Gekk illa að sofna í nótt, og rétt drattaðist því framúr klukkan 10. Las smávegis áður en leikurinn hófst, sem og í hálfleik og eftir hann. Dapurt veður úti þannig að það var aðeins skárra að vera innivið og lesa en í gær.
Pabbi og Kári litu við með gasgrillið hans pabba sem að við fáum nú lánað til lengri tíma. Það hefur víst dvalið í geymslu undanfarið og nú komið að okkur að kveikja á því.
Davíð Oddsson heldur áfram að gera sig að fífli:
Davíð: “Evrópusambandið er eitthvert ólýðræðislegasta skriffinskubákn sem menn hafa hafa fundið upp.” (Mbl. 23.06.2002)
Sabathil sendiherra ESB: “Yfirlýsingin er mjög hörð […] undarlegt að Ísland skrifaði undir samninga við svona ólýðræðislega stofnun” (RÚV 27.06.2002)
Davíð: “Mér finnst mjög sérstakt að sendiherra í einhverju landi ráðist með þjósti að forsætisráðherra viðkomandi ríkis. […] Að vísu hef ég séð til þessa sendiherra áður hluti sem eru með miklum ólíkindum. […] Ef hann þekkir ekki það sem menn kalla almennt í Evrópu lýðræðisvanda Evrópusambandsins er hann gjörsamlega úti að aka.” (Mbl. 30.06.2002)
Spurt er, hvor er árásaraðilinn og hvor svarar með þjósti? Það verður spennandi að sjá hvað verður eftir af löppunum á Davíð ef hann heldur áfram að skjóta sig í þær. Það er enn langt til kosninga þannig að hann hefur nógan tíma til að gera sig lappalausan og meira til, verst fyrir sjálfstæðismenn að þar er bara já-lýður við kjötkatlana og því enginn sem getur velt kónginum úr sessi.
Davíð klikkir út með gullkorni: “Það er alltaf jákvætt að hafa mótvægi. Það skapar heilbrigðar umræður og hvort sem sendiráði eins og sendiráði Evrópusambandsins líkar lýðræðislegar umræður eða ekki þá líkar okkur það vel hér” (Mbl. 30.06.2002)
Gakk fram Davíð Oddsson, málsvari málfrelsis og tjáningarfrelsis! Bara ekki líta til baka á verk þín undanfarnar vikur… þá verðuru blindur og að öllum líkindum að eilífu.
Úrslitaleikurinn Brasilía 2-0 Þýskaland
Fyrir leikinn var mér nákvæmlega sama hvort óþolandi liðið ynni þetta. Leiklistarakademía Brasilíu vs Kolanámur Þýskalands. Hins vegar voru það Þjóðverjar sem að fengu mig á sitt band með því að vera betri aðilinn og sækja af krafti. Það breytti því þó ekki að Brasilíumenn tóku þetta á sekúndubrotunum sem að Þjóðverjar klikkuðu. Kahn varði vel skot Rivaldos en blautur boltinn (það rigndi mest allan leikinn.. regntímabilið munið þið) spýttist úr fangi hans og Ronaldo mættur til að pota boltanum inn. Seinna markið kom svo þegar að Þjóðverjarnir voru hættir að hugsa um vörnina að mestu. Kahn átti góðan leik þrátt fyrir að missa boltann þarna, það er ekki hægt að sigra bæði andstæðinginn og veðrið trekk í trekk.
Ég er þó sæmilega sáttur með þetta HM, ýmis ytri skilyrði hafa átt sinn stóra þátt í óvæntum úrslitum, en þessi óvæntu úrslit og árangur minni liða er til hins betra fyrir knattspyrnuna. Ef að keppnin hefði byrjað á réttum tíma (þá væri hún rétt hálfnuð nú) er líklegt að stórveldin sem skitu á sig nú hefðu verið mun betri. Svo var þó ekki. Árangur Suður-Kóreu og Japans er mikil lyftistöng fyrir knattspyrnuna í Asíu, það er bara jákvætt fyrir knattspyrnuna í heild. Verst var þó að sjá rottuna Blatter þarna að reyna að spila sig kóng… innan árs verður maðurinn orðin ærulaus og í fangelsi ef að réttlætið nær fram að ganga.
Hvað upplifunina varðar þá er það auðvitað alveg ljóst að það er allt annað að horfa á þetta í sjónvarpi, eða að vera á staðnum. Einhvern veginn fannst manni þetta HM minna en 1998 þegar maður var sjálfur á vellinum í 4 skipti og sá meðal annars Frakka leggja Króata í undanúrslitum. Stefnan er sett á að fara á annað hvort EM 2004 í Portúgal eða HM 2006 í Þýskalandi.
Hinn úrslitaleikurinn Bútan 4-0 Montserrat
Liðin sem eru neðst á styrkleikalista FIFA öttu kappi í dag um hvort væri verra, Montserrat tapaði leiknum þannig að þeir unnu líklega titilinn?
Áhugavert: