Monthly Archives: September 2001

Molasykur

Hraustur líkami

Eftir að hafa rekið augun í þessa síðu þá er ég orðinn enn staðráðnari í því að vera orðinn glæsilegur hvítur kroppur næsta sumar (ljós fara svo illa með húðina!).

Í fyrramálið mun ég skutla Sigurrós í skólann, og fara svo í World Class í fyrsta tímann minn þar, kannski hitti ég Óskar vinnufélaga minn þar, og vonandi verður þetta að sömu rútínu hjá mér og þetta er orðið hjá honum (flesta virka morgna klukkan 8).

Leikir Molasykur Tækni

Fimleikar

Lítið markvert gert í dag, smá PHP fimleikar og smá CM spilun. Ég er orðinn verulega þreyttur á þessari DDE Error villu sem að Windows 2000 er sífellt með, en það er víst ekkert hægt að gera í þessu samkvæmt vefnum hjá Microsoft. Ég hef sjálfur reynt allt, ég er búinn að strauja þessa vél 7 sinnum, eitt sinn meira að segja með Linux til að geta tætt diskinn gjörsamlega í sundur. Samt hangir þessi DDE villa inni, hún veldur því að sum forrit deyja þegar þeim sýnist og önnur fara ekki upp nema suma daga. Það eru góðar ástæður fyrir andúð minni á Microsoft, númer eitt er vanhæfni þeirra til þess að skila af sér vörum sem virka.

Áhugavert lesefni:

Bækur Molasykur

Sannleikurinn

Skrapp í Eymundsson til að kaupa “Café Creme 1” bækurnar sem að ég mun notast við í frönskunáminu. Því miður var bara vinnubókin til, þannig að ég þarf að fara aðra ferð til þess að finna lesbókina. Það sem kom mér hins vegar mest á óvart var að ég sá í hillu nýjustu kiljuna frá Terry Pratchett, “The Truth”. Það sem að kom mér svona mikið á óvart var að Amazon.co.uk segir að hún komi ekki út fyrr en 1. nóvember!

Það undarlega í þessu er að Pratchett er breskur rithöfundur, og The Truth er komin út í kilju í Ameríku (en mikið skelfilega er sú kilja ljót) og er til sölu á Amazon.com. Þessi kilja sem ég keypti er gefin út af Corgi í Bretlandi, og lítur út eins og allar hinar Discworld kiljurnar mínar (25 talsins með The Truth), en samt er Amazon.co.uk ekki að fá að selja hana fyrr en 1. nóvember? Amazon er raunar í miklu uppáhaldi hjá mér, vefurinn þeirra er til fyrirmyndar sem og þjónustan.

Það er annars orðið að sið hjá mér að borða Doritos “Nacho cheese” og fá mér kóksopa á meðan að ég les Discworld bók, man ekki alveg hvernig sá siður kom til en þetta er skemmtilegur og bragðgóður siður að mínu mati, ég er orðinn svo staðfastur að fá mér sjaldan kók og snakk, en fyrir svona bækur gerir maður undantekningar.

Sá eitt skrítið í umferðinni í dag, bíll á undan mér var kyrfilega merktur Sjóvá-Almennum og Olís, og svo stóð með stórum stöfum víðs vegar á honum “umferðaröryggisfulltrúi”. Ég er ekki alveg viss um hvað hann á að gera, gæti verið áhugaverð starfslýsing. Annars er alltaf jafn gaman að velta þessum germanska sið að búa til löng samsett orð fyrir sér, á meðan að rómanski siðurinn er sá að setja la og de og þess háttar forsetningar á milli orða, þannig að ofangreint starfsheiti væri á að giska 5 orð í frönsku, jafnvel meira?

Áhugavert lesefni:

Molasykur

Je m´apelle Jóhannes

Fyrsti frönskutíminn af ellefu var í kvöld. Fórum yfir ákveðinn greini og nokkrar óreglulegar sagnir og svo 20 nafnorð og sagnorð eða svo. Nú er bara að vera duglegur að læra heima og nýta sér margmiðlunardiskana (þetta hugtak væri á að giska 6 orð á frönsku) sem ég keypti fyrir 2 árum eða svo.

Sá að Hrafnkell er byrjaður að blogga aftur, það er munur að geta verið með vefgáttina sem að sefur aldrei og vaktar alla (sem vilja láta vakta sig). Svo er Jón Kristinn Snæhólm, sem ég kannast við frá forðum daga, víst byrjaður með Málið á Skjá einum.

Áhugavert lesefni:

Fótbolti Molasykur Samfélagsvirkni

Kemur þó hægt fari

Enn einn vináttuleikurinn í kvöld. Núna brá svo við að einn maður tók ábyrgðina á liðsuppstillingu og skiptingum og það sýndi sig að þetta gefst mun betur, við vorum 2-0 yfir í leikhléi.

Eftir leikhlé tókst andstæðingunum að pota einu marki inn eftir nokkrar mínútur, 10 mínútum seinna var svo aukaspyrna fyrir utan teig og hún skrúfaðist neðst í fjærstöngina, markmaðurinn var í boltanum en snúningurinn var of mikill, vel tekin aukaspyrna en svekkjandi mark fyrir okkur. Á 82. mínútu náði svo miðjumaður þeirra að pota sér í gegnum þvögu og sneiða boltann í markið, vel klárað. Þegar 4 mínútur voru eftir æstust leikar þegar að 2 leikmenn úr sitt hvoru liðinu byrjuðu að slást eftir vafasama tæklingu. Þetta leystist upp í skallaeinvígi milli þeirra og að auki var sparkað í andlitið á liggjandi manni. Báðir menn voru leiddir á brott og róaðir niður, og við flautuðum leikinn bara af, ekki gaman að spila þegar kergja er komin í mannskapinn.

Þokkalegur leikur hjá okkur, það er flestallt að batna hjá okkur. Stráklingarnir sem æstu sig í lokin verða að læra það að þó illa sé brotið á manni þá á bara að hunsa það og spila, liðin skildu sátt sem betur fer.

Af öðrum þjóðfélagsmálum þá finnst mér alltaf jafn magnað þegar að sagt er að 66% heillar þjóðar styðji eitthvað, þegar að úrtakið er 800 manns og við miðum við 100% svarhlutfall (sjaldgæft) þá þýðir það að 528 manns mynda meirihluta hjá 15 milljóna þjóð. Það fylgir ekki einu sinni þessari frétt Moggans hvernig úrtakið var valið, samsetning þess í búsetu, aldri og kyni svo bara helstu atriði séu talin til.

Svo ég haldi áfram að berja á fjölmiðlum, og áfram Mogganum (ég les lítið af innlendum miðlum, Mogginn er það óheppinn núna að ég kíkti á hann í dag) þá fannst mér afar áhugaverð þessi frétt, þar sem að fyrirsögnin segir að samverkamenn Bin Ladens hafi verið handteknir, en sjálf fréttin segir að þeir séu GRUNAÐIR um að vera samverkamenn. Sakleysi uns sekt er sönnuð gildir ekki í æsifréttafyrirsögnum að sjálfsögðu.

Mér finnst íslenskir fjölmiðlar gera mest lítið annað en að þýða (oft illa) fréttatilkynningar frá erlendum fréttastofum, sem margar hverjar lepja það upp eftir stjórnvöldum sem þeim er sagt, en rannsaka ekki málin nánar. Það þarf margt að laga hér á landi, og fjölmiðlar eru þar ofarlega á lista. Nú eða að fólk fari að hætta að trúa í blindni því sem kemur frá fréttastofunum, svo lengi sem við höfum í huga að fréttir eru oftast sagðar frá sjónarhóli einhvers eins aðila, þá förum við ekki að taka þeim sem heilögum sannleik.

Áhugavert lesefni:

Molasykur Stjórnmál

Stóra bróðurs fasismi

Í dag er ekki góður dagur, heimskir stjórnmálamenn vilja taka öðruvísi á glæp sem að er framinn með aðstoð tölvu en glæp sem að er framin án aðstoðar tölvu, jafnvel þó að brotið sé hið sama. Þannig að ef að þú rænir einstakling vopnaður hnífi, þá færðu líklega lægri dóm en ef þú rænir hann með því að nota VISA-kortið hans á Amazon eða brjótast inn á bankareikning hans á netinu. Bjarni spöglerar aðeins í þessu í dagbókinni sinni meðal annars.

Á sama tíma er Sólveig Pétursdóttir að íhuga það að skerða frelsi almennings í landinu til þess að eiga auðveldar með að taka á starfsemi hryðjuverkamanna. Eins og við vitum öll þá er hérna grasserandi hryðjuverkastarfsemi, hver getur gleymt því þegar að fáni Ísraels var brenndur 1996 af DJ Eldari og félögum, og þegar að eggjum var kastað í bandaríska sendiráðið. Mér er því mun rórra að vita að dómsmálaráðherra ætlar nú að skerða frelsi okkar til þess að hryðjuverkamönnum verði ekki óhætt hér á landi.

Það er ávallt eftir svona válega atburði að við fáum út úr skápunum fasistana sem að vilja ekki unna okkur persónufrelsi, eins og sést í Bandaríkjunum og jafnvel hér á landi. Þeir vilja að netþjónustuaðilar eigi afrit af öllu sem fer í gegnum þá, á þá póstþjónustan ekki að fara að opna öll bréf sem að hún sendir og ljósrita efni þeirra og troða í skjalaskápa? Þessir fasistar nýta sér tilfinningarótið sem er í hugum almennings og lofa þeim að skert frelsi hans muni gagnast í baráttunni gegn hryðjuverkum. Svona athæfi er í dómsmálum kallað að nýta sér á óviðeigandi hátt tilfinningalega nauð, og er til þyngingar refsinga. Þetta er náttúrulega ekkert annað en bull, þeir sem vilja fela slóð sína geta það auðveldlega. Þegar þessi réttindi hafa verið tekin af okkur með lögum þá verður það mörgum sinnum erfiðara að fá þau aftur. Nú bíð ég bara eftir því að hverjum og einum verði úthlutaður eftirlitsaðili sem að fylgir þeim eftir dag og nótt, og gætir þess að þessi almenni borgari aðhafist ekki neitt sem að gæti talist ef til vill mögulega ósiðsamlegt eða andfélagslegt.

Sjáum hvað George Bush segir um málið:
“My administration will not talk about how we gather intelligence, if we gather intelligence and what the intelligence says,” Bush told the media at Monday’s press briefing. “That’s for the protection of the American people.”

Stóri bróðir, þú ert 17 árum of seinn, en mér sýnist þú nú vera kominn.

Annað fasískt athæfi sem ég rakst á í dag var það að póstur sem að ég sendi í gegnum SMTP þjóninn sem að er á vélinni minni, var endursendur af póstþjóni Háskóla Íslands. Sá póstþjónn er nefnilega eins og nokkrir aðrir að fara eftir einhverjum fasískum reglum sem að einhverjir kerfisstjórar komu með og þær banna að taka við pósti sem er sendur beint af tölvum sem að eru ekki sítengdar við netið, sumsé ekki með fastar IP-tölur (þetta á við flestar einkatölvur). Þar sem að ég nota póst á tölvunni minni sem að ég sendi í nafni nokkurra léna í minni eigu þá verð ég að vera með minn eigin SMTP þjón keyrandi, þar sem Símnets SMTP þjónninn tekur bara við pósti sem er merktur frá @simnet.is (sem er líka frekar fasískt).

Þessar blessuðu reglur voru víst samdar til þess að minnka hættuna á ruslpósti, mér sýnist það ekki vera að virka og er alveg sammála því sem að efsti aðilinn á þessari síðu skrifar þessum hópi sem stendur að þessu, það að gera greinarmun á því hvort að vél sé sítengd eður ei er bara bölvaður fasismi, einkum í dag þegar flestir eru komnir með nettengdar tölvur heim til sín.

Til þess aðeins að létta lundina fórum við Sigurrós í Laugarásbíó og sáum Rat Race, sem að er mjög smellinn farsi, fullt af atriðum sem fá mann til að verkja í magann af hlátri.

Áhugavert lesefni:

Molasykur

Kaka

Það er ekki að spyrja að því, ég tuða yfir því að Bandaríkin séu mögulega að fara að gera illt verra með herafla sínum, og þá er næsta verkefni mitt í vinnunni beint fyrir bandaríska herinn! Þar sem verkefnið er tengt birgðabókhaldi húsgagna þá held ég að ég þurfi ekki að hafa slæma samvisku yfir því að vinna það :p

Sigurrós bakaði hunangsköku í kvöld, smurði súkkulaði efst á og setti svo svona súkkulaðihagl ofan á (þetta heitir hagel á hollensku þannig að hagl nægir mér á íslensku). Eins gott að ég er að fara á morgun að kaupa kort í World Class 🙂

Áhugavert lesefni:

Molasykur

Týndir diskar

Dagurinn fór í að vinna efni á joi.betra.is, aðallega í að klára að skanna inn geisladiskasafnið mitt. Komst að því mér til mikillar skelfingar að 11 diskar eru ekki á staðnum, vonast til þess að einhverjir þeirra séu niður í vinnu. 272 diskar sem ég á þessa stundina, 283 með þessum 11 sem að eiga að vera eign mín en eru fjarstaddir.

Sá nýjasta myndbandið með Michael Jackson (You Rock My World), hann lítur svo illa út að ég beið alltaf eftir því að andlitið dytti af honum og lappirnar um leið. Reyni svo að tala sem minnst illa um aðra þannig að ég minnist ekkert á lagið, fatastílinn, hreyfingarnar né myndbandið sjálft (Sigurrós lýsti honum vel: ljót postulínsdúkka).

Áhugavert lesefni:

Molasykur

Súkkulaði

Letidagur, enda úti veður vott og vindasamt. Kæmist ekki upp með svona höfuðstafi í íslenskutímum, eins gott að maður er orðinn stúdent í því fagi fyrir löngu hvort sem er.

Tókum myndina Chocolat í kvöld, ágætis skemmtun með góðum svona “feel-good” faktor, ánægjuleg kvöldstund. Langt síðan að ég fékk mér súkkulaði raunar, ef að við undanskiljum súkkulaðispæni sem var í köku sem að Sigurrós bakaði um daginn. Súkkulaðið var mjög girnilegt, ráðlegg ekki fólki sem að er að huga aðeins að vigtinni að taka þessa mynd alveg strax.

Áhugavert lesefni:

Tækni

Betri skrifstofuvöndull

Fékk í dag tilkynningu um að komin væri ný útgáfa af PC Suite frá þeim hjá Software602. Þetta er sumsé svona skrifstofuvöndull sem að gefur Office frá Microsoft ekkert eftir, mér finnst PC Suite reyndar mun skemmtilegri, og ekki sakar að það kemur frá fyrirtæki sem er annt um viðskiptavini sína. Ráðlegg Windows notendum að kíkja á þetta, þetta er nefnilega ókeypis og svo þarf ekki að ná í nema 13,6 MB uppsetningarskrá. Office er ekki uppsett á kjöltutölvunni minni, PC Suite er það!

Mér sýnist sem að Bandaríkjamenn séu nú að gera sitt allra besta til þess að láta sem að World Trade Center hafi aldrei verið til, samkvæmt þessari frétt þá eru allir upp til handa og fóta að breyta sjónvarpsþáttum, textum, myndum og gvuðmávitahvað. Önnur eins söguskoðun hefur ekki sést í lýðræðisríki svo ég muni eftir.

Áhugaverður tengill: