Björn Bjarnason kætist yfir því að Mogginn taki upp hanskann fyrir það að Björn hamri á meiri njósnum, fleiri vopnum og fari með vænisýkina upp í topp til að sannfæra um að Ísland þurfi á þessu að halda.
Björn vitnar í þessa málsgrein Moggans:
Hryðjuverkaógnin er raunveruleg og nálæg. Öfgamenn hafa ráðizt á skotmörk í nágrannalöndum okkar, sem við höfum einna mest samskipti við. Skemmst er að minnast árásanna á New York, Washington, London og Madríd. Það getur gerzt hvenær sem er að hópur Íslendinga sé staddur á fjölförnum stað í nálægri stórborg, þar sem hryðjuverkamenn ákveða að láta til skarar skríða. Og það er engan veginn hægt að útiloka að þeir beini sjónum að Íslandi, landi sem sagan sýnir að hefur verið auðvelt að ráðast inn í eða ná valdi á þegar þar hefur skort trúverðugar varnir.
Ójá, Reykjavík og New York, efstar á lista allra hryðjuverkamanna! Litla gula hænan eða hver það var sem öskraði að himnarnir væru að falla lifir meðal vor í anda svo um munar.
Hvað var sérsveitin að gera í dag, til að vernda Íslendinga frá hryðjuverkum? Kíkjum hvað Textavarpið sagði:
Sigur Rós meinað að spila í Lindum
Lögregla hefur nú mikinn viðbúnað við Kárahnjúka. Um 20 lögreglumanna eru á svæðinu, sérsveit ríkislögreglunnar og víkingsveitin frá Akureyri auk lögreglu frá Egilsstöðum. Lögreglan hefur sett upp vegatálma á veginn frá Fljótsdal til Kárahnjúka og meinar fólki að fara afleggjarann að Snæfelli, inn að Lindum þar sem tjaldbúðir náttúruverndarsinna standa. Um 60 manns eru í tjaldbúðunum, um tugur manna sem ætlaði þangað í dag var stöðvaður við vegartálma lögreglu.
Hljómsveitin Sigur Rós sem ætlaði að spila á svæðinu í dag komst ekki þangað vegna aðgerða lögreglu. Sigur Rósarmönnum er nú meinað komast í búðir mótmælenda og hyggjast í staðinn spila klukkan 11 í fyrramálið við Snæfell.
Sérsveitin, víkingasveitin og almenn lögregla eru að… stöðva fólk frá því að tjalda og spila tónlist! Við erum örugg!