Monthly Archives: December 2002

Uncategorized

Árið endað með hláturkasti

Fékk smá astmakast í vinnunni í dag. Greindist í fyrra með áreynsluastma sem ég hef reyndar verið með í mörg ár en ekkert pælt í. Áreynslan í morgun var hins vegar ekki beint vinnunni að kenna heldur hlátrasköllum, Gunni gróf upp myndband frá stuttmyndahátíð sem fékk okkur til að kúgast af hlátri. Ég held ég fái harðsperrur eftir hláturkastið sem maður var í þær rúmu 8 mínúturnar sem myndbandið varir. Þetta er æðisleg splatter-útgáfa af venjulegu kennslumyndbandi fyrir lyftara, við Gunni og Konni höfum allir verið lyftarakallar og gátum því metið þetta enn meira en Stefán sem lá þó auðvitað í krampa yfir þessu.

Myndbandið er 91 MB (of stórt fyrir venjuleg módem!) og ég hef sett eintak af því hér (ókeypis niðurhal innanlands!).

Upplýsingaleynd er farin að verða minni og minni, forráðamenn fyrirtækja eru farnir að þora ekki öðru en að afhenda yfirvöldum upplýsingar án þess að úrskurður frá dómstólum komi þar nálægt. Þetta er varhugavert þegar að hvaða embættismaður sem er getur fengið hvaða upplýsingar sem er. Forráðamenn fyrirtækjanna þora oft ekki öðru, óttast að þá fái fyrirtækið á sig einhver stimpil um að þeir vilji fela hryðjuverkamenn og barnaníðinga.

Málið er það að ef að grunur leikur á að um sé að ræða glæpamenn þá ber yfirvöldum að leita til dómstóla og svo til fyrirtækjanna ef að dómstólar samþykkja röksemdir yfirvalda. Hvaða embættismaður sem er ætti ekki að geta fengið allar upplýsingar um mig (eða félaga minn í Bandaríkjunum) þó svo að hann hafi illan bifur á mér.

Uncategorized

Höft og málfrelsi

Tolli benti á þessa mögnuðu sögu frá Bandaríkjunum sem sýnir gjörla hversu langt okkur er að fara aftur í mannréttindum. Það eru svona aðgerðir sem að íslensk lögregluyfirvöld hafa stundað nokkuð lengi, handtökur byggðar á fordómum opinberra starfsmanna.

Textavarpið birti áðan frétt um að átta hermönnum í varaliði ísraelska hersins hefði verið synjað að gegna herþjónustu annar staðar en á Vesturbakkanum, þeir vilja ekki þjóna þar sökum þess að það stríðir gegn samvisku þeirra. Dómurinn sagði meðal annars að:

Í úrskurði Hæstaréttar segir að ekki sé viðurkennt að taka megi tillit til samvisku einstaklinga, slík stefna kynni að losa böndin, sem tengja saman ísraelsku þjóðina, og skaða hagsmuni ríkisins.

Þetta vill Björn Bjarnason fá til Íslands, fleiri kjötskrokka sem að mega ekki hlusta á samvisku sína heldur gera það sem ríkið skipar þeim. Ríkið er ekki fólkið, ríkið eru kerfiskarlar sem að lifa í vel stæðum úthverfum og þurfa aldrei auman mann að sjá. Lögreglan var greinilega ekki nógu fólskuleg í ólöglegum aðgerðum sínum á þessu ári, Björn er æstur í her sem framfylgir skipunum hans manna í blindni, ekki verra að fá liðleskjurnar í Hæstarétti til að geta gúterað það.

Meira af dómstólum, svona ákvarðanir takmarka málfrelsið. Ég veit ekki hvað var sagt og er nokk sama um það í þessu máli, en að dómstóll í einu landi geti ákveðið að þeir hafi lögsögu yfir einhverju sem er birt í öðru landi er afskaplega hæpið og stórhættulegt fordæmi. Við gætum fengið núna hrúgu af kærum frá kínverskum dómstólum vegna frétta okkar af Falun Gong, væri röksemdafærsla ástralska dómstólsins notuð.

Uncategorized

Það var pólitíkin

Amma bauð okkur feðgunum í lambalæri í kvöld. Sjaldan sem að við hittumst allir fimm (Sigurrós mætti auðvitað sem eini makinn og maturinn var prýðisgóður).

Kannski við förum að hafa fisk tvisvar í mánuði eða svo fyrst að hann virkar svona vel. Síðast þegar við keyptum fiskrétt var hann fullur af beinum og það pirrar mann óstjórnlega að þurfa að tyggja hvern einasta bita hægt og vandlega til að maður sé öruggur um að drepa sig ekki á matnum.

Óvenju góður pistill frá Pawel Bartoszek.

Það er víst svo að stjórnmálamenn gala það sem fólk vill heyra, Herman gerir þessu góð skil í dag.

Þessi frétt veltir upp enn einni hliðinni á friðhelgi einkalífs nú þegar að allar mögulegar upplýsingar er að finna á netinu. Undarleg grein um þetta sama málefni í Morgunblaðinu í dag þar sem að frekar súr útgáfa af framtíðinni er kynnt, ég tel höfund greinarinnar vera að rugla en það er annað mál.

Stórtíðindi í íslenskri pólitík í dag þegar Ingibjörg Sólrún tilkynnti afsögn sína. Sjónvarpsfréttamönnum er reyndar fyrirmunað að greina frá þessu á viðunandi hátt, þeir fóru yfir atburði dagsins með því að tafsa ofan í myndir þar sem að menn og konur gengu inn í Ráðhúsið og fóru í lyftur, ótrúlega fræðandi og spennandi fréttamennska það. Amatörar amatörar amatörar!

Ingibjörg Sólrún að hætta sem borgarstjóri, enn og aftur er það hún sem stendur uppi sterk, þetta var hennar tillaga og hennar ákvörðun og bæði gekk eftir. Alvöru leiðtogar vinna sigra jafnvel þegar að þeir virðast vera í ómögulegri stöðu. Held ég að mennirnir í hvíta kassanum séu nú orðnir uggandi, hvað þá nátttröllið Halldór Ásgrímsson sem að á það fyllilega skilið að hverfa af þingi.

Uncategorized

Að hafa samband

Las í gærkveldi aðra bókina um Artemis Fowl á ensku. Betra flæði en í fyrri bókinni, ekki eins smábarnaleg framvinda í sögunni. Umhverfisboðskapur kemur talsvert við sögu, ágætis lesning fyrir unga og aldna. Hef reyndar ekki lagt í það að reyna að ráða dulmálið sem er neðst á hverri blaðsíðu, þar er víst að finna einhver skilaboð frá álfunum til okkur mannanna.

Það er sorglegt að einmitt þegar að við höfum ótal leiðir til að hafa samband við hvort annað þá nýtum við það eiginlega ekkert. Fólk sem manni líkar virkilega vel við heyrir ekkert frá manni svo mánuðum skiptir af því að enginn gefur sér nokkrar mínútur til þess að slá á þráðinn, hvað þá að líta við í heimsókn. Það er ekki nema fyrir algjöra slysni stundum að samskiptin komast aftur á! Sorglegt 🙁

Væri efni í nýársheit ef ég vissi ekki að þau væru til þess að brjóta þau.

Þetta kemur heldur seint varðandi jólagjafirnar en hér er að finna ágætis leiðbeiningar fyrir karlmenn sem eru að vandræðast í því að finna sniðug undirföt fyrir konuna. Ætli afmælin þeirra séu ekki næsta tækifæri?

Uncategorized

Íbúð, þjófavörn og annað

Leit í örstutta heimsókn til Arnar og Regínu til að sjá nýju íbúðina þeirra, glæsilegt útsýni yfir Fossvoginn og vesturbæi Kópavogs og Reykjavíkur.

Hitti líka Val og Erni Þór, held ég hafi ekki séð þann stutta í rúmt ár eða svo.

Rétt áður en ég fór var einhver sprengja sprengd nálægt bílaplaninu, þjófavarnarkerfið í Phoenix fór af stað með látum, fyrsta sinn sem það gerist. Vonandi verður hann ekki vælandi allt gamlárskvöld.

Það kemur mér ekki ýkja mikið á óvart að Ian McKellen sé hinn nýi Dumbledore, held að það hafi verið nokkuð augljóst þegar að Richard Harris lést.

Meira varðandi Hringadróttinssögu (McKellen = Gandálfur), vefurinn Landover Baptist er alveg snilldar satíruvefur sem að tekur alla þessa prédikara og flettir þá klæðum með því að nota sama orðalag og þeir sjálfir og vitna jafn duglega í Biblíuna. Nýjasta “fréttin” frá þeim er vegna samkynhneigðrar náttúru sem birtist í The Two Towers. Snilldarlesning, ef maður vissi ekki betur héldi maður að þetta væri beint frá Billy Graham, Pat Buchanan eða öðrum af þeirra sauðarhúsi (Ísland, sjá Omega og Gunnar í Krossinum).

Ágætis tækifæri fyrir auðmenn sem vilja eignast sinn eigin bæ, Playas í Nýju-Mexíkó (BNA) er til sölu eins og hann leggur sig. Aðeins 280 milljónir sem eru kjarakaup fyrir 259 heimili, félagsmiðstöð, keilusal, tvær kirkjur (tvær!), ródeóhring, flugbraut, pósthús, lögreglustöð, banka, heilsugæslu og slökkvistöð.

Í dag lýkur sölu á öðru krummaskuði í Bandaríkjunum, Bridgeville í Kaliforníu. Það var hins vegar boðið upp á eBay og er nú verið að fara í gegnum tilboðin til að sjá hvort þau standast.

Ættu íslensk sjávarþorp sem hafa verið tekin aftan frá af óréttlæti núverandi kvótakerfis og siðspilltum mönnum að grípa til þessa örþrifaráðs að hreinlega bjóða sig á eBay?

Það er ekki öll vitleysan eins í Ameríkunni, verslunarkeðjan Wal-Mart selur byssur og skotfæri í verslunum sínum en kippti ófrískri vinkonu Barbie úr hillunum eftir kvartanir viðskiptavina. Ameríka, þar sem kynlíf er verra en morð.

Uncategorized

Heima er best

Rólegur dagur sem fyrr hjá okkur. Pabbi, Guðbjörg, Edda og Jón Ingi komu til Rögnu í kaffi. Við Sigurrós héldum svo heim um rúmlega kvöldmatarleytið.

Las í kvöld Artemis Fowl á ensku. Sæmilegasta saga en greinilega beint að yngri lesendahóp, setningar eru stuttar og hnitmiðaðar og sjaldnast langur aðdragandi að neinu.

Uncategorized

Rólegur jóladagur

Sváfum fram að hádegi og vorum bara mjög róleg í tíðinni. Fórum svo í Urðartjörn til Guðbjargar og krílanna hennar þar sem við fengum veitingar, skoðuðum tölvulærdómsleiki fyrir börn og kvenfólkið spilaði svo Rummikubb.

Eftir kvöldfréttir héldum við (ég, Sigurrós og Ragna) til Stokkseyrar þar sem við skoðuðum nokkur hús þar sem eigendurnir höfðu farið frekar yfirum í jólaskreytingum.

Uncategorized

Endajaxla-taka 2

Þetta var nú ævintýri í gærkvöldi. Við vorum að fá okkur snöggan kvöldverð svona áður en við kláruðum að keyra út pakka og héldum á Selfoss til að verja jólunum hjá tengdó. Eftir að hafa kyngt síðustu bitunum af hamborgaranum fann ég allt í einu að eitthvað var laust í munninum. Sekúndu síðar lágu tannbrot og fylling á disknum mínum, rannsókn með aðstoð tungunnar færði sönnur á grun minn. Signi endajaxlinn (kominn neðar en allar aðrar tennur) var nú rétt rúmlega hálfur eftir og hvassar brúnir voru frekar leiðinlegar viðkomu.

Neyðarvakt tannlækna bauð mér að koma strax og ég var mættur í Hlíðarsmára 17 örfáum mínútum seinna. Þar tók Anna D. á móti mér og eftir að hún ygldi brúnir yfir ljótum leifum endajaxlsins sagði ég henni að tennurnar í mér væru að jafnaði með tvær rætur sem krókuðust í sitthvora áttina.

Hún hlustaði á ráð mín (heimilislæknar athugið! ekki óvitlaust að hlusta á sjúklingana… þeir vita oft hvað amar að sér og af hverju!) og tók röntgenmynd sem staðfesti þennan grun. Eftir nokkra glímu fór að losna örlítið um jaxlinn, þá heyrðist brothljóð og ég hélt að nú hefði krúnan brotnað frá rótunum (eins og gerðist síðast). Tannlæknirinn sagði hins vegar “þetta hljómaði nú ekki vel” og hélt áfram að tjakka jaxlinn upp mér til undrunar þar sem ég bjóst ekki við því að það væri hægt við hann svona krúnulausan. Eftir talsvert puð náðist jaxlinn upp og þá sá ég hvað það var sem hafði brotnað, það var ekki jaxlinn sem var í fínu formi fyrir utan þar sem fyllingin og tannbrotið höfðu verið, jaxlinn hafði hins vegar rifið með sér hluta af kjálkabeininu sem var eiginlega samgróið jaxlinum. Því er örlítið þynnra sums staðar hjá mér kjálkabeinið en annar staðar þessa stundina. Þetta á þó að gróa og var í rauninni bara smáflís. Jaxlinn reyndist svo við talningu vera með þrjár rætur og hinn mesti hnullungur.

Harðjaxlinn ég tók þessu öllu af mestu ró, búinn að fara í gegnum svona áður og ég virðist koma vel út úr þessum jaxlatökum miðað við marga aðra. Flestar hryllingssögur hafa reyndar verið tengdar neðri endajöxlunum, þeir leynast enn uppí mér.

Kom svo að lokum heim, farangri skellt í bílinn og brunað af stað upp í Miðhús þar sem nýfrágenginn og glæsilegur arininn sómdi sér vel í stofunni. Því næst var komið við hjá pabba og hann dreif okkur á bensínstöð til að jafna loftþrýstinginn í dekkjunum áður en við héldum yfir heiðina.

Skutumst heim til að ná í það sem gleymdist og eftir að hafa skilað af okkur einu póstkorti náðum við loksins að yfirgefa bæinn tæplega þremur tímum á eftir áætlun. Hellisheiðin var svo vitavonlaus, 4 stikna skyggni í miklum vindi og rigningarsudda. Alltaf jafn gaman að koma niður Kambana í mun skaplegra veður!


Í dag var slappað af í Sóltúni, matur hófst svo klukkan sex með dýrindis aspassúpu, dönskum hamborgarahrygg og meðlæti.

Gjafir voru opnaðar stuttu eftir mat og þar sem að krílin eru frekar óþolinmóð tók það ekki ýkja langan tíma að tæta í gegnum hrúguna.

Fékk Discworld-bók, The Amazing Maurice and his educated Rodents, bók sem ég hafði eitt sinn talið að væri ekki í Discworld-seríunni en komst að því fyrir nokkrum mánuðum að hún væri í seríunni mér til undrunar og gleði. Þá var hún aðeins til í harðspjaldaútgáfu, en eins og allir vita eru þær bækur á verði mannsmorðs. Ég var eiginlega búinn að gleyma henni þegar að ég loksins sá hana í pakkanum mínum í kiljuformi. Las hana í kvöld, Pratchett klikkar sjaldnast.

Uncategorized

Engin jól hér!

Árið er víst að enda, maður er ekki fyrr orðinn vanur því að skrifa 2002 þegar maður skrifar dagsetningar en maður þarf að fara að muna að það er komið 2003. Nú má búast við holskeflu af greinum þar sem farið er lauslega yfir liðið ár í ýmsum flokkum. Sæmilega samantekt um Internetið má lesa hjá Salon.

Á öðru vefriti sem nefnist Deiglan er að finna óborganlega greinahöfunda, aðalsprautan á bakvið Deigluna skrifar í dag um áhrifalausu mussukellinguna hana Ingibjörgu Sólrúnu sem að á víst upphefð sína að þakka Framsóknarflokknum. Þess má geta að flestir pennar Deiglunnar eru gallharðir sjálfstæðismenn en vefritið auglýsir sig þó sem óháð þó fæstir pennanna séu það. Þessi grein kom fram brosviprum hjá mér, líklega ekki af sömu ástæðu og höfundur greinar ætlaðist til.

Repúblikanar eru líklega að velja Bill Frist sem nýja þingflokksformanninn, hann er þekktur hjartaskurðlæknir og talinn frekar hófsamur. Mesta snilldin finnst mér þó vera sú að 1970 fékk Bill Frist verðlaunin “William Martin Award for best all around boy in the school” í skólanum sínum í Nashville, Tennessee. Hver vill ekki vera “best all around boy”!

Áhugavert:

  • Erfitt að vera fótboltastjarna
  • Blogs Make the Headlines
  • Internet villain nominees revealed
  • US government database spy site fading away
  • Power Puff Goth Girls
  • Uncategorized

    Tilbúin

    Fyrir jólin! Jólahreingerning fór fram í dag og allt er nú spikk og span hjá okkur (eins og sumir segja).

    Sá einhvern tala um hvað allir væru væmnir og svona um jólin og hvað allir væru voða vingjarnlegir (sjá frétt gærdagsins um saksóknarana í Texas!). Þetta nær þó að sjálfsögðu ekki til bandarískra stjórnvalda sem að hafa murkað lífið úr saklausum borgurum og óbreyttum hermönnum undanfarna mánuði. Þessar fréttir birtast þó ekki í almennum fjölmiðlum, að minnsta kosti ekki hér á landi.

    Hvernig ætlast menn til þess að Írakar fagni Bandaríkjamönnum þegar að þeim er ekki óhætt að ganga um eigin götur?

    Bragarbót hefur verið gerð á textastærð á þessum smávef mínum, letur verið stækkað og notendur Internet Explorer geta sjálfir ráðið leturstærðinni núna (Internet Explorer er tregur mjög og það þarf að strjúka honum blíðlega til að hann geri eins og hann ætti að gera).