Ég fór í dag til að greiða atkvæði í forsetakosningunum 2020 og var alveg lokið þegar ég sá snautlegan kjörseðilinn sem var 10 sekúndna vinna í Word á bakvið að því manni sýndist.
Af því tilefni sendi ég þetta erindi á dómsmálaráðherra, dómsmálaráðuneytið, formenn yfirkjörstjórna og formenn kjörstjórna sveitarfélaga. Það nefnilega gætu ansi mörg atkvæði orðið ógild ef þetta er ekki tæklað á þann hátt sem virðir vilja kjósenda.
Vinnustofan fer fram sunnudaginn 17. september – nánari staðsetning auglýst síðar.
Nú í september mætir starfsfólk frá Mapillary til Íslands í vinnuferð. Í lok ferðar ætla þau að halda vinnustofu handa þeim sem eru áhugasamir um það sem þau bjóða upp á – áhugafólk um gervigreind, tölvusýn, götumyndir og samfélagsvirkni ætti að gefa þessu tækifæri.
Í grunninn er Mapillary þjónusta áþekk Google StreetView og 360° frá já.is – gallinn við þær þjónustur er hversu sjaldan myndir þar eru uppfærðar sem og að þær sinna bara þeim götum sem þeim þóknast.
Mapillary leysir þetta með því að almenningur getur sent inn sínar eigin myndir með staðsetningu og þannig kortlagt umhverfi sitt sem og breytingar þar í gegnum tímann. Myndirnar eru ávallt frjálsar til einkanota og fyrir hugsjónastarfsemi (non-profit). Göngustígar, hjólastígar, óbyggðaslóðir, almenningsgarðar – hvað sem manni dettur í hug auk gatnakerfisins.
Myndirnar eru svo keyrðar inn í gervigreindarvél Mapillary sem lærir að þekkja þrívíddina í þeim – greinir hjól, byggingar, vegi, veglínur, umferðarskilti og fleira. Þau gögn geta fyrirtæki svo nýtt sér (til dæmis sem punktaský), til dæmis við þróun sjálfkeyrandi ökutækja – gögnin eru svo notuð til dæmis í OpenStreetMap við að kortleggja umferðarskilti og nota upplýsingar þar til að setja inn hámarkshraða, akstursstefnu og fleira.
Dæmi um tímaþáttinn er að geta séð þróunina við Dalveg þar sem nýlega voru sett upp umferðarljós. Þessar 5 myndir sýna þróunina, frá því að þar var gríðarleg slysahætta, yfir í framkvæmdir, gátljós og loks umferðarljós. Slík skrásetning getur verið gríðarlega mikilvæg þegar farið er yfir umferðarmál og aðgengismál og auðveldar að benda öðrum á þar sem misbrestir eru, á vettvangi sem allir hafa aðgang að.
Miklar framfarir hafa átt sér stað í stígagerð undanfarið – bæði fyrir gangandi og hjólandi.
Sveitarfélögin sjá hvert um sig um utanumhald og uppbyggingu eigin stíga og með mörg
sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu auk Vegagerðarinnar, sem á margar af helstu umferðargötunum,
þarf umtalsvert samstarf þeirra til að skapa sem besta umgjörð. Að því samstarfi þarf svo
hjólareiðafólk að koma því að ekki er víst að ákvarðanir sem teknar eru nýtist hjólreiðafólki. Um
það eru þó nokkur dæmi.
Tengingar Kópavogs og Reykjavíkur fara batnandi, nýlegur stígur milli Lindahverfis og Mjóddar
var gríðarleg framför og tengingar við Suðurhlíðar og Fossvog hafa stórbatnað með stígagerð milli
Sæbólshverfis og Lundar. Hægt er að fara í lengri ferðir þar sem varla þarf að þvera götur. Þetta
gerir hjólreiðar enn aðgengilegri fyrir þá sem hafa hingað til ekki treyst sér í að hjóla á götum en
geta nú hjólað á öruggari stígum – sér til yndisauka sem og til að sinna erindum. Sannkallaðar
hjólaþjóðleiðir eru því að myndast.
Á móti kemur að tengingar við Garðabæ og í framhaldinu Hafnarfjörð eru illa aðgengilegar. Stígur
sem verið er að klára sem þverar Arnarnesið verður fyrsta alvöru leiðin til að tengja saman Kópavog
og syðri bæjarfélögin. Undirgöng sem koma áttu á kolli Nónhæðar nálægt Arnarsmára og þvera
Arnarnesveg voru á forræði Vegagerðarinnar sem ákvað að færa þau lengra til austurs þar sem engin
tenging er við stíga Kópavogsmegin. Fín undirgöng þar nýtast illa öðrum en vönu hjólafólki sem
heldur svo niður Hlíðarsmárann og yfir bílastæði Smáralindar og Smáratorgs niður að betri stígum
við Lindir.
Þetta er ekki leið sem maður færi með börnin og ekki leið sem óvant hjólafólk ætti að fara. Sár
vöntun er á tengingu í þessum hluta því að Garðabæjarmegin tekur við fínasti blandaði stígur. Þarna
er dæmi um ákvörðun sem átti að nýtast á teikniborðinu en virkar ekki í raun nema með enn meiri
framkvæmdum. Til að gera hjólreiðar aðgengilegar öllum þarf að hugsa um hjólaþjóðleiðir sem nýtast líka þeim sem hægar og varlegar fara.
Þetta hljómaði eins og firrt framtíðarsýn (dystópía). Einkafyrirtæki lokaði af 2 af 5 hverfum Kópavogs og skipti í litasvæði. Aðeins þeir sem höfðu þessa liti máttu yfirhöfuð aka inn á svæðið og enginn akstur leyfður á milli litasvæða. Hugurinn reikaði til bókaflokksins The Hunger Games með svæðin þrettán og bókarinnar Shades of Grey eftir Jasper Fforde þar sem litnæmni augans flokkaði þig í þjóðfélagsstöðu.
Reyndin varð nú ekki eins firrt og þetta var auglýst. Í framkvæmd voru lokanir ekki eins grimmar og auglýst hafði verið, atvinnuhverfinu við Urðarhvarf var ekki lokað eins og auglýst hafði verið og íbúar Linda komust að mestu leiðar sinnar. Einstaka aðilar sem ekki höfðu bílapassa en gáfu gildar ástæður virtust fá að komast leiðar sinnar.
Lögreglan vann skýrslu varðandi umferðina sem bar titilinn Tónleikar í Kórnum 2014, Umferðargreining þar sem lokanir voru engar í Linda- né Salahverfi heldur ekki fyrr en í Kórahverfi. Endanlegar lokanir sem urðu umfangsmeiri voru ákveðnar af Senu í samráði við verkfræðistofu. Sena hafði vald til þess að ákveða lokanir því að sveitarfélagið framselur rétt til umferðarstjórnunar til viðburðarhaldara. Almenningur verður var við það í kringum stærri atburði, til dæmis Menningarnótt í Reykjavík þar sem 4 þúsund íbúar lúta umferðartakmörkunum en þetta hefur aldrei verið svona stórt í sniðum áður, 10 þúsund íbúar voru settir undir umferðarstjórnun Senu.
Umferðarlíkan Senu voru líklega forsendurnar að því að íbúar sem bjuggu austanmegin við Kórinn fengu afslátt á tónleikana en þeir íbúar sem bjuggu næst Kórnum og voru þá vestanmegin fengu ekki afslátt.
Tónleikarnir voru auglýstir sem þeir stærstu innandyra á landinu með 16 þúsund miða selda, eldra fólk man þó eftir tónleikum Metallicu í Egilshöll 4. júlí 2004 þar sem 18 þúsund miðar voru seldir.
Framkvæmdin
Bílapassarnir sem gáfu íbúum réttindi til að keyra inn á sitt litasvæði komu í hús á föstudegi fyrir íbúa til að nota á sunnudegi.
Frumtilgangurinn að koma tónleikagestum fljótt og örugglega til og frá svæðinu virðist hafa gengið vel. Bílastæði við Smáralind voru þéttsetin og raðir í strætisvagna sem komu mjög ört að tímabundnu stoppistöðinni sem var komið upp þar. Strætisvagnasamgöngurnar virkuðu mjög vel og ferðatíðnin var mjög ör.
Litakortagæslan við Lindahverfið hófst við stóra hringtorgið þar sem þeir sem voru að fara upp Fífuhvammsveg voru beðnir um að sýna bílapassa sín eða snúa við ella. Þá gæslu sáu starfsmenn Senu um, þeir voru úr Hjálparsveit skáta í Kópavogi þegar ég átti leið sjálfur þar um á hjóli. Lögreglan var viðstödd en horfði eingöngu á.
Engin gæsla var við hringtorgið við Salaveg en tímabundin umferðarmerki voru til staðar. Næsti gæslustaður var hringtorgið á móti Fífuhvammsvegar og Arnarnesvegar. Enn voru merkingar við Sólarsali og Salaveg en næsti gæslustaður var svo sá sem lögreglan hafði séð fyrir sér, við hringtorgið Rjúpnavegi.
Hinum megin frá var fyrsti gæslustaður hringtorgið við Vatnsendahvarf og Vatnsendaveg. Þar var líka tímabundin stoppistöð og bílastæði sem voru notuð en þó nokkuð minna en í Smáralind. Göngustígur þar við var merktur tónleikunum fyrir þá sem ekki vildu taka strætisvagnana.
Talsverð umferð var á göngustígum, einkum Landamærastígnum svonefnda sem liggur milli Linda- og Salahverfa Kópavogs annars vegar og Seljahverfis Reykjavíkur hins vegar. Við Kórinn var búið að útbúa sérstakt hjólastæði úr lausu grindverki austanmegin en mun fleiri lögðu þó hjólum sínum vestanmegin þar sem þeir læstu við grindverk.
Umferð úr hverfinu að tónleikum loknum gekk greiðlega með aðstoð lögreglunnar sem stjórnaði umferð fyrir neðan Ögurhvarf þar sem umferðarljósin voru ekki nógu greiðvikin.
Eftirmálar
Tónleikahaldarar voru afar ánægðir og voru æstir í að endurtaka leikinn með aðra stórtónleika í Kórnum.
Gestir voru misánægðir, sviðið var ekki mjög hátt uppi og þeir sem voru á gólfinu sáu margir hverjir ekkert af tónleikunum sjálfum á sviðinu nema þeir kveiktu á símum sínum og horfðu á útsendinguna þar. Upplifunin þótti þó frábær og listamaðurinn stóð við sitt og rúmlega það.
Íbúar voru margir hverjir ánægðir með hversu greiðlega gekk að komast heim með bílapössum en eitthvað var um að íbúar kvörtuðu undan því á sunnudeginum að hafa ekki fengið bílapassa. Sumir urðu varir við það að bílum fjölgaði allhratt á bílastæðum fjölbýlishúsa rétt fyrir klukkan 16, tónleikagestir sem ekki tímdu að taka ókeypis strætisvagna þar á ferð.
Það er spurning hversu réttlætanlegt það er þó að setja ferðahömlur á 10.000 íbúa vegna tónleikaviðburðar. Eitt skipti er áhugavert en hversu oft getur þetta orðið. Eru tónleikar einu sinni á ári ásættanlegir? En tvisvar? En sex sinnum? Ef bara póstnúmer 203 lýtur lokunum þá fækkar íbúum með ferðahömlur í 7.000. Er það betri tala? Hversu oft?
Er Íslendingum treystandi til að nota almenningssamgöngur af bílastæðum án þess að grípa þurfi til svona lokana? Myndu stóratburðir í Kórnum virka ef sú aðferð væri reynd? Það væri óskandi og mætti hugsanlega þjálfa Íslendinga upp í því.
Fyrirspurnir varabæjarfulltrúans Sigurjóns Jónssonar komu skriðu á önnur mál. Svo virðist sem að ósk bæjarstjórans um boðsmiða fyrir aðalbæjarfulltrúa og maka þeirra sem og þeir sem þáðu þessa boðsmiða hafi gerst sekir um brot á siðareglum Kópavogsbæjar. Bæjarstjóri vildi ekki upplýsa leiguverðið sem bærinn fékk fyrir Kórinn þó að nýr meirihluti hafi samþykkt að opna bókhaldið í málefnasamningi.
Karen Halldórsdóttir bæjarfulltrúi birti ágætis pistil þar sem hún einblíndi meira á þau atriði sem hefur verið tæpt á hérna varðandi umferð og utanumhald en minntist ekki á opna bókhaldið.
Svarið fékkst þó að lokum og var áætlaður gróði af atburðinum 5,5 milljónir. Þetta er gróði upp á 550 krónur per íbúa sem voru litamerktir.
Þetta mál þarf að skoða aftur frá öllum hliðum. Kórinn er frábært mannvirki og það stórt að hann er enn ekki kominn í fulla notkun. En þetta er stórt mannvirki með sárafá bílastæði á vondum stað, umkringdur þéttri íbúabyggð fleiri kílómetra í hvora átt. Hvenær er réttlætanlegt að atburður einkafyrirtækis loki hverfum þar sem 10.000 íbúar búa? Hversu oft er hægt að réttlæta það? Er það sjálfsagt að það sé árlegur atburður? En fjórum sinnum á ári? Hvert er langlundargeð íbúa og annara sem ætla að nota þessar samgönguæðar?
[osm_map lat=”64.083″ lon=”-21.826″ zoom=”15″ width=”600″ height=”450″ ]
Stytt útgáfa af þessari færslu birtist í Kópavogsblaðinu 7. september 2014
Permalink|Comments Off on Litaveislan mikla í Kórnum
Í dag birtist grein á knuz.is þar sem er talað um þau viðbrögð sem Margrét Erla Maack fékk fyrir að mæta í HM-stofuna til að tala þar um áhugaleysi sitt á fótbolta. Það er auðvitað stór skandall hvaða fúkyrðaflaum hún mætti fyrir að mæta þar sem kona og engum til sóma. Það er hins vegar ekki eini skandallinn.
Sjálfur hef ég ekki séð þáttinn né fúkyrðaflauminn nema það sem talað er um í greininni en ástæðan sem hún gefur upp fyrir að mæta, með semingi, er vond.
Tilvitnun er þarna úr Nýju lífi og þar segir
Ég hef margoft lent í þessu en nýlegasta dæmið var þegar ég var beðin um að vera gestur í HM-stofunni hjá Birni Braga en hann vildi taka viðtal við mig þar sem ég skil ekki fótbolta. Ég afþakkaði boðið því mér fannst þetta álíka asnalegt og að tala við fólk á kosninganótt sem hefur ekki áhuga á pólitík. Þegar hann hringdi aftur og sagði að ég yrði að koma því að þeir væru ekki að standa sig nógu vel í kynjakvótanum þá náði hann mér
[…]
Eins og ég hefði grátbeðið um að koma í þáttinn!
Þarna er ég fyllilega sammála fyrstu viðbrögðum Margrétar, að afþakka boðið enda ljóst að hún myndi litlu bæta við þátt um knattspyrnu – enda ekki hennar sérsvið. Hún er án efa frábær viðtals um margt annað en vissi takmörk sín og tók góða ákvörðun.
Það að þáttastjórnandinn sé svona ægilega illa að starfi sínu vaxinn að hann hringi aftur og þrábiðji og vísi í kynjakvótann er eitt. En að Margrét falli fyrir því og samþykki að mæta, í nafni kynjakvótans, er hinn skandallinn í þessu máli.
Ef hún hefði afþakkað aftur hefði Björn Bragi kannski þurft að vinna vinnuna sína og náð í annan kvenmann, nú einhvern sem hefur þekkingu á fótbolta. Sjálfboðaliðar spruttu strax upp á Twitter við lestur þessarar greinar á knuz.is og hefðu án efa boðið sig fram hefði Björn Bragi bara spurt eftir kvenfólki sem gæti mætt og orðið sér sjálfu til sóma í umræðum um knattspyrnu.
Með því að samþykkja boðið var því Margrét að gera kynsystrum sínum grikk. Það réttlætir ekki verstu viðbrögðin en það er óverjandi fyrir hana og þáttastjórnanda að hafa svona “kjósandi sem veit ekkert” stund, hvort sem umræðuefnið var fótbolti, tryggingakerfið, gjaldeyrishöft eða annað.
Konur, eða karlar ef þannig hallar á, sem samþykkja að mæta sem kvótadúkkan gera meira ógagn en gagn í jafnréttisbaráttunni.
Það var árið 2009 sem ég kom fyrst auga á OpenStreetMap og gerði tvær breytingar á því, setti svo inn aðra breytingu 2012 og það var ekki fyrr en í ár sem að ég fór að gera eitthvað af viti þar.
OpenStreetMap er sumsé kort af heiminum búið til á svipaðan máta og Wikipedia er skrifuð, af þúsundum sjálfboðaliða. Af hverju er verið að vesenast í svona þegar Google Maps hefur sannað sig fyrir mörgum og fleiri komnir í hituna? Af því að þarna er auðveldara að laga villur og þessi gögn eru í almannaeign þannig að það er hægt að ná í þau og nota í eigin tilgangi. Það er ekki hægt hjá Google og öðrum heldur þarf að greiða fyrir notkun á gögnum þeirra.
Ég er búinn að vera að teikna Nónhæðarhluta Smárahverfis upp. Það er mjög einfalt reyndar, ég fer á OpenStreetMap, finn þar hverfið mitt og smelli á Edit (það þarf að skrá sig inn, það er ókeypis og auðvelt). Það er hægt að velja um 2 mismunandi ritla til að breyta í vafranum, iD ritillinn þarna er nýr og með mjög góða kynningu á sjálfum sér og hvernig hægt er að teikna á kort.
Þá fæ ég upp loftmynd af hverfinu og tól til þess að teikna upp götur, hús og hvað eina sem er á korti. Sem stendur er ég að vinna í að klára Nónhæðina.
Ég ákvað að bera kortið mitt við ja.is sem notar gögn frá Samsýn. Vinstri myndin er útgáfa ja.is og hægri myndin er útgáfa OpenStreetMap. Á ja.is myndinni hef ég sett nokkra rauða hringi, þetta eru byggingar sem eru ekki til!
Þær eru líklega til á uppdrætti, þetta eru bílskúrar en svo vill til að bara er búið að byggja helminginn af þeim, restin er ekki á leiðinni næstu árin enda þurfa allir sem eiga rétt á að byggja bílskúr að sameinast um það í hverju fjölbýli fyrir sig. Rauði hringurinn lengst til hægri er svo spennistöð, hún er merkt sem Arnarsmári 28a og hefur gert okkur lífið leitt þegar við notum straeto.is því að hann kemur alltaf upp á undan 28.
Samsýn/ja.is nota þarna líklega opinbera uppdrætti, það má sjá að byggingarnar þeirra eru nákvæmari að lögun. En þessir uppdrættir innihalda líka þessar draugabyggingar, það er áhugavert að velta því fyrir sér hvort að heilu draugahverfin séu til á kortum ja.is.
Ég ákvað að skoða þéttbýliskjarna á Íslandi og bjó til lista yfir þá staði sem vantar loftmyndir á og þá sem vantar byggingar á (og hver sem er getur núna farið og bætt við á OSM). OSM-kortið fyrir Ísland á talsvert í land, en í Reykjavík og á mörgum öðrum stöðum stendur það jafnfætis við Google Maps, ja.is og fleiri.
Ég hvet fólk sem hefur gaman af kortum (við erum til og fleiri en menn ætla!) að kíkja á þetta og skoða hvort að það vilji þó ekki nema uppfæra götuna sína, ef ekki meir.
Við Ragna Björk röltum hjá Smáraskóla í dag og hún lék sér í leiktækjunum þar. Þar sá ég mér til skelfingar suddalegan frágang, þar sem afsöguð rör standa upp úr jörðinni með hvassar brúnir, beint við klifurgrindur. Það er rúm vika þar til nemendur mæta aftur í skólann og ég vona að þessar dauðagildrur sem við rákumst á verði farnar þá.
