Uncategorized

Boltinn í gær

Jæja boltinn í gær fór bara nokkuð vel. Víkingar komnir í úrvalsdeildina eftir nokkra fjarveru, Uglurnar í öðru sæti í ensku (annari) deildinni og Lazio búið að vinna báða sína leiki. Lyon hins vegar hikstar í byrjun í frönsku deildinni, er um miðja deild eftir 6 leiki með aðeins 8 stig, lélegt hjá meisturunum!

Í dag var það svo alls herjar hreingerning hér heima, gegnumtrekkurinn sem ég kom á ætti svo að hafa tryggt að minnstu rykagnir hyrfu út um svalirnar.

Uncategorized

DNS pirr

DNS er kerfið á netinu sem breytir vélarnöfnum (www.betra.is, joi.betra.is og svo framvegis) yfir í réttar IP-tölur (í þessu tilfelli 194.144.41.2) svo að forrit (Internet Explorer og önnur) fari á réttan stað.

Þegar vefur/vél flytur um IP-tölu þá tekur það yfirleitt 24-48 tíma fyrir DNS að uppfærast hjá öllum. Núna eru hins vegar liðnir vel yfir 92 tímar og enn hafa ekki allir séð breytingarnar, molar.is sjá til dæmis einn vef hjá okkur en ekki 4 aðra! Ég hef margoft fiktað í svona DNS dæmi og hef aldrei áður vitað að það tæki svona gífurlegan tíma.

Earlier, President Bush called for more outside help, saying no free nation could be neutral in the fight between civilisation and chaos. (src)

Veistu að ég er bara eiginlega sammála honum! Áfram írösk siðmenning, niður með amerískt chaos!

P.S. Hér má sjá mynd af þessum falsaða 200 dollara seðli sem ég minntist á í gær (tenglar fengnir frá Neil Gaiman).

Uncategorized

Fals og tíska

Jæja maður er svo sem ekki hlynntur peningafalsi en verður að dást að svona húmoristum.

Setti í dag upp Movable Type. Er ekki nógu ánægður með “usability” gagnvart fólki sem ekki hefur hundsvit á HTML og þyrfti ekki að hafa hundsvit á því. Samt áhugavert tól sem gæti nýst manni í eitthvað.

Nú eru háhæluð stígvél víst í tísku. Tíska finnst mér annars ógurlega vitlaust fyrirbæri, 10 manns sem sitja einhver staðar útúrdópaðir og skissa hvað allir ættu að klæðast eftir hálft ár. Setja síðan á svið sýningar þar sem herskarar bíða spenntir eftir því að sjá hvað er næsta tískubólan frá þessum messíösum.

Tískuhönnun er ekki það sama og fatahönnun. Fatahönnun væntanlega skilar af sér fallegum og/eða notadrjúgum/heppilegum fatnaði (fyrir mismunandi aðstæður). Tískuhönnun er að búa til bólu sem dugar á meðan að liðið er nógu vitlaust til að elta hana.

Smá útúrdúr þarna. Sumsé þá fannst mér skondið að lesa í dag að stígvél væru málið núna, sá í fyrradag unga móður sem var svakaleg gella í hermannabuxum, gallajakka og þessum líka háhæluðu stígvélum. Mér er svo sem sama hvernig hún klæðir sig en það sem vakti athygli mína var að litla stelpan hennar virtist við það að fara úr axlalið við að leiða móður sína. Mamman teygði sig afkáralega niður og krakkinn hékk niður frá og varla snerti gólf og af hverju? Af því að háhæluðu stígvélin voru í tísku. Þetta fannst mér glatað, ekki töff.

Johnny Cash fékk að rúlla í kvöld, karlinn var flottur. Smá syrpa sem endaði á Wanderer þar sem hann er með U2.

Uncategorized

Nýir tímar

Búinn að vera öflugur í náminu í dag. Seldi svo Grafara í dag, það var aukakallinn (eins og maður segir) minn í EVE sem er suddalega góður á sínu sviði. Sakna hans og Dominix-skipsins hans aðeins en hann skemmtir sér líklega í vinnunni hjá nýjum eiganda.

Riddari (aðalkallinn) fer líklega bara í ísskápinn… kannski maður kíki á hann í jólafríinu. Kannski ekki.

Uncategorized

Flutningum lýkur

Þá eru vefþjónninn og póstþjónninn komnir hingað heim. Ekki allir komnir með uppfærða IP-tölu en það ætti að klárast að detta inn í nótt.

Tók í gær þá ákvörðun að fylgja fordæmi litla bróður og hætta í EVE sem ég hef spilað síðan í að ég held febrúar.

Aðalástæðan er geysimikill tímaskortur nú þegar skólinn er kominn á fullt. Skrifaði kveðjubréf af þessu tilefni, ég er sumsé… eða var… Riddari.

Uncategorized

Flutningar hefjast

Í dag fékk ég loksins fasta IP-tölu. Búinn að vera svo lengi á bið á þjónustuborðinu að ég heyrði diskinn með Noruh Jones tvisvar í hræðilegum hljóðgæðum.

Smellti upp ljótri síðu sem greinir frá flutningunum. Allt ætti að vera orðið gott á morgun seinni partinn.

Kláraði loks í gær Falling Sideways. Tom Holt á miklu flugi, Salvador Dali á ekki séns í svona menn.

Uncategorized

Bleh

Kynningin tókst nokkuð vel. Við vorum samt svolítið köld svona snemma morguns og fórum pínu hratt yfir sögu.

Jákvæðar fregnir af DVD-spilaranum, það gæti farið svo að við förum að horfa aftur á myndirnar okkar!

Uncategorized

EE QBIC

Dagurinn og kvöldið og hluti nætur farið í undirbúning fyrirlesturs sem við höldum í fyrramálið. Núna er það sturta og rakstur fyrir svefninn!

Uncategorized

Atli hver?

Glæsileg frammistaða íslenska liðsins á móti Þýskalandi í dag fær mann til að trúa því að við værum með mun fleiri stig ef Atli óreyndi hefði ekki verið við stjórnvölinn í þessari för til að byrja með. Flott barátta og samheldni, verst með að nýta ekki færin.

Á meðan að á leik stóð var maturinn borinn til mín og í hálfleik komu svo súkkulaðihúðuð jarðarber sem eftirréttur. Það er ágætt að fá smá stjan svona öðru hvoru!

Varðandi pælingna minna vegna idjóta í umferð má benda á þingmann og fyrrum fylkisstjóra sem hefur hælt sér af hraðakstri sínum. Hann hefur nú drepið mann sem er ekki að undra miðað við afrekaskrá hans. Þennan mann ætti að svipta ökuleyfi ævilangt fyrir utan aðrar refsingar. Ættu kannski að hafa svona 3 strikes reglu fyrir akstursníðinga líka?

Áhugavert lesefni á Democratic Underground, þar má lesa nýjustu ummæli mestu íhaldsmannanna í Bandaríkjunum á Topp 10 listum.

Uncategorized

Ríkustu 40 undir 40

Ríkustu einstaklingar heims undir fertugu, 7 Russians Among World’s Richest Under 40. Bara tvær konur reyndar á listanum.