Uncategorized

Heimkoma

Mér gekk afspyrnuilla að sofna þrátt fyrir að vera gífurlega þreyttur, því var erfitt að skreiðast framúr klukkan þrjú í nótt til að ná rútunni á flugvöllinn um fjögur. Í rútunni fengum við fréttaskeyti frá Íslandi, það var fróðlegt að lesa í fréttaskeyti gærdagsins að allt væri brjálað vegna CANTAT-3 sem að enn eina ferðina varpaði Íslandi í myrkviði tækniheimsins. Skrifaði lesendabréf í Moggann 10. ágúst 2000 þegar að Ísland varð sambandslaust í að mig minnir 3 daga eða svo. Ritaði Birni Bjarna bréf þar sem að hann var netvæddasti ráðherrann og hann sagði að þetta væri ekkert sem að stjórnvöld myndu puttast í. Það er svolítið undarlegt að ríkið passi upp á Flugleiðir og flugsamgöngur en ekki upp á netsamgöngur sem að skila meiri verðmætum en flugið gerir.

Fríhöfnin á Faro opnaði ekki á meðan að við dvöldum þar, kaffiterían opnaði loksins klukkan 6 þegar að við vorum búin að vera þarna í rúman hálftíma. Þar reyndist svo nærri ekkert að fá nema snakk og ís.

Í vélinni kláraði ég seinni Ramses-bókina, Ramses:The Lady of Abu Simbel. Frekar mikið flúr líkt og í hinni bókinni, öruggt að ég les ekki meira í þessum flokki. Sæmileg lesning en frekar í tilgerðarlegri kantinum.

Hvað sagnfræðina varðar var þó áhugavert að sjá útskýringu á plágunum sem að Móse (sem er sögupersóna í bókinni) sagði að Guð hefði lagt á Egypta. Blóði lituð Níl var eðlilegt fyrirbæri vegna nokkurs konar leysinga, engisprettufaraldurinn var eðlilegur þó í stærri kantinum væri, froskamergð mjög eðlileg árstíðabundin sveifla og reyndar talin lukkumerki, og svo áfram má telja. Ég held svei mér þá að heimurinn gæti verið friðsælli ef að Móse hefði ekki ætt áfram með gyðingana og farið í bardaga við þáverandi íbúa núverandi Ísrael og Palestínu.

Í Leifsstöð hittum við Höllu, Hófí og Eymar (já… Eymar) sem að voru á leið til Portúgal í viku sjálf. Gáfum þeim portúgalska símakortið okkar enda takmörkuð not af því hér á landi. Versluðum svo 5 léttvínsflöskur í fríhöfninni, 4 rauðvín og 1 rósavín. Ætti að endast okkur vel fram yfir áramót enda hófdrykkjufólk mikið.

Pabbi sótti okkur svo og skutlaði heim. Í fjarveru minni hafði hann tekið Mözduna og dyttað að henni og farið með í skoðun. Hún fékk reyndar grænan miða vegna smávægilegra atriða sem að lítið mál á að vera að redda. Mazdan á langa lífdaga sína góðum akstri mínum og góðri aðhlynningu pabba að þakka.

Þegar heim var komið rúmlega 11 vorum við að deyja úr hungri, morgunmaturinn í vélinni (hrærð egg, brauðsneið og alvöru skinkusneið) var ekki það frábær né seðjandi. Ég skaust því strax út og keypti tvo stóra kjúklingabáta sem við vorum svo snögg að tæta í okkur áður en við lögðum okkur. Brosti að túristunum sem ég sá á ferðinni, ekki margir klukkutímar síðan að við vorum túristar hinum megin í Evrópu á stuttbuxum, en hér voru túristarnir íklæddir úlpum með húfur á hausnum.

Eftir nokkurra tíma blund skaust Sigurrós svo og keypti í kvöldmatinn, á verðinu mátti auðveldlega sjá að við vorum komin heim. Verðmunurinn á matvöru er svimandi. Hinn sívinsæli réttur eggjanúðlur með kjúklingi var í matinn og bragðaðist listavel.

Eftir matinn stússaðist ég með honum Auðunni í kjallaranum við að finna út hvaða hæð borgaði fyrir hvaða ljós í sameigninni áður en ég hélt í Grafarvoginn.

Fór Sæbrautina til að taka bensín hjá Orkunni og sá Esjuna í fínum skrúða. Með hvíta skýjakrúnu og sól sem að gerði hana mikilúðlega og glæsilega. Það var gott að vera kominn heim frá Portúgal þar sem allt var skraufþurrt en rakt.

Í Grafarvoginum heimsótti ég fyrst Sigrúnu og skoðaði aðeins fartölvuna hennar, fór svo heim til mömmu og fékk iMacinn hennar til að tala við ADSL-routerinn. Eftir mikið vesen var loksins símalínan og öll símatengi komin í lag, en tíma tók þetta hjá Landssímamönnum.

Í kvöld horfðum við svo á fyrstu þrjá þættina í Malcolm in the Middle, frábærir þættir og skondið að sjá aðalleikarana svona unga í fyrstu seríunni.

Uncategorized

Portúgal: Dagur 7

Sigurrós var aftur á undan mér á lappir og vaskaði upp leirtauið áður en ég drattaðist fram úr.

Stefnan þennan síðasta dag okkar var sett á Zoo Marine með hinum Íslendingunum. Þetta er sædýragarður með leiktækjum og sýningum.

Byrjuðum á því að fara í Parísarhjólið til að fá smá yfirsýn yfir svæðið. Skelltum okkur svo á sæljónasýninguna sem að var smá gamanleikrit. Ágætis trúður sem að hitaði upp svona til að halda gestunum rólegum í sætunum.

Þaðan fórum við beint á höfrungasýninguna þó sársvöng værum, sýningarnar eru bara 3svar á dag eða svo. Aftur hitaði trúðurinn upp en nú með tveimur félögum sínum. Höfrungarnir og þjálfarar þeirra héldu svo fína sýningu sem gaman var að sjá.

Sársvöng héldum við á pizzustaðinn (okkur finnst pizzur almennt góðar já), biðum þar í sæmilegri biðröð sem að óx og óx eftir að við vorum búin að pota okkur í hana. Þessi dagskrárliður fékk nafnið Restaurant du Inferno, veitingastaður helvítis. Pizzurnar sem við pöntuðum reyndust varla ætar, flugur gerðu harða hríð að okkur þar sem við átum og allir foreldrarnir sem voru með pínulítil og leiðinleg börn settust hringinn í kringum okkur og ærðu okkur úr hávaða. Ekki skil ég af hverju fólk tekur börn á aldrinum 0-3 ára í svona garða, þau eru of ung til að vita hvað er á seyði og hundleiðist bara og eru þreytt og líður illa og pirra foreldra sína og aðra viðstadda.

Eftir þessa hörmung héldum við að sýningarsvæði selanna, sýningin var nærri búin þannig að við röltum bara niður í nokkurs konar helli og fylgdumst með rostungi og selum synda í búrum sínum. Við sáum ekki fram á að ná næstu selasýninguna nema missa af rútunni og héldum því á brott þaðan.

Næsta stopp var sjávardýrasafnið. Þar var fyrst sýnd smá kvikmynd um höfrunga og sjóinn, efni sem að við Íslendingarnir þekkjum vel og biðum því bara eftir því að sú sýning kláraðist. Því næst lá leiðin að mörgum glerbúrum þar sem við fengum að sjá alls konar fiska, lindýr og önnur minni sjávardýr. Eitt stórt glerbúr var svo þarna þar sem tveir stórir hákarlar sinntu um með minni hákörlum, skötum, skjaldböku og ýmiss konar fiskum. Kjálkasafnið af hákörlum var áhugavert, all svakalegar tennur í ýmsum stærðum. Líkan af búrhval í raunstærð fékk okkur til að finnast mikið til um og svo lauk túrnum í minjagripabúð. Nokkuð góð hugmynd hjá þeim en við féllum ekki fyrir neinu þar.

Þegar út var komið sáum við lítinn rússíbana sem að nefnist Buffalo. Þrír hringir með tveim skörpum beygjum fengu magann til að fá smá hnút og lítil börn og ungar stúlkur fengu útrás fyrir öskur.

Þegar heim var komið fórum við að pakka niður áður en við héldum í hinsta sinn í Modelo. Þar fengum við okkur gamaldags Hawaiian (Tropical í Portúgal) og gerðum lokainnkaupin í öðrum verslunum.

Þegar heim á hótel var komið ákváðum við að fara á Laugarveginn í hinsta sinn til að kaupa þar lítil stafræn útvörp sem við höfðum tekið eftir í fyrri Laugarvegsferð okkar.

Endurpökkuðum svo og gengum frá öllu áður en við héldum í háttinn.

Uncategorized

Portúgal: Dagur 6

Mikið letikast hjá okkur í morgun, höfum ekki sofið svo vel. Rúmin í harðari kantinum og vöknum af og til um miðja nótt.

Þegar við loksins fórum á fætur var stefnan sett á að finna sér mat, fyrir valinu varð McDonalds staður nálægt hótelinu. Stefnan hafði verið sett á kínverskan stað sem er þar fyrir ofan en við treystum okkur ekki í kínverska matinn á fastandi maga þegar á reyndi. Fyrir 7 evrur fengum við tvær stjörnumáltíðir, þetta hefði ekki dugað fyrir einni stjörnumáltíð hérna heima. Franskarnar voru að mestu látnar í friði enda óætar eins og ég hef minnst áður á.

Við hliðin á McDonalds var Levi’s búð. Litum þar við til að skoða föt og fundum þar skyrtu á mig og peysu á Sigurrós. Verðið ekki svo langt frá því sem það er hérna heima en það er bara búið að vera vonlaust að versla föt undanfarið vegna leiðindatískunnar sem er í gangi núna.

Eftir þetta stukkum við út í laug, og að þessu sinni dvaldist ég lengur en áður. Sólaði mig svo á legubekk og las bók á meðan að Sigurrós svamlaði á vindsænginni og kom svo á legubekk og las þar í góðan tíma. Ég hafði gleymt að bera á lappirnar og þegar að þær voru farnar að verða rauðar hélt ég inn, lengsta sólbaðið sem ég hef verið í núna.

Eftir afslappelsi (chill) á herberginu þar sem að DeeJay stöðin fékk að rúlla enda mörg fín lög þar í gangi, tókum við stefnuna á “Laugarveginn”. Gengum hann nú nærri því alveg niður á ströndina í leit að kínverskum veitingastað sem mælt hafði verið með. Eftir að hafa séð nokkra slíka en ekki þann rétta ákváðum við að fara á stað sem að er mjög neðarlega og heitir Venezia. Pöntuðum þar calzoni (pizza sem er brotin saman og myndar hálfmána) með skinku og ananas. Urðum eilítið undrandi þegar að maturinn kom á borð, pizzusósan var ofan á og hafði ekki verið elduð með. Mér fannst það reyndar vera nokkuð sniðugt þegar ég fór að skera, gat nú sjálfur smurt sósunni og réð þykktinni sjálfur. Virkilega gott og mæli hiklaust með þessum rétti hjá þeim. Umhverfið er líka virkilega notalegt þarna fyrir utan hjá þeim, við vorum fyrstu kúnnarnir í kvöldmat en vorum svo sæt þar sem við sátum úti að fleira fólk fór fljótt að flykkjast að.

Eftir matinn skaust Sigurrós á klósettið og tilkynnti mér svo að það væri það þrifalegasta sem hún hefði séð nokkru sinni. Fyrir utan skolskál (þær eru annars tær snilld) þá var sér ruslafata bara fyrir hygiene (dömubindi og túrtappar) og svo var það rúsínan, klósettseturnar voru huldar plasti og til að skipta um plast var ýtt á takka og þá rúllaði nýtt plast sjálfkrafa í stað þess sem fyrir var (nokkuð sem sumum ætti að finnast æðislegt). Þessi fínheit reyndust ekki vera til staðar á karlaklósettinu, það er sjaldnast svoleiðis.

Eftir að hafa borgað reikninginn fengum við svo okkur til ánægju frímiða sem hljómaði upp á eitt glas af sangria á mann á barnum hinum megin við götuna. Starfsfólkið var á þönum á milli þannig að þetta var líklega í eigu sama manns (Alfredo… fengum nafnspjaldið hans um leið og við fengum frímiðann). Sátum og sötruðum sangriað í rólegheitum, södd og ánægð í kvöldsólinni. Mælum með Venezia og The Sultan (Sultao á portúgölsku) Bar.

Töltum svo rólega upp Laugarveginn, fengum okkur ís á leiðinni og héldum svo heim á hótel.

Á leiðinni þangað mættum við íslensku pari á aldur við okkur sem var að koma frá hótelinu og á leið í bæinn. Bæði klædd í djammföt og stúlkan sendi okkur kuldalegt augnaráð, leist greinilega illa á okkur þar sem við vorum á leið úr bænum, ekki í djammfötunum og sleikjandi ís. Lægsta lífsform sem að hún getur hafa ímyndað sér.

Við hlógum að greyinu þegar það var farið framhjá, vitum ósköp vel að djamm er engin lífsnauðsyn, hvað þá stöðumerki.

Kvöldinu var eytt með DeeJay og Boomerang/Cartoon Network. Rólegt og skemmtilegt.

Uncategorized

Portúgal: Dagur 5

Rétt fyrir hádegi tilkynnti ég Sigurrós að ég ætlaði í ferð til að finna félagsfána Imortal fyrir Mike félaga minn sem safnar slíku. Imortal er félagslið bæjarins og spilar í annari deildinni. Hún tók ekki annað í mál en að yfirgefa sundlaugina og fara með mér.

Á hótelinu hafði mér verið sagt að fara á Rue do Tenis þar sem bækistöðvar þeirra væru. Til að komast þangað fórum við niður í gamla miðbæinn og svo upp næstu hæð sem var frekar brött og við svitnuðum eitthvað við þetta labb í steikjandi sólinni. Þegar að við fundum svo staðinn reyndist það vera lokað íþróttahús og enginn í nágrenninu gat gefið neinar frekari upplýsingar, íþróttabarinn sem var í þarnæsta húsi hafði uppi fána og trefla þriggja stóru liðanna í Portúgal (Benfica, Porto og Sporting) sem og merki ýmissa evrópskra stórliða en ekkert sem minnti á sjálft bæjarliðið.

Við örkuðum því framhjá gömlu kirkjunni og niður að miðbæ til að fá okkur að borða, orðin frekar svöng eftir labbið. Fundum sæmilegan matsölustað sem var með frábæru útsýni yfir eina ströndina, hann heitir Esplanada do Tunel og liggur sjávarmegin við stór göng í gegnum klettinn. Snæddum ágætis grillaðan kjúkling og horfðum á berbrjósta kvenfólk og aðra sólarunnendur. Skondnir voru strákarnir sem voru í boltaleik og voru alltaf að missa boltann í tvær sætar stelpur sem voru frekar nýkomnar en ófeimnar.

Á leiðinni heim festi ég kaup á tveimur kiljum í Ramses-bókaröðinni eftir Christian Jacq sem að hafði fengið lofsamlega dóma. Þetta voru reyndar bækur númer 3 og 4 í röðinni en ég ákvað að láta bara reyna á þær.

Kvöldmaturinn var snæddur í herberginu, Sigurrós eldaði eggjanúðlur með nautakjöti (4 evrur pakkinn af góðu kjöti) sem bragðaðist sæmilega en ekkert á við eggjanúðlur og kjúkling sem er einn af uppáhaldsréttunum okkar.

Las fyrri Ramses-bókina, Ramses:The Battle of Kadesh í kvöld. Ensk þýðing á franskri sögu, hvort að það skýrir tilgerðarlegan texta oft á tíðum veit ég ekki. Áhugavert frá sagnfræðilegu sjónarmiði (saga er skemmtileg fyrir utan íslenska bændasögu og álíka leiðindi) en fullmikið af yfirnáttúrulegum atburðum og væmni fyrir mig, slagaði stundum upp í rauða ástarseríu með því flúri sem því tilheyrir.

