Monthly Archives: June 2013

Fjölskyldan OpenStreetMap

Leikvellir á OpenStreetMap

Í gær sunnudag skruppum við feðginin í bíltúr til að prófa fleiri leikvelli. Við settum stefnuna á leikskólann Rjúpnahæð sem er efst í Salahverfi hér í Kópavogi, þar sem við erum með leikskóla í bakgarðinum sem stelpurnar fara daglega á er oft spennandi að heimsækja aðra, sjá hvernig dót er þar og sjá öðruvísi skipulag.

Nú brá svo við að undirritaður hefur verið að fikta í OpenStreetMap (sem er open source útgáfa af einhverju svipað og Google Maps, sumir kalla það wikipediukortið enda geta allir bætt við það sem skrá sig þar inn frítt), hér eftir nefnt OSM.

 

leikvellir

Leikskólinn Rjúpnahæð er gula svæðið, leikvellirnir eru ljósblá svæði, göngustígar og gangstéttir eru rauðar brotnar línur.

 

Þar eru leikvellir merktir inn á, ég notaði tækifærið á meðan að stelpurnar skemmtu sér á frábærri lóð Rjúpnahæðar og skoðaði, í BlackBerry símanum sem er með þeim slappari, kortið á OSM og sá þá að tveir leikvellir voru í næsta nágrenni. Þegar nýjabrumið var farið af Rjúpnahæðinni röltum við því á fyrsta leikvöllinn (ljósblár kassi til hægri á kortinu), stelpunum fannst mjög áhugavert að þarna værum við að labba yfir í Reykjavík.

Eftir ágætis stopp þar fórum við aftur á stíginn og ætluðum nú að halda á hinn leikvöllinn, sem er efst á kortinu. Á leiðinni sáum við hins vegar annan leikvöll, lengst til vinstri á kortinu, sem var þá ekki merktur inn. Við stoppuðum aðeins þar og ég setti staðsetningu hans á minnið. Eftir stutt stopp þar héldum við svo áfram upp stíginn og aftur yfir í Seljahverfið og fundum leikvöllinn sem er annars hulinn þeim sem ferðast eftir þessum göngustíg sem aðskilur bæjarfélögin.

Án kortsins hefðum við aldrei vitað af honum, hann er inn á milli húsa.

Við röltum svo til baka með annari viðkomu á nýjasta leikvellinum.

Þegar heim var komið fór ég inn á OSM og merkti inn á stígbút sem hafði vantað á kortið (milli leikskólans og stóra göngustígsins) og nýjasta leikvöllinn. Afraksturinn má sjá að ofan.

Ég hvet fólk til að kíkja á http://www.openstreetmap.org og nota það til dæmis til að finna leikskóla eða leikvelli til að kíkja á með börnin. Ég hvet það enn fremur til að merkja inn á OSM (eða senda mér nótu) ef það sér að það vantar leikvelli þar inn.

Ætla að fara að skoða það hvernig ég get svo birt kort sem sýnir bara leikvelli/róluvelli/leikskóla – hugsa að það verði mjög notadrjúgt um helgar og í sumar!

Næst förum við líklega á Hvammsvöll og þessi 6 leiksvæði sem eru þar í kring!

 

leikvellir-2

Hvammsvöllur og leikvellir í grenndinni