Eins óvanalegt og það er fyrir mig þá hef ég ekki birt undanfarnar dagbókarfærslur á réttum tíma, hef einbeitt mér að því að læra undir tvö miðannarpróf sem ég fór í í dag. Þau komu mér reyndar á óvart með öðruvísi áherslum en ég bjóst við, þannig að árangurinn verður líklega ekki eins góður og ég vonaðist eftir.
Í dag lauk 2. umferð riðlakeppninnar á HM. Af 32 liðum eru 5 nú á heimleið og aðeins 2 örugg áfram, eftir sitja 25 lið sem eiga möguleika á að komast í 16-liða úrslit, þetta er líklega eitt jafnasta og skemmtilegasta HM í lengri tíma.
Suður-Kórea 1-1 Bandaríkin
Toppslagur í riðlinum, nokkuð sem að ekki var búist við fyrir 2 vikum. Suður-Kórea var mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en eldfljótir sóknarmenn Bandaríkjanna, þeirra helsti styrkur, pota inn fínu marki eftir að vinstri bakvörður Suður-Kóreu klikkar í rangstöðugildrunni. Suður-Kórea fær svo vítaspyrnu og fyrrnefndur bakvörður lætur Brad Friedel verja slaka spyrnu sína. Ekki beint hans dagur þegar þarna var komið. Suður-Kóreumenn mun sterkari en lánlausir upp við markið, með alvöru sóknarmann (svona í anda Shearer, Batistuta, jafnvel Klinsmann) hefðu þeir örugglega sett 5 mörk. Á 78. mínútu ná þeir loksins að pota boltanum í markið, margnefndur bakvörður tekur aukaspyrnu sem að ratar á haus sóknarmanns og þaðan í mark Bandaríkjanna. Bakvörðurinn frægi, sem heitir Lee Chun-Soo og er þeirra yngsti leikmaður, átti svo frábæran sprett og góða fyrirgjöf undir lok leiksins en félaga hans mistókst að pota boltanum í markið af markteig. Bandaríkjamenn heppnir að sleppa með jafnteflið.
Belgía 1-1 Túnis
Belgarnir ollu miklum vonbrigðum í síðasta leik sínum, þunglamalegir og hugmyndasnauðir. Nú voru mínir menn í draumaleiknum komnir inná í belgísku vörnina, Deflandre og De Boeck, þannig að ég vonaðist eftir sigri Belga og hreinu neti. Á 13. mínútu skora Belgarnir skólabókarmark. Ég er sáttur við það þó að þeir séu frekar takmarkaðir núna greyin. Á 17. mínútu eyðileggja Túnismenn draumadeildarplanið mitt gjörsamlega, þeir jafna metin úr glæsilegri aukaspyrnu. Það sem eftir lifði leiks var ekki markvert, ég er svo sem ánægður með að Túnis fái stig, voru afar óheppnir gegn Rússum í síðasta leik. Í stað 10 stiga fæ ég 0 stig í draumadeildinni, og er akkúrat um miðja deild.
Portúgal 4-0 Pólland
Mínir menn í portúgalska liðinu gleymdu að mæta á völlinn í síðasta leik, létu loks sjá sig eftir rúman hálftíma en þá höfðu Bandaríkjamenn potað boltanum þrisvar í markið, eitt skiptið með viðkomu í Jorge Costa (sem að Arnar Björnsson “spekingur” kallar ALLTAF Rui Costa). Nú mættu liðin til leiks alveg brjáluð, vissu vel að þeir sem töpuðu hér væru úr leik, og jafntefli væri hvorugu liði til góða. Grenjandi úrhellisrigning var, nú er regntímabilið að byrja þarna fyrir austan. Japanir og Suður-Kóreumenn vildu fá HM flýtt um 6 vikur til að sleppa við það tímabil einmitt, en aðeins var hægt að flýta því um 3 vikur vegna allra deildanna sem að eru einmitt í hámarki í byrjun maí. Þessar 3 vikur hafa reyndar örugglega haft slatta að segja fyrir sterkustu liðin, þar sem að örþreyttir leikmenn þeirra fengu litla hvíld og samæfingu eftir erfiða deildarkeppni, það gæti útskýrt sofandahátt Frakka til að mynda. Jæja, aftur að þessum leik. Liðin ætluðu að selja sig grimmt, Portúgalir skiptu tveim sóknarmiðjumönnum út fyrir varnarsinnaða miðjumenn, snillingurinn Rui Costa bauðst til að láta sitt sæti eftir ef það myndi hjálpa til og boði hans var greinilega tekið. Tæklingar flugu og pústrar voru veittir á milli þess sem menn og bolti fleyttu kellingar eftir rennvotum vellinum. Á 14. mínútu skilar hröð sókn Portúgala góðu marki Pauleta, markahæsta manns frönsku deildarinnar í ár (ásamt Djibril Cisse). Í hálfleik hélt “spekingurinn” Arnar Björnsson áfram að dæla út úr sér vitleysu og viðbjóði. Mig vantar erlenda stöð með þulum, því að þessi grey hérna heima gera mig stundum verulegan pirraðan. Á 65. mínútu fara Portúgalir hratt upp völlinn og aftur lætur Pauleta á sér kræla, stingur góðri fyrirgjöf Figos inn í markið. Jerzy Dudek horfir sorgmæddur á, er það bara ég eða er hann svipaður Geir Ág í útliti? Á 77. mínútu klára Pauleta svo þrennuna sína, þennan mann hefðu Portúgalir þurft að hafa í formi á EM2000, þá hefðu þeir klárað þá keppni. Varamaðurinn Rui Costa nær svo að pota inn 4. marki Portúgala á 88. mínútu, og tveim mínútum síðar klikkar hann gjörsamlega í frábæru færi. Úrslitin 4-0, markatalan gæti ráðið miklu um hvort að Portúgalir, Bandaríkin eða Suður-Kórea fara upp. Pólverjar reyndar óheppnir þegar að mark var dæmt af þeim, en utan þess voru þeir frekar slakir og hugmyndasnauðir.