Category Archives: Fótbolti

Fótbolti Samfélagsvirkni

Kvótadúkka

Í dag birtist grein á knuz.is þar sem er talað um þau viðbrögð sem Margrét Erla Maack fékk fyrir að mæta í HM-stofuna til að tala þar um áhugaleysi sitt á fótbolta. Það er auðvitað stór skandall hvaða fúkyrðaflaum hún mætti fyrir að mæta þar sem kona og engum til sóma. Það er hins vegar ekki eini skandallinn.

Sjálfur hef ég ekki séð þáttinn né fúkyrðaflauminn nema það sem talað er um í greininni en ástæðan sem hún gefur upp fyrir að mæta, með semingi, er vond.

Tilvitnun er þarna úr Nýju lífi og þar segir

Ég hef margoft lent í þessu en nýlegasta dæmið var þegar ég var beðin um að vera gestur í HM-stofunni hjá Birni Braga en hann vildi taka viðtal við mig þar sem ég skil ekki fótbolta. Ég afþakkaði boðið því mér fannst þetta álíka asnalegt og að tala við fólk á kosninganótt sem hefur ekki áhuga á pólitík. Þegar hann hringdi aftur og sagði að ég yrði að koma því að þeir væru ekki að standa sig nógu vel í kynjakvótanum þá náði hann mér

[…]

Eins og ég hefði grátbeðið um að koma í þáttinn!

Þarna er ég fyllilega sammála fyrstu viðbrögðum Margrétar, að afþakka boðið enda ljóst að hún myndi litlu bæta við þátt um knattspyrnu – enda ekki hennar sérsvið. Hún er án efa frábær viðtals um margt annað en vissi takmörk sín og tók góða ákvörðun.

Það að þáttastjórnandinn sé svona ægilega illa að starfi sínu vaxinn að hann hringi aftur og þrábiðji og vísi í kynjakvótann er eitt. En að Margrét falli fyrir því og samþykki að mæta, í nafni kynjakvótans, er hinn skandallinn í þessu máli.

Ef hún hefði afþakkað aftur hefði Björn Bragi kannski þurft að vinna vinnuna sína og náð í annan kvenmann, nú einhvern sem hefur þekkingu á fótbolta. Sjálfboðaliðar spruttu strax upp á Twitter við lestur þessarar greinar á knuz.is og hefðu án efa boðið sig fram hefði Björn Bragi bara spurt eftir kvenfólki sem gæti mætt og orðið sér sjálfu til sóma í umræðum um knattspyrnu.

Með því að samþykkja boðið var því Margrét að gera kynsystrum sínum grikk. Það réttlætir ekki verstu viðbrögðin en það er óverjandi fyrir hana og þáttastjórnanda að hafa svona “kjósandi sem veit ekkert” stund, hvort sem umræðuefnið var fótbolti, tryggingakerfið, gjaldeyrishöft eða annað.

Konur, eða karlar ef þannig hallar á, sem samþykkja að mæta sem kvótadúkkan gera meira ógagn en gagn í jafnréttisbaráttunni.

Fótbolti

Jólaskreytingar

Skrapp í Kringluna í dag (í fyrsta sinn í lengri tíma) til að endurnýja sólhattsbirgðirnar (echinaforce). Merkilegt nokk en ég fæ ekki kvef eftir að ég fór að taka sólhattinn reglulega (2-3 töflur 3-4 sinnum á dag).

Sá að þeir voru í óðaönn að henda upp jólaskreytingunum, enda ekki nema 7 vikur í jólin, hver er að verða síðastur! Ég er annars byrjaður að skreyta fyrir 17. júní sjálfur, maður má ekki vera síðastur!

Eða þannig. Annað sem pirraði mig í þessari Kringluferð voru 17 ára aularnir sem tóku handbremsubeygju á verulegum hraða á fullu bílastæði, og mér sýndist ekki muna nema nokkrum sentimetrum á að þeir rækju afturendann í næsta bíl. Það vantar svo mikið í hausinn á svo mörgum, þessir afglapar á bílnum með einkanúmerinu HJÖRDÍS eru væntanlega á góðri leið með að verða að umferðartölfræði, 21 látinn í umferðinni í ár, og þessir virðast ekki eiga langt í það að valda slysi.

Ég reyndist svo ekki sannspár, bæði Lazio og Lyon fallin út í meistaradeildinni. Þetta er bara ekki mitt tímabil í boltanum!

Áhugavert lesefni:

Fótbolti

Ristin

Skrapp í boltann í kvöld og fór út af eftir 20 mínútur eða svo, haltrandi mjög. Þetta er vinstri ristin sem er að plaga mig eins og hún hefur gert af og til í sumar. Málið með hana er nefnilega það að í móðurkviði var ég orðinn svo stór að vinstri löppin sat bara pikkföst og fór því að vaxa skakkt, þannig að ég fæddist með klumbufót.

Fyrstu árin fóru í aðgerðir og svoleiðis, ég hoppaði um með gifs á vinstri löpp í lengri tíma, en þetta gekk vel og fyrir utan að vinstri löppin er 1 cm styttri hefur þetta verið bara í fínu lagi.

Núna er mig farið að verkja í samskeytin þar sem ég var púslaður saman (það sem var gert var eiginlega að fremsti hluti fótarins var klipptur af, aukadót hreinsað burt og svo festur aftur á).

Panta á morgun tíma hjá bæklunarlækninum mínum, vil láta tékka á því hvort ég eigi bara að leggja skóna á hilluna eða gera eitthvað annað.

Fótbolti Molasykur Samfélagsvirkni

Kemur þó hægt fari

Enn einn vináttuleikurinn í kvöld. Núna brá svo við að einn maður tók ábyrgðina á liðsuppstillingu og skiptingum og það sýndi sig að þetta gefst mun betur, við vorum 2-0 yfir í leikhléi.

Eftir leikhlé tókst andstæðingunum að pota einu marki inn eftir nokkrar mínútur, 10 mínútum seinna var svo aukaspyrna fyrir utan teig og hún skrúfaðist neðst í fjærstöngina, markmaðurinn var í boltanum en snúningurinn var of mikill, vel tekin aukaspyrna en svekkjandi mark fyrir okkur. Á 82. mínútu náði svo miðjumaður þeirra að pota sér í gegnum þvögu og sneiða boltann í markið, vel klárað. Þegar 4 mínútur voru eftir æstust leikar þegar að 2 leikmenn úr sitt hvoru liðinu byrjuðu að slást eftir vafasama tæklingu. Þetta leystist upp í skallaeinvígi milli þeirra og að auki var sparkað í andlitið á liggjandi manni. Báðir menn voru leiddir á brott og róaðir niður, og við flautuðum leikinn bara af, ekki gaman að spila þegar kergja er komin í mannskapinn.

Þokkalegur leikur hjá okkur, það er flestallt að batna hjá okkur. Stráklingarnir sem æstu sig í lokin verða að læra það að þó illa sé brotið á manni þá á bara að hunsa það og spila, liðin skildu sátt sem betur fer.

Af öðrum þjóðfélagsmálum þá finnst mér alltaf jafn magnað þegar að sagt er að 66% heillar þjóðar styðji eitthvað, þegar að úrtakið er 800 manns og við miðum við 100% svarhlutfall (sjaldgæft) þá þýðir það að 528 manns mynda meirihluta hjá 15 milljóna þjóð. Það fylgir ekki einu sinni þessari frétt Moggans hvernig úrtakið var valið, samsetning þess í búsetu, aldri og kyni svo bara helstu atriði séu talin til.

Svo ég haldi áfram að berja á fjölmiðlum, og áfram Mogganum (ég les lítið af innlendum miðlum, Mogginn er það óheppinn núna að ég kíkti á hann í dag) þá fannst mér afar áhugaverð þessi frétt, þar sem að fyrirsögnin segir að samverkamenn Bin Ladens hafi verið handteknir, en sjálf fréttin segir að þeir séu GRUNAÐIR um að vera samverkamenn. Sakleysi uns sekt er sönnuð gildir ekki í æsifréttafyrirsögnum að sjálfsögðu.

Mér finnst íslenskir fjölmiðlar gera mest lítið annað en að þýða (oft illa) fréttatilkynningar frá erlendum fréttastofum, sem margar hverjar lepja það upp eftir stjórnvöldum sem þeim er sagt, en rannsaka ekki málin nánar. Það þarf margt að laga hér á landi, og fjölmiðlar eru þar ofarlega á lista. Nú eða að fólk fari að hætta að trúa í blindni því sem kemur frá fréttastofunum, svo lengi sem við höfum í huga að fréttir eru oftast sagðar frá sjónarhóli einhvers eins aðila, þá förum við ekki að taka þeim sem heilögum sannleik.

Áhugavert lesefni:

Fótbolti Tækni

Þegar þrír er of mikið

Linux-sneiðin mín (partition) kom að góðum notum í dag, þegar að ég prófaði að setja WebSphere upp á *nix stýrikerfi. Uppsetningin gekk glimrandi vel og IBM fær plús í kladdann fyrir það hversu flottur þessi tarbolti þeirra var og vandað uppsetningarforritið.

Áfram hrúgast inn vírusatilkynningar hjá mér, vel yfir 3500 komnar, ég sendi ekki nema á að giska 8 tölvupósta í dag á aðila sem að ættu að geta uppfært vélarnar sem eru að skjóta núna á mig. Raunar voru þessar 8 ábyrgar fyrir eins og 1600 sendingum þannig að þetta er allt að koma. Þetta hefst með þolinmæðinni.

Við skruppum fjögur úr vinnunni á KFC í hádegismat, þar sem að grísabollurnar höfðuðu ekki sterkt til okkar í mötuneytinu. Við pöntuðum okkur öll besta réttinn þeirra, númer 6, sem er BBQ kjúklingaborgari með frönskum og gosi. Fátt sem toppar þetta. Urðum jafn södd og af hamborgurunum sem kostuðu rúmlega tvöfalt meira á Ruby Tuesday síðasta föstudag, en ég hallmæli nú ekki Ruby Tuesday samt, alvöru hamborgarar á góðum stað.

Í kvöld vorum við að keppa einn vináttuleikinn í viðbót. Veðrið var til fyrirmyndar, ekkert rok og rigningarúðinn kom beint niður, okkur til ánægju, svo voru almennileg varamannaskýli við Leiknisvöllinn sem að nýttust vel vegna þessarar útlandarigningar, íslenskt slagviðri hefði bara hnussað og gusað yfir menn sama hvar þeir sátu. Gervigras er líka alltaf best blautt. Fyrri hálfleikur fór 0-0 þar sem að við í vörninni vorum að gera ágætis hluti. Í seinni hálfleik var svo bara kaos með sífelldum innáskiptingum og færslum manna á milli staða. Það voru 3 menn utan vallar sem voru að stjórna þessu og þeir stóðu hlið við hlið og öskruðu hver ofan í annan. Þegar að snöggi kantmaðurinn okkar var allt í einu kominn í miðvörðinn var þetta hætt að vera fyndið. Þessi hringavitleysa þýddi auðvitað öruggt tap, 6-1 var staðan að loknum venjulegum leiktíma en þeir spiluðu víst eitthvað áfram yfir það, ég fór bara heim enda klukkan orðin 23:00. Það sorglega er að við erum með nógu góðan mannskap til þess að gera miklu betur, og hefðum getað rassskellt andstæðingana. En með svona stjórnun þá er bara ein útkoma möguleg.

Áhugavert lesefni:

Fótbolti

Aftur í boltanum

Vorum að spila æfingaleik, þolið hjá mér sem var nú ekki upp á marga fiska hefur ekki aukist eftir Frakklandsferðina. Fann fyrir því núna þegar ég spilaði seinni hálfleik í hægri bakverði. Hitti fyrrum vinnufélaga minn sem að var einmitt hægri bakvörður hins liðsins, hann er núna rafvirki í Smáranum, og sagði mér að það yrði líklega að fresta opnuninni sem á að vera 10. október, þar sem að það er enn heilmikið að gera og þó eru 1200 manns þarna að vinna á hverjum degi. Þvílíkt bákn.

Áhugavert lesefni:

Fótbolti

Stórhættulegt

Kynlíf er sko mun hættulegra en tölvuleikir, hvað sem uppeldissálfræðingar segja, sjáið bara þessar köldu staðreyndir að 616 manns hafa látist vegna notkun Viagra, á móti einum sem dó í Counter-Strike

Alien Ant Farm komu mér skemmtilega á óvart á MTV með þeirra útfærslu á Smooth Criminal, mun betri en Michael Jacksons.

Var að horfa á Eurosport, fínn leikur hjá Ali Daei, Íran unnu Írak 2-1 á útivelli. Merkilegast fannst mér hvað allir Írakarnir voru lágvaxnir, en Íranirnir flestir vel stórir.

Fótbolti Molasykur

Boltinn búinn

Þá er keppni minni í utandeildinni lokið í ár, tók ekki þátt nema í þremur leikjum, enda kom hóf ég ekki knattspyrnuiðkunina fyrr en í júlí. Ef ég kynni að skammast mín þá væri ég rauður niður að tám, þar sem að ég er í vondu formi, síðastliðið ár bætti miklu á mig, aðallega framan á magann. Þá er bara að gera alvöru úr því að koma sér í form, og það er á dagskrá um leið og ég er kominn heim úr sumarfríinu. Svo margir boltar sem ég hefði náð ef að eins og 10 kíló hefðu verið ekki til staðar (eða þá á réttum stöðum). Það er alltaf næsta tímabil 🙂

Margt skondið sem ég sá í vefgáttinni minni í dag, þar ber hæst tilraunir Microsoft til þess að blekkja saksóknarana sem að eru að lögsækja það, ekkjuna sem að fann frábæra leið til að eyða ellinni og perúskan atvinnuleysingja sem að notar mótmælaaðferðir sem að eru alls ekki að mínu skapi.

Annað sem er mér ekki að skapi er hvernig stórfyrirtæki eru allt í einu orðin lögregla og dómstóll, og að þú sért sekur uns sekt, nei afsakið, sakleysi sé sannað. Það sem meira er að ríkið færði einkafyrirtækjum þetta vald.

Svo var dregið í riðla í Meistaradeildinni, mínir menn í Lazio og Lyon lentu í nokkuð snúnum riðlum en ættu samt að hafa þetta af.

Fótbolti Tækni

4. dagur sambandsleysis

Gaf enn og aftur upp nauðsynlegustu upplýsingar þegar ég hringdi í hítina sem að er 800 7000. Hef það alltaf á tilfinningunni að hvað sem að ég segi þar, þá hverfi það ofaní svarta hít og finnist aldrei aftur. Að minnsta kosti kannast enginn við neitt þarna. Spurning hvort að þetta verði komið áður en ég fer út um næstu helgi…

Í kvöld sá ég hins vegar loksins almennilegt efni á Eurosport (reyndar var HM í Edmonton nokkuð skemmtilegt), Brescia 1-1 Paris SG í InterToto Final, og seinni hálfleikur í leik Barcelona og Wisla Krakow sem fór 1-0, í undankeppni meistaradeildarinnar.