Monthly Archives: November 2002

Uncategorized

Manndrápsvopn

Mætti í skólann klukkan 10 og fór heim klukkan 18. Vinna við jólaverkefnið í fullum gangi, tíminn flýgur.

Þegar heim var komið eldaði Sigurrós fínasta mat úr Bónus-kjöti sem að virðist vera orðið vel boðlegt, sló út kjöt sem hefur verið keypt í Hagkaupum og 10-11.

Eftir matinn hélt ég áfram að vinna í verkefninu og horfði svo með öðru auganu á Lethal Weapon 4, þessi sería slær Bond léttilega út enda meiri húmor, raunverulegri hasaratriði, betri söguþráður og alvöru persónusköpun. Manni finnst nú að maður eigi að sjá nýjustu Bond-myndina, samt er ekki mikill æsingur í manni að sjá enn eina útblásna B-myndina. Held að ég hafi séð tvær af síðustu þremur Bond-myndum aðeins á myndbandi.

Uncategorized

Tvöfalt afmæli, neikvæðni og jákvæðni

Fyrst ber að nefna að foreldrar mínir eiga afmæli í dag. Það er auðvitað algjör snilld að þau eigi sama afmælisdag, það fækkar fjölda daga sem þarf að muna. Engin stórafmæli en þó er stór áfangi í dag hjá föður mínum, flyst nú yfir á annan vinnustað fyrirtækisins eftir rúm tuttugu ár á sama stað.

Hæstiréttur, hin fræga verndarhendi barnaníðinga og annara ofbeldismanna, er nú líka orðinn refsivöndur bandarískra stórfyrirtækja sem reka ekki starfsemi hér á landi en gera samt tilkall til þess að eiga einkarétt á íslenska léninu ups.is, sjá frétt á Vísi og dóm Hæstaréttar.

Óvenju viðeigandi fyrirsögn á þessari frétt New York Times, 6 Israelis Die at Polling Station; Sharon Wins. Sharon er með hendur flekkaðar blóði þúsunda manna, fátt meira viðeigandi en að honum sé greiddur blóðskattur í formi eigin flokksfélaga (já.. þetta hljómar helvíti kaldranalega). Ísland er sníkjudýr í heimi alþjóðastjórnmála, það gæti hafið sig upp í hlutverk músar ef það öskraði að það setti viðskiptabann á Ísrael þar til allar landnemabyggðir hafa verið fjarlægðar af ísraelsku landi (mikilvægt skref í átt að framtíðarfriði).

Talandi um Ísland, nú hefur allur heimurinn fengið fréttirnar af krókódílamálunum hér heima í gegnum skeyti Reuters. Sjálfur efast ég um að krókódílar verði meiri skaðræðiskvikindi en blessaðar rollurnar sem heimta þó nokkur mannslíf í umferðinni.

Annars er ekki allt neikvætt þó að ýmislegt neikvætt sleppi hér af lyklaborðinu, undanfarna daga hef ég verið að hlýða á snilldartónlist frá Xploding PlastiX af disknum Amateur Girlfriends Go Proskirt Agents. Má greina áhrif frá kvikmyndatónlist og Amon Tobin. Snilldarverk.

Þeir eru reffilegir á myndum hins opinbera vefs Norður-Kóreustjórnar feðgarnir Kim. Hægt að skoða vefinn á ensku, spænsku, kínversku, esperanto og norsku!

Er ég kominn með skrifræpu? Nei… bara dreifa huganum aðeins frá vinnu og skóla þar sem allt er á fullu og meira en það.

Uncategorized

Hlutabréfamarkaðurinn

Nei, fjarri því að ég spili þar. Ég á reyndar eitt hlutabréf í Búnaðarbankanum eins og tugþúsundir annara Íslendinga.

Jólaverkefnið hófst af fulllum krafti hjá okkur í dag, fundað stíft og allt komið í fullt swing. Það er eins gott því að á mánudag skilum við verkskýrslu og á miðvikudag hönnunarskýrslu. Allir klasar, eigindi, servlet, jsp-síður, javabaunir og hvað þetta er allt á þá að liggja fyrir í smáatriðum.

Það verður lítið um fjör á þessum bæ fyrr en í lokaþriðjungi desembermánaðar.

Talandi um gerð tölvuforrita… hvaða argandi snillingur bjó til þjóðskrána og takmarkaði nafnalengd við 31 staf? Hvaða argandi yfirmaður reynir svo ekki að koma þjóðskránni í nútímalegt horf þannig að hún þjóni þegnunum en standi ekki í stappi við þá? Fréttablaðið greindi líka frá því að póstur á dánarbú fer allur á síðasta skráða heimilisfang hins látna. Oftast eru heimilin seld en pósturinn fer samt sem áður þangað. Mikið af mikilvægum pappírum sem hafa glatast vegna þessa.

Ég held að málið með opinberar stofnanir og það að þær séu verri en einkafyrirtæki sé ekki að ríkið geti eðli málsins ekki verið góður vinnuveitandi. Það eru bara ekki ráðnir hæfustu stjórnendurnir og æviráðningar gera alla sljóa og metnaðarlitla. Það vantar fleiri metnaðarfulla stjórnendur í anda Páls Gunnars Pálssonar forstjóra FME. Það má leysa örugglega flest vandamálin með smá lagfæringum á verkferlum og öðru frekar en að einkavæða. Stjórnendur opinberra fyrirtækja bera ábyrgð gagnvart skattgreiðendum en stjórnendur einkafyrirtækja bera ábyrgð aðeins gagnvart hluthöfum, ég veit hvorn aðilann ég vil frekar hafa þegar um er að ræða svona sértæka upplýsingaþjónustu sem ætti ekki að skila arði.

Ofangreint er skoðun mín og ekki rökstutt með dæmum, tilvísunum eða rannsóknum. Tíma til þess að rannsaka málin ofan í kjölinn er ekki að finna hjá mér á þessum áratug held ég…

Uncategorized

Jólaverkefni, kynlífshandjárn og framhjáhald

Jólaverkefnistörnin hófst í dag, fengum afhenta skýrslu yfir það sem farið er fram á. 3 vikur til að búa til netleikjaþjónustu og nota til þess EJB-baunir (sem eru í litlu uppáhaldi). Þegar maður er að vinna með þessu jafnframt þá verður þetta svolítið mikið, bless bless líf þar til 19. desember.

Konur eru mun kræfari en karlar, hvort sem við erum að tala um handjárn í rúminu eða framhjáhald í vinnunni. Svo halda unglingsstrákar að stelpur séu svo heilagar… kannski varnaraðferð nútímaþjóðfélags svo þær endi ekki allar ófrískar 17 ára? :p

Kona í Kambódíu ætlaði að minnsta kosti ekki að láta það henda dóttur sína heldur negldi hana við gólfið. Ótrúlegt.

Sniðugt.. breyta skólum í virki… þá færist ofbeldið bara út fyrir veggina þar sem ekkert eftirlit er hægt að hafa. Eitthvað vantar þarna upp á til að þetta virki, hvernig væri að ráðast að rótum vandans? Þessir forpokuðu íhaldsmenn… stærri byssur og meiri gaddavír er þeirra svar við öllu.

Mér er sama hvað þorra allra finnst, bjór er ferlegur á bragðið en kannski má baða sig upp úr honum.

Furðu gáfuleg grein á Deiglunni! Í svona stórum hópi höfunda hljóta að leynast einstaklingar sem ekki eru siðferðislega blindir og er það vel.

Uncategorized

Rós er Rós

Las í gærkvöldi fyrstu bókina af þeim 8 sem ég fékk í sendingunni í gær, fyrir valinu varð Rose is Rose: 15th Anniversary Collection. Nýja myndasögu um Rós og alla hina er hægt að sjá hér.

Hvaða fyrirtæki ætli hafi laumað seðlum að þessum nefndarmönnum? Sjónvarps-, útvarps- og internetfréttaveitur of hægar til að vara við? Venjulega eru þessir miðlar komnir á staðinn áður en stjórnvöld átta sig á því hvað gerðist og hvers vegna, hvað þá hvað eigi að gera.

Áhugavert:

 • The 9/11 movie Hollywood won’t let you see
 • How mushrooms will save the world
 • King’s Dog Book Sells Out on First Day
 • Uncategorized

  Tveir pakkar!

  Þar sem ég var á leiðinni út á fund í kvöld mætti ég póstsendli sem var með tvo pakka til mín! Reyndar vissi ég vel af því að þeir voru á leiðinni, pantaði bækur og fleira á Amazon.com og Amazon.co.uk og hitti svona vel á að þeir komu sama dag.

  Þá er leslistinn af bókum sem ekki eru skólabækur orðinn myndarlegur, reyndar ekki líklegt að ég byrji á þeim fyrr en eftir lokaverkefnið, nema ég lesi eins og eina á morgun…

  Vægi tölvuleikja í afþreyingarmenningu nútímamanna er sífellt að fá meiri viðurkenningu, nú eru Bretar farnir að vera með alvöru “atvinnumanna”mót.

  Uncategorized

  Fyrsti eftir próf

  Já nú er ég eiginlega orðlaus. Eftir að Halldór Ásgrímsson og fleiri pólitíkusar hafa varað við hryðjuverkaárásum á Ísland (sem ég tek mjög mátulega trúanlega) þá sendir Ástþór Magnússon tilkynningu um að slík árás sé einmitt orðin líkleg og Friður 2000 hafi sterkan grun um það. Auðvitað gengur ekki í svona nútíma einræðisríki eins og Íslandi að aðrir en kjörnir embættismenn segi svona bull og vitleysu og því er grey Ástþór hnepptur í gæsluvarðhald og húsleit gerð á heimili hans. Þessi aðvörun hans er nefnilega talin sem hótun af yfirvöldum!

  Nú er ég alveg orðinn orðlaus, mannréttindabrot og tjáningarhamlanir eru orðin raunveruleikinn á Íslandi. Eru mennirnir við stjórnvölinn orðnir vanheilir á geði? Á ég á hættu húsleit fyrir að velta því einu sinni fyrir mér?

  Áhugavert:

 • Girls leveling the soccer field — one boy at a time
 • Gullkorn frá Halldóri Ásgrímssyni
 • Uncategorized

  Harry Potter II

  Við skötuhjúin gerðumst voða góð við okkur og fórum á Harry Potter í Lúxussalnum Álfabakka. Myndin lengri og skuggalegri en sú fyrsta , mælum ekki með því að fara með ung börn á hana. Mjög fín mynd, Sigurrós segir meira um hana hjá sér.

  Þessi fyrsta för okkar í Lúxussal stóðst flestar væntingar okkar, tjaldið er reyndar frekar nálægt fremstu röðunum, við vorum fegin að fá sæti í annari röð, þeir sem komu seinast sátu í fremstu röð og þurftu að horfa beint upp.

  Fór í síðara próf annarinnar í morgun, gekk þokkalega held ég en í þessu fagi er afar erfitt að meta hvernig kennarinn fer yfir. Endurtektarpróf eru í byrjun janúar þannig að ef illa fór verður jólabókin Object-Oriented and Classical Software Engineering.

  Kippti umbúðunum af í dag, glæsilegur ferkantaður marblettur og tveir saumar blasa nú við heiminum næstu daga. Eins gott að þetta var ekki í andliti 🙂

  Uncategorized

  Próf og fleira

  Prófið í gær gekk sæmilega, ég er voðalega lélegur samt í því að skrifa kóða á blað. Réttur maður, rangt umhverfi. Á morgun er svo seinna prófið, klukkan 9 á laugardagsmorgni.

  Vísindamaður brennir félagann með fartölvu. Kjöltutalva (laptop) er einmitt kolvitlaust heiti, það situr enginn með sjóðandi ketil í kjöltunni er það nokkuð? Verða viðbjóðslega heitar, ég hef oftast stóra og þykka bók undir ef ég sit með mína í fanginu og kemst hitinn þó að hluta í gegn.

  Eru fjölskyldu- og vinatengsl þín í lagi eða veit enginn að þú sért til? Mun einhver ganga fram á lík þitt þremur árum eftir dauða þinn af tilviljun?

  Það er ekki alveg útséð með að Chirac sleppi með að bruðla almannafé Parísarbúa í kokka og kræsingar. Karlinn er gjörspilltur eins og sannanir sýna, og alls ekki með á nótunum eins og sést í beinum útsendingum þar sem hann þruglar.

  Augað sér það sem það vill sjá, sjá þessar sjónhverfingar.

  Góð grein um lyganetið sem umlykur NATO, áróður og sannleikur eru eins og eldur og vatn, nema hvað að erfiðara að slökkva áróður en eld.

  Uncategorized

  Af íslenskum aumingjum

  Ég frussaði næstum morgunmatnum þegar ég las dómana yfir kynferðisafbrotamönnum og þjófum í Fréttablaðinu í dag. Kristján Kormákur skrifaði fínt lesendabréf af þessu tilefni sem ég er sammála, eins og má sjá í eldri færslum mínum.

  Þjófur sem stal 5 lambalærum, geislaspilara og 2 bílum fékk árs fangelsi, óskilorðsbundið. Maður sem nauðgaði þremur ungum stúlkum fær 15 mánuði, þar af 12 skilorðsbundna, hefði hann stolið lambalæri hefði hann hins vegar setið í því.

  Íslenskir dómarar eiga að skammast sín allir sem einn þegar að líf ungra barna eru minna metin en lambalæri!

  Ég endurtek fyrri orð mín um íslenska dómara, AUMINGJAR! Við þetta bæti ég mannhundar og ómenni. Þeir eru greinilega með allt annað verðmætamat en aðrir Íslendingar (fyrir utan nauðgarana) og því klárlega óhæfir. Ég er ekki að segja að múgæsing eigi að ráða refsingu, bara að refsingar taki mið af brotunum sem eru framin. Dómar fyrir ofbeldisbrot eru minni en fyrir þjófnað, hvað verðmætamat gefur það í skyn?


  Af erlendum aumingjum má geta þess að Michael Jackson heldur áfram að láta aðra vorkenna börnum hans með fáránlegum uppátækjum sínum. Börnin gætu endað sem veruleikafirrtir íslenskir dómarar með þessu áframhaldi.

  Af svínum í dýraríkinu er það að frétta að grísir una sér hvergi betur en í vatnsrúmum, svo segja þýskir vísindamenn sem eru að reyna að koma í veg fyrir unggrísadauða.

  Þyrlubjörgunarsveitir í Kanada ætla ekki að linna látum enda brýnt mál á ferðinni. Þeir fljúga 40 ára gömlum þyrlum sem eru orðnar úr sér gengnar og hafa krafist betri tóla lengi vel. Nýjasta útspilið er að nota lagið “Seasons in the Sun” og breyta textanum aðeins… vanhæfni stjórnmálamanna er yfirgripsmikil (svo ég noti orð þekkts stjórnmálamanns).