Fór þó að velta áhugaverðum punkti fyrir mér, sólin er aðalguðinn hjá Egyptunum og reyndar í all mörgum trúarbrögðum. Hér hjá okkur á norðurhjara er sólin hins vegar aukaatriði, enginn guð sem að stjórnar henni en í staðinn eru það þrumur og eldingar sem að eru oft í talsverðu aðalhlutverki.

Uncategorized

Portúgal: Dagur 4

Dúlluðum okkur á herberginu fram til 11 þegar að ég skaust út til að versla sólarvörn númer 24 og after-sun. Þessi sólarvörn númer 15 var ekki að virka fyrir mig, ég er með frekar lélega sólarhúð og tókst að brenna afskaplega illa á öxlunum og fá sólsting að auki á Íslandi fyrir nokkrum árum sem að er afrek út af fyrir sig.

Þessi kaup voru einkum gerð sökum þess að nokkrum mínútum síðar héldum við í vatnsleikjagarðinn Aqualand, sem að er auglýstur sem The Big One. Eftir smá skoðunarferð um svæðið og smá rennibrautaferð fengum við okkur það sem selt var sem hamborgarar í litlum söluskála þarna. Hamborgarinn sjálfur reyndist ekki vera úr kjöthakki heldur kjötfarsi og óætur með öllu. Nokkrir bitar teknir til að seðja sárasta hungrið og afganginum svo hent.

Okkur tókst báðum að meiða okkur í rennibrautasafninu sem er kallað Anaconda eða Corkscrew (fer eftir því hvað þú lest), einar 5 rennibrautir í sama turninum. Ég marðist innan á báðum handleggjum, stórir og glæsilegir marblettir eftir að hafa henst á miklum hraða utan í veggina í braut númer 2 og nærri upp úr. Sigurrós náði að slípa sár á olnbogann í braut númer 3 sem var líka frekar ofbeldisfull.

Við hættum okkur ekki í geðveikina Banzai Boggan þar sem maður kemur sér fyrir á litlu bretti og rígheldur í áður en maður er látinn gossa niður líklega 60° halla í nöturlegri stálrennu sem að myndi líklegast slípa verulega af manni ef maður missti takið á brettinu.

Sigurrós var duglegri í rennibrautunum en ég, ég var hræddur við sólina og dvaldi því lengi vel undir sólhlíf sem við leigðum.

Ágætis skemmtun, fín aðstaða þarna og við fórum sátt heim á leið eftir rúmlega fimm tíma dvöl með hinum Íslendingunum.

Kvöldmaturinn var snæddur á Kentucky Fried Chicken. Kjúklingaborgarinn olli mér vonbrigðum, engin BBQ-sósa notuð þarna og það munar miklu um það. Að auki voru franskarnar alveg eins og á McDonalds. Þannig franskar virðast vera með tæringu og að auki eru þær úr deigi sem að engin kartafla er í, óæti hið mesta sem að ber að forðast. KFC fær því mínus í Portúgal.

Las Walking on Glass eftir Iain Banks. Vel skrifuð bók með súrrealískri upplifun. Banks klikkar ekki.

Uncategorized

Portúgal: Dagur 3

Vaknaði 7:30 og skaust út með handklæðin okkar til að taka frá bekki. Þegar við fórum á fætur svo rétt fyrir tíu var alveg skýjað, við gerðum heiðarlega tilraun til að vera við sundlaugina en þegar að Sigurrós fór að klæða sig í peysu og varð samt kalt í rokinu gáfumst við upp og hörfuðum í herbergið.

Skruppum svo í labbitúr á hinn svokallað Laugaveg, sem að er nefndur The Strip á ensku, hann myndar nýja miðbæinn sem er mun austar en gamli miðbærinn. Á leiðinni þangað fór að hlýna og á Laugaveginum fór sólin að brjótast fram. Þegar á hótelið var komið aftur stukkum við bæði í laugina, ég reyndar bara upp að mitti áður en ég hörfaði upp úr og greip mér bók í hönd. Þegar að rauðir flekkir fóru að myndast hörfaði ég svo enn lengra, nú í herbergið þar sem ég kláraði bókina Radio Free Albemuth eftir Philip K. Dick. Mögnuð saga þar sem PKD fer í talsverðar trúarbragðapælingar. Síðasta skáldsagan sem kom frá honum.

Kvöldmaturinn var snæddur á Pizza Hut, að þessu sinni gerðumst við ævintýragjörn og fengum okkar Hawaiian (túnfiskur, rækjur og ananas) með þunnum botni (í stað deep pan). Pizzan var vel æt en frekar þurr, túnfiskurinn er þunnt sneiddur en ekki í feitum stykkjum eins og hér heima (fékk eitt sinn hér heima pizzu með bönunum og túnfiski, ekki slæm).

Á leiðinni í gegnum lobbýið sáum við stóran hóp ungra mjórra stúlkna sem allar klæddust stuttum ljósbláum (hinn geysivinsæli azul litur) kjólum, við nánari skoðun reyndust þetta vera stúlkur að keppa í Miss 2002, allar á milli 175 og 185 cm á hæð og með nær ekkert utan á sér. Ekkert sem að heillaði mig.

Kláraði svo bókina A Maze of Death eftir áðurnefndan PKD eftir kvöldmatinn, frekar kuldaleg saga.

Bókaþorsta mínum voru nú engin takmörk sett, las aðeins frameftir til að klára þriðju bókina þennan daginn, Flow My Tears, The Policeman Said einnig eftir títtnefndan PKD. Undarleg saga um þjóðþekktan mann sem vaknar á hótelherbergi og virðist vera orðinn gjörsamlega óþekktur og í miklum vanda.

Tvær og hálf bók á einum degi, ekki slæmt, reyndar allt kiljur í styttri kantinu (190-280 blaðsíður hver).

Uncategorized

Portúgal: Dagur 2

Vöknuðum rúmlega 10, þreytt eftir lítinn svefn nóttina áður. Sigurrós fór að versla og stakk svo tánum út í laug. Við mættum svo á fund þar sem fararstjórarnir kynntu sig og atburðina framundan. Við skutumst síðan í smá hattakaup, Sigurrós fékk sér bláan hatt og ég mér brúnan, líkur þeim sem að Steve Irwin hefur stundum á kollinum. Ekki spillti fyrir að stuttbuxurnar mínar eru nokkuð líkar hans.

Ský fór að draga fyrir sólu um leið og við lukum hattakaupunum, dæmigert. Fararstjórarnir fóru með hópinn í labbitúr um gamla bæinn í Albufeira og við skelltum okkur með. Þegar að komið var í sjálfan miðbæinn nenntum við ekki að elta hjörðina og fundum okkur matsölustað, fyrir valinu varð Lisa’s Pizza & Pasta, það sem aðallega dró okkur þangað var skemmtileg aðstaða, svalir sem að borðin stóðu við og við gátum horft niður á hina túristana skoða sig um (annar staður með sama nafni er til í nýja miðbænum, við “Laugaveginn”). Fengum okkur pizzur með skinku og ananas, þær voru vel ætar en ekkert sérstakar að öðru leyti.

Töltum svo til baka á hótelið, mest öll leiðin nú upp í móti. Fáir bekkir voru á lausu í sundlaugargarðinum, hér tíðkast það að fólk hoppi út rúmlega sjö á morgnana, taki frá bekki og fari svo aftur inn og láti ekki sjá sig útivið fyrr en seint og síðarmeir. Sigurrós hoppaði út í laug með vindsængina á meðan að ég sat með bók í hendi. Þegar að ég fann að það var farið að líða að því að ég með viðkvæmu húðina færi að brenna héldum við upp á herbergi. Þegar þar var komið vorum við bæði orðin frekar sloj, og grunaði nú saltskort. Skruppum að versla og Sigurrós eldaði kalkúnakjöt (“peru” á portúgölsku) sem bragðaðist ágætlega.

Í ríkissjónvarpinu var sýndur leikur Benfica og Marítimo, Marítimo voru mjög sprækir en Benfica náðu undirtökunum og þegar að markmaður Marítimo gerði sig sekan um fávitaskap og fékk sitta annað gula spjald og þar með rautt spjald (í stöðunni 2-0) datt neistinn úr leiknum. Benfica skoraði úr vítinu og vann 3-0. Ánægjulegt var að sjá hvað allir leikmennirnir voru flinkir, allir gátu spilað einnar snertingar fótbolta og gerðu það oft á tíðum, algjör hátíð miðað við flest ensku liðin til að mynda.

Áhugavert:

  • Albufeira-Strip
  • Uncategorized

    Portúgal: Dagur 1

    Við vorum að pakka til 2 í nótt, margt að stússast í. Sigurrós setti nýtt persónulegt met, aldrei pakkað jafn litlu niður. Þegar við vöknuðum svo klukkan 7 í morgun stungum við koddunum okkar niður í töskurnar áður en við læstum þeim. Af fenginni reynslu vitum við að ekki er hægt að treysta því að fá mannsæmandi kodda á hótelum eða öðrum dvalarstöðum.

    Stefnan í þessari ferð var sú að vera sem mestir túristar og unnt væri, síðasta utanlandsferð okkar var alfarið í okkar höndum og núna nenntum við ekki að eltast við lestir á eigin spýtur heldur gefa okkur fararstjórunum á vald og slappa sjálf af.

    Pabbi skutlaði okkur svo í Leifsstöð. Í fríhöfninni var ekki ein einasta verslun opin en heil hrúga af Þjóðverjum og Dönum sem að lágu á bekkjum. Á skjánum mátti sjá að vélarnar þeirra áttu að fara um klukkan þrjú í nótt en höfðu tafist um 12 tíma, takk fyrir það.

    Kaffiterían var þó opin, starfsmaður þar tjáði okkur að verslanirnar opnuðu yfirleitt tveim tímum fyrir brottför, þar sem að tæpir tveir tímar voru í okkar brottför og að auki fullt af starfsfólki á vappi á bakvið rimlana fannst okkur þetta hið undarlegasta mál. Eftir talsverða bið opnuðu svo loks verslanir og við festum kaup á geisladiskum. Ég skil ekki alveg hvaða röksemdarfærsla liggur á bakvið það að hafa starfsfólk á launum innan við rimla verslanna á meðan að viðskiptavinir vappa um fyrir utan en gáfulegheit eru svo sem ekki meðal íslenskra þjóðareinkenna.

    Við flugum með leiguvél frá SATA, öðru tveggja portúgalskra ríkisflugfélaga. Vélin var sams konar og flugfélagið sem áður þekktist sem Flugleiðir nota, Boeing 737-300.

    Annað sem að ég skil ekki röksemdir á bak við reyndar, þegar að allir eru búnir með matinn úr bökkunum (fínasti kjúklingur og pasta í þetta sinn) af hverju í ósköpunum er ekki hægt að taka bakkana þegar að gengið er um og þrjár umferðir af kaffi boðnar?

    Flugið var rúmir 4 tímar til Faro og ég hafði því nógan tíma til að byrja á og klára Second Foundation á leiðinni. Skemmtileg sería þessi frá Asimov, verð að finna rest.

    Við lendingu í Faro trítluðum við niður landganginn og í 25°C hita og talsverðan raka. Á flugvellinum eru reykingarmenn réttilega settir í skammarkrókinn, einn staur stendur þar rækilega merktur og aðeins við hann mega þeir standa og púa sitt eitur, frekar fyndið að horfa á, vantaði bara tossahattana.

    Sigurrós setti annað persónulegt met þegar að ferðataskan hennar var sú fyrsta sem að kom á færibandinu, mín fylgdi 4 töskum seinna. Hingað til hefur Sigurrós oftast þurft að bíða lengi vel eftir töskunni, og einu sinni í 5 daga þegar að taskan hafði viðdvöl í Peking á leið sinni milli Parísar og Keflavíkur.

    Við vorum því fyrst út og fundum strax fararstjórana sem að vísuðu okkur veginn að rútunum. Loftkælingin þar var gleðiefni. Eftir að hafa fyllt tvær rútur var haldið af stað til Albufeira þar sem við innrituðum okkur á 4-stjörnu hótelið Paraiso de Albufeira.

    Nú var farið að líða að kvöldmat og tókum við því strikið að verslunarklasanum sem er nefndur Modelo (eftir samnefndri stórverslun sem að tekur mest allt plássið þar). Þar niðri fundum við Pizza Hut stað og ákváðum að setjast þar að snæðingi, enda alvöru túristar í þessari ferð. Þjónustustúlkan reyndist glöggskyggn, við ætluðum að panta það sama og oftast hér heima, Hawaiian sem að er yfirleitt skinka og ananas. Hún bað okkur hins vegar að staðfesta að við vildum virkilega fá Hawaiian með túnfiski og rækjum. Við nánari skoðun á matseðli sáum við að Hawaiian hér var einmitt með þess konar áleggi, okkar pizza hét hér Tropical. Þjónustustúlkan brosti og kinkaði kolli, ætli einhverjir Íslendingar hafi ekki pantað Hawaiian eitthvert skiptið og gert allt vitlaust þegar að þeir fengu túnfiskinn.

    Með Tropical pizzunni fengum við okkur litla rauðvínsflösku, vatn og kartöflubroskalla, engar brauðstangir á boðstólum í þessu landi. Samtals kostaði þetta okkur 17 evrur, sem að eru um 1400 krónur. Talsvert ódýrara en heima.

    Versluðum smá morgunmat, vatnshelda myndavél og Sigurrós fékk sér bláa vindsæng með gulum blómum áður en við héldum í fína herbergið okkar.

    Þar horfðum við á Heavenly Creatures í gervihnattasjónvarpinu áður en við héldum í háttinn.

    Tunglið var appelsínugult þegar að það var rétt komið upp, greinilega þó nokkur mengun því að seinna um kvöldið þegar það var hátt á himni var það orðið hvítt eins og því fer best.

    Uncategorized

    Groove og samúð

    Búinn að vera að skoða Groove í dag, mjög áhugavert hópvinnukerfi sem að ég og félagi minn í Ameríku erum að meta núna hvort að sé sniðugt að nota við stjórnun WFO. Bjarni benti mér á þetta, faðir Lotus Notes stendur víst að þessu.

    Innilegar samúðarkveðjur fær Stefán Pálsson en bíll hans lést sviplega í gær. Þetta gerðist 50 metrum frá heimili mínu þar sem að bíllinn minn, Mazda 323 1987 módel sem að hefur verið trú og trygg undanfarin átta ár, svaf værum blundi og missti því af þessari sorgarstundu systur sinnar.

    Áhugavert er upphlaup Peter Chernins, forseta Fréttasamsteypunnar. Hann skammast yfir því rusli sem til er á Internetinu og segir að netið sé að verða verðlaust vegna kláms og annars ógáfulegs efnis. Ef svo er þá hljóta bókabúðir, bensínstöðvar og fleiri löngu að vera orðnar verðlausar vegna sorablaða sinna og slúðurblaða.

    Nú er hægt að fá Internet Explorer útlit á Mozilla þannig að grandalausir gætu verið að nota Mozilla án þess að vita af því. Kannski maður prófi þetta og athugi hvort einhver fatti breytinguna. Hér er svo að finna fleiri svona þemu fyrir vafrann sem er að komast í mikið uppáhald hjá mér.

    Í dag fór síðasta lánið í bili í gegn, yfirdrátturinn horfinn og íbúðin að fullu greidd til seljanda. Þá er bara að þola vextina af lánunum næstu tuttugu ár, afborganirnar af höfuðstólnum eru minnsta málið.

    Mikið ofboðslega er veðrið fúlt í dag og kvöld, hífandi rok og rigning. Það verður gott að sjá til sólar eftir 18 tíma eða svo.

    Uncategorized

    Þvo þvo þvo

    Undur gerðust í dag, það sást til sólar í Reykjavík!

    Í Portúgal ku hins vegar sjást til sólar daglega!

    Í dag hefur verið þvottadagur, það er betra að eiga hrein föt en skítug þegar lagt er í ferðalag (smá svona húsráð til þeirra sem ekki vita betur).

    Áhugavert:

  • Næstum rauntíma yfirlit Boston-flugvallar
  • Wil Wheaton: Europa