Uncategorized

Eitt ár hjá DP-EU

Í gær var það ársafmæli mitt hjá DP og í dag ársafmæli hjá DP-EU. Vefurinn allt að því söng afmælissönginn fyrir mig!

Happy birthday to you!
Happy birthday to you!
Happy birthday dear stalfur,
Happy DP-EU birthday to you!

Af því tilefni sendi ég inn auðvelt íslenskt rit, “Húsabætur á sveitabæjum” sem er gefið út eftir Suðurlandsskjálftana 1896.

Í öðrum fréttum er það helst að ég sendi inn umsókn í dag. Í félag sem ég hafði áður sagt mig úr. Meira síðar.

Uncategorized

Eitt ár hjá DP

Nú í dag er slétt ár síðan að ég skráði mig hjá Distributed Proofreaders. Af því tilefni skilaði ég af mér endanlegri stafrænni útgáfu (fjórum reyndar) af Sæfarinn (Ferðin umhverfis hnöttinn, neðansjávar) eftir Jules Verne, þýðing frá 1908. Ætti að birtast á Project Gutenberg innan tíðar.

Uncategorized

Meistari, hálf-fimmtugur, óheppinn, lítill púki og spaug!

Í gær fór ég í Fjallalindina þar sem meistaragráðu Vals var fagnað, því næst fór ég í Sæviðarsund og fagnaði þar 25 ára afmæli Daða (sem er í dag) og að lokum í Hraunbæ til að líta á tölvu óheppnasta tölvueiganda Íslands.

Þegar heim var komið horfði ég á Little Nicky sem reyndist ekki vera eins arfaslök og ég hef haldið undanfarin fimm ár, að henni óséðri.

Spaugstofan hins vegar toppaði allt, eini þátturinn sem ég hef séð með þeim í lengri tíma en náðu að útskýra Baugs-málið fyrir manni á skemmtilegan máta!

Uncategorized

Ljónadans og Wikipedia

Sá áðan Wong Chinese Lion Dancers í beinni útsendingu frá John F. Kennedy menningarmiðstöðinni eftir að Mike benti mér á það.

Tók aðeins til á ensku Wikipedia, lagaði til listann yfir íslenska knattspyrnumenn, bætti Willum þar við og í framhaldi af því setti ég inn Breiðablik og í framhaldi af því setti ég inn Sigurrós Þorgrímsdóttur. Að auki smá lagfæringar og leiðréttingar hér og þar.

Hef hins vegar ákveðið að henda mér ekki út í miklar Wikipediu-pælingar fyrr en á næsta ári í fyrsta lagi, vegna mikilla anna við önnur sjálfboðaverkefni!

Uncategorized

Lygaheilar og bikaraleit

Frétt á BBC um að heilar lygara séu öðruvísi en annara er áhugaverð. Samkvæmt henni er hlutfall milli hvítra og grárra heilasellna mjög áhrifamikill þáttur í getu og vilja til að ljúga.

Kláraði í dag að lesa The Pothunters eftir P. G. Wodehouse. Frekar tilþrifalítil en með einstaka gullkorn.

Rakst annars á svaðalegan vef með bókum í PDA-formi (fyrir lófatölvur). Verð að grafa vel í honum, hann nýtir sér Project Gutenberg efni til dæmis. Núna er alþjóðavika bannaðra bóka í gangi, nokkrar þeirra má fá þarna.

Uncategorized

Pólitíkusar bland í poka?

Ekki hef ég oft verið sammála Jóni Gnarr en í pistli sínum í dag um stjórnmál hittir hann naglann á höfuðið. Of margir stjórnmálamenn “fylgja flokkslínunni” og vanvirða stjórnarskrána, þeir ættu að vera kosnir sem einstaklingar en ekki hluti af einhverju blandi í poka.

Varðandi kosningar, þá er ég nú eiginlega bara sammála forseta Sambíu hvað þetta varðar: Zambia leader rejects HIV order. Þetta hljómar meira eins og eitthvað sem tryggingafyrirtæki stæði á bakvið.

Uncategorized

Bláa konan með bjölluna

Einn dyggasti stuðningsmaður Manchester City er látin. Hún var þekkt sem Bjöllu-Helen og var áttatíu og fimm ára gömul, bjöllunni dinglaði hún í 30 ár.

Aðrir þekktir stuðningsmenn eru t.d. Manolo með trommuna og Tango hjá Uglunum sem er ávallt ber að ofan (líka í nístingskulda).

Íslenskan ríður rækjum á Textavarpinu:

hefðu skotið
mann til bana í gær sem hann sagði hafa
verið hægri hönd Jórdanans Zarqawis,
leiðtoga al-Qaeda í Írak.

Já, þeir skutu mann sem var hægri hönd! Ætli þeir nái vinstri höndinni og eins og tveim tám líka?

Sjálfur hefði ég valið “helsti aðstoðarmaður” eða álíka.

Uncategorized

Extreme Amateurs: Iceland Tunnel

Sá í gær Extreme Engineering:Iceland Tunnel á Discovery um Kárahnjúkavirkjunina. Séð marga Extreme Engineering þætti en man ekki eftir að hafa séð viðlíka kák og klúður áður, menn sem neita að gera vinnu sína, gera hana vitlaust í tvígang og það endar á því að yfirmaður gengur í starfið og tekur heilan dag í það að redda dæminu. Myndin sem þarna var dregin upp af aðstöðunni var svo hrikaleg líka, eins og einn sagði: “it’s pretty much like prison”.

Gleymum metanbílum í bráð, sykurbílar eru að ná yfirhöndinni í Brasilíu! Jamm, knúnir af bensíni og ethanóli.

Uncategorized

Landssamband lögreglumanna

Landssamband lögreglumanna sendi frá sér ályktun þar sem segir meðal annars

Landssamband lögreglumanna hvetur til þess að þeir aðilar sem fjalla vilja um lögreglumálefni geri það með málefnalegum hætti.

Sem er gott og blessað nema hvað að það er andskotanum erfiðara að fá svör og gögn frá þessum mönnum. Undanfarna mánuði hef ég sent fyrirspurnir til Ríkislögreglustjóra, þáverandi forsætisráðherra, þáverandi utanríkisráðherra og útlendingastofnunar varðandi atferli þessara aðila í Falun Gong-fjöldahandtökunum, synjunum erlendra ríkisborgara á áritun til að sækja hér ráðstefnur og áreiti lögreglu gegn aðilum á Íslandi samhliða þessu.

Ekki eitt einasta múkk hefur komið frá þessum aðilum. Ég hef í einhverjum þessara erinda bent á upplýsingalögin og sé ekki að hægt sé að fullyrða að mikilvægir almannahagsmunir liggi á bak við þessar furðulegu ákvarðanir, enn grefur undan trausti á yfirvöldum og þjónum almennings.

Ætli maður verði ekki að fara að leita til umboðsmanns Alþingis til að fara að fá svör.

Uncategorized

Töfrar íslensku

“Ætli ég fari ekki”.

Að ofan má sjá spurningu og neitun, sem saman þýðir játun. (Ætli málfræðiheitin séu ekki aðeins öðruvísi… málfræðihugtakanotkun var mér aldrei töm… þó að málfræðin hafi oftast verið nokkuð fín hjá mér í “praxis”).

Hvernig útskýrir maður það fyrir erlendum íslenskunema að
“Ætli ég fari” þýði að maður fer líklega ekki, en að
“Ætli ég fari ekki” þýði að maður fer líklega?

Annað sem að hefur alltaf valdið mér heilabrotum eru vögguvísur, sem eru allflestar skuggalegar og ekki það sniðugasta til að láta grey börnin sofa vel. Guardian greinir frá nútíma vögguvísukeppni þar sem Tony Blair sem vondi kallinn varð sigursælast. Nokkrir breskir rithöfundar lögðu svo sitt til málanna með eigin vögguvísum. Börn hafa rétt á því að kynnast myrkri hliðum tilverunnar… en mér finnst að það ætti ekki að pota þeim að þeim þegar þau eru að fara að sofa!

Enn eitt úr Guardian, núna var að koma út Biblían á 100 mínútum, 57 síðna kilja með aðalatriðum Biblíunnar.

Wikipedia er ein mesta snilldin í sögu Internetsins, hvar annar staðar kæmist maður að því af hverju bærinn Dante í South Dakota ber þetta nafn og atburðarásina í kringum það?