Við skruppum í bíó í kvöld. Fyrir valinu varð náttúrulega Heimur farfuglanna.
Ég sá í fyrra minnir mig trailer (myndskot?) úr myndinni sem að fékk mig til að gapa. Myndatakan var þvílík að maður trúði henni vart.
Myndatakan í myndinni sjálfri er algjör snilld. Mig dauðlangar að sjá heimildamyndina um gerð heimildarmyndarinnar! Hún er víst á DVD disknum, á einhver hann? Það er fátt sagt í myndinni en myndirnar eru margar þrungnar merkingu. Iðnaðarhverfið í Evrópu líktist einna helst Uruk-hai verskmiðju Sarúmans.
Reyndar grunar okkur þó að heimildamyndin um skordýrin sé enn áhugaverðari.
Eitt sem truflaði okkur. Gamla danska konan fyrir aftan okkur sem var svo spennt yfir myndinni að hún lýsti stórum hlutum hennar fyrir alsjáandi syni sínum (höldum við) sem sat við hlið hennar og gat fullvel séð þetta sjálfur. Þetta var fyrst pínu sætt en fór að taka á taugarnar. Við höfðum það þó ekki í okkur að snúa okkur við og segja þeirri gömlu að þegja. Þetta gerist víst þegar fólk sem er vant að lýsa öllu sem gerist í sjónvarpinu heima kíkir í bíó einu sinni á ári. Sætt en verulega pirrandi.