Monthly Archives: June 2004

Uncategorized

Fyrsta nóttin

Fyrsta nóttin að Betrabóli (2) var fín, við vorum bæði örmagna þannig að birtan sem skein inn um blúndugardínurnar, sem eru í svefnherberginu um sinn, truflaði okkur alls ekki.

Í dag var flutningum svo haldið áfram og nokkrar ferðir farnar með minni búslóðarhluti auk þess sem Guðbjörg og Magnús kláruðu málningarvinnuna.

Nýja vinnuherbergið er í endurskoðun, skrifborðið mitt sem passaði fínt á Flókagötunni er nú algjört skrímsli í Arnarsmáranum og þurfum við því að losa okkur við það (1 árs úr Hirzlunni, 180 cm breidd x 80 cm dýpt x 75cm hæð með lyklaborðsskúffu).

Þurfum að finna einhverja skemmtilega lausn á skipulagi þar.

20 mínútum fyrir leik kvöldsins var ég enn bara með snjó í sjónvarpinu mér til mikillar skelfingar, ég var með varaáætlun ef illa færi en sem betur fer náði ég loks mynd 15 mínútum fyrir upphaf leiks.

Fínt að fá Portúgalina áfram, Hollendingarnir eru búnir að vera eitthvað andlausir greyin og vantar einhvern inn á völlinn sem sparkar þá áfram, svipað og Nedved gerir hjá Tékkunum.

Uncategorized

Betraból útgáfa 2

Í dag fluttum við í útgáfu Betrabóls númer tvö. Meðal breytinga frá útgáfu eitt má nefna:

  • gestaherbergi
  • súð skorin burtu
  • svalir tvöfaldaðar
  • eldhús endurbætt
  • þvottahús fært upp um 3 hæðir
  • geymsluplássi breytt umtalsvert
  • auðveldur aðgangur að ruslatunnum
  • yngt upp um 40 ár
  • útsýni margfaldað
  • flutt í Kópavog

Við þetta má bæta ýmsu en ætli það verði ekki gert seinna.

Það var úrvalslið sem stóð með okkur í þessu í dag og síðustu daga og fá allir okkar allra bestu þakkir fyrir málningarvinnu, flutninga og aðra aðstoð.

Skýst núna með tilkynninguna til Hagstofunnar.

Uncategorized

Rennt yfir allt

Á meðan að ég var í vinnunni mætti vinnuflokkurinn í Arnarsmárann og hélt þar áfram að mála. Þegar ég kom loks upp úr kvöldmatarleyti eftir smá reddingar hérna á Flókagötunni var allt nema gangur og eldhús tilbúið sem er glæsilega að verki staðið.

Það var svo klárað nú í kvöld.

Það er svipað og síðast, ég mæti á staðinn þegar hinir eru búnir að mála fyrir mig, hef samt alltaf mjög góðar afsakanir!

Fleiri stórtíðinda er að vænta á morgun.

Tengill dagsins sýnir fram á að sjónvarp dregur úr svefnhormónum þannig að það er svo sannarlega (samkvæmt þessu) skaðvaldur þegar kemur að svefni.

Uncategorized

Buhuhu sandkassaleikur

Einhvern veginn er yfirburðasigur í kosningum orðið stórtap þrátt fyrir meirihlutafylgi, núna dúkkar líka allt í einu upp heildarhlutfall landsmanna og stuðningur við forseta, hvað fékk Sjálfstæðisflokkurinn aftur mörg atkvæði sem hlutfall af ÖLLUM atkvæðisbærum?

Sandkassaleikurinn sem er í gangi á stjórnarheimilinu og hjá öllum blindum bláliðum er ekki svaraverður.

Okkur vantar nú smið og símalagnamann, þurfum að flytja símatengil um eina 6-8 metra í nýja Betrabóli. Einhver sem þekkir til?

Frétt dagsins er um sterkasta 5 ára strák heims, sem er með gena”galla”.

Horfðum í gær á Freaky friday, fínasta afþreying.

Uncategorized

Tvenn lyklavöld

Í dag fengum við lyklana að Betrabóli (útgáfa 2) afhenta, einum 3 vikum á undan áætluðum tíma.

Þetta hentar okkur einstaklega vel þar sem við getum nú væntanlega boðið Jeroen og Jolöndu upp á sómasamlega gistingu.

Þessa dagana höldum við því tvö heimili þar til að við náum að koma öllu á hreint. Held reyndar að við verðum að redda einhverjum færum símamanni til að geta internetvætt tilvonandi vinnuherbergi öðruvísi en að leggja ljóta snúru einhverja 6 metra leið!

Uncategorized

EM, orgía og Hitler

Frakkar nenntu ekki að taka þátt í EM en lölluðust samt í 8-liða úrslitin. Áhugaleysið sýndi sig í dag þegar Grikkir unnu þá í frekar döprum leik.

Bush og Cheney svífast einskis, núna nota þeir Hitler í auglýsingu gegn Kerry.

Kýpverjar eiga annars ekki orð þessa dagana, það náðust myndir af orgíu sem fram fór í skipi fyrir undan ströndum þeirra og nú er allt brjálað. Grey fólkið fær víst ekki að gamna sér á alþjóðlegu hafsvæði, allt er bannað alls staðar.

Uncategorized

Seiglast áfram

Það fór eins og ég spáði… Portúgalir náðu að troða sér í undanúrslitin!

Englendingar gerðu sömu mistök og Hollendingar, þeir bökkuðu þegar þeir voru yfir og nóg eftir af leiknum!

Eitt sem ég gleymdi alveg í færslu minni í gær varðandi treyjur og FIFA. Forseti FIFA sagði að kvennaknattspyrnan ætti að taka upp þrengri búninga til að verða kynþokkafyllri til að laða að áhorfendur (sem er ótrúlega fáránlegt að heyra frá æðsta manni svona samtaka) en svo hafa þeir bannað þröngu búningana sem karlarnir í Kamerún hafa spilað í og nú að auki vilja þeir ekki lengur að menn sýni smá brjóst og maga (kvenmenn yfirleitt í haldara reyndar) til að fagna. Þeir snúast í hringi um sjálfa sig þarna þessir apakettir. Það var annars konan mín sem benti á í færslu sinni kynferðislega þáttinn sem mér yfirsást 😉

Annars er komin út ný þýðing (ensk) á Biblíunni sem er talsvert á skjön við fyrri þýðingar.

Uncategorized

EM og FIFA

Þá er ljóst að “stórlið” Spánar, Ítalíu og Þýskalands komu, sáu og áttu að skammast sín. Steingelt spilamennska þeirra sem miðaði aðallega að því að halda boltanum nálægt miðju er enginn missir að. Þess í stað hafa lið sem spila skemmtilegan bolta, sérstaklega Danir, komist áfram og eiga það vel skilið.

Þessi þrjú stórveldi verða að fara að átta sig á því að þær verða gjöra svo vel og spila alvöru fótbolta ef þær ætla sér eitthvað.

FIFA eru magnaðir, núna vilja þeir ekki að menn fagni of mikið á vellinum:

Removing one’s shirt after scoring is unnecessary and players should avoid such excessive displays of joy.

Um þetta má lesa á vef þeirra sem og skoða skjal sem sýnir hvað er gult og hvað ekki.

Já… það er eins og leikmenn haldi að þetta sé einhver leikur! Næst verða það gul spjöld fyrir að brosa…

Uncategorized

Asimov og ruslpóstur

Í dag var boðið upp á ís og súkkulaðisósu í vinnunni í tilefni sumarsins. Ég hef gefist upp á ísáti, þetta er voðalega gott en mjólkuróþolið vegur bara meira þannig að ég tölti út á Select og fékk mér frostpinna.

Í tilefni af því að verið er að gera mynd eftir smásagnasafni Isaacs Asimov, “I, Robot” spjallar Wired við leikstjórann (sem gerði meðal annars Dark City) og birtir greinarstúf um Asimov. Frábærar sögur, hef lesið þær flestar eins og nokkurn veginn allir sem eitthvað hafa kíkt í sci-fi geirann.

Blindir notendur lenda heldur illa í ruslpóstinum, þeir þurfa að hlusta á forritin lesa upp titil hvers einasta bréfs, og það tekur tíma.

Uncategorized

Stórmót og gestgjafar

Eitt af lykilatriðunum þegar stórmót í knattspyrnu er haldið er að heimaliðinu (stundum liðunum) gangi vel. Það pumpar upp alla stemmninguna í kringum atburðinn og gerir atburðinn enn ánægjulegri. Þess vegna var ég feginn að sjá að Portúgalir komust áfram á EM 2004.

Stemmningin í Frakklandi stigmagnaðist 1998 þegar ég var þar á HM, eftir hvern leik sá maður stemmninguna magnast og hámarki náði hún auðvitað eftir sigurleikinn þegar milljón manns (bókstaflega!) safnaðist saman á Champs Elysées og fagnaði þar titlinum.

Knattspyrna er stærsta íþrótt heimsins, það er bara svo einfalt. Þátttakendafjöldi er meiri í einstaka öðrum greinum en þegar kemur að EM eða HM þá eru það bara ólympíuleikarnir sem komast nálægt þeim hvað áhorf og vinsældir og áhrif á almenning um heim allan varðar.

Ég elska svona.