Category Archives: Fjölskyldan

Fjölskyldan OpenStreetMap

Leikvellir á OpenStreetMap

Í gær sunnudag skruppum við feðginin í bíltúr til að prófa fleiri leikvelli. Við settum stefnuna á leikskólann Rjúpnahæð sem er efst í Salahverfi hér í Kópavogi, þar sem við erum með leikskóla í bakgarðinum sem stelpurnar fara daglega á er oft spennandi að heimsækja aðra, sjá hvernig dót er þar og sjá öðruvísi skipulag.

Nú brá svo við að undirritaður hefur verið að fikta í OpenStreetMap (sem er open source útgáfa af einhverju svipað og Google Maps, sumir kalla það wikipediukortið enda geta allir bætt við það sem skrá sig þar inn frítt), hér eftir nefnt OSM.

 

leikvellir

Leikskólinn Rjúpnahæð er gula svæðið, leikvellirnir eru ljósblá svæði, göngustígar og gangstéttir eru rauðar brotnar línur.

 

Þar eru leikvellir merktir inn á, ég notaði tækifærið á meðan að stelpurnar skemmtu sér á frábærri lóð Rjúpnahæðar og skoðaði, í BlackBerry símanum sem er með þeim slappari, kortið á OSM og sá þá að tveir leikvellir voru í næsta nágrenni. Þegar nýjabrumið var farið af Rjúpnahæðinni röltum við því á fyrsta leikvöllinn (ljósblár kassi til hægri á kortinu), stelpunum fannst mjög áhugavert að þarna værum við að labba yfir í Reykjavík.

Eftir ágætis stopp þar fórum við aftur á stíginn og ætluðum nú að halda á hinn leikvöllinn, sem er efst á kortinu. Á leiðinni sáum við hins vegar annan leikvöll, lengst til vinstri á kortinu, sem var þá ekki merktur inn. Við stoppuðum aðeins þar og ég setti staðsetningu hans á minnið. Eftir stutt stopp þar héldum við svo áfram upp stíginn og aftur yfir í Seljahverfið og fundum leikvöllinn sem er annars hulinn þeim sem ferðast eftir þessum göngustíg sem aðskilur bæjarfélögin.

Án kortsins hefðum við aldrei vitað af honum, hann er inn á milli húsa.

Við röltum svo til baka með annari viðkomu á nýjasta leikvellinum.

Þegar heim var komið fór ég inn á OSM og merkti inn á stígbút sem hafði vantað á kortið (milli leikskólans og stóra göngustígsins) og nýjasta leikvöllinn. Afraksturinn má sjá að ofan.

Ég hvet fólk til að kíkja á http://www.openstreetmap.org og nota það til dæmis til að finna leikskóla eða leikvelli til að kíkja á með börnin. Ég hvet það enn fremur til að merkja inn á OSM (eða senda mér nótu) ef það sér að það vantar leikvelli þar inn.

Ætla að fara að skoða það hvernig ég get svo birt kort sem sýnir bara leikvelli/róluvelli/leikskóla – hugsa að það verði mjög notadrjúgt um helgar og í sumar!

Næst förum við líklega á Hvammsvöll og þessi 6 leiksvæði sem eru þar í kring!

 

leikvellir-2

Hvammsvöllur og leikvellir í grenndinni
Fjölskyldan Tækni

Endurlífgun

Þá er langt um liðið síðan takka var potað niður á þessum stað, Facebook og Twitter hafa kitlað lyklaborðið.

Freyja Sigrún fæddist 2010 og þá er vísitölufjölskyldan komin.

Undur tækninnar leyfa mér svo að nota farsímann til að viðhalda þessu, skipti nú í WordPress úr heimalagaða kerfinu og fæ með því margt sniðugt.

 

Fjölskyldan

Heimasætan

Húsmóðirin að Betrabóli hefur tekið að sér að vera ritari heimasætunnar og heldur úti síðunni hennar þar sem myndir og myndbönd detta inn vikulega og hafa gert það undanfarnar vikur.

Fleiri hræringar eru væntanlega í öðrum vefmálum að Betrabóli í netheimum.

Fjölskyldan

Ragna Björk Jóhannesdóttir

Heitir barnið eftir ömmum sínum. Í daglegu tali Ragna Björk, notum tvínefnið. Sigurrós er með myndir og fleira í sinni færslu .

Fjölskyldan

Stúlka Jóhannesdóttir

10. mars 2007 klukkan 15:31 fæddist okkur dóttir.

Skilja má eftir kveðjur á síðu móðurinnar, þessa dagana einbeitum við okkur að því að aðlagast þessu nýja fjölskyldumynstri og koma skikk á venjur dótturinnar.

Sagan í kringum fæðinguna kemur síðar á vefinn ásamt fleiri myndum og hvað eina!

Fjölskyldan

Myndböndin komin

Fyrir rúmri viku bjó ég til notanda á YouTube sem við ætlum að nota í framtíðinni til að setja stutt fjölskyldumyndbönd á netið.

Í færslu Sigurrósar er nú hægt að sjá fyrstu sex, sem eru úr þrívíddarsónarnum.

Fjölskyldan

Ófædd Jóhannesdóttir

Eftir þrívíddarsónarskoðun dagsins virðist staðfest að væntanlegur frumburður er stúlka. Sjá færslu Sigurrósar og svo myndirnar . Er að reyna að pota myndböndunum inn líka…

Fjórvíddin er víst tíminn, það eru þrívíddarmyndir í tímaröð.

Fjölskyldan

Stóra fréttin

Fyrst Sigurrós er búin að nefna það á netinu má ég það víst líka.

Áætlaður komutími: 14. mars.

Fjölskyldan

jbj5

Í dag hóf ég aftur skólagöngu við Háskóla Íslands eftir 10 ára hlé.

1995 skráðu ég og tveir vinir mínir okkur í lögfræði. Tveir okkar entust ekki til áramóta. Árið eftir skráði ég mig svo í stjórnmálafræði og þó að áhugaverð væri þá gat hún ekki att kappi við Internetið sem þarna var að komast á skrið.

1995 var mér úthlutað netfanginu jbj@, það var síðan endurnýtt og einhver annar ber það nú. Ég fékk úthlutað jbj5@ sem er ekki nógu kræsilegt en hugga mig við það að 5 er síðasta talan í fæðingarárinu.

Markmiðið er meistaragráða árið 2008.

Fjölskyldan

Grímuball

Sigurrós og nokkrar aðrar stelpur í Kennó langaði svo á grímuball að þær ákváðu að halda það sjálfar. Það var haldið nú í kvöld í Stúdentakjallaranum og heppnaðist bara dæmalaust vel. Líklega um 50 manns sem mættu og bara mjög gaman.

Við vorum voða flott saman, vonandi koma myndirnar af okkur jafn vel út og við litum út 🙂

Verst að reykingarnar eyðileggja alltaf svona skemmtanir, ég verð mjög pirraður í augunum af reyknum og undir lokin gat ég varla haldið þeim opnum. Þegar við komum svo heim önguðu ekki bara fötin okkar heldur við sjálf af þessari ógeðslegu reykingastybbu. Af hverju er svona erfitt að skemmta sér án þess að koma heim angandi eins og öskubakki?

Áhugavert lesefni: