Monthly Archives: November 2006

Uncategorized

Afmæli gærdagsins

Í gær áttu mamma og pabbi bæði afmæli. Pabbi orðinn 53 en mamma átti stórafmæli, 50 ára, og hélt upp á það síðastliðna helgi. Mér hefur annars reiknast svo til að ég hafi orðið til fyrir 32 árum síðan, á afmælinu þeirra. Þeir útreikningar standast eiginlega upp á dag miðað við að ég fór tvær vikur framyfir áætlaðan komutíma!

Uncategorized

Mannanöfn

Ég og Ævar dældum íslenskum mannanöfnum inn á íslensku Wikipediuna fyrir rétt um ári síðan. Þar settum við bæði inn þau nöfn sem fundust í þjóðskrá sem og öll «lögleg» íslensk nöfn.

Mannanafnanefnd hefur vakið athygli með ýmsum undarlegum úrskurðum í gegnum tíðina. Nú hafa fjórir þingmenn lagt fram frumvarp þar sem nefndin er felld niður og deilumálum þess í stað vísað til dómsmálaráðherra. Hvort þetta er til bóta er ég efins um, dómsmálaráðherra er líklega önnum kafinn (í að byggja up hersveit og leyniþjónustu þessa dagana?) og þessi mál varla með mikinn forgang á þeim bænum.

Spurningin er af hverju lögleiða þurfi nöfn, ef að má skíra Kaktus Ljósálfur (eins og Sigurrós komst að og kjamsar á) hví ættu stjórnvöld að skipta sér af öðrum nöfnum?

Fyrrum skólasystir mín hún Katrín Júl lagði svo fram fyrirspurn um mál sem er algjört hneyksli. Þjóðskrárkerfið er nefnilega ævafornt og getur ekki geymt nöfn sem eru lengri en 26 bókstafir. Að tæknilegar takmarkanir fornaldartíma í gagnagrunnsfræðum séu enn við lýði á 21. öldinni gerir mann alveg rasandi.

Uncategorized

Dr. Kerlingabók

Í fréttum Stöðvar tvö í gærkvöld kom fram einhver læknir (hvers nafn ég man ekki) sem fussaði og sveiaði yfir því að fólk gæti farið í þrívíddarsónar og séð þar myndir af ófæddum börnum sínum.

Í kringum meðgöngu og barnsburð er gífurlegur sægur af kerlingarbókum, fólk ætti að láta sem barnið sé ekki til, sé ekki á leiðinni og gera engar ráðstafanir. Það ætti ekki að forvitnast um kyn barnsins eða aðra hagi þess, það væri jú að kíkja í pakkann.

Ég veit ekki alveg hvernig annað fólk býr til börnin sín en ég var ekki að búa til neinn pakka, við unnum að því mánuðum saman að búa til nýtt líf og viljum sem mest vita um það. Það eru ófáar kerlingarbækurnar sem hafa pirrað okkur hjónin frá fólki sem meinar vel en þylur upp fáránlega hjátrú og hindurvitni.

Ein rök læknisins voru þau að ef eitthvað sést sem ekkert er hægt að gera við, hvað þá? Þarna skín í gegn óforskammaður hroki. Að læknastéttin eigi að eiga einkarétt á því að vita að eitthvað gæti verið að afkvæmi manns! Að það sé betra fyrir mann sjálfan að vita ekki um mögulega kvilla, jafnvel lífshættulega fyrir barnið?

Þessi fádæma fáránlega skoðun hans er svo óforskömmuð að ég mun gæta þess vandlega að þessi maður komi ekki nálægt okkar barni. Ef eitthvað er að þá viljum við auðvitað vita það, hvort sem um ólæknandi tilfelli eða ekki er um að ræða!

Að vilja neita fólki um að fara í þrívíddarsónar (sem virðist nefnast fjórvíddar? hvaðan kemur fjórða víddin…) af því að það hafi bara ekki gott af því að vita meira… við höfum pantað tíma í þrívíddarsónar og hlakkar mikið til. Ef eitthvað óvænt finnst þar, þrátt fyrir að við höfum þegar farið í snemmsónar, hnakkaþykktarmælingu og 20-vikna sónar, þá vitum við að þær ráðstafanir voru ekki nóg, við viljum vita ef eitthvað er að.

Við förum í þrívíddarsónarinn til að fá að sjá betur það sem við bjuggum til, þetta er enginn pakki sem okkur er réttur af himnum ofan. Dr. Kerlingarbók má eiga sig og fornaldarhætti sína.

Hann klykkti út með því að það væri til dæmis alveg svakalegt ef maður gæti nú pantað sér tíma til að láta skanna allan líkamann til að sjá hvort æxli sé einhver staðar, ef það fyndist ekki í spítalagræjum þá ætti maður ekki að fá að reyna meira.

Ég vil að heilbrigðiskerfið sé með allra bestu tækni og þjónustu sem völ er á. Á meðan að stjórn spítalanna fer fram eins og nú er og þeir eru að auki fjársveltir er það því miður ekki á dagskrá. Lausn Dr. Kerlingarbókar virðist vera sú að einfaldlega sætta sig við það… í stað þess að vilja leysa vandamálið á spítölunum þar sem allir eiga að vera jafnir þá á að banna þeim sem vilja leita frekari aðstoðar þess, samanber kvörtunina til landlæknis.

Ég vil ekki að til sé eitt heilbrigðiskerfi fyrir fátæka og annað fyrir efnaða eins og hann óttast.

Ég vil heldur ekki að komið sé fram við mig eins og smábarn og reynt að setja lögbann á þjónustu sem er valfrjáls.