Kláraði í nótt bókina Í hlutverki leiðtogans eftir Ásdísi Höllu (sem að ég kynntist lítillega á þeim árum þegar ég var öflugur í SUS, nú er ég óflokksbundinn með öllu). Bókin veitti smávægilega innsýn inn í líf leiðtoganna fimm, og komu þau öll nokkuð vel út í bókinni, sæmilegasta lesning. Þar var vissulega minnst á það að hlutverk leiðtoga væri að setja fram stefnu, en þeir mega þá ekki gleyma því sem er í gangi í kringum þá og verða að hafa hæfasta fólkið að sjá um málin, ekki vini vina sinna.

    Uncategorized

    Amélie

    Fórum á Amelíe í kvöld. Frábær mynd. Brilljant. 4 stjörnur af 4 mögulegum, 10 í einkunn og báða þumla í loft. Audrey Tautou var frábær og hrikalega sæt, líkingin sem ég las einhvers staðar við Audrey Hepburn á fyllilega rétt á sér, og Cameron Diaz er orðin völt í sessi sem uppáhalds núlifandi leikkonan mín, í fyrsta sinn í fjöldamörg ár sem að einhver veitir henni verðuga keppni um þann titil. Þessi mynd er snilld frá upphafi til enda, og ekki skemmdi fyrir að áhorfendahópurinn var öðruvísi samansettur en oft þegar að maður fer í bíó, allir voru þarna til að njóta þess að fara í bíó, og ég held svei mér þá að öllum hafi orðið að ósk sinni og vel það.

    Salvör á góða punkta í þessari grein sinni, ég veit hins vegar að það eru margir KHÍ-nemar sem bíða spenntir eftir að fá einkunnir frá henni, einkum þá þeir sem að eru upp á náð og miskunn LÍN komnir. Það sem gerir þetta enn meira spennandi er að Salvör tvöfaldaði allt í einu vinnuálagið á nemendur þegar að tæpur mánuður var eftir af námskeiðinu… þannig að margir gætu hafa farið flatt á þessari undarlegu tilhögun hennar.

    Áhugavert lesefni:

  • Háskólar í fjötrum?
  • Herinn, alltaf fréttavænn
  • Uncategorized

    Bókalestur

    Varð illa svefns auðið í nótt sem síðustu nótt, og nú brá svo við að Sigurrós var ekki heldur að sofna, þannig að við lásum bara bækur uppí rúmi stóran hluta nætur.

    Ég byrjaði á The Dark Lord of Derkholm fyrr um kvöldið, og kláraði hana svo í nótt. Fyrsta bókin sem ég les eftir Diana Wynne Jones, og líst mér ágætlega á að kíkja á fleiri bækur eftir hana. Flokkast svona með þeim Tom Holt, Terry Pratchett og Robert Rankin myndi ég segja.

    Uncategorized

    Klippa, líma og þýða

    Snillingarnir hjá mbl.is halda áfram að gera rósir í þýðingum, nú síðast varðandi rán í hraðbanka frá ATM-bankanum, þeim til fróðleiks ætti kannski að segja þeim að ATM er hraðbanki, ATM er sumsé það sem enskumælandi menn kalla hraðbanka (automatic teller machine = sjálfvirk gjaldkeravél). Eins og sjá má á þessum lista yfir banka í Írlandi þá er þar enginn sem heitir ATM.

    Þetta voru reyndar bankar frá AIB-bankanum, eins og lesa má um í frétt The Irish Times.

    Íslenskir fjölmiðlar halda áfram að pirra mig með þessu endalausa klippa, líma, þýða og mistúlka fréttir sem þeir fá frá Reuters og AP.

    Þar sem verslanir voru lokaðar, og afgangar komnir í frost (svo maður fengi ekki ógeð á þeim strax) þá pöntuðum við Sigurrós okkur mat frá Indókína í kvöldmat, hann klikkar aldrei, vel útilátin og ekki nema rétt rúmlega 2.100 krónur heimsendur.