Monthly Archives: September 2017

OpenStreetMap Samfélagsvirkni Tækni

Mapillary vinnusmiðja

Vinnustofan fer fram sunnudaginn 17. september – nánari staðsetning auglýst síðar.

Nú í september mætir starfsfólk frá Mapillary til Íslands í vinnuferð. Í lok ferðar ætla þau að halda vinnustofu handa þeim sem eru áhugasamir um það sem þau bjóða upp á – áhugafólk um gervigreind, tölvusýn, götumyndir og samfélagsvirkni ætti að gefa þessu tækifæri.

Myndgreining Mapillary

Í grunninn er Mapillary þjónusta áþekk Google StreetView og 360° frá já.is – gallinn við þær þjónustur er hversu sjaldan myndir þar eru uppfærðar sem og að þær sinna bara þeim götum sem þeim þóknast.

Mapillary leysir þetta með því að almenningur getur sent inn sínar eigin myndir með staðsetningu og þannig kortlagt umhverfi sitt sem og breytingar þar í gegnum tímann. Myndirnar eru ávallt frjálsar til einkanota og fyrir hugsjónastarfsemi (non-profit). Göngustígar, hjólastígar, óbyggðaslóðir, almenningsgarðar – hvað sem manni dettur í hug auk gatnakerfisins.

Til dæmis er hægt að fara í siglingu til Viðeyjar og horfa í kringum sig þar frá útsýnisskífunni.

Myndirnar eru svo keyrðar inn í gervigreindarvél Mapillary sem lærir að þekkja þrívíddina í þeim – greinir hjól, byggingar, vegi, veglínur, umferðarskilti og fleira. Þau gögn geta fyrirtæki svo nýtt sér (til dæmis sem punktaský), til dæmis við þróun sjálfkeyrandi ökutækja – gögnin eru svo notuð til dæmis í OpenStreetMap við að kortleggja umferðarskilti og nota upplýsingar þar til að setja inn hámarkshraða, akstursstefnu og fleira.

Dæmi um tímaþáttinn er að geta séð þróunina við Dalveg þar sem nýlega voru sett upp umferðarljós. Þessar 5 myndir sýna þróunina, frá því að þar var gríðarleg slysahætta, yfir í framkvæmdir, gátljós og loks umferðarljós. Slík skrásetning getur verið gríðarlega mikilvæg þegar farið er yfir umferðarmál og aðgengismál og auðveldar að benda öðrum á þar sem misbrestir eru, á vettvangi sem allir hafa aðgang að.