Monthly Archives: February 2002

Uncategorized

Kaldasti febrúar síðan 1935

Nú var ég snöggur að redda mér og mínum, leysti þetta vandamál á örskotsstundu með því að smella inn PHP 4.1.2 á vefþjóninn, aleinn. Því minna sem ég þarf að bögga Egil því ánægðari erum við báðir. 🙂

Sissi er nú orðinn líkamsræktargoð íslenskra bloggera, hann er búinn að ná þrusuárangri á nokkrum vikum og sökum mikilla óska ætlar hann að smella upp leiðbeiningum fyrir okkur sem að erum að slást við nokkur aukakíló. Ég er að taka þetta núna hægt og rólega með því að breyta mataræðinu smám saman, en bíð spenntur eftir ráðum frá Sissa.

Svo er í dag víst síðasti dagurinn sem að Björgvin bloggar, … í bili. Okkar menn eru ekki að gera góða hluti í ár, frekar en síðustu 6 eða svo. Við Björgvin Ingi erum samt áfram harðir stuðningsmenn, það er víst svoleiðis að maður skiptir ekki um lið í fótboltanum, öðruvísi en í flestum öðrum málum.

Áhugavert:

  • Blatter hinn vondi
  • Uncategorized

    Greiðslumatið

    Fengum greiðslumatið til baka í dag, samkvæmt því höfum við heimild til að kaupa fyrir 12,3 milljónir, þannig að 10,2 milljóna íbúðin okkar er vel innan marka.

    Bara pappírsvinna sem stendur á milli okkar og Flókagötu 61!

    Uncategorized

    Erfðamengið

    Salon er oft með ágætis greinar, ég hef tengt talsvert í það rit hér og mun halda því áfram á meðan að gott efni kemur frá þeim. Áhugaverð grein í dag um erfðamengi manna og hverjir eigi það.

    Var að lesa nýjasta .net blaðið (ekkert skylt Microsoft .NET), þar má oft finna skemmtilega tengla innan um misgáfulegt efni.

    Áhugavert:

  • Everything Starts With E (sögubrot af danstónlistinni)
  • Topp danslistinn í Tékklandi (FM957-legur)
  • Classic Novels (kynntu þér þær klassísku, gerstu jafnvel áskrifandi að skáldsögum í tölvupósti)
  • SMS meiðslahætta
  • Uncategorized

    Leiðindatík, pólitíkin

    Það er svo mikið af efni um ódæði Ísraelsmanna á öllum fréttamiðlum að tenglalistinn myndi fylla marga skjái, læt mér nægja að vísa í frekar saklaust (á þeirra mælikvarða) atvik, þar sem að alþjóðlegur eftirlitsmaður segir frá því sem hann sá. Best að minnast ekkert á þegar að ófrískar konur eru skotnar á leiðinni á sjúkrahús til að eignast þar börn sín, né þegar að eiginmenn þeirra eru myrtir, og önnur voðaverk. Enginn þeirra þingmanna sem ég sendi erindi um daginn hefur látið svo lítið sem að svara þeim skrifum mínum, hvers vegna Ísland fordæmdi ekki þessa ódæðisstefnu.

    Einn af þeim mönnum sem ég sendi þann póst á heitir Davíð Oddsson. Samkvæmt þessari frétt var hann loksins núna að gera eitthvað meira en að segja “uss uss” vegna spillingarmálanna í Þjóðmenningarhúsinu. Það tók ekki nema 18 daga fyrir hann að skipta um skoðun eftir að allir fjölmiðlar og almenningur voru búnir að lýsa yfir hneykslun sinni. 7. febrúar sendi hann sumsé smá nótu, en í dag leysti hann viðkomandi frá störfum tímabundið.

    Bananalýðveldið Ísland……. há eff. Velkomin.

    Uncategorized

    Önnur skoðunarferð

    Skrapp í dag að skoða í annað sinn íbúðina sem að við höfum nú fest kaup á (eða allt að því… öll skriffinskan eftir), núna með mömmu og pabba sem og Sigurrós, mömmu hennar og kærasta.

    Eftir heimsóknina skissuðum við svo upp gróflega hvernig við gætum raðað þeim húsgögnum sem við eigum í íbúðina. 96 dagar í afhendingu (ef skriffinskan lofar).

    Uncategorized

    Kauptilboð samþykkt

    Eitthvað virðist byrjendaheppnin hafa gengið í lið með okkur. Í dag fórum við og tókum gagntilboði seljandans, verðið er 10.2 milljónir. Við erum að borga líklega 1.5 milljónir fyrir staðsetninguna en erum bara sátt við það. Þegar kemur svo að því fyrir okkur að selja þá ættum við að fá ekki minna fyrir hana, staðsetningin er það frábær.

    Þetta er sumsé Flókagata, nokkra metra frá Kennó í mjög fallegu húsi. Núna er líklega mánuður sem fer í alls konar skriffinsku áður en að kaupsamningur verður gerður.

    Við erum því mjög ánægð með lífið sem stendur, ætlum að fá okkur gúmmelaði og horfa saman á einhverja góða mynd í kvöld.

    Uncategorized

    Fyrsta tilboðið

    Í gær var Linux í dæmatíma í skólanum. Kom skemmtilega á óvart þar sem að allt þar er mjög svo Microsoft-baserað (svo ég sletti).

    Í morgun fórum við á fasteignasöluna og drógum upp tilboð, sem við sendum svo eftir hádegið. Fyrsta sinn sem við gerum tilboð í íbúð, vonum bara að við fáum smá byrjendaheppni með okkur og tryggjum okkur hana von bráðar.

    Áhugavert:

  • OK, George, make with the friendly bombs
  • Uncategorized

    Risíbúð

    Sigurrós og mamma hennar fóru fyrr í dag og skoðuðu risíbúð nálægt Kennó. Í kvöld fóru þær svo aftur, núna með mér og smiðnum Einari frænda (Sigurrósar), til að meta þetta.

    Íbúðin er nokkuð skemmtileg, mikið er undir súð en stofan er góð sem og herbergin. Mér leist vel á þetta og við erum spennt fyrir þessu. Við fáum ekki greiðslumatið fyrr en á mánudag og getum því ekki gert tilboð strax. Að auki þá munar 4 milljónum á brunabótamati og því sem sett er á hana, sem að er svolítið stór hjalli hvað húsbréf og lífeyrissjóðslán varðar.

    Ég er ekki menntaður í hagfræðinni en mér finnst ansi undarlegt að til þess að eignast íbúð þá þurfi ég að framvísa veðrétti í annari íbúð.

    Spennandi eign sem að gaman gæti verið að eignast (og þess vegna er ég ekki að kjafta frá hvar hún er :p ).

    Uncategorized

    Umsókn um greiðslumat

    Fór í dag og sótti um greiðslumat í bankanum fyrir okkur hjónakornin. Fórum á Aktu Taktu í hádeginu þar sem að það var ólíft heima við vegna viðgerða, maturinn olli miklum vonbrigðum, hamborgarinn því sem næst óætur, og franskarnir ekki eins góðar og áður. Það verður langt þangað til við förum þangað aftur. Var mjög tæpt síðast, og þessi séns sem að þeir fengu fór í ruslið.

    Á leiðinni í bankann gaf millihluti pústsins sig endanlega, því fór dágóður tími eftir hádegi í það að redda nýju stykki og svo koma því undir. Pabbi veitti sem oftar mikla hjálp í þessu stússi.

    Ég sé að félagi minn í sameiginlegum, nær vonlausum málstað okkar er að draga sig út úr sviðsljósinu (sem að virðist leita hann uppi), hann er að fara að loka síðunni sinni segir hann.

    Uncategorized

    Rokrassgat

    Fór klukkan átta í morgun á Skagann, frekar hvasst og mikill skafrenningur á leiðinni. Kenndi svo þar til rúmlega þrjú en hélt þá aftur í bæinn. Nú var orðið enn hvassara, og Yarisinn (bíll sem að var í miklu uppáhaldi hjá mér) var farinn að dilla rassi (hann er of léttur og of hár, tekur of mikinn vind á sig, ekki heppilegur hér á landi), hvergi meira en á Kjalarnesi þar sem að vindurinn lamdi hann til og frá á veginum. Fór framhjá einum tengivagni sem að lá út á hlið við veginn, líklega verið tómur og þetta rokrassgat lætur ekki bjóða sér slíkt tvisvar.

    Skoðuðum í fyrsta sinn íbúð saman í dag, húsnæðisleitin er að hefjast.

    Kláraði flutningana á Garrincha, lítið mál að skipta IP-tölum yfir og láta breytingarnar taka gildi eftir allan undirbúninginn.

    Einn af uppáhaldsleikmönnum mínum, Roberto di Matteo, hefur nú neyðst til að hætta vegna hrikalegra meiðsla. Synd og skömm.