Monthly Archives: February 2003

Uncategorized

Höfundarréttur og fótboltaleikjaekkjur

Grátbroslegt í umræðu um höfundarrétt þegar fram kemur sú röksemdafærsla að “enginn skapar neitt ef hann græðir ekki á því”. Sumsé þá var ekkert skapað af mannkyninu fyrr en Adam Smith kom með sína frómu bók eða fyrr en fyrstu höfundarréttarlögin voru sett?

Var ekki van Gogh bláfátækur alla sína tíð eins og fleiri listamenn sem eru í miklum metum? Ekki var hann málari til að græða á því. Sama má segja um tugþúsundir listamanna og grúskara, þeir hafa stuðlað að sinni list eða iðn af áhuga einum saman. Það eru Britney Spears og skyldir listamenn sem “skapa” til að græða, og þar er leiðum að líkjast, ég er nokkuð viss að þannig listamenn verða ekki langlífir í minningu mannkynsins. Að mínu mati hef ég ekki enn séð listamann sem býr eitthvað til peninganna vegna sem jafnast á við listamann sem býr eitthvað til af því að hann vill og þarf þess.

Á Mön eru menn með skemmtilegan tölvubíl, samanber bókabíl. Bíllinn fer milli grunnskólana og er færanleg tölvustofa í rauninni, þeir nota 3G kerfið til að tengjast netinu og það virðist svínvirka fyrir þá hvað hraðann varðar. Tölvurnar eru svo PowerBook tölvur frá Apple þannig að börnin eru ekki ofurseld Microsoft frá upphafi.

Til að geta notað Windows skammlaust þarf maður í sífellu að vera að uppfæra það því að það er stútfullt af villum og öryggisholum. Til þess er notuð Windows-græja sem athugar hvaða Microsoft hugbúnað þú ert með og hvaða útgáfur og tékkar á hvort að uppfærslur séu til fyrir það. Nú er búið að komast að því að þessi græja sendir líka upplýsingar um hvaða önnur forrit eru uppsett á tölvunni, bara svona af því bara. Ég vil ekkert að eitthvað fyrirtæki út í heimi viti að ég noti Eudoru, SSH, Zend Studio og hvað þetta allt er. Það kemur því andskotann ekkert við! MacOS X og Linux líta alltaf betur og betur út.

Sjálfur nota ég nú eingöngu Mozilla við vefráp mitt, Internet Explorer búinn að pirra mig endanlega og að auki vantar á mig þumalputta ef ég er ekki með flipa við vafrið (Mozilla býður upp á flipa… jæja… þið sjáið það ef þið prófið hann).

Skoplesning dagsins er úttekt Prövdu á ástarlífi Skandinava.

Í kvöld og þessa helgi eru svo vafalaust nokkrar fótboltaleikjaekkjur þarna úti, margir karlmennirnir sokknir ofan í nýja CM4 demóið sem kom út í dag. Ofanritaður gengst við því að hafa eitthvað kíkt á þetta sjálfur.

Uncategorized

Ha ég?

Jú, í dag var ég að byrja að skoða 861 blaðsíðna rit sem fer skref fyrir skref í gerð í notkun Java og XML með vefþjónustum og alls konar tækniheita sem að myndi drepa hvern lifandi mann að fá upptalningu á.

Náðum í skottið á Enterprise seríunni.

Uncategorized

Glæsihýsið

Það er svo sem ekki verra upp á framtíðina þegar við munum fara í annað húsnæði að geta framvísað mynd af húsinu okkar á forsíðu DV og undir því stendur Auðseljanleg glæsihýsi. Við erum þó ekkert á förum á næstunni.

Þeir sem hafa 19,5 milljónir handbærar geta svo notið þess heiðurs að gerast nágrannar okkar, íbúðin fyrir neðan okkur er til sölu en sómahjónin sem þar bjuggu fengu loksins íbúð í (h)eldrimannahýsi.

Uncategorized

Baráttan ekki búin

Ég er ekkert að bakka með andstöðu mína við stífluna sem ætlar að eyða náttúru og steypa okkur í skuldir að auki. Nokkrir pottar á hlóðunum, kannski einhver þeirra gagnist.

Meira um Kárahnjúka, fann þessa glæsilegu myndasyrpu sem sýnir það land sem mun fara undir vatn og að lokum drullu ef að við náum ekki að stöðva geðveikina.

Fékk í dag einkunn úr prófi sem gildir 25%, þokkalega sáttur við niðurstöðuna, vil samt gera betur, 25% verkefni eftir sem við erum að vinna í og svo er það 50% lokapróf.

Í dag fiktaði ég í bloggi manns, það var “mutual consent” þannig að ég lendi ekki í neinni klípu, ef að liturinn er eitthvað að pirra hann þá er lítið mál að breyta því.

Uncategorized

Eyland á netinu

ADSL-tengingin okkar frá Símneti á það til að detta út og hrökkva aftur inn nokkrum tímum síðar, afskaplega bagalegt og oft mjög ergilegt þegar maður er að leita heimilda á netinu.

Áðan kom þetta fyrir, nú erum við komin með nokkurs konar samband en þessa stundina virðist DNS-þjónustan (sem breytir www.betra.is í 194.105.235.181 til dæmis) hjá Simnet ekki virka þannig að ég kemst aðeins inn á örfáar útvaldar síður (líklega DNS cache í Windows?). Við erum því bjargarlaus á smá eylandi og komumst á fáa staði.

Sí-tengingin okkar er því ekki að standa undir nafni, stundum-tenging er óþjálla en nær sanni. Símnet er að verða vafasamur aðili til að treysta á, þar sem við erum ekki háð þeim með póst eða vef er minnsta mál í heimi fyrir okkur að skipta bara eitthvað annað.

Uncategorized

Íslandi nauðgað

Í kvöld sáu flestir landsmenn tveggja tíma langan þátt Ómars Ragnarsonar um þjóðgarða og virkjanir. Þátturinn var frekar undarlegur að uppbyggingu og sum innskotin skrítin en ekki lugu myndirnar eða staðreyndirnar sem settar voru fram.

Í lokin nefndi Ómar að þetta væri líklega það mál dagsins í dag sem að myndi hafa mest áhrif á komandi kynslóðir og að kynslóðin sem að reisir virkjanirnar þrjár muni með þessu skapa sér sóma eða skömm. Þarna tel ég að engin spurning sé á ferðinni, meiri skömm er ekki hægt að gera en að nauðga Íslandi. Virkjanir sem duga í 200 ár og skapa rafmagn í þann stutta tíma munu eyða stórkostlegri náttúru þannig að hún mun aldrei sjást aftur. Þarna er núna gróðursæld, þessu verður breytt í eyðimörk sem að mun kaffæra Austfirðinga. Virkjunin er víst þeirra vegna, svo að þeir geti unað sér glaðir við störf í álveri. Þeir hljóta þá að láta smá leiðindi eins og sífellda sandstorma fram hjá sér fara, þeir hafa jú vinnu.

Aðrar þjóðir nota sínar virkjanir til að skapa líf, íslensk yfirvöld ætla sér að eyða lífi. Skammsýnin er yfirgengileg, talsmaður Landsvirkjunar sagði að 200 ár væri svo langur tími að við gætum ekki ímyndað okkur hvernig raforka væri framleidd þá. Það virðist losa virkjanirnar undan ábyrgð á eyðileggingunni sem þær munu valda. 200 ár er ekki langur tími í lífríkinu, tvær aldir eru rétt tvær millisekúndur hvað náttúruna varðar. Þau listaverk og líf sem á að sökkva ofan í drullusvað hafa orðið til yfir þúsundir ára.

Ísland er jarðfræðilega eitt yngsta svæði jarðar. Þroski stjórnenda virðist því miður bera keim af því, milljörðum skattpeninga er hent í einn poka og hann falinn einum aðila til geymslu, álveri. Ef að álverð hríðlækkar, eins og margir spá um á næstu áratugum, þá eru góðar líkur á að verksmiðjum sé lokað. Ef að álverinu er lokað þá standa hundruð Austfirðinga eftir atvinnulausir, þeir líta upp úr kerunum og sjá drullusvaðið sem að hylur stórkostleg listaverk sem þeir hafa séð gamlar myndir af og þeir hrista hausinn. Fyrir þetta, stórar skuldir og atvinnuleysi, nauðguðum við náttúru Íslands og orðspori þess.

Íslendingar verða taldir barbarar, þeir sýna sömu fyrirhyggju í umgengni sinni við náttúruna og fátækir kotbændur sem brenna niður regnskógana sem gefa þeim súrefni til að geta átt þar bú í eitt ár eða tvö áður en þeir verða að færa sig um set og brenna niður meira, því að landið getur aðeins gefið þeim af sér í takmarkaðan tíma þegar það hefur verið svívirt. Túrismi á Íslandi mun þjást undan þessum stimpli, Íslendingar munu tapa peningum og orðspori.

Íslendingar verða taldir nauðgarar, fyrir stundargaman skilja þeir eftir sig svöðusár á landinu sem að flekkar orðspor þess. Fyrir stundargaman sem að ekki er vitað einu sinni hvort að skili því sem að sagt er þar sem eigendurnir, Íslendingar, fá ekki að vita fjárhagsstærðirnar. Þetta er eins og nauðgari sem að tekur lán í banka svo hann geti keypt sér hníf og vín, hellt meyju fulla, nauðgað henni og skilið eftir sundurskorna. Eftir sig skilur hann konu svívirta sem mun aldrei bera sitt barr og börnin hans munu verða ábyrg fyrir skuldum hans.

Þingmenn eru flestir búnir að sökkva sjálfum sér svo rækilega ofan í þetta kviksyndi að þeir þora ekki að hreyfa sig, því þannig sökkva þeir dýpra. Þeir liggja því hreyfingarlausir og bíða þess sem verða vill.

Ekki á að láta Íslendinga kjósa um þetta mál, mál sem snertir buddur þeirra og fósturjörð, mál sem snertir börn þeirra, barnabörn, barnabarnabörn og börn þeirra.

Beint lýðræði tíðkast ekki hér, við kjósum á fjögurra ára fresti og svo verðum við að skammast í okkur sjálfum fyrir valið ef okkur mislíkar störf þingmanna. Ef að ekki á að kjósa um þetta hvað má þá kjósa um?

Hvað mig varðar þá get ég aðeins sagt það að ég vil að komandi kynslóðir viti að ég vildi þetta ekki, ég vildi ekki nauðga landinu og orðspori Íslands. Ef að þú, barnabarnabarnabarn mitt lest þetta í fornum ritum og veltir því fyrir hvað hann langalangafi þinn sagði þegar að þetta hryðjuverk var á döfinni, þá máttu vita það að ég sagði “Nei”.

Ég segi nei vegna þess að já þýðir að Íslandi sé nauðgað.
Ég segi nei vegna þess að ég vil ekki láta börn mín borga skuldirnar af þessu fyllerí.
Ég segi nei vegna þess að ég vil ekki sjá Austfirðinga verða hjú og standa svo snauðir eftir þegar álverið lætur sig hverfa þegar svo hentar.
Ég segi nei vegna þess að svona gera menn ekki.

Uncategorized

Rök gegn samkynhneigð?

Hægrasinnaða og strangtrúaða fólkið á WND er búið að finna frábær rök fyrir því að ekki sé boðað umburðarlyndi gagnvart samkynhneigð. Vísindalegar rannsóknir benda nefnilega til þess að sam- og tvíkynhneigðir unglingar séu líklegri til að neyta eiturlyfja, áfengis, tóbaks og að eiga kynmök fyrir 13 ára aldurinn og að vera nauðgað.

Ekki var farið út í hvaðan niðurstöðurnar koma né hvort að þær tengist því nokkuð að samkynhneigð sé fordæmd af verulegum hluta Bandaríkjamanna. Hænan og eggið.

Nottingham Forest er á góðri siglingu í enska boltanum, svo virðist sem að þemalagið úr Gladiator eigi þar verulegan þátt. Ég held að það sé nú ekki mikið leyndarmál að réttu lögin geta komið manni í rétta stuðið, hvort sem er á fótboltavellinum eða innan heimilisins við ýmsa iðju, með og án fata.

Ásgeir Jóhannesson (sá sem er fyrrum ritstjóri kannski) skrifar ótrúlega vitlausa grein sem er keimlík þeirri sem einhver skipstjóri skrifaði um menningarskrílinn sem vill ekki beisla náttúruna. Þó að ég geti lamið mann og annan þá þýðir það ekki að ég verði að gera það. Þó að við getum stíflað allar ár landsins og sökkt öllu í kaf þá þýðir það ekki að við verðum að gera það. Annars er orðum ekki eyðandi á þetta, fengi tæpa einkunn í framhaldsskóla og hvað þá háskóla (nema að “sagnfræðingurinn” Hannes Hólmsteinn færi yfir?).

Uncategorized

Lax efans

Skólastúss í dag, nóg að gera.

Í kvöld tók ég mér smá frí frá náminu og las meirihluta bókarinnar sem ég keypti fyrir mig fyrir hönd Sigurrósar á Valentínusardag. Af Sigurrós er það annars að frétta að samnemendur hennar heiðruðu hana sérstaklega á árshátíðinni í gær, í fyrsta sinn sem nemendur KHÍ gefa einum úr sínum röðum heiðursverðlaun. Ég skil ekki af hverju það var bara ekki búið að heiðra ástina mína fyrr! :p

Bókin heitir hins vegar The Salmon of Doubt og er safn greina og ókláraðra kafla sem búið er að púsla saman, þetta er sumsé hluti af þeim ritsmíðum sem snillingurinn Douglas Adams skildi eftir sig en hann varð bráðkvaddur í líkamsrækt rétt tæplega fimmtugur að aldri. Magnaður maður með áhugaverða sýn á lífið og tilveruna.

Uncategorized

Ritskoðanir á netinu

Yfirvöld í Pennsylvaníu hafa fyrirskipað netþjónustuaðilum að loka á aðgang að klámvefum þar sem þeir brjóti í bága við lög ríkisins.

Þetta er þó flóknara en menn myndu halda. Aðeins er hægt að loka á vefina með því að banna IP-tölurnar sem vefirnir keyra á. Hins vegar geta margir vefir (metið er 970.000 vefir!) verið á sömu IP-tölunni, sem dæmi má nefna að það eru einir 20 vefir á þessum vefþjóni, allir á sömu IP-tölu.

Því er viðbúið að það séu ekki bara klámvefirnir sem er lokað á heldur líka fjöldinn allur af ósköp sakleysum vefum sem eru bara á vitlausum stað á vitlausum tíma.

Samtök sem berjast fyrir ritfrelsi fara nú fremst allra í að reyna að fá þessu hnekkt enda stóralvarlegt mál. Pennsylvaníubúar eru nú komnir á sama stað og Kínverjar en stjórnvöld þar í landi loka á flest allar fréttasíður erlendra fjölmiðla auk kláms. Stigsmunur en ekki eðlismunur þarna í gangi.

Uncategorized

Skriðdýrsheilinn

Svo ég bregði betra ljósi á færslu mína hér um daginn, “Hjálp ég minnkaði” þá tók ég því eiginlega sem hrósi að Unnur hefði talið að ég væri hávaxnari (en ég er samt herðabreiður!). Ég ætla að reyna útskýra það með smá líffræðipælingum. Athugið að það er nokkuð síðan ég var í líffræði (sem er skemmtileg!) þannig að ekki er útilokað að mig misminni einhver nöfn.

Ég gef mér nefnilega þær forsendur að mænukylfan í henni sé svipað stillt og allra annara dýra. Mænukylfan er elsti hluti heilans og við eigum hana sameiginlega með til dæmis skriðdýrum, hún stjórnar ósjálfráðum athöfnum eins og öndun og hjartslætti.

Þarna grunar mig (frekar en í litla heila sem kemur utan um efsta hluta mænukylfunnar) að sé líka að finna það lögmál í dýraríkinu að bera verði virðingu fyrir aðilum sem eru stærri. Hver hefur ekki séð dýralífsmyndir þar sem tvö karldýr mætast og gera sig stór, sá sem er stærri vinnur það einvígi án þess að fara þurfi út í bardaga þar sem að sá minni viðurkennir að hann eigi litlar líkur í hinn. Ef þau eru hins vegar svipuð að stærð getur farið út í bardaga þegar hvorugur vill bakka.

Við mennirnir erum nefnilega ennþá frekar frumstæðir, nægir að líta á stríðin undanfarnar aldir sem merki þess að við lærum seint og illa að ná stjórnum á þessum frumhvötum. Kannanir hafa líka sýnt að hávaxnir fá betri laun en lágvaxnir þó að þeir séu jafn mikið menntaðir og með sömu reynslu. Þetta er bara skriðdýrshluti heila starfsmannastjórans að meta þá stærri meira en þá minni.

Því met ég það svo (ég gæti haft verulega rangt fyrir mér auðvitað en það stoppar ekki góða kenningasmiði!) að Unnur hafi borið virðingu fyrir skrifum mínum og því séð mig fyrir sér sem hávaxinn og herðabreiðan. Að ég skuli bara vera rétt meðalmaður á hæð stóðst þetta auðvitað ekki og því hefur skriðdýrshluti heila hennar líklega sett mig neðar á innbyggða stærðarstiganum (allt ósjálfrátt náttúrulega). Hvernig hún týndi herðunum veit ég hins vegar ekki, ég hef kannski verið frekar hokinn eins og ég er stundum (og fæ skammir fyrir).

Hins vegar þá stækkar fólk eftir því sem maður kynnist því betur, ég gleymi því oft að sumir sem ég þekki eru mun minni en ég því að í huga mínum eru þeir svipað stórir og ég, skriðdýrshlutinn hefur það frá öðrum hlutum heilans að þetta sé manneskja sem ég ber virðingu fyrir og hækkar viðkomandi því smátt og smátt í innbyggða stærðarstiganum. Hvort að hávaxnir einstaklingar sem mér er meinilla við lækki er önnur spurning.

Ég sakna 7 kg líffræðibókarinnar sem ég var með í MK fyrir 9 árum síðan. Í annari vídd væri ég líklegast útskrifaður sem efnafræðingur og í enn einni víddinni sem líffræðingur, í þeirri þriðju ef til vill sálfræðingur. Eitt líf og svo margir möguleikar. Svindl.

Að öðrum málum, LÍN sættist loks á það að ég ætti rétt á námsláni og borgaði mér smá pening út. Yfirdrátturinn er orðinn aðeins skárri en þó auðvitað til staðar enda annað illmögulegt hér á landi.

Jæja, það var gott að reyna örlítið á hægra heilahvelið í þessari stuttu pælingu, dagurinn nefnilega verið sem þeir síðustu algjörlega eign vinstra heilahvelsins. Slagsmál við Unicode, PostgreSQL og stafasett reyna verulega á. Frétti það að PostgreSQL getur ekki skipt á milli stafasetta “on the fly” þannig að ég þarf að endurskoða örlítið áætlanir mínar í viðleitni minni að búa til vef sem hægt er að skoða á ÖLLUM tungumálum sem einhver yfirhöfuð nennir að þýða yfir á.

Viðbót: Unnur pælir í þessari kenningu minni og varpar fram öðrum góðum punkti sem er nær málstöðvunum. Ef þú notar alltaf formlegt heiti yfir eitthvað þá er það kannski ofar í hæðarstiganum en ef þú notar óformlegt heiti. Það er auðvitað svo að það skiptir máli hvaða orð eru notuð, ég hef haft nokkuð sterkar skoðanir á orðum og notkun þeirra í gegnum tíðina. Það er svo annað mál að vita það að maður er kallaður skammstöfun í annara manna húsum 🙂 Í MK varð ég reyndar um tíma þekktur sem JBJ meðal yngri bekkinga þar sem það var login nafnið mitt í tölvukerfið (þar sem ég var með über-réttindi).