Monthly Archives: August 2003

Uncategorized

Hafrar mjólkaðir

Þar sem ég var að sinna þrifnaðarskyldum við sjálfan mig fór ég að pæla í því hvernig í ósköpunum maður mjólkaði hafra (Oat Milk and Honey baðsápa).

Svarið er víst að finna hérna og lesa má meira um þetta hérna.

Uncategorized

Cassiopeia A og QBIC

Þessi mynd er ótrúlega flott! Þetta er nú bakgrunnurinn hjá mér á skjáborðinu.

Verið að læra í dag, þar ber hæst að stauta sig áfram úr Efficient and Effective Querying by Image Content greininni og leita uppi skyldar greinar.

Uncategorized

Óbein kennsla

Már bendir á alveg einstaklega áhugaverðar síður í dag, Tölvulæsi indverskra götubarna. Mér finnst svona lagað alveg brilljant, munurinn á milli þeirra sem geta notað sér kraft tækninnar og internetsins til að afla sér upplýsinga, og þeirra sem ekki leggja í það né kunna, verður aðalmálið þessa öldina.

Bruce Almighty er bara þokkalegasta ræma.

Uncategorized

Klæði sem mig langar í!

Ég fann flíkina sem mig vantar! ScotteVest!

Ég er oft með lítinn bakpoka sem ég geymi þá veskið, síma, lykla og fleira sem maður tekur með sér og aðrir geyma í töskunum sínum. Ég hef bara ekki fundið þægilega litla tösku sem mér finnst sniðug, þessi jakki fer langt með að uppfylla það sem mig vantar.

Mig grunar hins vegar að tískulögga heimilisins sé ekki eins áfjáð í svona.

Uncategorized

Bandaríkin afvopni sig líka

Bandaríkjamenn eru vinsamlegast beðnir að afvopna sjálfa sig af kjarnorkukallinum hjá Sameinuðu þjóðunum. Líst vel á þetta.

Þá er maður búinn að mæta í alla tíma og sjá hvernig landið liggur fyrir veturinn. Ógnarmikil vinna en talsverður hluti af því er sjálfstæð rannsóknarmennska, ég er svo miklu meira til í það en endalausar forritunaræfingar sem er að finna í öðrum valáföngum. Lítur vel út bara.

Uncategorized

Matarþátturinn

Þeim sem langar til að vita meginuppistöðuna í mataræði okkar þá ber að geta þess að það eru kjúklingur og núðlur. Matreitt á ýmsan máta eins og þennan. Þarna er kjúklingurinn í þunnum bitum ásamt ananas, sveppum og bananabitum og þetta var allt steikt í BBQ-sósu. Aðeins villimenn sjóða matinn sinn, eina undantekningin eru núðlur og pasta ýmiss konar.

Mikil læti eru í Bandaríkjunum vegna þess að dómari smellti 2 tonna stöpli með boðorðunum tíu á lóð opinberrar byggingar og vill ekki fjarlægja hann. Nú er spurt, hvaða boðorð eru þessi tíu? Úr mörgu er nefnilega að velja.

Hryllingssögur má svo lesa í Etiquette Hell. Ég er svo sem ekki alltaf mikið fyrir það að fylgja einhverjum siðum sem virðast ekki hafa tilgang og hreinlega margir voða vitlausir en margt þarna er nú einum of.

Uncategorized

Fyrsti skóladagurinn

Jæja þá er maður byrjaður aftur… enn eitt árið.

Fínn dagur, leist vel á námskeiðið sem krefst akademískra pælinga en ekki handavinnu við endalausar dæmaúrlausnir.

Uncategorized

Glæsilegt

Já brúðkaupið í gær var sérdeilis glæsilegt. Okkur tókst að finna Fríkirkjuna í Hafnarfirði í annari tilraun og hún reyndist vera mjög notaleg.

Sigurrós er búin að setja saman sína færslu um þetta og búin að setja misgóðar myndirnar á vefinn. Canon Powershot A300 vélin okkar þarfnast greinilega enn meiri fínstillingar af okkar hálfu eða að hún er frekar vonlaus greyið innandyra í myrkum aðstæðum. Vonandi er þetta bara stillingadæmi frekar en hitt að við höfum keypt okkur myndavél sem er ekki upp á sitt besta á mannamótum.

Í morgun fórum við á fætur upp úr 9. Trítluðum svo niður á Hlemm til að taka strætó og sækja bílinn upp í Kópavog þar sem veislan var haldin. Við þurftum reyndar að hlaupa síðustu 100 metrana, það er örugglega vel rúmur áratugur síðan að ég hljóp til að ná strætó. Ekki komið í svoleiðis apparat í lengri tíma nema á ferðalögum mínum erlendis.

Í kvöld kíktum við svo til Arnar og Regínu. Þar sáum við Daníel Helga spila tölvuleik þar sem hann var Jenni að slást við Tomma og þar fór minna fyrir ærslunum en kjaftshöggunum… hmm.

Við horfðum svo á Moulin Rouge! hjá þeim. Hvorugt okkar hafði séð hana áður og hún reyndist prýðismynd. Baz Luhrmann greinilega snargeggjaður galdramaður.

Uncategorized

Á leið í brúðkaup

Förum í kvöld í brúðkaup Ívars og Önnu Lilju. Nánari skýrsla á morgun.

Uncategorized

Snögggrill, Valur kveður og Bora segir hæ

Síðasti alvöru vinnudagurinn í dag. Verð líklega að dútla kannski tvo tíma á viku í þessu í vetur eða minna svona til að halda öllu gangandi.

Smelltum grillinu í gang þegar ég kom heim og buðum pabba yfir í grill. Rauðvínslegna lambakjötið reyndist mjög gott, eins og gefur að skilja varð smá bál og það er bara betra að snögggrilla fituna af svona :p

Kíktum svo á Sirkús að kveðja Val sem fer á sunnudaginn til Álaborgar í framhaldsnám. Hef ekki komið á þennan stað í nokkur ár, þá hét hann Grand Rokk minnir mig. Verst að garðurinn er lokaður, stybban inni gerði mig hásan og fötin mín ógeðsleg.

Minn gamli vinur Bora Milutinovic ætlar nú að koma enn einu landinu á HM, nú er það Hondúras. Íslendingar væru búnir að vinna sinn riðil ef við hefðum fengið þennan mann, Þjóðverjaleikirnir hefðu verið formsatriði.

Vísindamenn hafa annars svarað spurningunni hvort að maður syndi hraðar eða hægar í vökva sem er þykkari en vatn. Svarið er… jafnhratt.