Monthly Archives: June 2016

Samfélagsvirkni

Hjólaþjóðleiðir

Miklar framfarir hafa átt sér stað í stígagerð undanfarið – bæði fyrir gangandi og hjólandi.
Sveitarfélögin sjá hvert um sig um utanumhald og uppbyggingu eigin stíga og með mörg
sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu auk Vegagerðarinnar, sem á margar af helstu umferðargötunum,
þarf umtalsvert samstarf þeirra til að skapa sem besta umgjörð. Að því samstarfi þarf svo
hjólareiðafólk að koma því að ekki er víst að ákvarðanir sem teknar eru nýtist hjólreiðafólki. Um
það eru þó nokkur dæmi.

Tengingar Kópavogs og Reykjavíkur fara batnandi, nýlegur stígur milli Lindahverfis og Mjóddar
var gríðarleg framför og tengingar við Suðurhlíðar og Fossvog hafa stórbatnað með stígagerð milli
Sæbólshverfis og Lundar. Hægt er að fara í lengri ferðir þar sem varla þarf að þvera götur. Þetta
gerir hjólreiðar enn aðgengilegri fyrir þá sem hafa hingað til ekki treyst sér í að hjóla á götum en
geta nú hjólað á öruggari stígum – sér til yndisauka sem og til að sinna erindum. Sannkallaðar
hjólaþjóðleiðir eru því að myndast.

Á móti kemur að tengingar við Garðabæ og í framhaldinu Hafnarfjörð eru illa aðgengilegar. Stígur
sem verið er að klára sem þverar Arnarnesið verður fyrsta alvöru leiðin til að tengja saman Kópavog
og syðri bæjarfélögin. Undirgöng sem koma áttu á kolli Nónhæðar nálægt Arnarsmára og þvera
Arnarnesveg voru á forræði Vegagerðarinnar sem ákvað að færa þau lengra til austurs þar sem engin
tenging er við stíga Kópavogsmegin. Fín undirgöng þar nýtast illa öðrum en vönu hjólafólki sem
heldur svo niður Hlíðarsmárann og yfir bílastæði Smáralindar og Smáratorgs niður að betri stígum
við Lindir.

Þetta er ekki leið sem maður færi með börnin og ekki leið sem óvant hjólafólk ætti að fara. Sár
vöntun er á tengingu í þessum hluta því að Garðabæjarmegin tekur við fínasti blandaði stígur. Þarna
er dæmi um ákvörðun sem átti að nýtast á teikniborðinu en virkar ekki í raun nema með enn meiri
framkvæmdum. Til að gera hjólreiðar aðgengilegar öllum þarf að hugsa um hjólaþjóðleiðir sem
nýtast líka þeim sem hægar og varlegar fara.

strava-thjodvegir

Helstu leiðir hjólafólks glóa hér bláar – glögglega sést að Arnarnestengingin er mun
fjölfarnari en aðrar og síðri tengingar norðurs og suðurs
Fengið af http://labs.strava.com/heatmap/#11/-21.96373/64.11555/blue/bike