Monthly Archives: October 2001

Molasykur

Stikkorð

Vinna, heimanám, Cartoon Network, National Geographic, svefn.

Áhugavert lesefni:

Fótbolti

Jólaskreytingar

Skrapp í Kringluna í dag (í fyrsta sinn í lengri tíma) til að endurnýja sólhattsbirgðirnar (echinaforce). Merkilegt nokk en ég fæ ekki kvef eftir að ég fór að taka sólhattinn reglulega (2-3 töflur 3-4 sinnum á dag).

Sá að þeir voru í óðaönn að henda upp jólaskreytingunum, enda ekki nema 7 vikur í jólin, hver er að verða síðastur! Ég er annars byrjaður að skreyta fyrir 17. júní sjálfur, maður má ekki vera síðastur!

Eða þannig. Annað sem pirraði mig í þessari Kringluferð voru 17 ára aularnir sem tóku handbremsubeygju á verulegum hraða á fullu bílastæði, og mér sýndist ekki muna nema nokkrum sentimetrum á að þeir rækju afturendann í næsta bíl. Það vantar svo mikið í hausinn á svo mörgum, þessir afglapar á bílnum með einkanúmerinu HJÖRDÍS eru væntanlega á góðri leið með að verða að umferðartölfræði, 21 látinn í umferðinni í ár, og þessir virðast ekki eiga langt í það að valda slysi.

Ég reyndist svo ekki sannspár, bæði Lazio og Lyon fallin út í meistaradeildinni. Þetta er bara ekki mitt tímabil í boltanum!

Áhugavert lesefni:

Molasykur

Dýrið í þér

Allir að taka svona persónuleikapróf þessa daganna, ég kíkti á eitt enn, svokallað Animal in you, og þar sagði að ég væri “You are either a Wild Dog or a Wolf personality. But you may also be a Owl personality.” Svo sagði að ég yrði að velja það sem að mér fyndist lýsa mér best, mér tókst hins vegar ekki að velja á milli uglunnar og úlfsins, villihundurinn var hins vegar fjærstur.

Þetta próf er reyndar eiginlega auglýsing fyrir samnefnda bók, eins og lesa má á vefnum þeirra. Fólk hefur bara svo gaman af svona skoðanakönnunum að þær duga vel til að trekkja að gesti.

Á mánudagskvöldum er annars EuroGoals á EuroSport, eini fótboltinn sem ég sé reglulega.

Áhugavert lesefni:

Molasykur

Discovery Channel

Ekki eins mikill letidagur og í gær en samt nálægt því. Skrapp til litla bróður og fiktaði í tölvunni hans, þó með takmörkuðum árangri þar sem það vantaði hitt og þetta, maður verður að fara að setja ýmsustu tölvuparta í verkfærasettið sitt.

Horfi oft á breiðvarpið á meðan að ég sit og vinn/leik mér í lappanum, Discovery Channel ratar oftar en ekki á skjáinn þá. Í kvöld var á dagskrá “Creepy Creatures”, nokkrir þættir með þema um smádýr sem að vekja óhug margra. Þar var sýnt hvernig maðkar flugna eru notaðir í lækningaskyni til að hreinsa sár og sýkingar, þeir éta víst bara dautt og rotnandi hold en ekki lifandi. Einnig voru blóðsugur notaðar þó nokkuð, í þeim þætti var jafnframt sýnt hvernig kona sem missti þumal fékk nýjan, sem var fyrrverandi stóratá hennar (mun stærri en þumallinn.. en virknin skiptir meira máli en fagurfræðin). Svo voru það MS-sjúklingarnir sem að láta býflugur stinga sig því að býflugnaeitrið hefur heilsubætandi áhrif á þá, eins undarlega og það gæti hljómað. Margt fleira fróðlegt sem þarna kom í ljós.

Mér finnst Discovery Channel bara vera æðisleg stöð, þó nokkuð af endurtekningum á þáttum, en þá eru bara minni líkur á að maður missi af einhverju sniðugu.

Molasykur

Laugardagur í leti

Dagurinn var algjör letidagur, hékk heima að spila tölvuleiki og gera mest lítið annað.

Pabbi kom reyndar í mat í kvöld, og það var rabbað aðeins saman, við vorum reyndar öll sammála (sem er sjaldgæft) um það hvað þessi blessaði þáttur með Steinunni Ólínu er leiðinlegur.

Áhugavert lesefni:

Fjölskyldan

Grímuball

Sigurrós og nokkrar aðrar stelpur í Kennó langaði svo á grímuball að þær ákváðu að halda það sjálfar. Það var haldið nú í kvöld í Stúdentakjallaranum og heppnaðist bara dæmalaust vel. Líklega um 50 manns sem mættu og bara mjög gaman.

Við vorum voða flott saman, vonandi koma myndirnar af okkur jafn vel út og við litum út 🙂

Verst að reykingarnar eyðileggja alltaf svona skemmtanir, ég verð mjög pirraður í augunum af reyknum og undir lokin gat ég varla haldið þeim opnum. Þegar við komum svo heim önguðu ekki bara fötin okkar heldur við sjálf af þessari ógeðslegu reykingastybbu. Af hverju er svona erfitt að skemmta sér án þess að koma heim angandi eins og öskubakki?

Áhugavert lesefni:

Molasykur

Crêpe à la vapeur

Frönskutímarnir að ganga ágætlega, er að reyna að vera skipulagður í náminu jafnframt. Vorum að kíkja á helstu matartegundir sem koma fyrir á Menu (borið fram muny), og vorum jafnframt vöruð við að forrétturinn crêpe à la vapeur er gufusoðið pönnukökudeig, en ekki eiginleg pönnukaka.

Tók eftir því þegar ég fór frá Miðbæjarskóla að búið er að loka hluta Laufásvegar, þar sem bandaríska sendiráðið er til húsa. Einn stór lögreglubíll stendur við eitt hornið og lokar fyrir alla umferð þar, gaman að vera á vaktinni þar.

Áhugavert lesefni:

Fótbolti

Ristin

Skrapp í boltann í kvöld og fór út af eftir 20 mínútur eða svo, haltrandi mjög. Þetta er vinstri ristin sem er að plaga mig eins og hún hefur gert af og til í sumar. Málið með hana er nefnilega það að í móðurkviði var ég orðinn svo stór að vinstri löppin sat bara pikkföst og fór því að vaxa skakkt, þannig að ég fæddist með klumbufót.

Fyrstu árin fóru í aðgerðir og svoleiðis, ég hoppaði um með gifs á vinstri löpp í lengri tíma, en þetta gekk vel og fyrir utan að vinstri löppin er 1 cm styttri hefur þetta verið bara í fínu lagi.

Núna er mig farið að verkja í samskeytin þar sem ég var púslaður saman (það sem var gert var eiginlega að fremsti hluti fótarins var klipptur af, aukadót hreinsað burt og svo festur aftur á).

Panta á morgun tíma hjá bæklunarlækninum mínum, vil láta tékka á því hvort ég eigi bara að leggja skóna á hilluna eða gera eitthvað annað.

Tækni

Út með WinAmp

WinAmp er fínasta forrit, sá mp3-spilari sem ég hef notað lengst af. Í dag hins vegar varð ég mjög pirraður á því hvað hann er frekur á örgjörvann þegar að verið er að skipta á milli laga. Þá frýs öll önnur vinnsla og önnur forrit sem ég er að vinna með eru gjörsamlega óstarfhæf í 2-3 sekúndur, þetta er mjög bagalegt til dæmis þegar að ég er að skrifa mikinn texta og missi fleiri fleiri slög úr.

Því kíkti ég á netið og prufaði í annað sinn forritið Sonique, sem ég hafði gefið tækifæri fyrir löngu síðan og litist ágætlega á en WinAmp hafði þó yfirhöndina þá.

Núna setti ég inn þessa nýju útgáfu, og stóðst hún helstu kröfurnar sem ég geri til svona forrita, og að auki fraus vélin ekki þó að skipt væri á milli laga. Miklar líkur til þess að þetta verði MP3-forritið mitt í bráð.

Tók eitthvað “Geek-test” í dag, reyndist vera 52% geek, tek svona próf mér til gamans þó að mér finnist allir svona stimplar vera broslegir.

Talandi um broslegt, lesið neðsta lesendabréfið á þessari síðu, þvílík fóbía, meira grátlegt kannski en broslegt.

Áhugavert lesefni:

Molasykur

Cartoon Network

Heilsuátak þessa vikuna í vinnunni, og maturinn víst í hollari kantinum sökum þess. Ýsa í tómatsósu í dag, og var bara þokkalegasti matur, frekar þurr fiskur en vel ætt.

Cartoon Network er snilldarstöð með mörgum góðum (og reyndar nokkrum vondum) teiknimyndum. Mér finnst reyndar áhugavert hvað mikið af teiknimyndunum er frekar við hæfi eldri áhorfenda, Power Puff stelpurnar eru alveg æðislegar oft, vel skrifaðir þættir með skemmtilegar skírskotanir í Star Wars, Monty Python og fleira, hins vegar ekki alveg eitthvað sem ég myndi leyfa börnunum mínum að sjá fyrr en þau væru orðin 10-12 ára eða svo. Dexter’s Laboratory er önnur snilli með húmor í svipaða átt, en ég veit ekki alveg hvað litlum börnum finnst um hann. Scooby Doo hins vegar er það allra leiðinlegasta sem að sést hefur á sjónvarpsskjá, þó virðist þetta vera hrikalega vinsælt?

Áhugavert lesefni: