Monthly Archives: October 2002

Uncategorized

Vímuefnin

Kósíkvöld í kvöld, Sigurrós byrjuð í vetrarorlofi (enda kennaranemi) og því fengum við okkur piparsteik og bökunarkartöflur og með þessu var Piat D’Or haft við hönd. Til að rúnna þessu upp var svo Le Petit Écolier sem eftirréttur.

Talandi um vín, þá er það löngu vitað að þessir miðar sem að segja frá “ávaxtakeim og eikarilmi” eru bull, það hafa rannsóknarmenn á Nýja-Sjálandi sannað (reyndar ekki stórt úrtak).

Svo maður haldi áfram með vímuefnin þá voru Norður-Kóreumenn að verðlauna lyfjablöndu úr kannabis, rabbabara og einhverju fleiru sem þykir undrameðal gegn hægðatregðu.

Besti staðurinn til að búa á Bretlandi ku vera bærinn Alnwick, þar gnæfir kastalinn, sem notaður var í Harry Potter myndunum, yfir þessum 8.000 manna bæ.

Í dag gerðist ég grimmur við bankareikninginn og fjárfesti í Logitech Mouseman Dual Optical, músarmottu og handfrjálsum búnaði fyrir gemsann (lögin taka gildi á morgun). Þetta voru 10 þúsund krónur takk fyrir, músin rúmur 6 þúsund kall enda gæðamús.

Uncategorized

Rússarnir koma!

Sem mikill áhugamaður um tungumálanám þá verð ég að segja að þessi síða er algjör snilld. Þarna má læra spænskt orð dagsins með aðstoð Flash, útfært á spaugilegan hátt.

Rússar voru fyndnir í bíómyndinni sem ég horfði oft á forðum daga. Við áttum hana á myndbandi og ófáum sinnum var horft á hana (sem og hin 150 myndböndin sem við áttum, allt flokkað og númerað, nú allt horfið).

Rússar eru ekki lengur fyndnir bara sorglegir.

Rússar hafa nú loksins viðurkennt hvaða gas það var sem þeir notuðu, ef greint hefði verið strax frá því hefði mátt bjarga mörgum mannslífum. Skrifræði og hroki embættismanna lætur ekki að sér hæða þó að líf liggi við.

Meira af speki Rússa, nú eru þeir að fara að lækka giftingaraldur niður í 14 ár (úr 16), á sama tíma eru þeir að fara að hækka aldursmörkin fyrir kynmök upp í 16 ár (úr 14). 14 ára grislingar munu því líklega geta gift sig en ekki stundað kynlíf fyrstu tvö árin. Snillingar.

Gaman að sjá hvað Donald Rumsfeld leikur sér í dótakassanum sínum. Núna má bara forsetinn vera “Commander in chief”, allir þeir níu sem hafa borið þann titil hingað til verða að vera Commander yfir einhverju öðru. Nú vantar bara einhverja úr Löggulífi til að koma með hugmyndir að nýjum búningum fyrir herinn svo hann verði flottur, hvar sem er í veröldinni sem að Rumsfeld vill leika sér.

Uncategorized

Mannslífið er lítils virði

Fyrst hversdagsmálin: ég er nú kominn á naglana enda hálka og snjór úti. Veturinn er kominn. Núna heimsmálin…

Mikið er það nú gott fyrir sálarheill norrænna ráðamanna að þeir skilji þá ákvörðun rússneskra stjórnvalda að gerast fjöldamorðingjar með gasárásum. Til að bíta höfuðið af skömminni hafa rússnesk yfirvöld ekki enn látið uppi hvert gasið var og það hefur kostað enn fleiri líf rússneskra og erlendra borgara. Þá ákvörðun er aðeins hægt að útskýra með mannvonsku, eru þeir að forðast það að gefa þær upplýsingar upp svo að næstu hryðjuverkamenn geti ekki haft réttu tegundina af gasgrímum? Er það virði lífa tuga borgara? Greinilega, og með því hafa norrænir ráðamenn mikla samúð.

Sníkjudýrið Blair áttar sig ekki á þessu enda ekki hans börn eða ættingjar sem var fórnað í þessari vitleysu Rússa.

Einföld upplýsingagjöf hefði lágmarkað harmleikinn enn frekar en það er of flókið fyrir Pútín og félaga. Danir fá plús fyrir að leyfa þingi Tjétjéna að halda sínu striki, restin af ESB virðist hins vegar vera að reyna að friðþægja rússnesku vitleysingana. Sjálfsákvörðunarréttur þjóða er aðeins boðlegur þegar Könum og Rússum þóknast svo… það vita Kúrdar, Tjétjénar og fleiri allt of vel.

Skítur flýtur og það má sjá á talsverðum fjölda ríkisstjórna og ráðamanna. Fyrir þeim er fólk tölfræði, fátt er verra en að vera þegn í svoleiðis ríki.

Uncategorized

Bara negla þetta!

Kvöldið farið í að skrúfa saman nýja skrifborðið mitt frá Hirzlunni, 13.000 krónur eða svo fyrir stórt (níðþungt) og veglegt skrifborð með stórri lyklaborðshillu. Á endanum reyndust festingarnar fyrir lyklaborðið með eindæmum ósamvinnuþýðar þó að borvél skærist í leikinn. Því endaði ég á því að negla lyklaborðshilluna við skrifborðið með saumum með stórum flötum haus. Vonandi að það dugi eitthvað.

Íran og Írak eru öxulveldi hins illa en það stöðvar ekki sannkristna Ameríkana í því að reiða sig á stuðning þeirra í baráttunni gegn fóstureyðingum, kynlífsfræðslu og réttindum samkynhneigðra. Svo monta þessir vitleysingar sig yfir því að hafa brotið reglur Sameinuðu þjóðanna þegar þeir voru með áróður í þingsal, og finnst það sýna hversu duglegir þeir eru. Eins og má lesa í þessari frétt Washington Post (17. júní 2002) þá er þetta bandalag á góðri leið með að snúa jafnréttisbaráttunni umtalsvert af leið svo ekki sé minnst á réttindi samkynhneigðra og kynfræðslu (fyrir utan skírlífi sem er eina kynfræðslan sem er þessum vitleysingum þóknanleg).

Fegurðarsamkeppnir eru oft umdeildar, nú hafa dýralæknar við Wisconsin-Madison háskólann búið til próf sem geta skorið úr um hvort að bændur hafi fegrað júgur kúa á óeðlilegan hátt. Júgrin vega 40% í fegurðarsamkeppni kúa og því er gripið til ýmissa ráða til að stækka þau og gera sléttari. Ekki eru líkur á því að þessi próf verði notuð í fegurðarsamkeppni kvenna.

Enn ein fréttin frá Bandaríkjunum, enda vandfundnara fólk sem gerir hverja vitleysuna á fætur annari. Þingmaður hefur verið fundinn sekur um að þiggja atvinnuleysisbætur á meðan að hann situr á þingi. Hann kennir skrifræði um, það hefði átt að vera búið að stoppa hann og útskýra fyrir honum af hverju það væri rangt að þiggja atvinnuleysisbætur þegar maður hefur starf (og það vel launað).

Molasykur

Bend It Like Beckham

Fórum í dag í bíó, nokkuð sem hefur ekki gerst í háa herrans tíð, nánar tiltekið fórum við síðast á Austin Powers:Goldmember þann 31. ágúst. Guðbjörg dvelur hjá okkur núna í nokkra daga (fyrsti næturgesturinn okkar) og kom auðvitað með.

Fyrir valinu varð Bend it Like Beckham. Stórfín mynd með fótbolta, kvenfólki, ástarsögu, afbrýðissemi og meiri fótbolta. Svo ég verði nú alvarlegri þá var þetta reyndar mjög góð mynd með góðum söguþræði og varpaði smá ljósi á indverska menningu í Bretlandi sem og kvennafótbolta (sem er á uppleið um allan heim) og gerði góðlátlegt grín að ýmsum fordómum.

Var að fara í gegnum skúffur og kassa hjá mér og fann þessa snilldarmynd sem var myndskreyting við grein um aðalþingmenn verkamannaflokksins, greinin birtist í The Independent 13. desember 1992. Þar var Tony Blair (lengst til vinstri á myndinni) sagður of veiklyndur og of mikill lögfræðingur, um viðureignir hans og Kenneth Clarke var sagt að það væri “a bit like Bambi versus Vlad the Impaler”, Blair sem Bambi þá. Lengst til hægri á myndinni er þáverandi leiðtogi Verkamannaflokksins, John Smith, sem lést úr hjartaáfalli minnir mig.

Uncategorized

Þó hann sé rauðhærður

Horfði á þýska boltann í dag, sá leik Bayern München og Hannover 96 sem endaði 3-3. Ekki skil ég hvað sumir eru að segja að þýski boltinn sé leiðinlegur, það var nóg af marktækifærum, mörkum (þó að fáránleg sé að meta gæði leiksins af fjölda marka sem eru skoruð) og tilþrifum og mikil spenna fram á síðustu sekúndu.

Svona hafa flestir leikirnir sem ég hef séð í Bundesligunni verið. Mun skemmtilegra en viðureignir flestra liða í Englandi (þar sem leikmenn geta ekki gefið boltann sín á milli skammlaust) eða á Ítalíu (þar sem varfærnin er komin í öfgar). Aðeins Spánn er með líklega skemmtilegri knattspyrnu og munar þó ekki miklu.

Þulirnir eru með skársta móti á RÚV, þó finnst mér alveg merkilegt hvað þeim finnst gaman að segja að “þessi sé nú harður nagli þó hann sé aðeins 172 cm á hæð” og þar fram eftir götunum. Hvað kemur hæð leikmanna getu þeirra við? Það er ekki eins og að þetta sé blak eða handbolti. Maradona var 168 cm minnir mig og Signori notar skó númer 37. Þetta er eins og maður fari að segja að “Kahn sé nú góður markmaður, sérstaklega ef miðað er við að hann er rauðhærður” eða að “Pele hafi verið knattspyrnusnillingur þó hann hafi verið svertingi”. Bara hættið þessu rugli, sérstaklega Arnar Björnsson sem að er allra manna duglegastur við að nefna hæð allra sem eru undir 185 cm og undrast hvað þeir geta spilað. Sjálfur er hann að ég held rétt tæpir 190 cm og virðist telja að þeir sem eru lægri séu síðri.

Dálkahöfundurinn Giles Smith útskýrir fyrir okkur hávísindalegar aðferðir sem að enska knattspyrnusambandið notar til að ákvarða leikbönn og sektir. Það virðist nefnilega vera jafn alvarlegt að segja eitthvað í hita leiksins og að stórmeiða menn með fantaskap. Graeme Souness er nú búinn að fá 3 leikja bann fyrir að öskra á dómara, mikið held ég að knattspyrna yrði leiðinleg ef allir ættu að sitja þögulir eins og í leikhúsi. Þetta er komið út í öfgar þegar menn eru að reyna að “hreinsa ímynd” leiksins, það er bannað að blóta, bannað að bora í nefið á vellinum og bannað að sýna tilfinningar. Bráðum verður bannað að sparka í boltann því að það er ofbeldisfullt.

Aðrar fréttir úr fótboltanum eru þær að það er stórfrétt í Englandi að Diego Forlan hafi skorað fyrir Manchester United, hans fyrsta alvöru mark (fyrsta markið var úr vítaspyrnu) eftir fjöldamarga leiki. Frekar skondin frétt, grey strákurinn. Heiðar Helguson var svo vondur við mína menn í Sheffield Wednesday, hann skoraði sigurmarkið fyrir Watford í dag. Wednesday verða í miklum fallslag aftur þetta árið.

Þar sem ég er einn í koti þessa helgina þá leit ég aðeins til mömmu og fékk þar lambalæri. Ég sá líka gleraugun hans Kára, hans fyrstu. Við erum því orðnir tveir bræðurnir sem eru sjóndaprir.

Húsverkin geta orðið fjörugri ef að hreinsiefni úr víni koma á markað. Ætli þá verði slegist um að gera húsverkin?

Af útlöndum er það svo að frétta að það virðist sem að Rússar hafi drepið 90 gísla með taugagasinu sem þeir notuðu til þess að sljóvga þá sem inni voru. Pútín baðst afsökunar í sjónvarpsviðtali, það kyssir auðvitað á bágtið hjá aðstandendum… klúður!

Uncategorized

Ekki alveg

Púff.. skilaði inn skilaverkefninu í dag, ekki glæsilegt en nú er bara að brillera þegar ég skila seinni hlutanum.

Frekar þreyttur og því skal bara fara á smá fréttayfirlit.

Enskir stúdentar geta unnið sér inn vasapening með því að prófa smokka. Einhvern vegin held ég að þeir fengju samt mun fyrr niðurstöðurnar ef þetta væri gert á Íslandi…

Kannski ég fari bara að lesa fyrstu 13 kaflana í Acts of the Apostles, þeir eru í boði á netinu. Ef þeir eru góðir gæti maður kannski keypt bókina, hún er að fá mjög góða dóma úti.

Uncategorized

Á síðustu stundu

Ágætis réttardrama sem ég sá í dag, fyrri hluti og seinni hluti. Hefur ekki tekist að grafa upp lyktir málsins.

Ef einhverjum datt í hug eitthvað tengt þefskyni eftir lestur síðustu málsgreinar er viðkomandi bent á að lesa fleiri bækur, þær auðga andann og orðaforðann.

Skemmtilegt Counter-Strike lag að finna hér.

Af mér að frétta er það einna helst að nú bíður hörkutörn í að klára skilaverkefni fyrir morgundaginn, um leið og því er lokið ætla ég að fjárfesta í nýju skrifborði, núverandi er yfir tíu ára gamalt og í grunnskólastærð. Ekki mjög gott vinnuumhverfi.

Heyrði frá eDDie í dag, hann var gerður óþarfur (reduntant) í vinnunni í september, hann er harður tölvuheimurinn í dag. Grey strákurinn nýbúinn að kaupa sér raðhús með unnustunni.

Uncategorized

Vefverðlaunin

Íslensku vefverðlaunin voru afhent áðan, mínir menn hjá Baggalút unnu verðskuldaðan sigur í flokki afþreyingarvefja. Sýnist að ég kannist við alla meðlimi dómnefndar (sem heitir víst Hin íslenska vefakademía…) utan eins.

Það er ýmislegt á sig lagt til að komast í heimsmetabók Guinnes, kona ein var í 32 daga í herbergi ásamt 3.400 sporðdrekum. Þetta slær gamla metið sem var 30 dagar og 2.700 sporðdrekar. Hún var stungin 9 sinnum en það hafði engin áhrif á hana þar sem hún er komin með ónæmi gegn eitri þeirra eftir 6 ára starf við sporðdrekasýningar. Launin eru færslan í heimsmetabókina og 1.000 dollarar, ekki ýkja hátt tímakaup það.

Köld eru kvennaráð. Þýsk lögreglukona gróf upp farsímanúmer eftirlýsts glæpamanns, hringdi í hann og þóttist hafa hringt í skakkt númer, spjallaði hann til og kom stefnumóti í kring. Maðurinn mætti í sínu fínasta pússi en að stefnumótinu loknu (athugið… að því loknu… ekki um leið og hann mætti) var hann handtekinn.

Sorgleg voru örlög þýsku stelpunnar sem fékk sér sundsprett undir ljósi fulls tungls. Hún nefnilega stakk sér til sunds í norðurhluta Ástralíu þar sem krókódílar eru vel fjölmennir, hún og hinir túristarnir hunsuðu aðvörunarskiltin sem bönnuðu sund á staðnum. Það sem átti að vera falleg stund kostaði hana lífið.

Lífið er stutt, en það hangir líka á bláþræði. Af hverju að hætta á dauðann vegna einnar reynslu þegar svo ótalmargar aðrar bíða?

Uncategorized

Fréttayfirlit

Þeir leynast víða svörtu sauðirnir, lækni í Bretlandi hefur verið vikið frá störfum vegna óviðeigandi framkomu, hann tilkynnti þeim sem greindust með krabbamein frá því með mjög óvirðulegum hætti (“you have cancer, I have asthma, we all have to die some time”), skrifaði níðbréf um yngri lækna, reyndi við sjúklinga og hjúkrunarfólk og er greinilega algjör idjót. Myndi líklega henta vel sem svona elska-að-hata karakter í læknadrama, en nóg er af þeim í sjónvarpinu.

Englendingurinn Lisa Landau slapp ótrúlega vel eftir að hafa sokkið með bíl sínum í mýri. Hún keyrði útaf síðastliðið laugardagskvöld og sökk með bíl sínum ofan í mýrina. Aðeins smá hluti afturendans (á bílnum nota bene) stóð upp úr og hann sá athugull vegfarandi á mánudagsmorgni.

Auglýsingamennskan veit engin takmörk, núna eru þeir farnir að rækta epli með munstrum.

Óheppnin var hins vegar til staðar í Víetnam þar sem einn maður lést og fjórir aðrir misstu meðvitund vegna fisksósu. Einn hafði fallið ofan í 2.2 metra hátt ker þar sem fisksósan var að gerjast og hinir reyndu að koma honum til bjargar. Eins og gerist þegar að gerjun er í gangi koma gufur (oft illþefjandi) upp og stækjan var slík að hinir misstu meðvitund.

Tyrkir eiga langt í land með mannrétindi, eins og sjá má af því að stjórnmálamaður var handtekinn fyrir að heilsa kjósendum á kúrdísku.