Monthly Archives: July 2004

Uncategorized

Ég er brjálaður

Rétt í þessu voru Grikkir að skora sigurmarkið á lokalokasekúndu framlengingar og slá Tékka út á EM 2004. Eftir að Nedved haltraði meiddur út af var enginn Tékki sem vildi taka af skarið nema einu sinni og einu sinni. Rosicky á langt í land með að verða alvöru, það er ekki alvöru að hlaupa tvisvar með boltann og sóla menn og standa svo restina af tímanum og gefa boltann strax til baka á menn á miðjunni, það hjálpar þeim ekkert.

Ég er alveg snælduhoppandi yfir þessu því að þetta var það næstversta sem getur gerst! Að lið sem að húkir við eigin vítateig og tosar í menn um allan völl og þess háttar leiðindi sé komið í úrslitaleikinn er stóráfall fyrir knattspyrnuna.

Ánægður sá maður á eftir liðum sem spila svona, Ítalir og Spánverjar heim með skottið á milli lappana og Króatar líka. Svo djöflast grískt-þýskt lið í gegnum þetta á neikvæðninni og er nú einu skrefi frá því að skemma stórfínt EM.

Það versta sem gæti gerst væri nefnilega að Grikkir ynnu Portúgali á sunnudaginn! Það yrði kjaftshögg fyrir knattspyrnuna sem hefur undanfarin ár þróast burt frá leiðindaboltanum sem Þjóðverjar og Norðmenn hafa notað um árabil yfir í skemmtilegri bolta eins og Hollendingar, Frakkar, Tékkar og Portúgalir spila.

Þetta er nú allt í bráðri hættu, sigur Grikkja gæti þýtt að lið um alla Evrópu leggðu nú enn meiri áherslu á svona neikvæðnibolta sem er vont vont vont mál!

Það að Grikkir séu litla Öskubuska er svo sem allt í lagi sjónarmið en stuðningsmenn þeirra ættu að viðurkenna að þetta er ekki sigur knattspyrnunnar.

Ég er enn hoppandi og sé fram á erfiða tíma ef að Grikkir vinna.

Áfram Portúgal!!!!!

Smá sárabót að horfa á kanínur sýna bíómyndir á 30 sekúndum, sjá The Exorcist, The Shining og Titanic útgáfurnar!