Monthly Archives: December 2001

Uncategorized

Árið liðið

Þeir eru ekki alveg komnir inn í rétta öld þarna í Bandaríkjunum, það er svo sem varla við því að búast því að það voru akkúrat svona menn sem voru flæmdir frá Evrópu og enduðu í Ameríku forðum daga. Ætli þessi prestur sé ekki kominn í beinan prestlegg af fyrstu púrítönunum.

Síðasti dagur ársins víst komin, held að það sé alveg sannað mál að tíminn líður miklu miklu hraðar eftir því sem maður eldist.

Uncategorized

Húðargerð

Búinn að dútla mér í því í dag að búa til húð (skin) á WinAmp tónlistarspilarann minn. Þemað sem varð fyrir valinu er að sjálfsögðu mitt ástsæla félag Sheffield Wednesday sem tapaði einmitt í gær 0-5 á heimavelli á móti Norwich City.

Uncategorized

Uppsetning á fartölvunni

Byrjaði daginn á því að skipta um harða diskinn í fartölvunni minni (sjá færslu gærdagsins), fyrsta sinn sem ég opna fartölvu og þar sem allt er miklu minna, samþjappaðra og dýrara í fartölvum en borðvélum þá var ég pínulítið stressaður. Fann reyndar mjög góðar leiðbeiningar hjá HP. Þetta tókst að lokum og allt virðist virka.

Restin af deginum fór svo eins og venjulega þegar ég set upp vél, endalaus restört og download á driverum og pötchum og hvaðeina. Allt blessaðist að lokum, mér til hægðarauka svona næst þegar ég set hana upp (vonandi ekki… vona innilega að þetta vandamál hrjái mig ekki aftur) ætla ég að smella nokkrum tenglum hér inn:

Flott WinAmp skin:

  • Connect-X Updated
  • Oxygen 2
  • Steel This Amp
  • Nucleo Nlog
  • Angedelo Digi
  • Blooz
  • CanHelstegtMetamp
  • The Powerpuff Girls
  • Pink Powerpuff Girls (aðallega fyrir Sigurrós :p )
  • Uncategorized

    Tölvukaup

    Skrapp í dag að kaupa 30GB (reyndar 28GB þar sem að framleiðendur harðra diska telja bara 1000 MB í einu GB, í stað 1024 MB í einu GB, svona til þess að láta þá líta stærri út) disk í fartölvuna. 5GB diskurinn of lítill til að bæta þeim forritum við sem ég þyrfti vegna skólans eftir áramótin.

    Í leiðinni aðstoðaði ég Sigrúnu í að kaupa sér fartölvu, fyrir valinu varð 1GHz MiNote7521-T frá Mitac, með DVD-drifi sem að ég varð svolítið skotinn í þegar ég var að snyrta til á vélinni hennar áður en hún tæki hana í notkun. Að auki kíkti ég til Daða bróður til að skoða gömlu tölvuna sem hann keypti á 5 þúsund kall, risakassi en skjákortið ekki upp á marga fiska. Það lítur út fyrir einn eina tölvuhelgina hjá mér.

    Áhugavert lesefni:

  • Foreign World Cup Volunteers Inspired by Soccer
  • Uncategorized

    Vinnudagur

    Rólegur vinnudagur, kláraði eitt verkefni sem að var á borðinu og svo var lítið annað að gera en að dútla. Þessi tími ársins er langoftast sá allra dauðasti, verkefni koma ekki inn því að allir eru búnir með fjármuni ársins og ekki hægt að byrja á nýjum fyrr en eftir áramót þegar að nýtt fjárhagsár tekur við hjá öllum kúnnum.

    Uncategorized

    Annar í leti

    Vinnudagur á morgun, spilaði bara CM fram eftir degi og við horfðum svo á Monsters Inc um kvöldið. Ágætis mynd sem er góð skemmtun, ráðlegg ekki þó að fara með ung börn á hana.

    Uncategorized

    Letidagur

    Lítið um jólaboð þetta árið, einu er frestað fram í janúar og verður þá fertugsafmæli, og annað dettur upp fyrir í ár.

    Dagurinn í dag því alger letidagur, kláraði að lesa Football Confidential, sem ég fékk frá Sigurrós, og spilaði svo CM 01/02 fram eftir kveldi.

    Football Confidential fjallar annars um skuggahliðar knattspyrnunnar, eins og unga leikmenn sem að umboðsmenn tæla til Vesturlanda, og fleygja svo á götuna ef þeir fá ekki samning, einkavæðingu vallarumhirðu sem fór illa í Bretlandi og kostaði marga áhugamenn ferilinn og miklar þjáningar, og margt fleira. Allt hefur sínar skuggahliðar sem að misbreyskir menn koma nálægt.

    Uncategorized

    Jólagjafir

    Fyrri hluta dags var ég að fikta í minni háttar uppfærslum á WFF.

    Þetta árið vorum við heima hjá mömmu í mat, hamborgarahryggurinn var safaríkur og léttreyktur og betri en mig minnti. Allir voru voða rólegir, strákarnir léku sér í tölvum á meðan að við “eldra” fólkið tókum því bara rólega, og í fyrsta sinn sem ég man eftir mér var enginn að deyja úr spenningi að opna jólapakkana. Þegar við svo á endanum tókum til við það þá opnaði aðeins einn í einu sína gjöf, þannig að þetta tók góðan tíma og var mjög ánægjulegt.

    Tvenn handklæði, 3 DVD (með Sigurrós), jólatré með ljósleiðurum sem skipta litum (með Sigurrós), 5 bækur, peysa og mynd (með Sigurrós) voru jólagjafirnar sem ég fékk þetta árið.

    Þegar að við komum svo heim á Kambsveginn voru jólakortin opnuð í rólegheitum. Voðalega róleg og gleðileg jól hjá okkur.

    Uncategorized

    Jólaklipping

    Þar sem að jólainnkaup kláruðust á klukkutíma í gær var lítið stress í dag. Pabbi fékk bílinn minn lánaðan til þess að bóna hann á meðan að ég tók til og þreif í vinnuherberginu. Sigurrós klippti mig svo með hárklippigræjunum mínum sem hafa margborgað sig upp í ár.

    Í ljós kom að þorláksmessuskatan hafði allt í einu færst frá hádegi til 4 miðdegis hjá fjölskyldu Sigurrósar, þetta kom raunar í ljós þegar að þær systurnar renndu í hlað þar á hádegi. Sigurrós sleppti því að fara aftur klukkan 4 og þess í stað nutum við þess að vera ein heima (enda læt ég ekki sjá mig nálægt kæstri skötu) og ég skaust á Subway til að ná í ætan (reyndar mjög góðan) mat.

    Uncategorized

    Jólainnkaup

    Morguninn fór í að aðstoða Kidda “Bake” í afritatöku, svona áður en hann fer að skipta um stýrikerfi.

    Fórum í áttræðisafmæli Ömmu Böggu (amma Sigurrósar) í dag, þar var margt manna mætt að óska hinu hressa afmælisbarni til hamingju.

    Í kvöld fórum við Sigurrós svo í Kringluna um áttaleytið, áttum eftir að kaupa þrjár gjafir, og tók það ekki klukkutíma, enda búin að ákveða nokkurn veginn hvað átti að kaupa. Þess má geta að ég hef haft það nokkuð náðugt í jólaundirbúningnum þar sem Sigurrós hefur séð um all flest sem gera þurfti, enda í jólafríi í skólanum. Þetta er stór plús við það að eiga svona betri helming :p

    Í Kringlunni kinkuðum við Konni svo kolli, báðir í eftirdragi okkar betri helminga, á leiðinni út mætti ég svo Eggerti “Shawn Kemp” og í 10-11 hitti ég svo vinnufélaga minn. Sigurrós sýndist það augljóst að fyrst núna væru karlarnir farnir eitthvað að kaupa inn fyrir jólin.