Monthly Archives: July 2014

Fótbolti Samfélagsvirkni

Kvótadúkka

Í dag birtist grein á knuz.is þar sem er talað um þau viðbrögð sem Margrét Erla Maack fékk fyrir að mæta í HM-stofuna til að tala þar um áhugaleysi sitt á fótbolta. Það er auðvitað stór skandall hvaða fúkyrðaflaum hún mætti fyrir að mæta þar sem kona og engum til sóma. Það er hins vegar ekki eini skandallinn.

Sjálfur hef ég ekki séð þáttinn né fúkyrðaflauminn nema það sem talað er um í greininni en ástæðan sem hún gefur upp fyrir að mæta, með semingi, er vond.

Tilvitnun er þarna úr Nýju lífi og þar segir

Ég hef margoft lent í þessu en nýlegasta dæmið var þegar ég var beðin um að vera gestur í HM-stofunni hjá Birni Braga en hann vildi taka viðtal við mig þar sem ég skil ekki fótbolta. Ég afþakkaði boðið því mér fannst þetta álíka asnalegt og að tala við fólk á kosninganótt sem hefur ekki áhuga á pólitík. Þegar hann hringdi aftur og sagði að ég yrði að koma því að þeir væru ekki að standa sig nógu vel í kynjakvótanum þá náði hann mér

[…]

Eins og ég hefði grátbeðið um að koma í þáttinn!

Þarna er ég fyllilega sammála fyrstu viðbrögðum Margrétar, að afþakka boðið enda ljóst að hún myndi litlu bæta við þátt um knattspyrnu – enda ekki hennar sérsvið. Hún er án efa frábær viðtals um margt annað en vissi takmörk sín og tók góða ákvörðun.

Það að þáttastjórnandinn sé svona ægilega illa að starfi sínu vaxinn að hann hringi aftur og þrábiðji og vísi í kynjakvótann er eitt. En að Margrét falli fyrir því og samþykki að mæta, í nafni kynjakvótans, er hinn skandallinn í þessu máli.

Ef hún hefði afþakkað aftur hefði Björn Bragi kannski þurft að vinna vinnuna sína og náð í annan kvenmann, nú einhvern sem hefur þekkingu á fótbolta. Sjálfboðaliðar spruttu strax upp á Twitter við lestur þessarar greinar á knuz.is og hefðu án efa boðið sig fram hefði Björn Bragi bara spurt eftir kvenfólki sem gæti mætt og orðið sér sjálfu til sóma í umræðum um knattspyrnu.

Með því að samþykkja boðið var því Margrét að gera kynsystrum sínum grikk. Það réttlætir ekki verstu viðbrögðin en það er óverjandi fyrir hana og þáttastjórnanda að hafa svona “kjósandi sem veit ekkert” stund, hvort sem umræðuefnið var fótbolti, tryggingakerfið, gjaldeyrishöft eða annað.

Konur, eða karlar ef þannig hallar á, sem samþykkja að mæta sem kvótadúkkan gera meira ógagn en gagn í jafnréttisbaráttunni.