Monthly Archives: September 2014

OpenStreetMap

Að sýna lífsmark kortagerðar

Það er lítið mál að sjá kort fyrir sér sem eitthvað sem breytist lítið, flest okkar áttum við kortabækur sem voru oft orðnar ansi rosknar og líklega má finna Austur-Þýskaland í mörgum bókahillum landsmanna.

Reyndin er allt önnur, byggingar og hverfi spretta upp eins og við þekkjum, nýjir stígar, brýr og auðvitað fyrirtæki sem birtast og hverfa. OpenStreetMap reynir að gera öllu þessu og fleiru skil. Ég ætla að reyna að taka saman mánaðarlega lífsmarkið sem er á Íslandskortinu.

Hérna má sjá þau svæði þar sem breytingar voru gerðar á Íslandskortinu í OpenStreetMap í september 2014.

Uppfærð svæði september 2014

Ekki tæmandi listi:

  • Akranes
  • Álfaborg
  • Ásbyrgi
  • Bakki
  • Blönduós
  • Bolungarvík
  • Borg í Grímsnesi
  • Borgarfjörður eystri
  • Borgarnes
  • Brynjudalur
  • Brúnavík
  • Dalabyggð
  • Dalvík
  • Djúpivogur
  • Dyrhólafjara
  • Eskifjörður
  • Eyjafjarðarsveit
  • Eyrarhús
  • Fimmvörðuháls
  • Fjarðabyggð
  • Fálki
  • Garðabær
  • Gufuskálar
  • Gæsavötn
  • Hafnarfjörður
  • Hafragil
  • Hnjótur
  • Holuhraun
  • Hvalvík
  • Hvítárvatn
  • Hólar
  • Höfði
  • Húsafell
  • Húsavík
  • Ísafjörður
  • Knarrarnes
  • Kópasker
  • Kópavogur
  • Langholt
  • Laugar
  • Laxamýri
  • Lárós
  • Mosfellsbær
  • Neskaupstaður
  • Norðausturvegur
  • Núpur
  • Ólafsfjörður
  • Reykjanesbær
  • Reykjavík
  • Sauðárkrókur
  • Selfoss
  • Siglufjörður
  • Skaftafell
  • Skagafjörður
  • Skógaeyrar
  • Skógar
  • Skútustaðir
  • Svarfaðardalur
  • Tjörnes
  • Upphérað
  • Valdasteinastaðir
  • Vatnsdalsvatn
  • Vesturbyggð
  • Vopnafjörður
  • Vík
  • Þingvellir
  • Þjófadalur
Samfélagsvirkni Stjórnmál

Litaveislan mikla í Kórnum

Þetta hljómaði eins og firrt framtíðarsýn (dystópía). Einkafyrirtæki lokaði af 2 af 5 hverfum Kópavogs og skipti í litasvæði. Aðeins þeir sem höfðu þessa liti máttu yfirhöfuð aka inn á svæðið og enginn akstur leyfður á milli litasvæða. Hugurinn reikaði til bókaflokksins The Hunger Games með svæðin þrettán og bókarinnar Shades of Grey eftir Jasper Fforde þar sem litnæmni augans flokkaði þig í þjóðfélagsstöðu.

Reyndin varð nú ekki eins firrt og þetta var auglýst. Í framkvæmd voru lokanir ekki eins grimmar og auglýst hafði verið, atvinnuhverfinu við Urðarhvarf var ekki lokað eins og auglýst hafði verið og íbúar Linda komust að mestu leiðar sinnar. Einstaka aðilar sem ekki höfðu bílapassa en gáfu gildar ástæður virtust fá að komast leiðar sinnar.

Sagan

Sagan hefst opinberlega hjá Kópavogsbæ 20. febrúar 2014 þegar frétt birtist á vef bæjarins um tónleikana og greint frá mikilli undirbúningsvinnu. Það er þó ekki fyrr en 16. apríl að bærinn veitir formlega leyfið á fundi bæjarráðs. Bæjarráð á eina viðkomu enn í málinu 15. maí þegar það samþykkir tímabundið áfengisleyfi.

