Monthly Archives: May 2004

Uncategorized

Kjarabaráttan

Sigurrós er nú öll að koma til í pólitíkinni og birtir í dag bréf sem hún fékk sent þar sem bent er á hvers konar svíðingsverk samninganefndir eru að reyna að framkvæma á kennurunum.

Ég hef ekki hvikað frá þeirri stefnu minni að launaháar stéttir eigi að vera þær sem eru samfélaginu langmikilvægastar, þetta eru kennarar, læknar og annað hjúkrunarfólk. Heilsa og menntun eiga að vera frumréttur manna.

Núverandi ríkisstjórn telur hins vegar “virðingu” Íslands mikilvægari en gera sitt allra besta til að gera hana sem minnsta með fáránlegum aðgerðum sínum og taglhnýtingshætti. Burt með þessar kínversku sendiferðir og sendinefndir, inn með mannsæmandi laun fyrir mikilvægustu starfstéttir hvers samfélags.

Uncategorized

Afslappelsi á Selfossi

Eftir fjör gærdagsins var sofið vel frameftir í dag.

Við örkuðum svo af stað til að ná í bílinn en á sama tíma og ég var að steggja var Sigurrós að gæsa.

Eftir smá matarstopp var stefnan svo sett á Selfoss þar sem góðar veitingar biðu okkar hjá tengdó og Hauki sem eru nýkomin til landsins.

Við snæddum grillmat ásamt Guðbjörgu og Magnúsi, á eftir fylgdi að sjálfsögðu eftirréttur enda getur tengdó ekki verið þekkt fyrir annað en að ofala gesti sína.

Sátum svo og spjölluðum eitthvað frameftir áður en við Sigurrós héldum heim.

Sem betur fer voru engir svona vitleysingar í umferðinni.

Þurfti svo aðeins að leiðrétta leiðinlegan og algengan misskilning í dag í athugasemd við þessari færslu Gulla. Það er frekar lélegt að vera ósáttur við að vera á ímyndarkynningu þegar þú mætir á ímyndarkynningu, ef texti auglýsingar HR er misvísandi er það leiðinlegt en allir innan HR vita um hvað þessar lokakynningar snúast, og þær eru ekki fræðilegar.

Uncategorized

Óskar steggjaður

Óskar fagnaði því fyrir nokkrum dögum að hafa fengið 10 í ansi strembnum áfanga sem var meðal annars fjallað um í Fréttablaðinu fyrir nokkrum dögum. (Fyrir áhugasama bera að geta þess að Smalinn sem nefndur er á heimasíðu hans er hluti verkefnisins sem hlaut 10).

Drengurinn er að fara að gifta sig eftir viku og af því tilefni var hann steggjaður í dag. Klukkan þrjú hittumst við nokkrir vinir hans ekki langt frá heimili hans, læddumst því næst að og fengum ókunnugt fólk til að hleypa okkur inn svo við gætum bankað beint á dyrnar.

Inn réðumst við á drenginn sem var orðinn vonlítill um að eitthvað yrði af steggjun enda komið á síðasta séns. Honum var troðið í kvenmannskjól, málaður og upphófst nú 2 tíma törn þar sem hann fór vítt og breitt um svona uppstrílaður og afgreiddi meðal annars bensín, arkaði í gegnum Smáralindina og valhoppaði svo til baka.

Óborganlegt að fylgjast með fólki í kring, bæði utandyra og innan. Fólk snéri sig nær úr hálslið við að fylgjast með og margir reyndu (hvers vegna?) að bæla hláturinn með lélegum árangri. Óskar tók þessu öllu af einstöku jafnaðargeði og hlýddi hverju því sem honum var sagt.

Við fórum svo í Sporthúsið þar sem við slöppuðum af í heita pottinum áður en haldið var niður í bæ þar sem við komum okkur fyrir í heimahúsi við Laugarveginn.

Þar voru framreiddar dýrindis veitingar, tvö lambalæri, annað grillað og hitt ofnbakað, með þessu voru svo sveppir fylltir með gráðosti, grillaðir tómatar og fleira góðgæti. Ég var nógu forsjáll að grípa rauðvín með mér og Óskar fékk að njóta góðs af því. Við klikkuðum held ég gjörsamlega á því að taka mynd af veisluborðinu en glæsilegt var það.

Kvöldið leið þarna í mestu makindum í góða veðrinu áður en við héldum niður í miðbæ klukkan tvö. Eftir rölt á nokkra skemmtistaði (sem ég reifa ekki frekar hér…) enduðum við svo húsnæðislausir þegar öllu var lokað klukkan þrjú vegna hvítasunnunnar. Af sama tilefni voru leigubílar með hæsta gjaldtaxta í gangi eins og ég komst að nokkru síðar.

Við litum við í eftirpartý á Hringbrautinni en héldum svo heim á leið rúmlega fjögur. Óskar gat ekki séð lengur í fókus og ég ákvað því að passa upp á að hann kæmist nú örugglega til sinnar fögru frúar áður en ég hélt heim á leið til minnar.

Klukkan er orðin sex og tími til að fara að sofa undir rísandi sól.

Uncategorized

Fyrsta grillið

Í gær fórum við á Madonnu til að fagna milljónaviðskiptum dagsins.

Fórum svo til Daða og fengum þar nokkuð af myndefni og skemmtum okkur svo yfir Van Wilder sem er prýðis afþreying.

Í dag sótti Sigurrós mig svo í vinnuna og beið fyrir utan með rós handa mér. Að launum fékk hún koss og smá heimsókn á vinnustaðinn þar sem hún sá meðal annars líklega einn stærsta skanna á landinu sem hana blóðlangaði í.

Við keyrðum svo upp grillið í annað sinn og í þetta sinn fór matur á það. Svínakjöt, epli og bananar sem á það fóru. Smakkaðist vel.

Af fótboltanum er það annars að frétta að einn minn allra uppáhalds leikmaður, Guiseppe “Beppe” Signori, er að kveðja ítalska boltann. Mikill missir að þessum snillingi sem fékk mig til að gjörbreyta vítaspyrnustíl mínum.

Uncategorized

Heim!

Jæja þá, baktjaldamakki undanfarinna vikna er lokið. Í dag skrifuðum við undir sölusamning á íbúð okkar klukkan 13:00 og klukkan 15:00 skrifuðum við undir kaupsamning á íbúð í Kópavogi.

Ég sný því aftur í minn gamla heimabæ en núna með fagra snót mér við hlið. Hún gleðst yfir þessu að sjálfsögðu.

Spurning hvort maður snúi aftur í pólitíkina fyrst maður er á leið á heimaslóðir. Reyndar margt breyst í minni heimssýn síðan síðast. Reyndar margt fleira breyst líka… alþingismenn láta nú eins og persónur í amerískum bíómyndum í eigin kaffiteríu þar sem sumir eru meira aðal en aðrir og svo birtast hetjur sem sýna að þú ert ekkert meira aðal en aðrir leyfa þér að vera.

Reyndar láta alþingismenn oftar eins og skyni skroppnir krakkar en það er önnur saga.

Voðalega var pólitíkin að pota sér inn í þessa færslu?!

Aðalmálið er að í dag var stór dagur þar sem veltan á reikningi mínum var 10 milljónir og allt small eins og flís við rass. Valhöll fær okkar bestu meðmæli, við munum örugglega eiga við þá viðskipti næst þegar íbúðakaup fara í gang (mörg ár í það).

Uncategorized

Endasenst

Endasentist bæjarhluta á milli til að klára síðustu skjalavinnuna fyrir fimmtudaginn… ætti að smella saman held ég.

Uncategorized

Vestrænni siðmenningu lýkur?

Já, heimurinn er að farast og það er allt vegna þess að samkynhneigðir mega nú gifta sig í Bandaríkjunum…

“I am not exaggerating when I say the next 12 to 18 months will likely determine not only the future of this country, but of Western Civilization,” Family Research Council President Tony Perkins said. (src)

Eins gott að enginn sagði þeim frá staðfestri sambúð þeirra sem hefur viðgengist mun lengur.

Annars bendir Non Sequitur á ótrúlega augljósan hlut í dag.

Uncategorized

Öfugmælin

Kári orðinn 22 ára. Það þýðir að ég er hundgamall!

Baggalútur greinir vel frá voðaverki dagsins, ógurleg þögn sem umlykur flokk frelsisins (eins og hann rangnefnir sig).

Í Bandaríkjunum eru svo ofsakristnir menn að plana að kljúfa sig frá hinu pakkinu og stofna alvöru kristið ríki sem bannar fóstureyðingar, getnaðarvarnir, kynfræðslu og þess háttar soraskap…

Uncategorized

Don Blatter

Sá í gær þátt um Joseph Blatter, forseta FIFA, sem nefndist “The Untouchable”. Ég vissi á tímabili ekki hvort hér væri um að ræða fjórðu Godfather myndina, lélega Godfather eftirlíkingu eða alvöru heimildarmynd.

Maðurinn er gjörsamlega búinn að tapa sér, fimmta hvert orð sem kom upp úr honum var “fjölskylda” og átti hann þá við ýmislegt innan knattspyrnuhreyfingarinnar. Hann vill ekki láta dómstóla leysa úr málum sem að brjóta greinilega í bága við lög heldur á “familian” að leysa þetta innan sín.

Um Zen-Ruffinen sem útbjó ítarlega skýrslu um klæki og óþokkabrögð Blatters segir Blatter: “ól ég upp eins og minn eigin son í 14 ár innan FIFA, ég er mjög sár yfir aðgerðum hans”. Halló! Maðurinn sá í gegnum þetta helvítis mannkerti og skrifaði um það en átti að vera þægur og góður enda í fjölskyldunni.

Ekki bættu þeir úr skák hinir, forsetar UEFA, CAF, CONCACAF og fleiri sem að hegðuðu sér eins og ljótustu mafíósar og fundir þeirra minntu á senur úr mafíumyndum.

Það er augljóst að gífurlegir fjármunir úr sjóðum FIFA hafa horfið sporlaust og það sem verra er, menn fá að komast upp með þetta og ef þeim er sparkað þá er viðkomandi sambandi refsað af FIFA (eins og kom fyrir Antigua og Barbúda) sem vildi sína óþokka áfram.

Ég hræki á svona lið.

Uncategorized

Texture, Taxi og Evrópa

Fór loksins í klippingu í gær, fyrir valinu varð Texture í Mosfellsbæ, eftir ábendingu frá Erni.

Klippingin var fín og þjónustan góð, kíki þangað aftur, langt að fara en tekur samt bara rúmar 10 mínútur að keyra.

Í kvöld litum við á Taxi 3 og skemmtum okkur stórvel, alvöru bíó þar sem manni leiðist ekki, bara forðast að pæla í söguþræðinum með gagnrýnum huga og þá er þetta brilljant.

Fann ansi skemmtilegan vef fyrir okkur landafræði-/sagnfræðinörda… Evrópukort forn og gömul.