Það eru miklar klifurgrindur þarna, börnin í vel 3 metra hæð í þeirri stærri, og beint fyrir neðan þessar tvær klifurgrindur eru afsöguð rör með hvassar brúnir, hvort um sig nærri 30 sentimetrar að lengd.
Fyrri gildran:
Seinni gildran:
Sendi þetta erindi á Kópavogsbæ og vona að þetta komist í lag sem fyrst.
Til hamingju með að vera orðinn umferðarljósastjóri höfuðborgarsvæðisins.
Þú getur ef til vill lagað þau ljós sem nú um stundir angra marga og valda síendurteknum umferðarbrotum þar sem ökumenn gefast upp á biðinni á rauðu ljósi og fara yfir, eftir að hafa verið sniðgengnir af ljósakerfinu allt að 4 sinnum.
Hér að ofan getur að líta hvað um er að ræða. Gula pílan sýnir vinstri beygjuljós af Hagasmára yfir á Smárahvammsveg. Stundum eru ljósin regluleg, hver átt fær sitt græna ljós og svo næsta koll af kolli (upp og niður Smárahvammsveg, beygja af Smárahvammsvegi til vinstri á Hagasmára og svo Hagasmári til vinstri upp Smárahvammsveg).
Stundum er vinstri beygju úr Hagasmára sleppt annað hvert sinn, stundum kemur það í þriðja hvert sinn og nýlega voru það fjögur skipti sem vinstri beygjunni var sleppt! Þetta nálgaðist 5 mínútur, og á endanum trillaði mest af bílalestinni yfir galtóm gatnamótin gegn rauðu ljósi.
Ég sé þetta nú dags daglega að ökumenn eru hættir að virða ljósin á þessari vinstri beygju, svo oft hafa þessi ljós bitið þá, þeir hafa setið á galtómum gatnamótum í bílalest sem bíður eftir þessari vinstri beygju. Það er jafnvel flautað á þá sem fremstir eru og virða rauða ljósið.
Þessi ráðstöfun er stórundarleg, ekki er hægt að sjá að umferð í vinstri beygjuna sé neitt minni en umferð upp og niður Smárahvammsveg, sem og vinstri beygja af Smárahvammsveg.
Þessum ljósum þarf að breyta, þetta gengur ekki og þessi ráðstöfun minnir mann á “með lögum skal land byggja en ólögum eyða” þar sem þessi ljósastilling fer að ala upp í mönnum fyrirlitningu á umferðarljósum þegar þau eru jafn galin og þarna gerist.
Morgunblaðið birti frétt um að ekki stæði til að setja samskiptareglur við trúfélög í nokkrum sveitarfélögum, þar með töldum Kópavogi.
Ég var því snöggur að senda athugasemd á Kópavogsbæ þar sem ég óskaði eftir samskiptareglum trú- og stjórnmálafélaga við menntastofnanir, enda sé ég ekki mun á því að prestur eða stjórnmálamaður innprenti börnunum söguskoðun, bæði er gjörsamlega ólíðandi.
Fór í kvöld á fund Kópavogsbæjar þar sem kynning fór fram á fyrirhuguðum breytingum á aðalskipulagi Glaðheima (þar sem nú eru hesthús, skeiðvöllur og áhaldahús) þar sem pota á 158.000 m2 af verslun, þjónustu og íbúðum, sem og breytingum á Skógarlind 2 þar sem pota á allt að 6 auka hæðum ofan á fyrirhugaða 3-hæða skrifstofubyggingu.
Fundurinn var mun settlegri en þegar Nónborgardæmið var í gangi, embættismennirnir vel undirbúnir og gátu svarað meiru en þá. Fékk það svo staðfest eftir fundinn að síðan að tillögum að Arnarsmára 32 og Nónborgar var hafnað hefur ekki heyrst meira frá lóðareigendum þar.
Ég er búinn að pota mér inn í stjórn Nónhæðarsamtakanna og ætla að reyna að kemba hverfið á næstu vikum og finna þar það sem athugavert er og skila vandlegri greinargerð inn.