Monthly Archives: July 2006

Uncategorized

Lesskýrsla

Eftir að HM lauk þá hef ég varla kveikt á sjónvarpi í sumar. Ítalirnir annars með hundleiðinlegt lið!

Síðustu mánuði hef ég verið að mjatla í gegnum The Death and Life of Great American Cities eftir Jane Jacobs. Ég leit á þessa bók eftir að BoingBoing benti á hana, nokkrum dögum seinna birtist grein á Deiglunni um hana. Bókin er nú loksins aftur aðgengileg öðrum á Landsbókasafninu!

Bókin er stundum torlesin en hún er mjög fróðleg. Borgar- og bæjarfulltrúar ættu að vera skyldugir að lesa nokkra kafla í henni til að átta sig á því hvað aðgerðir þeirra geta leitt af sér.

Í sumarbústaðaferð nýlega tók ég svo með mér Dream Park og A History of the World in 10½ chapters.

Dream Park fjallar um framtíð þar sem LARP er orðið ógnarstórt fyrirbæri og beinar útsendingar eru frá ævintýrum sem búin eru til. Hef aldrei prufað svona lifandi hlutverkaleik sjálfur en ef hann nær þessu stigi væri gaman að prufa! Það eru víst til tvær aðrar bækur sem eru framhald af þessari, The Barsoom Project og svo The California Voodoo Game, tékka á þeim við tækifæri.

A History of the World in 10½ chapters er mjög sérstök bók með smásögum sem tengjast á lúmskan máta. Frásögnin af lífinu í örkinni hans Nóa (og hinum örkunum…) er áhugaverð.

Að lokum var það svo Angels and Demons eftir Dan Brown. Líkt og í Da Vinci dulmálinu þá er fléttan áhugaverð og allt í kringum hana, vísbendingar og svör, mjög spennandi. Hvað varðar persónusköpun og samskipti þeirra á milli þá er hún því miður mjög slöpp, líkt og lélegar sjoppubókmenntir.