Monthly Archives: August 2006

Fjölskyldan

jbj5

Í dag hóf ég aftur skólagöngu við Háskóla Íslands eftir 10 ára hlé.

1995 skráðu ég og tveir vinir mínir okkur í lögfræði. Tveir okkar entust ekki til áramóta. Árið eftir skráði ég mig svo í stjórnmálafræði og þó að áhugaverð væri þá gat hún ekki att kappi við Internetið sem þarna var að komast á skrið.

1995 var mér úthlutað netfanginu jbj@, það var síðan endurnýtt og einhver annar ber það nú. Ég fékk úthlutað jbj5@ sem er ekki nógu kræsilegt en hugga mig við það að 5 er síðasta talan í fæðingarárinu.

Markmiðið er meistaragráða árið 2008.

Uncategorized

Nokkur myndbönd

Þáttur í bandarísku sjónvarpi spurði "Er George Bush fáviti?".

Lög um forgangsröðun netumferðar eru til umfjöllunar í bandaríska þinginu. Þrýstihópur sem berst fyrir hlutleysi netumferðar (net neutrality) fékk til liðs við sig þrjár manneskjur sem hafa hlotið gífurlega netfrægð. Þau settu saman tónlistarmyndband sem er bara þokkalega gott! Á vef þrýstihópsins er hægt að heyra meira frá þessum þremur netstjörnum.

Best að hreinsa aðeins út úr pósthólfinu myndbönd sem ég ætlaði alltaf að benda á! 

Ég taldist aldrei til Rammstein aðdáenda en tónleikaútgáfa þeirra á Seemann hitti mig í hjartastað. Nina Hagen hefur gert eigin útgáfu af þessu lagi sem er ekki mikið síðri.

Ég er lélegur teiknari og líklega verri málari. Mig grunar að ég yrði jafnvel enn verri sandlistamaður. Ótrúlegt hvað hægt er að gera með jafn einföldu hráefni. Held að Discovery Channel hafi fengið þessa manneskju til að búa til myndbúta sem eru birtir milli dagskrárliða. 

Stjórnmál

Öryggislögregla Björns Bjarna

Björn Bjarnason kætist yfir því að Mogginn taki upp hanskann fyrir það að Björn hamri á meiri njósnum, fleiri vopnum og fari með vænisýkina upp í topp til að sannfæra um að Ísland þurfi á þessu að halda.

Björn vitnar í þessa málsgrein Moggans:

 

Hryðjuverkaógnin er raunveruleg og nálæg. Öfgamenn hafa ráðizt á skotmörk í nágrannalöndum okkar, sem við höfum einna mest samskipti við. Skemmst er að minnast árásanna á New York, Washington, London og Madríd. Það getur gerzt hvenær sem er að hópur Íslendinga sé staddur á fjölförnum stað í nálægri stórborg, þar sem hryðjuverkamenn ákveða að láta til skarar skríða. Og það er engan veginn hægt að útiloka að þeir beini sjónum að Íslandi, landi sem sagan sýnir að hefur verið auðvelt að ráðast inn í eða ná valdi á þegar þar hefur skort trúverðugar varnir.

 

Ójá, Reykjavík og New York, efstar á lista allra hryðjuverkamanna! Litla gula hænan eða hver það var sem öskraði að himnarnir væru að falla lifir meðal vor í anda svo um munar.

Hvað var sérsveitin að gera í dag, til að vernda Íslendinga frá hryðjuverkum? Kíkjum hvað Textavarpið sagði:

 

Sigur Rós meinað að spila í Lindum
Lögregla hefur nú mikinn viðbúnað við Kárahnjúka. Um 20 lögreglumanna eru á svæðinu, sérsveit ríkislögreglunnar og víkingsveitin frá Akureyri auk lögreglu frá Egilsstöðum. Lögreglan hefur sett upp vegatálma á veginn frá Fljótsdal til Kárahnjúka og meinar fólki að fara  afleggjarann að Snæfelli, inn að Lindum þar sem tjaldbúðir náttúruverndarsinna standa. Um 60 manns eru í tjaldbúðunum, um tugur manna sem ætlaði þangað í dag var stöðvaður við vegartálma lögreglu.

Hljómsveitin Sigur Rós sem ætlaði að spila á svæðinu í dag komst ekki þangað vegna aðgerða lögreglu. Sigur Rósarmönnum er nú meinað komast í búðir mótmælenda og hyggjast í staðinn spila  klukkan 11 í fyrramálið við Snæfell.

Sérsveitin, víkingasveitin og almenn lögregla eru að… stöðva fólk frá því að tjalda og spila tónlist! Við erum örugg!