Dagur góðra frétta. Ég er kominn með sumarvinnu hjá Bílanausti og byrja þar strax að lokinni verkefnavinnu. Í tilefni af því og að ég fékk orlof frá Hugviti útborgað uppfærði ég heimilistölvuna og splæsti meira að segja í flottan kassa utan um uppfærsluna.
Kári benti mér á þessa frábæru síðu þar sem tölvumýs eru notaðar á ótrúlegan hátt í listsköpun.
Fyndnast er þessa dagana að fylgjast með forsvarsmönnum Frjálshyggjufélagsins bölsótast yfir einstaklingum sem eru að nýta sér markaðsmátt sinn (sem er GUÐ Frjálshyggjufélagsins) til að hafa áhrif á það hvar og hvernig þessi fyrirtæki auglýsa. Fyrir utan kaldhæðnina í þessu þá eru nokkrir þeirra á bakvið batman.is sem að er duglegur að tengja á klámefni, þessi vefur er einmitt eitt umkvörtunarefna þessara einstaklinga.
Skemmtilega léleg röksemdafærslan svo sem kom fram í Kastljósinu hjá formanni félagsins sem sýndi mikla vanþekkingu á jafnréttislögunum. Það er svo sem ekki furða því stefna félagsins er að hér verði til frumskógur þar sem einungis hinir hæfustu lifa af, ekki samfélag þar sem allir eiga rétt á mannsæmandi lífi. Frumskógarlögmálið er einu lögin sem þeir þekkja.
Í Bandaríkjunum virðast orð eins valdamesta þingmanns repúblikana um að “hommar séu í lagi svo lengi sem þeir iðka ekki hommalega hluti” vera að leiða í ljós tvískiptingu siðapostulanna innan flokksins.
Konni benti svo á mjög spennandi mynd sem kannski kemur til landsins á kvikmyndahátíð, hún heitir Winged Migration og má sjá þarna kynningu á henni.