Lögreglan vann skýrslu varðandi umferðina sem bar titilinn Tónleikar í Kórnum 2014, Umferðargreining þar sem lokanir voru engar í Linda- né Salahverfi heldur ekki fyrr en í Kórahverfi. Endanlegar lokanir sem urðu umfangsmeiri voru ákveðnar af Senu í samráði við verkfræðistofu. Sena hafði vald til þess að ákveða lokanir því að sveitarfélagið framselur rétt til umferðarstjórnunar til viðburðarhaldara. Almenningur verður var við það í kringum stærri atburði, til dæmis Menningarnótt í Reykjavík þar sem 4 þúsund íbúar lúta umferðartakmörkunum en þetta hefur aldrei verið svona stórt í sniðum áður, 10 þúsund íbúar voru settir undir umferðarstjórnun Senu.

Umferðarlíkan Senu voru líklega forsendurnar að því að íbúar sem bjuggu austanmegin við Kórinn fengu afslátt á tónleikana en þeir íbúar sem bjuggu næst Kórnum og voru þá vestanmegin fengu ekki afslátt.

Tónleikarnir voru auglýstir sem þeir stærstu innandyra á landinu með 16 þúsund miða selda, eldra fólk man þó eftir tónleikum Metallicu í Egilshöll 4. júlí 2004 þar sem 18 þúsund miðar voru seldir.

 

Framkvæmdin

Bílapassarnir sem gáfu íbúum réttindi til að keyra inn á sitt litasvæði komu í hús á föstudegi fyrir íbúa til að nota á sunnudegi.

Bílapassi – litasvæðin sýnd
Bréf til íbúa á bílapassa
Bréf til íbúa á bílapassa

 

Frumtilgangurinn að koma tónleikagestum fljótt og örugglega til og frá svæðinu virðist hafa gengið vel. Bílastæði við Smáralind voru þéttsetin og raðir í strætisvagna sem komu mjög ört að tímabundnu stoppistöðinni sem var komið upp þar. Strætisvagnasamgöngurnar virkuðu mjög vel og ferðatíðnin var mjög ör.

 

2014-08-24 19.14.20
Röðin í strætisvagna við Smáralind klukkan 19:15
2014-08-24 19.13.11
Varðstjóri Strætó og viðburðarvörður Senu stjórnuðu í röðinni

 

Litakortagæslan við Lindahverfið hófst við stóra hringtorgið þar sem þeir sem voru að fara upp Fífuhvammsveg voru beðnir um að sýna bílapassa sín eða snúa við ella. Þá gæslu sáu starfsmenn Senu um, þeir voru úr Hjálparsveit skáta í Kópavogi þegar ég átti leið sjálfur þar um á hjóli. Lögreglan var viðstödd en horfði eingöngu á.

 

Starfsmenn Senu skoðuðu bílapassa
Starfsmenn Senu skoðuðu bílapassa
Lögreglan fylgdist með
Lögreglan fylgdist með

 

Engin gæsla var við hringtorgið við Salaveg en tímabundin umferðarmerki voru til staðar. Næsti gæslustaður var hringtorgið á móti Fífuhvammsvegar og Arnarnesvegar. Enn voru merkingar við Sólarsali og Salaveg en næsti gæslustaður var svo sá sem lögreglan hafði séð fyrir sér, við hringtorgið Rjúpnavegi.

Hinum megin frá var fyrsti gæslustaður hringtorgið við Vatnsendahvarf og Vatnsendaveg. Þar var líka tímabundin stoppistöð og bílastæði sem voru notuð en þó nokkuð minna en í Smáralind. Göngustígur þar við var merktur tónleikunum fyrir þá sem ekki vildu taka strætisvagnana.

Talsverð umferð var á göngustígum, einkum Landamærastígnum svonefnda sem liggur milli Linda- og Salahverfa Kópavogs annars vegar og Seljahverfis Reykjavíkur hins vegar. Við Kórinn var búið að útbúa sérstakt hjólastæði úr lausu grindverki austanmegin en mun fleiri lögðu þó hjólum sínum vestanmegin þar sem þeir læstu við grindverk.

 

Röðin rétt fyrir klukkan 20 í salinn
Röðin rétt fyrir klukkan 20 í salinn

 

Umferð úr hverfinu að tónleikum loknum gekk greiðlega með aðstoð lögreglunnar sem stjórnaði umferð fyrir neðan Ögurhvarf þar sem umferðarljósin voru ekki nógu greiðvikin.

 

Eftirmálar

Tónleikahaldarar voru afar ánægðir og voru æstir í að endurtaka leikinn með aðra stórtónleika í Kórnum.

Gestir voru misánægðir, sviðið var ekki mjög hátt uppi og þeir sem voru á gólfinu sáu margir hverjir ekkert af tónleikunum sjálfum á sviðinu nema þeir kveiktu á símum sínum og horfðu á útsendinguna þar. Upplifunin þótti þó frábær og listamaðurinn stóð við sitt og rúmlega það.

Íbúar voru margir hverjir ánægðir með hversu greiðlega gekk að komast heim með bílapössum en eitthvað var um að íbúar kvörtuðu undan því á sunnudeginum að hafa ekki fengið bílapassa. Sumir urðu varir við það að bílum fjölgaði allhratt á bílastæðum fjölbýlishúsa rétt fyrir klukkan 16, tónleikagestir sem ekki tímdu að taka ókeypis strætisvagna þar á ferð.

Það er spurning hversu réttlætanlegt það er þó að setja ferðahömlur á 10.000 íbúa vegna tónleikaviðburðar. Eitt skipti er áhugavert en hversu oft getur þetta orðið. Eru tónleikar einu sinni á ári ásættanlegir? En tvisvar? En sex sinnum? Ef bara póstnúmer 203 lýtur lokunum þá fækkar íbúum með ferðahömlur í  7.000. Er það betri tala? Hversu oft?

Er Íslendingum treystandi til að nota almenningssamgöngur af bílastæðum án þess að grípa þurfi til svona lokana? Myndu stóratburðir í Kórnum virka ef sú aðferð væri reynd? Það væri óskandi og mætti hugsanlega þjálfa Íslendinga upp í því.

Fyrirspurnir varabæjarfulltrúans Sigurjóns Jónssonar komu skriðu á önnur mál. Svo virðist sem að ósk bæjarstjórans um boðsmiða fyrir aðalbæjarfulltrúa og maka þeirra sem og þeir sem þáðu þessa boðsmiða hafi gerst sekir um brot á siðareglum Kópavogsbæjar. Bæjarstjóri vildi ekki upplýsa leiguverðið sem bærinn fékk fyrir Kórinn þó að nýr meirihluti hafi samþykkt að opna bókhaldið í málefnasamningi.

Karen Halldórsdóttir bæjarfulltrúi birti ágætis pistil þar sem hún einblíndi meira á þau atriði sem hefur verið tæpt á hérna varðandi umferð og utanumhald en minntist ekki á opna bókhaldið.

Svarið fékkst þó að lokum og var áætlaður gróði af atburðinum 5,5 milljónir. Þetta er gróði upp á 550 krónur per íbúa sem voru litamerktir.

Þetta mál þarf að skoða aftur frá öllum hliðum. Kórinn er frábært mannvirki og það stórt að hann er enn ekki kominn í fulla notkun. En þetta er stórt mannvirki með sárafá bílastæði á vondum stað, umkringdur þéttri íbúabyggð fleiri kílómetra í hvora átt. Hvenær er réttlætanlegt að atburður einkafyrirtækis loki hverfum þar sem 10.000 íbúar búa? Hversu oft er hægt að réttlæta það? Er það sjálfsagt að það sé árlegur atburður? En fjórum sinnum á ári? Hvert er langlundargeð íbúa og annara sem ætla að nota þessar samgönguæðar?
[osm_map lat=”64.083″ lon=”-21.826″ zoom=”15″ width=”600″ height=”450″ ]

 

Stytt útgáfa af þessari færslu birtist í Kópavogsblaðinu 7. september 2014