Uncategorized

Upp og ofan

Ég er búinn að vera slappur undanfarna daga, með væga hálsbólgu og ómótt og fleira fjör, og náði aðeins þriggja tíma svefni í nótt. Ég var því alls ekki upp á mitt besta í prófinu í morgun. Jæja… himinn og jörð farast ekki þó ég sé heiladauður í prófi… fékk 8.5 í ritgerðarprófi í dönsku eitt sinn þar sem ég gat vart skrifað vegna hita. Þar sannast það að maður þarf að vera með óráði til að vera hraflfær í því blendingsmáli. Ef þetta er fall sökum tímabundins heiladauða þá er það bara næsta ár… og lýsi.

Það sem stóð upp úr í dag var hins vegar einkunnin úr lokaverkefninu sem stóð yfir í 5 mánuði og kostaði einar 500 vinnustundir eða svo. Hópurinn minn fékk 10 og vorum við hæst ásamt einhverjum einum aðila (hugsanlega gaurinn með tónlistarforritið). Þau voru auðvitað öll hrikalega brilljant í þessu verkefni, þrusuhópur sem þarna var myndaður.

Uncategorized

Mínir menn

Um helgina réðust úrslit í fótboltanum á meginlandinu. Mínir menn í Lyon náðu að halda franska meistaratitlinum (þrátt fyrir tap í síðasta leik). Mínir menn í Lazio enduðu í fjórða sæti sem er bara þokkalegt miðað við það að félagið er nær gjaldþrota og seldi hálft byrjunarliðið. Mínir menn í Sheffield Wednesday voru hins vegar fallnir í aðra deildina, einnig gjaldþrota og löngu búnir að selja þá sem eitthvað gátu.

Pavel Nedved sem er minn maður í boltanum varð meistari með Juventus og kom liðinu í úrslitaleikinn í Evrópukeppni stórra liða… en nældi sér í gult spjald og getur því ekki tekið þátt í þeim magnaða viðburði.

Á meðan að Bill Clinton virðist vera gull af manni þá eru bandarískir þingmenn nú farnir að velta því fyrir sér að þessi írönsku stjórnvöld séu nú frekar hættuleg heimsfriði og það sé best að skipta þeim út. Rétt upp hendi sá sem ekki sér kaldhæðnina í þessu.

Uncategorized

Sunnudagur?

Í dag var víst sunnudagur og Sigurrós kom heim úr Eurovision-reisunni á Selfoss í dag.

Hún leit svo á einkunnir og virðist vera alveg við það að fá 9 í meðaleinkunn… munar 0.03!

Mikið var!

Uncategorized

Einn af 99%

Í kvöld var víst Eurovision-keppnin háð, ég fylgdist ekki með henni ekki frekar en 99% Evrópubúa (en á Íslandi er ég víst í 1% hlutanum) en sá að Tyrkir hefðu unnið með þessu lagi (sem Geimsins hýsir). Þau hafa verið verri.

Það væri nú ágætt ef maður gæti selt smá hluta af bréfum í fyrirtæki og fengið milljarð dollara fyrir eins og Steven Ballmer var að gera.

Kaldhæðni ársins: U.S. forces trying to impose gun controls in Iraq.

Uncategorized

Selfoss og geimHABL

Skrapp í útibúið á Selfossi í dag, fór svo í kaffi til tengdó sem sýndir mér fína sólpallinn sem er næstum tilbúinn.

Tengill dagsins er svo á getgátu um að HABL komi kannski utan úr geimnum!

Uncategorized

Fjör, golf, tungubrjótar, útrýming og fleira

Fjörið heldur áfram í vinnunni, skipulagður frá fyrsta klukkutíma og nýt þess að haka við það sem er búið… ef fólk vorkennir mér að búa með skipulagðri konu þá ætti það að sjá sumt af því sem ég geri…

Vinnufélagar mínir vilja endilega fá mig með í golfið í sumar, ég á nú ekki eina einustu kylfu og svo er tímanum í sumar að miklu leyti ráðstafað, það er þó gaman að vita af því að kona er að gera allt vitlaust í golfmóti hjá körlunum.

Tungubrjótasafnið leyfir ykkur að böggla tungunni ofan í kok við að reyna að bera fram ýmis orð og orðtök, á íslensku jafnt og maorísku (tékkið á því).

Nú er í gangi í Bandaríkjunum lagafrumvarp sem á að leyfa hernum að vera undanþeginn tvennum lögum sem varða verndun dýra í útrýmingarhættu. Það gengur víst svo illa að þjálfa hermennina þar sem þessi dýr eru að flækjast fyrir.

Uncategorized

Vinna, tóbak og áfengi

Fyrsti dagurinn í nýju vinnunni var fínn, nóg að gera og fjölbreytt verkefni. Gekk svo heim, næstum allt upp í móti og því sæmilegasta hreyfing. Reyndar er lengi búið að velta því fyrir sér að draga hjólið út úr kompunni, þá rennur maður niður brekkuna á morgnana og þjösnast svo upp hana á heimleið.

Tóbaksfíklar í New York barma sér yfir reykleysis-tilskipuninni, þeir eru því farnir að éta tóbak.

“The most important thing you can do for your wine is to serve it at the right temperature. Red wine, for example, should be brought down about 10 degrees below ambient temperature.”

What if you don’t have a personal cellar?

“Just put it in the refrigerator for 20 minutes.”

Svo segir einn fremsti vínþjónn (sommelier) heims… maður verður að kíkja á þetta næst!

Að lokum eru það svo hamingjuóskir til Arnar og hinna sem bjuggu til albankalausnina sem var verið að setja í gang í Danmörku.

Að endalokum eru það svo orð forsætisráðherranna, núverandi og tilvonandi. Þeir ætla að vernda stöðugleikann, sem er frekar undarlegt þar sem 14-20% launahækkun þeirra bendir EKKI til þess að stöðugleiki hafi ríkt hingað til… nema talað sé um stöðugleikann í skattpíningu og aðgerðum gegn tjáningarfrelsi… þar hefur allt setið við sama.

Uncategorized

Tvöföld endalok

Í dag lukum við verkefnisvinnunni sem hefur staðið síðan í janúar á þessu ári. 5 mánaða vinna sem lauk með lokakynningunni sem við héldum í dag. 25 mínútna fyrirlestur og því næst 28 mínútur af spurningum, þó nokkrar þeirra komu frá samkeppnisaðila Hugvits, en verkefni okkar var fyrir það.

Hvað Hugvit varðar þá pakkaði ég öllu mínu saman í dag, smellti í poka og kassa og gekk svo um húsið og kvaddi þá með handabandi sem enn voru inni.

Formlega séð hætti ég þar um mánaðamótin síðustu en sökum verkefnisins hef ég verið lengur í húsnæðinu, það er erfitt að losna við mig eins og margir geta borið vitni um 🙂

Þetta var ágætur tími, rúm fimm ár sem voru mikill vaxtartími. Að sjálfsögðu mun maður halda sambandinu við þó nokkra þarna, þetta var góður hópur sem myndaðist. Á morgun er það svo nýr vinnustaður með nýjum tækifærum og nýjum verkefnum.

Uncategorized

Survivor

Eftir stífar æfingar á kynningunni okkar skaust ég heim og horfði þar á lokaþátt Survivor. Sigurrós var með allt planað og veitingar fyrir okkur og allt var stórglæsilegt. Því miður þurfti ég að halda aftur á æfingar að þættinum loknum, ella hefðu fleiri veitingar ekki lifað kvöldið af.

Sigurvegarinn var frekar klénn að mínu mati, og ekki skil ég hvað allir segja að hún sé sæt greyið. Jæja, ekki mín týpa bara.

Það fyndnasta var hins vegar Jeff Probst sem fór á vatnaketti frá Brasilíu til New York… eða þannig. Ótrúlega klént atriði og auðvitað er aldrei minnst á það að Frelsisstyttan sem þeir eru svo skotnir í er gjöf frá Frökkum… gullfiskaminnið að drepa þá.

Váleg tíðindi úr tölvuheiminum, Microsoft getur ekki unnið Linux með afurðum sínum þannig að næsta málið er að loka á það með lögsóknum sem þeir geta sinnt með því að kaupa Unix-kóða.

Uncategorized

Spítt í boltanum

Það er ekki furða að þeir hafi verið svona miklu betri fótboltamennirnir á fyrri tíð ef þeir tóku allir spítt.

Í Suður-Kóreu er svo öflugasti netmiðillinn með venjulegt fólk sem fréttamenn, svona eins og alvöru útgafa af Hugi.is?