Monthly Archives: May 2013

OpenStreetMap Samfélagsvirkni

OpenStreetMap og ja.is

Það var árið 2009 sem ég kom fyrst auga á OpenStreetMap og gerði tvær breytingar á því, setti svo inn aðra breytingu 2012 og það var ekki fyrr en í ár sem að ég fór að gera eitthvað af viti þar.

OpenStreetMap er sumsé kort af heiminum búið til á svipaðan máta og Wikipedia er skrifuð, af þúsundum sjálfboðaliða. Af hverju er verið að vesenast í svona þegar Google Maps hefur sannað sig fyrir mörgum og fleiri komnir í hituna? Af því að þarna er auðveldara að laga villur og þessi gögn eru í almannaeign þannig að það er hægt að ná í þau og nota í eigin tilgangi. Það er ekki hægt hjá Google og öðrum heldur þarf að greiða fyrir notkun á gögnum þeirra.

Ég er búinn að vera að teikna Nónhæðarhluta Smárahverfis upp. Það er mjög einfalt reyndar, ég fer á OpenStreetMap, finn þar hverfið mitt og smelli á Edit (það þarf að skrá sig inn, það er ókeypis og auðvelt). Það er hægt að velja um 2 mismunandi ritla til að breyta í vafranum, iD ritillinn þarna er nýr og með mjög góða kynningu á sjálfum sér og hvernig hægt er að teikna á kort.

Þá fæ ég upp loftmynd af hverfinu og tól til þess að teikna upp götur, hús og hvað eina sem er á korti. Sem stendur er ég að vinna í að klára Nónhæðina.

Ég ákvað að bera kortið mitt við ja.is sem notar gögn frá Samsýn. Vinstri myndin er útgáfa ja.is og hægri myndin er útgáfa OpenStreetMap. Á ja.is myndinni hef ég sett nokkra rauða hringi, þetta eru byggingar sem eru ekki til!

Þær eru líklega til á uppdrætti, þetta eru bílskúrar en svo vill til að  bara er búið að byggja helminginn af þeim, restin er ekki á leiðinni næstu árin enda þurfa allir sem eiga rétt á að byggja bílskúr að sameinast um það í hverju fjölbýli fyrir sig. Rauði hringurinn lengst til hægri er svo spennistöð, hún er merkt sem Arnarsmári 28a og hefur gert okkur lífið leitt þegar við notum straeto.is því að hann kemur alltaf upp á undan 28.

ja.isOpenStreetMap

 

Samsýn/ja.is nota þarna líklega opinbera uppdrætti, það má sjá að byggingarnar þeirra eru nákvæmari að lögun. En þessir uppdrættir innihalda líka þessar draugabyggingar, það er áhugavert að velta því fyrir sér hvort að heilu draugahverfin séu til á kortum ja.is.

Ég ákvað að skoða þéttbýliskjarna á Íslandi og bjó til lista yfir þá staði sem vantar loftmyndir á og þá sem vantar byggingar á (og hver sem er getur núna farið og bætt við á OSM). OSM-kortið fyrir Ísland á talsvert í land, en í Reykjavík og á mörgum öðrum stöðum stendur það jafnfætis við Google Maps, ja.is og fleiri.

Ég hvet fólk sem hefur gaman af kortum (við erum til og fleiri en menn ætla!) að kíkja á þetta og skoða hvort að það vilji þó ekki nema uppfæra götuna sína, ef ekki meir.