Category Archives: Stjórnmál

Samfélagsvirkni Stjórnmál

Litaveislan mikla í Kórnum

Þetta hljómaði eins og firrt framtíðarsýn (dystópía). Einkafyrirtæki lokaði af 2 af 5 hverfum Kópavogs og skipti í litasvæði. Aðeins þeir sem höfðu þessa liti máttu yfirhöfuð aka inn á svæðið og enginn akstur leyfður á milli litasvæða. Hugurinn reikaði til bókaflokksins The Hunger Games með svæðin þrettán og bókarinnar Shades of Grey eftir Jasper Fforde þar sem litnæmni augans flokkaði þig í þjóðfélagsstöðu.

Reyndin varð nú ekki eins firrt og þetta var auglýst. Í framkvæmd voru lokanir ekki eins grimmar og auglýst hafði verið, atvinnuhverfinu við Urðarhvarf var ekki lokað eins og auglýst hafði verið og íbúar Linda komust að mestu leiðar sinnar. Einstaka aðilar sem ekki höfðu bílapassa en gáfu gildar ástæður virtust fá að komast leiðar sinnar.

Sagan

Sagan hefst opinberlega hjá Kópavogsbæ 20. febrúar 2014 þegar frétt birtist á vef bæjarins um tónleikana og greint frá mikilli undirbúningsvinnu. Það er þó ekki fyrr en 16. apríl að bærinn veitir formlega leyfið á fundi bæjarráðs. Bæjarráð á eina viðkomu enn í málinu 15. maí þegar það samþykkir tímabundið áfengisleyfi.

Lögreglan vann skýrslu varðandi umferðina sem bar titilinn Tónleikar í Kórnum 2014, Umferðargreining þar sem lokanir voru engar í Linda- né Salahverfi heldur ekki fyrr en í Kórahverfi. Endanlegar lokanir sem urðu umfangsmeiri voru ákveðnar af Senu í samráði við verkfræðistofu. Sena hafði vald til þess að ákveða lokanir því að sveitarfélagið framselur rétt til umferðarstjórnunar til viðburðarhaldara. Almenningur verður var við það í kringum stærri atburði, til dæmis Menningarnótt í Reykjavík þar sem 4 þúsund íbúar lúta umferðartakmörkunum en þetta hefur aldrei verið svona stórt í sniðum áður, 10 þúsund íbúar voru settir undir umferðarstjórnun Senu.

Umferðarlíkan Senu voru líklega forsendurnar að því að íbúar sem bjuggu austanmegin við Kórinn fengu afslátt á tónleikana en þeir íbúar sem bjuggu næst Kórnum og voru þá vestanmegin fengu ekki afslátt.

Tónleikarnir voru auglýstir sem þeir stærstu innandyra á landinu með 16 þúsund miða selda, eldra fólk man þó eftir tónleikum Metallicu í Egilshöll 4. júlí 2004 þar sem 18 þúsund miðar voru seldir.

 

Framkvæmdin

Bílapassarnir sem gáfu íbúum réttindi til að keyra inn á sitt litasvæði komu í hús á föstudegi fyrir íbúa til að nota á sunnudegi.

Bílapassi – litasvæðin sýnd
Bréf til íbúa á bílapassa
Bréf til íbúa á bílapassa

 

Frumtilgangurinn að koma tónleikagestum fljótt og örugglega til og frá svæðinu virðist hafa gengið vel. Bílastæði við Smáralind voru þéttsetin og raðir í strætisvagna sem komu mjög ört að tímabundnu stoppistöðinni sem var komið upp þar. Strætisvagnasamgöngurnar virkuðu mjög vel og ferðatíðnin var mjög ör.

 

2014-08-24 19.14.20
Röðin í strætisvagna við Smáralind klukkan 19:15
2014-08-24 19.13.11
Varðstjóri Strætó og viðburðarvörður Senu stjórnuðu í röðinni

 

Litakortagæslan við Lindahverfið hófst við stóra hringtorgið þar sem þeir sem voru að fara upp Fífuhvammsveg voru beðnir um að sýna bílapassa sín eða snúa við ella. Þá gæslu sáu starfsmenn Senu um, þeir voru úr Hjálparsveit skáta í Kópavogi þegar ég átti leið sjálfur þar um á hjóli. Lögreglan var viðstödd en horfði eingöngu á.

 

Starfsmenn Senu skoðuðu bílapassa
Starfsmenn Senu skoðuðu bílapassa
Lögreglan fylgdist með
Lögreglan fylgdist með

 

Engin gæsla var við hringtorgið við Salaveg en tímabundin umferðarmerki voru til staðar. Næsti gæslustaður var hringtorgið á móti Fífuhvammsvegar og Arnarnesvegar. Enn voru merkingar við Sólarsali og Salaveg en næsti gæslustaður var svo sá sem lögreglan hafði séð fyrir sér, við hringtorgið Rjúpnavegi.

Hinum megin frá var fyrsti gæslustaður hringtorgið við Vatnsendahvarf og Vatnsendaveg. Þar var líka tímabundin stoppistöð og bílastæði sem voru notuð en þó nokkuð minna en í Smáralind. Göngustígur þar við var merktur tónleikunum fyrir þá sem ekki vildu taka strætisvagnana.

Talsverð umferð var á göngustígum, einkum Landamærastígnum svonefnda sem liggur milli Linda- og Salahverfa Kópavogs annars vegar og Seljahverfis Reykjavíkur hins vegar. Við Kórinn var búið að útbúa sérstakt hjólastæði úr lausu grindverki austanmegin en mun fleiri lögðu þó hjólum sínum vestanmegin þar sem þeir læstu við grindverk.

 

Röðin rétt fyrir klukkan 20 í salinn
Röðin rétt fyrir klukkan 20 í salinn

 

Umferð úr hverfinu að tónleikum loknum gekk greiðlega með aðstoð lögreglunnar sem stjórnaði umferð fyrir neðan Ögurhvarf þar sem umferðarljósin voru ekki nógu greiðvikin.

 

Eftirmálar

Tónleikahaldarar voru afar ánægðir og voru æstir í að endurtaka leikinn með aðra stórtónleika í Kórnum.

Gestir voru misánægðir, sviðið var ekki mjög hátt uppi og þeir sem voru á gólfinu sáu margir hverjir ekkert af tónleikunum sjálfum á sviðinu nema þeir kveiktu á símum sínum og horfðu á útsendinguna þar. Upplifunin þótti þó frábær og listamaðurinn stóð við sitt og rúmlega það.

Íbúar voru margir hverjir ánægðir með hversu greiðlega gekk að komast heim með bílapössum en eitthvað var um að íbúar kvörtuðu undan því á sunnudeginum að hafa ekki fengið bílapassa. Sumir urðu varir við það að bílum fjölgaði allhratt á bílastæðum fjölbýlishúsa rétt fyrir klukkan 16, tónleikagestir sem ekki tímdu að taka ókeypis strætisvagna þar á ferð.

Það er spurning hversu réttlætanlegt það er þó að setja ferðahömlur á 10.000 íbúa vegna tónleikaviðburðar. Eitt skipti er áhugavert en hversu oft getur þetta orðið. Eru tónleikar einu sinni á ári ásættanlegir? En tvisvar? En sex sinnum? Ef bara póstnúmer 203 lýtur lokunum þá fækkar íbúum með ferðahömlur í  7.000. Er það betri tala? Hversu oft?

Er Íslendingum treystandi til að nota almenningssamgöngur af bílastæðum án þess að grípa þurfi til svona lokana? Myndu stóratburðir í Kórnum virka ef sú aðferð væri reynd? Það væri óskandi og mætti hugsanlega þjálfa Íslendinga upp í því.

Fyrirspurnir varabæjarfulltrúans Sigurjóns Jónssonar komu skriðu á önnur mál. Svo virðist sem að ósk bæjarstjórans um boðsmiða fyrir aðalbæjarfulltrúa og maka þeirra sem og þeir sem þáðu þessa boðsmiða hafi gerst sekir um brot á siðareglum Kópavogsbæjar. Bæjarstjóri vildi ekki upplýsa leiguverðið sem bærinn fékk fyrir Kórinn þó að nýr meirihluti hafi samþykkt að opna bókhaldið í málefnasamningi.

Karen Halldórsdóttir bæjarfulltrúi birti ágætis pistil þar sem hún einblíndi meira á þau atriði sem hefur verið tæpt á hérna varðandi umferð og utanumhald en minntist ekki á opna bókhaldið.

Svarið fékkst þó að lokum og var áætlaður gróði af atburðinum 5,5 milljónir. Þetta er gróði upp á 550 krónur per íbúa sem voru litamerktir.

Þetta mál þarf að skoða aftur frá öllum hliðum. Kórinn er frábært mannvirki og það stórt að hann er enn ekki kominn í fulla notkun. En þetta er stórt mannvirki með sárafá bílastæði á vondum stað, umkringdur þéttri íbúabyggð fleiri kílómetra í hvora átt. Hvenær er réttlætanlegt að atburður einkafyrirtækis loki hverfum þar sem 10.000 íbúar búa? Hversu oft er hægt að réttlæta það? Er það sjálfsagt að það sé árlegur atburður? En fjórum sinnum á ári? Hvert er langlundargeð íbúa og annara sem ætla að nota þessar samgönguæðar?
[osm_map lat=”64.083″ lon=”-21.826″ zoom=”15″ width=”600″ height=”450″ ]

 

Stytt útgáfa af þessari færslu birtist í Kópavogsblaðinu 7. september 2014

Stjórnmál

Bæjarstjórnarkosningar í Kópavogi 2014

Uppfært 23. maí – kynjaskiptingu bætt við

Nú er rétt rúm vika í bæjarstjórnarkosningar 2014 í Kópavogi. Það er hægt að lesa yfir eldri kosningaúrslit á Wikipedia-síðunum sem ég setti saman fyrir hreppsnefndarkosningar og bæjarstjórnarkosningar. Nokkrir sögupunktar þar sem ekki allir þekkja.

Hverfi KópavogsÉg náði í framboðslistana á vef innanríkisráðuneytisins og smellti þeim saman í eina gagnagrunnstöflu (hér sem .xls skrá) og reiknaði þar út aldur frambjóðenda á kjördag og merkti inn kyn þeirra. Einn frambjóðandinn á einmitt afmæli á kjördag, hann Kristinn Sverrisson fótboltaþjálfari og kennaranemi sem verður 35 ára þann daginn. Ég notaði svo nýja hverfaskiptingu Kópavogsbæjar til að flokka frambjóðendur eftir hverfum.

Tölfræðin var tekin saman bæði fyrir listana í heild sem og fyrir 5 efstu frambjóðendur hvers lista, af könnunum er ljóst að Sjálfstæðisflokkur á einn von um 5, gæti reyndar náð 6 ef fylgi dreifist mikið á minnstu flokkana.

 

Aldur frambjóðenda

Meðalaldur allra frambjóðenda listanna er frekar svipaður í kringum fertugt, undantekningarnar eru Vinstri grænir og félagshyggjufólk sem eru eldri að meðaltali, yfir fimmtugt,  og svo Píratar sem eru mun yngri að meðaltali, tæplega þrítugir.

Meðalaldur allra frambjóðenda

 

Þegar við kíkjum á fimm efstu sjáum við áfram meðaltal um fertugt nema að Dögun er eilítið yngri, nær 35. Píratar skera sig svo gjörsamlega úr með meðalaldurinn tvítugt hjá efstu 5 á lista.

Meðalaldur 5 efstu frambjóðenda

 

 

Hverfaskipting frambjóðenda

Ný hverfaskipting Kópavogs hefur tekið gildi og þar sjáum við Kársnesið (Vesturbærinn), Digranes, Smárann (Smárar og Dalvegur), Fífuhvamm (Lindir og Salir) og Vatnsenda (Kórar, Hvörf og Þing).

Elstu hverfin hafa nokkra yfirburði, Digranesið eitt og sér með um 40% íbúa, enda þéttbýlt. Kársnes fylgir í humátt á eftir. Smárinn er fámennastur eins og má telja eðlilegt miðað við að vera það hverfi sem hefur fæsta íbúa.

Fjöldi allra frambjóðenda eftir hverfum

Ef við skoðum bara 5 efstu á lista sjáum við enn betur yfirburði Digraness. Gamli Austurbærinn ber þarna ægishjálm yfir öll hin hverfin á meðan að Vatnsendi rétt svo nær á blað.

hverfi-5efstu

 

Þá er næst að skoða hverfaskiptingu eftir flokkum. Gömlu hverfin eru greinilega mikið vígi Vinstri grænna og Bjartrar framtíðar á meðan að Vatnsendi kemur sterkur inn hjá Framsókn og Sjálfstæðisflokki. Dögun er svo nær eingöngu á Digranesi, aðeins tveir aðilar á 11 manna lista þeirra eru í öðru hverfi, Næst besti flokkurinn er einnig með þungamiðju sína á Digranesi.

Fjöldi frambjóðenda eftir hverfum og flokkum

 

Að lokum er það svo hverfaskipting efstu 5 á lista hvers framboðs. Þá hverfur Vatnsendi nærri því af kortinu og yfirburðir Digraness sjást enn betur, Næst besti flokkurinn er þarna eingöngu í Digranesi og Dögun næstum því.

Hverfaskipting 5 efstu hvers flokks

 

Kynjaskipting frambjóðenda

Flestir listanna hafa 22 frambjóðendur (hámarkið þegar 11 bæjarfulltrúasæti eru í boði) en Dögun er með 11 (lágmarkið) og Píratar og Næst besti með 14 frambjóðendur. Nokkuð fleiri karlar eru í heildina í framboði en konur. Það er einn listi sem skekkir þessa mynd talsvert, Píratar sem eru næstum allir karlmenn.

kynjaskipting-allir

 

Ef við skoðum bara efstu sætin sést að oddvitastaðan er í höndum karlmanna hjá öllum nema Bjartri framtíð. Theodóra er eini kvenmaðurinn sem er í efsta sæti.

Kynjaskipting 5 efstu eftir sæti á lista

 

Alls eru þetta 40 manns sem eru í efstu 5 sætunum, fjöldi kvenna í öðru og þriðja sæti dekkar skekkjuna sem er í oddvitasætinu, alls eru 20 karlar og 20 konur í 5 efstu sætunum. Ef við kíkjum á flokkana skera tveir sig út úr. Næst besti er með karlmann sem oddvita en næstu sæti eru skipuð kvenmönnum, hjá Pírötum eru 4 efstu karlmenn en í fimmta sæti er eini kvenmaðurinn á lista þeirra.

Kynsjaskipting 5 efstu eftir flokkum

Ef við skoðum alla frambjóðendur þá sést að Framsóknarflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin hafa jafnt hlutfall kynja á sínum lista. Vinstri grænir eru eini listinn þar sem kvenmenn eru í meirihluta og Píratar eru sá listi þar sem kynjaskiptingin er ójöfnust, 13 karlmenn og 1 kvenmaður.

kynjaskipting-flokkar-allir

 

Samantekt

Fjölmennasta hverfið, gamli Austurbærinn Digranes verður með nóg af fulltrúum í næstu bæjarstjórn á meðan að önnur hverfi eru ekki öll örugg með að fá einu sinni inn fulltrúa. Hærri aldur Vinstri grænna og mjög ungur aldur á lista Pírata eru aðrar stærðir sem vekja athygli. Mikil kynjaskekkja á lista Pírata er það sem helst sker í augun sem og kynjaskipting oddvitasæta.

 

Kosningarétturinn hefur ekki verið sjálfsagður í sögunni og er það ekki enn á heimsvísu, ég hvet alla til að mæta á kjörstað og í versta falli að skila auðu ef enginn kostur er þeim þóknanlegur.

 

Stjórnmál

Björn Bjarna ósáttur við íslenska Dani

Eurovision fór venju framar að mestu fram hjá mér en sá þó íslenska atriðið sem byrjaði um leið og ungfrúin var sofnuð.

Björn Bjarnason virðist hafa horft heldur meir á það en ég og lætur Íslendinga í Danmörku heyra það:

Úrslitin í Evróvisjón-keppninni sýna áhrif minnihlutahópa innan einstakra Evrópuríkja. Þeir taka sig saman hver í sínu landi og greiða gamla ættlandinu atkvæði. Er ekki best að taka upp gamla fyrirkomulagið, að sérfróðir menn leggi mat á framlag þjóðanna?

Hér svíður honum greinilega það vanþakklæti Íslendinga í Danmörku, sem þar búa við góð kjör og ókeypis háskólagöngu, að launa fyrir sig með því að yfirtaka símakosninguna og brengla þar með atkvæði alvöru Dana.

Nema þá að hann hafi átt við önnur þjóðarbrot í öðrum löndum og ekki áttað sig á kaldhæðninni og hugsanavillunni?

Það er svo sem ekki nýtt að BB treysti ekki almenningi til að taka ákvarðanir, sérfræðingar eru auðvitað mun betri til að stýra ekki bara atkvæðum þjóða í söngvakeppnum heldur líka þá væntanlega í öðrum málum, almenningi er ekki treystandi fyrir lýðræðinu hefur verið bjargföst skoðun BB eins og sjá má af verkum hans og áherslu á sérsveitir og hervæðingu.

Stjórnmál

Öryggislögregla Björns Bjarna

Björn Bjarnason kætist yfir því að Mogginn taki upp hanskann fyrir það að Björn hamri á meiri njósnum, fleiri vopnum og fari með vænisýkina upp í topp til að sannfæra um að Ísland þurfi á þessu að halda.

Björn vitnar í þessa málsgrein Moggans:

 

Hryðjuverkaógnin er raunveruleg og nálæg. Öfgamenn hafa ráðizt á skotmörk í nágrannalöndum okkar, sem við höfum einna mest samskipti við. Skemmst er að minnast árásanna á New York, Washington, London og Madríd. Það getur gerzt hvenær sem er að hópur Íslendinga sé staddur á fjölförnum stað í nálægri stórborg, þar sem hryðjuverkamenn ákveða að láta til skarar skríða. Og það er engan veginn hægt að útiloka að þeir beini sjónum að Íslandi, landi sem sagan sýnir að hefur verið auðvelt að ráðast inn í eða ná valdi á þegar þar hefur skort trúverðugar varnir.

 

Ójá, Reykjavík og New York, efstar á lista allra hryðjuverkamanna! Litla gula hænan eða hver það var sem öskraði að himnarnir væru að falla lifir meðal vor í anda svo um munar.

Hvað var sérsveitin að gera í dag, til að vernda Íslendinga frá hryðjuverkum? Kíkjum hvað Textavarpið sagði:

 

Sigur Rós meinað að spila í Lindum
Lögregla hefur nú mikinn viðbúnað við Kárahnjúka. Um 20 lögreglumanna eru á svæðinu, sérsveit ríkislögreglunnar og víkingsveitin frá Akureyri auk lögreglu frá Egilsstöðum. Lögreglan hefur sett upp vegatálma á veginn frá Fljótsdal til Kárahnjúka og meinar fólki að fara  afleggjarann að Snæfelli, inn að Lindum þar sem tjaldbúðir náttúruverndarsinna standa. Um 60 manns eru í tjaldbúðunum, um tugur manna sem ætlaði þangað í dag var stöðvaður við vegartálma lögreglu.

Hljómsveitin Sigur Rós sem ætlaði að spila á svæðinu í dag komst ekki þangað vegna aðgerða lögreglu. Sigur Rósarmönnum er nú meinað komast í búðir mótmælenda og hyggjast í staðinn spila  klukkan 11 í fyrramálið við Snæfell.

Sérsveitin, víkingasveitin og almenn lögregla eru að… stöðva fólk frá því að tjalda og spila tónlist! Við erum örugg!

Molasykur Stjórnmál

Stóra bróðurs fasismi

Í dag er ekki góður dagur, heimskir stjórnmálamenn vilja taka öðruvísi á glæp sem að er framinn með aðstoð tölvu en glæp sem að er framin án aðstoðar tölvu, jafnvel þó að brotið sé hið sama. Þannig að ef að þú rænir einstakling vopnaður hnífi, þá færðu líklega lægri dóm en ef þú rænir hann með því að nota VISA-kortið hans á Amazon eða brjótast inn á bankareikning hans á netinu. Bjarni spöglerar aðeins í þessu í dagbókinni sinni meðal annars.

Á sama tíma er Sólveig Pétursdóttir að íhuga það að skerða frelsi almennings í landinu til þess að eiga auðveldar með að taka á starfsemi hryðjuverkamanna. Eins og við vitum öll þá er hérna grasserandi hryðjuverkastarfsemi, hver getur gleymt því þegar að fáni Ísraels var brenndur 1996 af DJ Eldari og félögum, og þegar að eggjum var kastað í bandaríska sendiráðið. Mér er því mun rórra að vita að dómsmálaráðherra ætlar nú að skerða frelsi okkar til þess að hryðjuverkamönnum verði ekki óhætt hér á landi.

Það er ávallt eftir svona válega atburði að við fáum út úr skápunum fasistana sem að vilja ekki unna okkur persónufrelsi, eins og sést í Bandaríkjunum og jafnvel hér á landi. Þeir vilja að netþjónustuaðilar eigi afrit af öllu sem fer í gegnum þá, á þá póstþjónustan ekki að fara að opna öll bréf sem að hún sendir og ljósrita efni þeirra og troða í skjalaskápa? Þessir fasistar nýta sér tilfinningarótið sem er í hugum almennings og lofa þeim að skert frelsi hans muni gagnast í baráttunni gegn hryðjuverkum. Svona athæfi er í dómsmálum kallað að nýta sér á óviðeigandi hátt tilfinningalega nauð, og er til þyngingar refsinga. Þetta er náttúrulega ekkert annað en bull, þeir sem vilja fela slóð sína geta það auðveldlega. Þegar þessi réttindi hafa verið tekin af okkur með lögum þá verður það mörgum sinnum erfiðara að fá þau aftur. Nú bíð ég bara eftir því að hverjum og einum verði úthlutaður eftirlitsaðili sem að fylgir þeim eftir dag og nótt, og gætir þess að þessi almenni borgari aðhafist ekki neitt sem að gæti talist ef til vill mögulega ósiðsamlegt eða andfélagslegt.

Sjáum hvað George Bush segir um málið:
“My administration will not talk about how we gather intelligence, if we gather intelligence and what the intelligence says,” Bush told the media at Monday’s press briefing. “That’s for the protection of the American people.”

Stóri bróðir, þú ert 17 árum of seinn, en mér sýnist þú nú vera kominn.

Annað fasískt athæfi sem ég rakst á í dag var það að póstur sem að ég sendi í gegnum SMTP þjóninn sem að er á vélinni minni, var endursendur af póstþjóni Háskóla Íslands. Sá póstþjónn er nefnilega eins og nokkrir aðrir að fara eftir einhverjum fasískum reglum sem að einhverjir kerfisstjórar komu með og þær banna að taka við pósti sem er sendur beint af tölvum sem að eru ekki sítengdar við netið, sumsé ekki með fastar IP-tölur (þetta á við flestar einkatölvur). Þar sem að ég nota póst á tölvunni minni sem að ég sendi í nafni nokkurra léna í minni eigu þá verð ég að vera með minn eigin SMTP þjón keyrandi, þar sem Símnets SMTP þjónninn tekur bara við pósti sem er merktur frá @simnet.is (sem er líka frekar fasískt).

Þessar blessuðu reglur voru víst samdar til þess að minnka hættuna á ruslpósti, mér sýnist það ekki vera að virka og er alveg sammála því sem að efsti aðilinn á þessari síðu skrifar þessum hópi sem stendur að þessu, það að gera greinarmun á því hvort að vél sé sítengd eður ei er bara bölvaður fasismi, einkum í dag þegar flestir eru komnir með nettengdar tölvur heim til sín.

Til þess aðeins að létta lundina fórum við Sigurrós í Laugarásbíó og sáum Rat Race, sem að er mjög smellinn farsi, fullt af atriðum sem fá mann til að verkja í magann af hlátri.

Áhugavert lesefni:

Stjórnmál

Ímyndið ykkur

Taco-sull í matinn í vinnunni í dag (grunur um að kjötið sé í raun sojakjöt og fínmalað að auki) þannig að við fórum 3 saman á Ruby Tuesday. Mikið ofsalega eru þeir með fína hamborgara, þeir líta alveg eins út á disknum hjá manni og þeir líta út á myndunum hjá þeim (ólíkt öðrum stöðum, einkum McDonalds). Var saddur frá hádegi að kvöldmatartíma, nokkuð sem að er mjög óvenjulegt.

Í stað þagnar í morgun kl. 10 þá ákváðu frönsku útvarpsstöðvarnar að spila lag Johns Lennon, Imagine. Það finnst mér reyndar meir við hæfi en bara þögn, ætla að láta textann fylgja með hérna:

Imagine there’s no heaven
It’s easy if you try
No hell below us
Above us only sky
Imagine all the people
Living for today…
Imagine there’s no countries
It isn’t hard to do
Nothing to kill or die for
And no religion too
Imagine all the people
Living life in peace…

You may say I’m a dreamer
But I’m not the only one
I hope someday you’ll join us
And the world will be as one

Imagine no possessions
I wonder if you can
No need for greed or hunger
A brotherhood of man
Imagine all the people
Sharing all the world…

You may say I’m a dreamer
But I’m not the only one
I hope someday you’ll join us
And the world will live as one
(John Lennon 1971)

Áhugavert lesefni:

Stjórnmál

Vakning?

Á meðan að Bush og fleiri láta sífellt meiri þvælu út úr sér þá er til fólk í Bandaríkjunum með hausinn í lagi sem fattar hvað er í gangi, sjá tenglana hérna að neðan.

Áhugavert lesefni:

Stjórnmál

Svakalegt

Aðalmálið í dag er auðvitað hryðjuverkin í Bandaríkjunum, þau mestu í sögunni, og enn er óljóst hversu margir létust en nokkuð víst er að það eru þúsundir. Sjálfum fannst mér eins og þetta væri atriði beint úr Independence Day eða bók eftir Tom Clancy, þetta var svo svakalegt að maður var bara þrumulostinn. Núna verður áhugavert að vita hvort að þessi dagur muni marka þáttaskil í sögunni, eða hvort að hann verið bara svona almennur svartur dagur í sögunni.

Ég hugsa að núna séu yfirmenn NSA, CIA og FBI í yfirheyrslum hjá þeim sem ráða, menn eru væntanlega spenntir að vita hvernig í ósköpunum þetta var hægt þegar að þessar 3 stofnanir nota fleiri fleiri milljarða á hverju ári til þess að njósna um borgarana til að koma í veg fyrir hryðjuverk og fleira. Svo finnst mér leiðinlegt að árásir á Bandaríkin eru túlkaðar sem “attack against freedom” og “attack against our way of life”. Mikið hrikalega er leiðinlegt að hlusta á þá jarma um USA og freedom þegar að málið er að það er fólk sem varð fyrir þessum árásum, ekki þessi hugtök. Ástæðan fyrir óvinsældum Bandaríkjanna er ekki sú að þar ríkir mikið frjálsræði og að þar sé öllum frjálst að lifa í ríkidæmi eða deyja úr fátækt, ástæðan er sú hvernig Bandaríkin haga sér í hinum stóra heimi, eins og stærsta hrekkjusvínið í skólanum.

Það sem margir eru hræddir við núna eru viðbrögð Bandaríkjamanna, og samkvæmt fyrstu yfirlýsingum Bush og félaga hans verða þau eins og flestir óttast, gífurlega hörð. Það er gífurleg hætta á því að Bandaríkin muni reiða hátt til höggs til þess að sýna fram á einhver viðbrögð, og líkur eru á því að þá verði margir saklausir fyrir því höggi, jafnvel fleiri en látist hafa í dag. Ég er viss um að ég er ekki einn um það að telja að heimurinn væri aðeins rólegri ef að Clinton væri við völd, en ekki blóðþyrsti Bush.

Fyrir okkur tæknifólkið þá var auðvitað áhyggjuefni að sjá hversu hægt netið varð sem og stærstu fjölmiðlarnir á því, þegar að allir voru að reyna að lesa fréttirnar. Bandvíddin er enn langt á eftir þörfunum, einkum þegar að streymandi hljóð og mynd er sótt.

Áhugavert lesefni:

Svo fékk ég bréf frá RÚV í 3ja skiptið, þar sem lýst var yfir áhyggjum af því að ég er ekki á meðal greiðenda afnotagjalda. Fyrsta bréfið hunsaði ég, öðru bréfinu svaraði ég harðlega og núna ætla ég að svara af fullum krafti, ætla kannski að pota svari mínu í Morgunblaðið.