Category Archives: Tækni

OpenStreetMap Samfélagsvirkni Tækni

Mapillary vinnusmiðja

Vinnustofan fer fram sunnudaginn 17. september – nánari staðsetning auglýst síðar.

Nú í september mætir starfsfólk frá Mapillary til Íslands í vinnuferð. Í lok ferðar ætla þau að halda vinnustofu handa þeim sem eru áhugasamir um það sem þau bjóða upp á – áhugafólk um gervigreind, tölvusýn, götumyndir og samfélagsvirkni ætti að gefa þessu tækifæri.

Myndgreining Mapillary

Í grunninn er Mapillary þjónusta áþekk Google StreetView og 360° frá já.is – gallinn við þær þjónustur er hversu sjaldan myndir þar eru uppfærðar sem og að þær sinna bara þeim götum sem þeim þóknast.

Mapillary leysir þetta með því að almenningur getur sent inn sínar eigin myndir með staðsetningu og þannig kortlagt umhverfi sitt sem og breytingar þar í gegnum tímann. Myndirnar eru ávallt frjálsar til einkanota og fyrir hugsjónastarfsemi (non-profit). Göngustígar, hjólastígar, óbyggðaslóðir, almenningsgarðar – hvað sem manni dettur í hug auk gatnakerfisins.

Til dæmis er hægt að fara í siglingu til Viðeyjar og horfa í kringum sig þar frá útsýnisskífunni.

Myndirnar eru svo keyrðar inn í gervigreindarvél Mapillary sem lærir að þekkja þrívíddina í þeim – greinir hjól, byggingar, vegi, veglínur, umferðarskilti og fleira. Þau gögn geta fyrirtæki svo nýtt sér (til dæmis sem punktaský), til dæmis við þróun sjálfkeyrandi ökutækja – gögnin eru svo notuð til dæmis í OpenStreetMap við að kortleggja umferðarskilti og nota upplýsingar þar til að setja inn hámarkshraða, akstursstefnu og fleira.

Dæmi um tímaþáttinn er að geta séð þróunina við Dalveg þar sem nýlega voru sett upp umferðarljós. Þessar 5 myndir sýna þróunina, frá því að þar var gríðarleg slysahætta, yfir í framkvæmdir, gátljós og loks umferðarljós. Slík skrásetning getur verið gríðarlega mikilvæg þegar farið er yfir umferðarmál og aðgengismál og auðveldar að benda öðrum á þar sem misbrestir eru, á vettvangi sem allir hafa aðgang að.

Fjölskyldan Tækni

Endurlífgun

Þá er langt um liðið síðan takka var potað niður á þessum stað, Facebook og Twitter hafa kitlað lyklaborðið.

Freyja Sigrún fæddist 2010 og þá er vísitölufjölskyldan komin.

Undur tækninnar leyfa mér svo að nota farsímann til að viðhalda þessu, skipti nú í WordPress úr heimalagaða kerfinu og fæ með því margt sniðugt.

 

Samfélagsvirkni Tækni

Menntun, ekki fartölvur

Nú á föstudaginn fékk ég loks til mín nýjustu græju heimilisins, litla græna fartölvu.

Hún var sneggri á leiðinni frá Kaliforníu til Hafnarfjarðar en frá Hafnarfirði og í Kópavoginn. Tollurinn tók sumsé vörureikninginn ekki trúanlegan fyrr en ég hafði sent þeim nokkra pósta um hann. Ekki fengið svar frá þeim annað en að tölvan komst loks til skila.

Eina sem ég sé eftir er að hafa ekki pantað tvær til að geta prufað netið sem þær spinna á milli sín.

OLPC verkefnið snýst annars um menntun, ekki fartölvurnar sjálfar. Svo segir Nicholas Negroponte, upphafsmaður þessa frábæra verkefnis sem vonandi heldur áfram að dafna.

Bækur Tækni

Gutenberg, Rutherfurd og Wooly Bully

Birti í gær tvo nýja texta á Project Gutenberg eftir að þeir fóru í gegnum DP-Europe.

Grámann er rímútgáfa af ævintýri sem ég held að sé franskt að uppruna. Leiðarvísirinn kom út samhliða Leiðarvísir í ástamálum: II. fyrir ungar stúlkur, enn eru til tveir í viðbót held ég.

Ég hef nú lesið The Forest og Russka (sem greinir frá Rússlandi) eftir Edward Rutherfurd og er hæstánægður með þá lesningu. Á History Channel var einmitt verið að byrja að sýna Russia Land of the Tsars þegar ég var að ljúka lesningunni sem kom ágætlega inn í efni bókarinnar.

Nú þarf ég bara að redda London í millisafnaláni eða með öðrum leiðum og líklega versla mér sjálfur Dublin: Foundation því að í Gegni er ekkert safn skráð fyrir henni.

Enda þetta á léttu nótunum, það þekkja flestir á mínum aldri og eldri lagið Wooly Bully… það er auðvitað til á YouTube:

Tækni

Draugur í vélinni

Svo virðist sem draugur hafi tekið sér bólfestu í routernum sem tengir Betraból við umheiminn. Miklar truflanir eru á sambandinu sem dettur niður á mínútufresti. Verið er að skoða málið með Vodafone.

Tækni

Póstlistar hikstuðu, Windows læstist

Póstlistar sem eru hjá betra.is duttu niður í sólarhring eftir að rafmagn fór af og póstlistaforritið keyrði ekki sjálfkrafa upp aftur. Þetta hefur verið lagað.

Annars fór heimilistölvan mín endurbætta illa út úr þessu rafmagnsflökti… nú hangir hún í 20 mínútur eftir að MUP.SYS skráin er lesin inn áður en hún hleypir manni inn í Windows… um daginn þurfti ég að hringja út til Microsoft til að endurnýja windows-leyfið mitt af því að ég skipti nokkrum diskum á milli kapla í tölvunni… þar áður þurfti ég að setja Windows upp aftur þar sem ég uppfærði móðurborð og örgjörva, sem leiðir til bláskjás í Windows en Linuxinn hins vegar var voða svalur á því og sagði að það væri ekkert mál.

Hvaða Microsoft-snillingi datt í hug að gera stýrikerfið svona ofboðslega tengt vélbúnaðinum, að það keyrir ekki einu sinni upp ef skipt er um móðurborð…

Tækni

Nýr póstþjónn

Nú um miðnættið, eftir að hafa brunað í apótek til að kaupa þar Minifom fyrir gubbandi dóttur okkar, skipti ég loks á milli póstþjóna.

Notendur þurfa að gera eina breytingu í póstforriti sínu, sjá leiðbeiningar hér að neðan.

Enn fremur fá sumir þeirra ný lykilorð þar sem ég man ekki þau gömlu og er ekki með þau skrifuð niður (eins og vera ber). Í fyrramálið, laugardagsmorgun, sendi ég út SMS til allra póstnotenda betra.is með nánari upplýsingum.

Kerfið gæti hikstað aðeins fyrstu dagana, en enginn póstur ætti að týnast og gamli póstþjónninn er enn í gangi með þau gögn sem þar er að finna. Ég vakta kerfið og athuga hvernig það reynist.

Breyting vegna nýs póstþjóns
Breyta þarf innskráningarnafni, fyrir aftan það bætist nú við @betra.is. Til að breyta þessu í Thunderbird er eftirfarandi gert:

Póststillingar 1
1. Hægri smellt á efstu línuna í hliðarglugganum (þarna gæti staðið Local Folders eða netfangið þitt) og valið að fara í Properties.

Póststillingar
2. Farið í Server settings, og þar bætt við @betra.is í reitinn eins og sést. Aðvörun sem birtist skiptir ekki máli. Smellið á OK hnappinn.


3. Nú getið þið náð í póstinn ykkar, smellið á þann takka, nú birtist gluggi sem vill fá lykilorðið ykkar. Skrifið inn það sem þið fenguð í SMS og hakið við Use password manager svo þið þurfið ekki að slá það inn í hvert sinn.


4. Ef að heitið birtist undarlega í hliðarvalmyndinni (til dæmis tvisvar @betra.is) þá lagið þið það með því að hægri smella aftur á, velja Properties, og breyta þessari línu sem hér sést, takið út aftari @betra.is textann.

 

ATHUGIÐ!
Þeir sem athuga póst fyrir fleiri en eitt @betra.is netfang þurfa að gera þetta fyrir hvert netfang, ferlið er nákvæmlega það sama, nema hvað hægri smellt er á viðeigandi netfang.

Tækni

Uppfærsla á póstþjóni

Nú um helgina er ég að uppfæra póstþjóninn sem þjónar betra.is og skyldum lénum.

Búast má við smá hiksti, ef pósturinn þinn er geymdur hér og er enn í fýlu á sunnudagskvöldið, þá veistu hvern á að hafa samband við. 

Tækni

Orðabókarárás

Ekki var ég fyrr formlega hættur sem starfsmaður Landsbókasafns Íslands en ég varð fyrir orðabókarárás.

Orðabók þessi var reyndar rafræn og náði að smeygja sér inn á gamalt og ónotað notandanafn á vefþjóninum og setti þar upp veiðisíðu sem þóttist vera Bank of America. Þetta hékk inni í um 12 tíma eða þangað til aðili út í bæ lét mig vita af þessu.

1. janúar fór því í það að henda þessu og fylgifiskum þess út, finna hver stóð fyrir þessu og koma þeim tölum áleiðis og svo að loka og læsa öllu sem hægt var til að tryggja að svona árás, og aðrar óskyldar, nái ekki í gegn aftur.

Næsta mál á dagskrá er að aðstoða heimilisfólk Betrabóls við að minnka fjölda ruslpósta sem læðast inn í gestabækur og orðabelgi þeirra. Fjölmargar tölvur eru á bannlista en það dugir ekki til, né að nota tilvísunartækni til að athuga uppruna sendinga. Næsta skref er því að leggja fyrir gestaþrautir fyrir notendur og vona að ruslvélarnar séu illa að sér í þeim.

Tækni

Út með WinAmp

WinAmp er fínasta forrit, sá mp3-spilari sem ég hef notað lengst af. Í dag hins vegar varð ég mjög pirraður á því hvað hann er frekur á örgjörvann þegar að verið er að skipta á milli laga. Þá frýs öll önnur vinnsla og önnur forrit sem ég er að vinna með eru gjörsamlega óstarfhæf í 2-3 sekúndur, þetta er mjög bagalegt til dæmis þegar að ég er að skrifa mikinn texta og missi fleiri fleiri slög úr.

Því kíkti ég á netið og prufaði í annað sinn forritið Sonique, sem ég hafði gefið tækifæri fyrir löngu síðan og litist ágætlega á en WinAmp hafði þó yfirhöndina þá.

Núna setti ég inn þessa nýju útgáfu, og stóðst hún helstu kröfurnar sem ég geri til svona forrita, og að auki fraus vélin ekki þó að skipt væri á milli laga. Miklar líkur til þess að þetta verði MP3-forritið mitt í bráð.

Tók eitthvað “Geek-test” í dag, reyndist vera 52% geek, tek svona próf mér til gamans þó að mér finnist allir svona stimplar vera broslegir.

Talandi um broslegt, lesið neðsta lesendabréfið á þessari síðu, þvílík fóbía, meira grátlegt kannski en broslegt.

Áhugavert lesefni: