Monthly Archives: June 2002

Uncategorized

HM:Dagur 11 – 2. umferð lýkur

Eins óvanalegt og það er fyrir mig þá hef ég ekki birt undanfarnar dagbókarfærslur á réttum tíma, hef einbeitt mér að því að læra undir tvö miðannarpróf sem ég fór í í dag. Þau komu mér reyndar á óvart með öðruvísi áherslum en ég bjóst við, þannig að árangurinn verður líklega ekki eins góður og ég vonaðist eftir.

Í dag lauk 2. umferð riðlakeppninnar á HM. Af 32 liðum eru 5 nú á heimleið og aðeins 2 örugg áfram, eftir sitja 25 lið sem eiga möguleika á að komast í 16-liða úrslit, þetta er líklega eitt jafnasta og skemmtilegasta HM í lengri tíma.

Suður-Kórea 1-1 Bandaríkin
Toppslagur í riðlinum, nokkuð sem að ekki var búist við fyrir 2 vikum. Suður-Kórea var mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en eldfljótir sóknarmenn Bandaríkjanna, þeirra helsti styrkur, pota inn fínu marki eftir að vinstri bakvörður Suður-Kóreu klikkar í rangstöðugildrunni. Suður-Kórea fær svo vítaspyrnu og fyrrnefndur bakvörður lætur Brad Friedel verja slaka spyrnu sína. Ekki beint hans dagur þegar þarna var komið. Suður-Kóreumenn mun sterkari en lánlausir upp við markið, með alvöru sóknarmann (svona í anda Shearer, Batistuta, jafnvel Klinsmann) hefðu þeir örugglega sett 5 mörk. Á 78. mínútu ná þeir loksins að pota boltanum í markið, margnefndur bakvörður tekur aukaspyrnu sem að ratar á haus sóknarmanns og þaðan í mark Bandaríkjanna. Bakvörðurinn frægi, sem heitir Lee Chun-Soo og er þeirra yngsti leikmaður, átti svo frábæran sprett og góða fyrirgjöf undir lok leiksins en félaga hans mistókst að pota boltanum í markið af markteig. Bandaríkjamenn heppnir að sleppa með jafnteflið.

Belgía 1-1 Túnis
Belgarnir ollu miklum vonbrigðum í síðasta leik sínum, þunglamalegir og hugmyndasnauðir. Nú voru mínir menn í draumaleiknum komnir inná í belgísku vörnina, Deflandre og De Boeck, þannig að ég vonaðist eftir sigri Belga og hreinu neti. Á 13. mínútu skora Belgarnir skólabókarmark. Ég er sáttur við það þó að þeir séu frekar takmarkaðir núna greyin. Á 17. mínútu eyðileggja Túnismenn draumadeildarplanið mitt gjörsamlega, þeir jafna metin úr glæsilegri aukaspyrnu. Það sem eftir lifði leiks var ekki markvert, ég er svo sem ánægður með að Túnis fái stig, voru afar óheppnir gegn Rússum í síðasta leik. Í stað 10 stiga fæ ég 0 stig í draumadeildinni, og er akkúrat um miðja deild.

Portúgal 4-0 Pólland
Mínir menn í portúgalska liðinu gleymdu að mæta á völlinn í síðasta leik, létu loks sjá sig eftir rúman hálftíma en þá höfðu Bandaríkjamenn potað boltanum þrisvar í markið, eitt skiptið með viðkomu í Jorge Costa (sem að Arnar Björnsson “spekingur” kallar ALLTAF Rui Costa). Nú mættu liðin til leiks alveg brjáluð, vissu vel að þeir sem töpuðu hér væru úr leik, og jafntefli væri hvorugu liði til góða. Grenjandi úrhellisrigning var, nú er regntímabilið að byrja þarna fyrir austan. Japanir og Suður-Kóreumenn vildu fá HM flýtt um 6 vikur til að sleppa við það tímabil einmitt, en aðeins var hægt að flýta því um 3 vikur vegna allra deildanna sem að eru einmitt í hámarki í byrjun maí. Þessar 3 vikur hafa reyndar örugglega haft slatta að segja fyrir sterkustu liðin, þar sem að örþreyttir leikmenn þeirra fengu litla hvíld og samæfingu eftir erfiða deildarkeppni, það gæti útskýrt sofandahátt Frakka til að mynda. Jæja, aftur að þessum leik. Liðin ætluðu að selja sig grimmt, Portúgalir skiptu tveim sóknarmiðjumönnum út fyrir varnarsinnaða miðjumenn, snillingurinn Rui Costa bauðst til að láta sitt sæti eftir ef það myndi hjálpa til og boði hans var greinilega tekið. Tæklingar flugu og pústrar voru veittir á milli þess sem menn og bolti fleyttu kellingar eftir rennvotum vellinum. Á 14. mínútu skilar hröð sókn Portúgala góðu marki Pauleta, markahæsta manns frönsku deildarinnar í ár (ásamt Djibril Cisse). Í hálfleik hélt “spekingurinn” Arnar Björnsson áfram að dæla út úr sér vitleysu og viðbjóði. Mig vantar erlenda stöð með þulum, því að þessi grey hérna heima gera mig stundum verulegan pirraðan. Á 65. mínútu fara Portúgalir hratt upp völlinn og aftur lætur Pauleta á sér kræla, stingur góðri fyrirgjöf Figos inn í markið. Jerzy Dudek horfir sorgmæddur á, er það bara ég eða er hann svipaður Geir Ág í útliti? Á 77. mínútu klára Pauleta svo þrennuna sína, þennan mann hefðu Portúgalir þurft að hafa í formi á EM2000, þá hefðu þeir klárað þá keppni. Varamaðurinn Rui Costa nær svo að pota inn 4. marki Portúgala á 88. mínútu, og tveim mínútum síðar klikkar hann gjörsamlega í frábæru færi. Úrslitin 4-0, markatalan gæti ráðið miklu um hvort að Portúgalir, Bandaríkin eða Suður-Kórea fara upp. Pólverjar reyndar óheppnir þegar að mark var dæmt af þeim, en utan þess voru þeir frekar slakir og hugmyndasnauðir.

Uncategorized

HM:Dagur 10

Spekingar hjá Morgunblaðinu, eftir sigur Króata á Ítölum er fyrirsögnin “Brostnar vonir Króata vakna”. Ég ætla ekki einu sinni að eyða orðum á þetta afstyrmi sem að sumir töldu greinilega íslensku.

Kosta Ríka 1-1 Tyrkland
Tyrkir mun sterkara liðið í fyrri hálfleik en ná ekki að pota boltanum í markið. Byrja seinni hálfleikinn af krafti og ná að pota boltanum í markið. Fara svo að bakka eftir það og Kosta Ríka ná betri tökum á leiknum og jafna mjög verðskuldað rétt fyrir leikslok. Eru svo stangarbreidd frá því að ná forystunni á lokamínútunum. Tyrkir enn argir eftir skandalinn gegn Brasilíu og sýndu ekki sínar bestu hliðar, léttleikandi lið Kosta Ríka með góða takta og á góða möguleika núna á að komast áfram.

Japan 1-0 Rússland
Ekki skil ég af hverju menn voru að búast við einhverju af Rússunum. Voru þunglamalegir og lélegir gegn Túnis í fyrsta leik sínum, og ekki mikið skárri hér. Stórfínt lið Japans mun betri aðilinn og skora flott mark á 50. mínútu. Rússar reyna loks eitthvað af viti síðustu 10 mínúturnar en Japanir vinna verðskuldaðan sigur.

Mexíkó 2-1 Ekvador
Nennti ekki að vakna til að sjá þennan leik, vakti aðeins frameftir. Sá lok leiksins og mörkin, Mexíkó eiga taug í mér en Ekvadorar eru með sæmilegt lið líka. Markvörður Mexíkó heldur áfram að hneyksla “spekinginn” Arnar Björnsson sem að finnst lítið til leikmanna koma nema þeir séu yfir 185 cm (annars eru þeir peð og voðaleg grey).

Áhugavert:

  • Legacy of Shame
  • Romancing the Genome
  • A Privates Matter
  • The Danger Zone
  • Uncategorized

    HM:Dagur 9

    Brasilía 4-0 Kína
    Kínverjar byrja leikinn mjög fjörlega og sýna meiri ógnun við vítateig Brasilíumanna en öfugt. Á 15. mínútu fá Brasilíumenn aukaspyrnu og Roberto Carlos smellir boltanum í markhornið, 1-0 og hans fyrsta mark úr aukaspyrnu fyrir Brasilíu í 2-3 ár. Á 32. mínútu klikkar vörn Kína í fyrsta sinn þegar að Rivaldo potar fyrirgjöf í markið. Á 44. mínútu fær Ronaldo vítaspyrnu og ljótasti knattspyrnumaður seinni tíma, grey Ronaldinho, skorar af öryggi. Búlgarinn Trifan Ivanov hefur stundum fengið þennan titil en hann er fjarri því jafn ljótur og Ronaldinho. Grey strákurinn. Á 55. mínútu fær Ronaldo svo að pota inn marki og innsigla sannfærandi sigur Brasilíumanna. Kínverjar spiluðu feykivel þrátt fyrir þessi úrslit, engar kýlingar upp völlinn heldur spiluðu þeir sig úr vandræðum og sýndu góða boltameðferð og leikskilning. Þjóð á uppleið tvímælalaust, þó að þeir séu enn í neðri deildinni í alþjóðaboltanum. Gaman að sjá brasilísku leikmennina klobbaða af þeim kínversku trekk í trekk.

    Suður-Afríka 1-0 Slóvenía
    Óverðskuldað tap Slóvena gegn Spáni hafði slæm áhrif, fyrirliði þeirra, Zlatko Zahovic, lenti í hörkurifrildi við þjálfarann og var sendur heim með snatri. Mikil dramatík og læti og þegar á reyndi voru Slóvenar alls ekkert viðbúnir því að fara að leika aftur. Suður-Afríka réð leiknum og Slóvenar gerðu fátt af viti. Mark á 4. mínútu skildi liðin að í leikslok. Skemmtilegt lið Slóvena því úr leik að sinni.

    Ítalía 1-2 Króatía
    Daufur fyrri hálfleikur en í seinni hálfleik fór fjör að færast loksins í leikinn. Ítalir komast yfir með marki frá markamaskínunni Vieri (Vieri og Morientes saman.. óstöðvandi hugsa ég), en Króatar pota tveimur mörkum inn og svo er línuverðinum eitthvað illa við Ítalina, dæmir tvö lögleg mörk af þeim. Fínn sigur fyrir Króatíu, en óheppni hjá Ítölum.

    Uncategorized

    HM:Dagur 8 – LAN #6

    Sigurrós bauð saumaklúbbnum í innflutningspartý, en ég átti bókaðan tíma á VIT-lani #6 (HM útgáfa) þannig að ég sást ekkert í því.

    Lanið að þessu sinni var með HM-þema, hver leikmaður notaði nú númer og nafn leikmanns á HM, sjálfur var ég 19. Denilson, þó svo að nokkur önnur nöfn og númer hafi verið undir smásjánni líka (4. Montero, 11. Sergio Conceiçao og fleiri). Ég var harður á þessu og leyfði engum að komast upp með múður, allir skyldu hafa nafn og númer, þeir sem að eru ekkert fyrir fótboltann fengu úthlutað nafni og númeri af handahófi, veskú.

    Svíþjóð 2-1 Nígería
    Undarleg byrjun á leiknum, Svíar steingleymdu að heilsa dómurunum sem stóðu vandræðalegir í smá tíma. Spekingur leiksins að þessu sinni var Gaupi, sem að byrjaði á því að kalla Jay Jay Okocha hinu skemmtilega nafni Ókaka, og Oronkwo fékk nafnið Ókókó. Mig grunar að Gaupi hafi verið að lesa Lukka Láka bók fyrir svefninn. Svíar byrja leikinn af miklum krafti og Nígeríumenn bjarga á línu. Svíar mun betri aðilinn en góð fyrirgjöf frá Yobo og góður skalli frá Agahowa skilar Nígeríu 1-0 forystu. Fagnaðarlæti Agahowa líktust svo HM í fimleikum, sexfalt flikk-flakk með einu heljarstökki í lokin. Af hverju heitir þetta annars fagn núna hjá þulunum en ekki fögnuður? Er fagn ekki nýtt orð þá? Henrik Larsson heldur áfram að væflast um völlinn og gera ekkert af viti þar til að hann fær fína stungusendingu frá Ljungberg og skilar hennir örugglega í markið. Sendingar Larssons halda áfram að vera arfaslakar. Á 60. mínútu fá Svíar víti, og Larsson skorar naumlega úr því, markmaðurinn vel í boltanum. Svíar með verðskuldaðan sigur, fínt spil og mikil vinna leikmanna, þessi fyrri hálfleikur gegn Englendingum var greinilega bara glímuskjálfti. Ótti minn fyrir mótið um lélegan árangur Nígeríumanna rættist, þeir eru með frábæra leikmenn í öllum stöðum en taktíski þátturinn er verri en hann var 1994, tíð þjálfaraskipti og deilur um leikmenn hafa háð þeim verulega núna.

    Spánn 3-1 Paragvæ
    José Luis Chilavert hefur víst verið afar duglegur að rakka niður Spánverjana undanfarið, og sagst ætla að skora tvö mörk gegn þeim, eitt úr víti og hitt úr aukaspyrnu. Paragvæ byrja leikinn í hollensku treyjunum! Paragvæ byrja af krafti og á 9. mínútu á bakvörðurinn stórgóði, Arce, skot að marki Spánverja sem að Casillas slær frá en beint í fætur Puyol og af honum fer boltinn í markið. 1-0 fyrir Paragvæ. Spánverjar vakna við þetta og taka völdin á miðjunni. Í hálfleik eru Paragvæar enn yfir, og nú er markamaskínunni Morientes skipt inná sem og Helguera. Á 53. mínútu jafnar Morientes með skalla. Á 61. mínútu kemur hann Spáni yfir með maganum, Chilavert fer í slæmt úthlaup og boltinn hafnar í maga Morientes og fer þaðan í netið. Á 82. mínútu gulltryggir Hierro svo sigurinn með marki úr víti, mörg stig fyrir þá sem hafa hann í sínu draumaliði.

    Argentína 0-1 England
    Örn kíkir í heimsókn og tekur vinnufélaga sinn með sér, þetta er stórleikur þessarar umferðar og því er pizza pöntuð. Þarna sést loks í skallann á dómaranum Collina, sem að mér finnst oft vera helst til mikið í sviðsljósinu og frekar flautuglaður. Hann hefur greinilega verið sparaður hingað til og settur sérstaklega á þennan leik, enda viðbúið að hann verði erfiður. Stuðningsmenn Englands sýna fádæma virðingarleysi og púa þegar að þjóðsöngur Argentínu er leikinn, ekkert álíka átt sér stað í keppninni til þessa. Stuðningsmenn Argentínu endurlauna svo verknaðinn þegar að þjóðsöngur Englendinga fær spilun. Mér til mikillar furðu mæta Argentínumenn frekar moðvolgir í leikinn, spilamennskan sem þeir sýndu gegn Nígeríu hefur greinilega gleymst á hótelinu og þó þeir séu fyrri hluta leiks mun sterkari á miðjunni þá ná þeir voða lítið að skapa og gera fátt af viti. Engu líkara en að þeir séu hræddir við Englendinga, sem eru þó með lakara lið. Beckham skorar úr vítaspyrnu og Englendingar verða betri aðilinn í leiknum, ná fínu spili á meðan að Argentínumenn virðast hafa gleymt því að þetta væri alvöruviðureign.

    Uncategorized

    HM:Dagur 7

    Þetta er bara farið að venjast ágætlega að vakna svona klukkan sex á morgnana!

    Danmörk 1-1 Senegal
    Danir komu inn í þennan leik fullvissir um það að þeir fengju að spila sinn leik, halda boltanum og koma svo með ógnunina upp kantana. Senegalir voru sko alls ekki tilbúnir til þess, frá fyrstu mínútu keyrðu þeir grimmt í Danina sem að vissu ekki hvað var í gangi, kantarnir voru lokaðir og Senegalir börðust um hvern bolta hvar sem er á vellinum, Danir hafa talið sig svona sæmilega sterkbyggða en Senegalirnir eru þvílíkir massar að nautin á miðjunni hjá Dönum, Gravesen og Töfting, sáust hreinlega ekki. Danir fara þá að reyna langar sendingar og þær fara að valda usla í vörn Senegala sem að eru greinilega ekki viðbúnir þessari taktísku breytingu. Á 14. mínútu fá Danir innkast og algjör nýliðamistök verða í vörn Senegal þannig að Tomasson kemst inn í vítateiginn með boltann en er felldur þar klaufalega af Salif Diao. Víti fyrir Danmörku sem að Tomasson skorar úr, nokkuð gegn gangi leiksins. Það sem eftir lifir hálfleiks eru Senegalir sífellt að stríða Dönum sem að eru arfaslakir, óviðbúnir mótspyrnunni og með fá svör eftir að Senegalir læra á löngu sendingarnar. Í hálfleik skiptir þjálfari Senegal svo tveimur sóknarmönnum inná, skilaboð sem ekki er hægt að efast um, það skal verða skorað hér og það grimmt. Danir fá hornspyrnu (sína fyrstu í leiknum?) en missa boltann og frábært hraðaupphlaup Senegala skilar flottu marki, markaskorarinn er maðurinn sem að braut einmitt á Tomasson í vítateignum, Salif Diao. Áfram halda Senegalir að ógna en vantar herslumuninn að skora fleiri mörk. Á 80. mínútu fær svo Salif Diao rauða spjaldið og er rekinn útaf, maður leiksins án vafa, ábyrgur fyrir báðum mörkunum. Úrslitin eru kannski ásættanleg fyrir bæði lið, Danir sleppa vel þar sem þeir voru arfaslakir, Senegalir gætu hafa unnið þetta en þeir verða bara að ná stigi gegn Úrúgvæ til að vera öruggir áfram.

    Kamerún 1-0 Sádi-Arabía
    Skíttap Sáda gegn Þjóðverjum kom talsvert á óvart, liðið stóð sig vel á HM94, aðeins verr á HM98 en að þeir væru svona lélegir var eitthvað sem að gat bara ekki staðist, menn komast ekki áfram á kostnað þjóða eins og Íran (sem að eru sterkir í boltanum) nema þeir kunni fótbolta. Það sést líka frá fyrstu mínútu, Kamerúnar byrja grimmt og sækja stíft á Sádana, en þeir virðast aftur á móti vera með nóg sjálfstraust og láta ekki á sjá. Kamerúnar virðast frekar kærulausir, hafa líklega litið á þennan leik sem formsatriði eftir það sem á undan er gengið. Sádarnir ná upp fínu spili, liggja aftarlega en beita svo fínum skyndisóknum sem ógna talsvert marki Kamerún. Kamerúnar reyna að bögglast upp miðjuna en sterk vörn Sádanna étur flesta boltana sem að eru sendir þar inn. Eftir sókn Sádanna ná Kamerúnar hins vegar hraðaupphlaupi, og Eto’o klárar færið vel. Sádarnir hefðu hæglega getað skorað 2-3 mörk, sýndu og sönnuðu að leikurinn gegn Þýskalandi var bara stórslys sem að endurtekur sig ekki í bráð.

    Arnar Björnsson heldur áfram að væla að ef að ekki væri fyrir ranga dóma og óþokkabrot leikmanna væri knattspyrnan ekki svona vinsæl, þessir skandalar skapi umtal sem sé lífsnauðsynlegt fyrir knattspyrnuna. Fyrir þessi orð fær hann að sjálfsögðu titilinn “spekingur” í öðru veldi, þar sem ég er kurteis maður og vil ekki nota dagbókina til að níða niður fólk þá ætla ég ekki að segja hvað mér finnst um þennan svokallaða “fréttamann” sem að virðist lesa “The Sun” og “National Enquirer” af miklum móð.

    Frakkland 0-0 Úrúgvæ
    Heims- og Evrópumeistararnir koma í þennan leik undir gífurlegum þrýstingi eftir að hafa tapað fyrsta leiknum. Úrúgvæar sjá að það er skrekkur í Frökkunum og spila mun framar en þeir gerðu gegn Dönum. Alvaro Recoba sýnir Frökkunum hvers þeir sakna, klobbar menn hægri og vinstri og leggur upp færin eins og Frakkarnir eru vanir að sjá Zidane gera. Tæklingar eru nokkuð fastar, Frakkar auðvitað ákveðnir í að taka þennan leik, og Úrúgvæar þekktir fyrir að spara ekki spörkin. Á 25. mínútu fer Henry í villta tæklingu fyrir framan nefið á dómaranum sem að lyftir umsvifalaust upp rauða spjaldinu. Frakkar undir gífurlegri pressu og nú manni færri! Úrúgvæar færast í aukana í eigin tæklingum og eru heppnir að verða ekki tveimur mönnum færri þegar að tvær tæklingar í svipuðum flokki og hjá Henry sjást hjá þeim. Mikill hiti í mönnum þegar að hálfleikurinn kemur. Báðir þjálfararnir hafa greinilega beðið sína menn að spara aðeins gaddana, seinni hálfleikur mun prúðari af beggja hálfu. Bæði lið fá dauðafæri, Úrúgvæar reyndar með mun betri en skora þó ekki, klaufagangur og góð staðsetning Barthez sér til þess. Leiknum lýkur með 0-0 jafntefli, því fyrsta í þessari keppni (og vonandi síðasta, en það er hæpið, lokaumferðin gæti orðið þannig að þau lið sem vantar aðeins eitt stig bakki og haldi 0-0). Frakkar þurfa nú að vinna stóran sigur í síðustu umferðinni til að eiga von um að komast áfram. Lemerre þarf greinilega að endurskoða sóknarleikinn sem er ekki að virka án Zidane.

    Kippti hjólinu úr geymslunni (en það fór þangað í gær úr bílskúrnum að Kambsvegi) og hjólaði í skólann, frekar stutt að fara núna. Er í engri æfingu en það er bara ein leið til að ná henni upp, hjóla meira.

    Í kvöld leit Stefa við, gestakomum fer nú óðum fjölgandi hér í Betrabóli, það verður flæði af fólki hér loksins þegar að við erum komin með allt á sinn stað.

    Áhugavert:

  • 1. apríl eða gjörningur í anda Brave New World?
  • Uncategorized

    HM:Dagur 6 – 1. umferð lýkur

    Ef svo ólíklega vill til að greyin Sverrir og Ármann slysist inn á þessa síðu þá býð ég þeim í HM-áhorf í Betrabóli. Ég vakna alla morgna klukkan sex og horfi á leiki dagsins fram til að verða eitt. Svo lengi sem þeir öskra ekki of mikið fyrir klukkan sjö, konan og nágrannarnir mega jú sofa þó að ég horfi á minn bolta.

    Rússland 2-0 Túnis
    Þetta var nú með því ódýrara sko. Rússar voru lengi vel á hælunum, Túnismenn ógnuðu þeim hvað eftir annað með lipru spili og góðri liðsvinnu. Á 59. mínútu er þvaga við vítateig Túnismanna, markmaðurinn handsamar knöttinn og í stundarbrjálæði kastar hann boltanum út á vinstri kantinn, beint á Rússa sem að reynir að brjótast upp að vítateignum, missir boltann þar en Igor Titov nær að klóra í knöttinn með stórutá og skorar mark frá jaðri vítateigsins. Túnismenn halda áfram að láta rússnesku vörnina skammast sín en eftir 5 mínútur ná Rússar að senda boltann yfir miðlínu á sóknarmann sem að fer mikinn í vítateignum og hálfpartinn veiðir vítaspyrnu. Karpin skorar af öryggi og gjörsamlega gegn gangi leiksins eru Rússar með 2-0 forystu. Túnismenn halda áfram sóknartilraunum sínum og eiga fjöldamörg næstum-því-færi sem og alvöru færi, Rússar bjarga við línu og þar fram eftir götunum. Úrslitin endurspegla alls ekki leikinn sjálfan en svona er knattspyrnan. Það sem mér finnst verst er að Örn fær fyrir þetta 15 stig í Draumadeildinni, 5 stig fyrir hvern varnarmann Rússa sem hann er með í liðinu sínu. Það vill svo skemmtilega til að þessir menn voru einmitt hrikalega lélegir í leiknum en það er ekki horft á það, hann tekur því svakalega forystu í draumadeildinni. Skandall.

    Portúgal 2-3 Bandaríkin
    Hvað skal segja? Portúgalir byrja leikinn af ákafa og með þessu fína spili sínu, Bandaríkjamenn fá hornspyrnu á 3. mínútu og skora úr henni eftir klaufagang varnarmanna. “Jæja, heimurinn ferst svo sem ekki” hugsa Portúgalir og stilla bara aftur upp. Portúgalir halda áfram að sýna galdramátt sinn en varnarlínan virðist voðalega veik, þungir miðverðirnir hafa ekkert í fljóta sóknarmenn Bandaríkjanna. Eftir hálftíma myndast þvaga fyrir framan vítateig Portúgala, varnarmaður sendir boltann á miðjumann rétt fyrir utan teiginn en hann rennur og Bandaríkjamaður kemst í boltann, reynir að stinga boltanum inn í teiginn en Portúgali hreinsar í burtu í átt að hliðarlínu, stendur þá ekki þar Bandaríkjamaður sem er fullkomlega rangstæður, en í rétti þar sem Portúgali sendi á hann. Bandaríkjamaðurinn fer nær og gefur fyrir að marki, flýgur þá ekki Jorge Costa fyrir, boltinn fer í kollinn á honum, breytir um stefnu og lekur inn í nærhornið. 2-0! Áfram halda Portúgalirnir sókn sinni en sex mínútum síðar geysast Bandaríkjamenn í sókn, gefa fyrir markið og þar horfir Fernando Couto á Bandaríkjamanninn, sem hann átti að passa, skalla boltinn í markið einn og óáreittur. 3-0! Núna fóru Portúgalir aðeins að pæla í hlutunum, “bíddu.. það er 3-0 fyrir ÞEIM?! Þetta er eitthvað ekki að passa” og hefja stórsókn. Atgangurinn skilar aðeins einu marki fyrir hálfleik. Seinni hálfleikur er eign Portúgala, en alltaf vantar smiðshöggið á að ná marki, fyrir utan sjálfsmark Bandaríkjamanna. Óvænt úrslit, og staðan í riðlinum alveg öfug við spár manna. Portúgalir verða að vinna báða leikina sem eftir eru til að eiga von núna.

    1. umferð búin
    Þar með lauk 1. umferð riðlakeppninnar. Frábær skemmtun í flestöllum leikjanna, mörg óvænt úrslit og ekki einn einasti 0-0 leikur. Samtals skoruð 45 mörk sem að mig grunar að sé nýtt met. Gaman að sjá hversu mikill sóknarbolti hefur verið í gangi, sem og að þjóðir utan Evrópu og Suður-Ameríku eru orðnar feykisterkar. Ennþá eru þó stóru nöfnin undir verndarvæng dómara, það skiptir máli þegar sóknarmaður er felldur í vítateig hvort hann er brasilískur eða tyrkneskur, Þjóðverji eða Túnismaður. Evrópuþjóðirnar eru nú búnar að vakna upp við það að hnoðboltinn þeirra virkar ekki lengur gegna óþekktari liðunum, aðeins Þjóðverjar gátu nýtt sér hann vel gegn Sádum.

    Þýskaland 1-1 Írland
    Þjóðverjar rassskelltu vont lið Sádi-Araba í síðasta leik sínum, og lítið hægt að dæma um styrkleika þeirra þar. Þessi leikur reyndist með þeim leiðinlegri í keppninni hingað til. Tvær Evrópuþjóðir mætast með frekar leiðinlegan stíl hvor um sig, hnoðast upp með boltann og svo er krossað fyrir framherjana, svipuð fágun og skemmtun og vélmenni sýnir við færiband í verksmiðju. Mætti ég þá biðja um að sjá Suður-Kóreu, Nígeríu, Tyrkland og fjöldamargar önnur lönd spila. Þjóðverjar reyndust vera svipaðir og áður, firnasterk 6 manna varnarlína með 3 manna fremri varnarlínu. Ekki neitt fyrir augað en þeir eru gera það vel sem þeir gera, loka svæðum og umkringja sóknarmenn og hnoða svo boltanum upp völlinn. Minn mann í Þýskalandi vantar sárlega, Mehmet Scholl sem er meiddur (knattspyrnuhæfileikana sækir hann til Tyrklands). Írarnir eru voða duglegir greyin en spila ekki mikið sín á milli, hnoðast upp með boltann. Þjóðverjar skora skólabókarmark í fyrri hálfleik, Írar jafna á baráttunni á 92. mínútu. Örn kom við og sá hluta af leiknum, hann er með Kahn í liðinu sínu þannig að það hlakkaði í honum þegar hann fór á 80. mínútu. Ég varð nú að hringja og segja honum að Kahn hefði ekki haldið hreinu, engin sex stig þar. Þessi 15 fyrir lélegu Rússana voru meira en nóg fyrir hann í dag.

    Eftir boltann skaust ég á Kambsveginn og hringdi á greiðabíl, við fórum með hjólin okkar og bókaskáp á Flókagötuna. Enn er pláss fyrir fleiri húsgögn en það minnkar ört. Ragna bauð okkur í mat, Sigurrós vann frameftir þannig að hún fékk hann bara maukaðan. Fengum svo Einar frænda hennar upp úr 21 til að meta með okkur þær framkvæmdir sem eru næst á dagskrá. Maður á alltaf að tékka á hvað atvinnumenn hafa að segja um hluti sem viðvaningar ætla að reyna að gera. Reynslan er nefnilega merkilega góður kennari.

    Áhugavert:

  • Rivaldo er frægur, fær bara sekt en ekki leikbann
  • We hung the most dimwitted essays on the wall
  • Uncategorized

    HM:Dagur 5

    Vakti frameftir í gærkveldi og nennti því ekki að vakna klukkan sex til að sjá líklega óáhugaverðasta leik mótsins, Kína – Kosta Ríka.

    Japan 2-2 Belgía
    Japanir komu skemmtilega á óvart, mjög vel skipulagðir með fínt spil og flinka leikmenn. Belgarnir voru hrikalega slappir, sáu fyrir sér litla og létta Japani og ætluðu bara að hnoðast í gegnum þá á líkamsstyrknum. Það er aldrei góðs viti að fara í svoleiðis taktík, og það sýndi sig. Bæði mörk Belga komu eftir þvögu við vítateig, en Japanir skoruðu glæsileg mörk og slakur dómari leiksins stal af þeim fullkomlega löglegu marki. Frábær frammistaða Japana. Belgar munu ekkert gera af viti með svona spilamennsku. Arnar Björnsson er mikið fyrir að fá umdeild atvik og leikaraskap, hann er greinilega af gulri pressugrein, því fær hann titilinn “spekingur” hér.

    Suður-Kórea 2-0 Pólland
    Pólverjar virtust ekki hafa fylgst með vandræðum Belga, því þeir mættu hér með nákvæmlega sömu taktík í farteskinu, dæla háum boltum inn í teig og láta stóru mennina um afganginn. Frábærlega skipulagt lið Suður-Kóreu kom öllum á óvart með öguðum leik, vörnin steig varla feilspor, og úti á vellinum yfirspiluðu Suður-Kóreumenn Pólverjana gjörsamlega. Evrópsku liðin þurfa aðeins að fara að pæla í því að svona groddataktík gengur ekki lengur upp þegar að andstæðinarnir eru farnir að spila fínan fótbolta. Verðskuldaður sigur Suður-Kóreu, þeirra fyrsti í HM-sögu þeirra.

    Kína 0-2 Kosta Ríka
    Vona að hinn frábæri þjálfari Kína, Bora Milutinovic sem ég hitti á HM98, fyrirgefi mér að hafa ekki nennt að vakna til að sjá hans menn. Þeir reyndust vera sæmilega teknískir og léttleikandi en með stór göt í vörn, miðju og sókn. Kosta Ríka voru frekar óspennandi og leikurinn eini svona lélegi leikur keppninnar hingað til. Kosta Ríka potuðu inn mörkunum og það dugði þeim.

    ADSL-routerar hafa víst orðið sambandslausir um allan bæ, þar á meðal í Betrabóli. Síminn segir að viðgerð standi yfir.

    Uncategorized

    HM:Dagur 4

    Fyrsti leikur dagsins var á aðeins ásættanlegri tíma en í gær, því fór ég á fætur 05:45 í stað 04:45.

    Króatía 0-1 Mexíkó
    Fyrir leikinn furðuðu “spekingarnir” á Sýn sig á því að Mexíkó virðist alltaf gleymast þegar rætt er um Suður-Ameríkuþjóðirnar, spurning hvort að það sé af því að Mexíkó er í Norður-Ameríku? Eftir því sem leið á leikinn virtist reyndar sem að þeir áttuðu sig á þessu, en þó aðeins til hálfs, nú var Mexíkó orðið að Mið-Ameríkulandi.
    Það sem vakti athygli mína þegar að byrjunarliðin voru tilgreind var að Luis Hernández, hinn magnaði sóknarmaður, og fyrirliðinn García Aspe voru á bekknum! Spekingarnir tuðuðu eitthvað um framherjann Aspe, álíka gáfulegt og fleira sem frá þeim kemur. Jozic þjálfari Króata var með númerið 24 á buxunum hjá sér, svona táknrænt til að sýna að hann sé einn af liðinu (liðin eru með 23 leikmenn hvert, númeraða 1-23, nema Írland þar sem Roy Keane var rekinn heim). Mexíkóar hófu leikinn með svakalegri pressu fyrstu 20 mínúturnar, Króatarnir vörðust bara hvað þeir gátu, og fórst það vel úr hendi. 9 leikir í röð sem að þeir hafa ekki fengið mark á sig. Það er svo sem skiljanlegt, þeir eru ekki bara með frábæra leikmenn í flestum stöðum, heldur spila þeir líka með 7 í vörn og 3 í sókn. Blanco reddaði loksins víti á 60. mínútu og skoraði úr því, Króatarnir voru nú orðnir einum færri (er víti ekki nóg refsing? af hverju rautt líka.. bara svona til að gera gjörsamlega út um annað liðið) og byrjuðu að sækja eitthvað. Þeir sýndu það að þeir geta spilað fantagóðan sóknarbolta, en dagskipun þjálfarans er víst að verjast. Milan Rapaic kom inná í lið Króata, virkilega flinkur leikmaður sem að vakti athygli þegar hann lék með Perugia í Serie A í nokkur ár. “Spekingarnir” á Sýn voru hins vegar svo sniðugir að kalla hann aldrei neitt annað en Rapaic Milan það sem eftir var, get ekki beðið eftir að sjá Owen Michael og Beckham David spila gegn Argentínu, sem að hefur þá Verón Juan og Batistuta Gabriel innanborðs…

    Brasilía 2-1 Tyrkland
    Tyrkirnir eru með nærri jafngott lið og Brasilíumenn! Magnaður leikur sem að hefði getað orðið klassískur hefði dómaraeintakið ekki verið gallað og haldið með Brasilíu. Tyrkir hefðu getað unnið leikinn en dómaranum leist ekkert á það (líklega í vasanum hjá Blatter sem er í vasanum hjá Havelange sem er… brasilískur… jæja). Brasilíumenn fengu því gefins vítaspyrnu, sluppu við gul spjöld fyrir atvik sem að Tyrkirnir voru spjaldaðir grimmt fyrir og svo kórónaði Rivaldo allt með því að leggjast í jörðina þegar 10 sekúndur voru eftir og plataði þar með vitlausasta dómara í heimi til að reka einn Tyrkja út af. Svona látalæti eru víst dagsskipun þjálfarans og Rivaldo sagði að þetta væri reynsla hans sem að hefði hjálpað til við þessa leikframmistöðu. Brasilíumenn eru komnir í svörtu bókina mína.

    Ítalía 2-0 Ekvador
    Ekvadormenn spila ágætis fótbolta, en smá sofandaháttur hjá þeim, sem og svakalegasti sóknarmaður Ítalíu sáu til þess að staðan var orðin 2-0 fyrir Vieri eftir hálftíma. Loksins sá maður leik þar sem að Ítalir pökkuðu ekki alveg í vörn eftir að hafa komist marki yfir, en mikið skelfing var Maldini slappur. Ítalir verða sterkir, þeir eru í léttari helmingi undanriðla þannig að þeir gætu farið nokkuð langt.

    Í kvöld skruppum við til Rögnu í mat og til að horfa á Survivor. Skutumst svo heim og þar beið pabbi með plast fyrir sturtuna okkar. Rúmlega 10 komu svo Valur, Örn og Regína og voru til rúmlega miðnættis. Svona gestakomum mun fara fjölgandi nú þegar að allt er að komast í gott horf hérna.

    Áhugavert:

  • Látið óábyrga embættismenn hafa það!
  • Uncategorized

    HM:Dagur 3

    Vaknaði við vekjaraklukkuna í morgun, 04:45 stóð á henni. Þetta voru ekki mistök, ég ætlaði mér nefnilega að vera fyrir framan sjónvarpið þegar að bein útsending frá HM hæfist klukkan 05:10, stórleikur Argentínu og Nígeríu fyrstur á dagskrá.

    Argentína 1-0 Nígería
    Gaman að sjá tvö lið spila þar sem hver einasti leikmaður kann fótbolta, getur gefið boltann meir en skammlaust og hreyft sig án hans. Ég hafði talsverðar áhyggjur af Nígeríumönnum fyrir leikinn, þjálfaramálin hafa verið í rugli og mikil úlfúð verið í kringum val leikmanna í liðið þannig að líkur voru á því að þeir næðu ekki að stilla saman strengi. Í fyrri hálfleik virtist þessi ótti minn verða að veruleika, Argentínumenn byrjuðu með hrikalega pressu og Nígeríumenn lentu í verulegum vandræðum. Undir lokin gáfu Argentínumenn aðeins eftir og vörn Nígeríumanna fór að braggast. Í seinni hálfleik héldu Nígeríumenn áfram að eflast, en sýndu sama veikleika nú og hefur hrjáð þá undanfarið. Veikleikinn er varnarvinna í föstum leikatriðum, og markið sem Argentínumenn skoruðu kom einmitt upp úr svoleiðis, einfaldur skalli frá fríum Batistuta (Batistuta og frír þýðir bara mark, mjög einfalt). Argentínumenn eru með svakalegt lið, fáránlega teknískir og með frábært leikskipulag og samvinnu.

    Áður en næsti leikur byrjaði var sýnd mynd af Joao Havelange, fyrrum forseta FIFA og ofurskriðdýri, hann virðist vera í heiðursstúku á hverjum einasta leik sem er spilaður í Suður-Kóreu.

    Paragvæ 2-2 Suður-Afríka
    Paragvæar töpuðu mjög naumlega fyrir Frökkum í 16-liða úrslitum á HM 1998, á gullmarki. Þeir voru því fyrirfram mun líklegri til sigurs hér en Suður-Afríkumenn sem að gerðu engar rósir á sama HM. Raunin varð líka sú að Paragvæar yfirspiluðu Suður-Afríkumenn í fyrri hálfleik, fantagott lið sem að þeir eru með. Roque Santa Cruz hélt þremur varnarmönnum í fullri vinnu og vann þá oft í þessu ójafna einvígi, hann átti víst líka sinn eigin prívat áhangendaskara þar sem að hópur skólastúlkna öskraði grúppíuöskri í hvert skipti sem að boltinn kom nálægt honum. Suður-Afríkumenn söfnuðu gulu spjöldunum í fyrri hálfleik af miklum móð, frekar grófir í tæklingunum. Þeir komu hins vegar tvíefldir í seinni hálfleik og sýndu mun betri spilamennsku, eftir að Paragvæar komust svo í 2-0 ákvað hinn afspyrnu leiðinlegi þjálfari þeirra, Cesare Maldini, að skipta yfir í vörn, 40 mínútur til leiksloka og staðan 2-0, ofboðslega ítalskt og leiðinlegt. Raunin varð enda sú að Suður-Afríkumennirnir áttu seinni hálfleikinn og jöfnuðu verðskuldað á lokamínútunum úr vítaspyrnu sem að markvörður Paragvæ gaf þeim, með Chilavert í markinu hefði þetta orðið öruggur sigur. Jöfnunarmarkið kom vel á vondan, sumsé Maldini, en ég vorkenni Paragvæunum samt, þeir áttu þetta ekki skilið, hvað þá þjálfarann. Stór mistök sem að knattspyrnusambandið gerði að reka vinsælan, vel liðinn og virkilega góðan þjálfara til þess að ráða ofmetinn, leiðinlegan og elliærann þjálfara.
    Algjör gullkornssetning kom fram hérna:

    MacBeth yfir á MacDonald

    Shakespeare hefði orðið stoltur af nafngiftum Suður-Afríkumanna.

    England 1-1 Svíþjóð
    Ekki bjóst maður nú við mjög miklu af Englendingum fyrir mótið, leikmannahópurinn sem var valinn var með áberandi gloppu, fáir og léttir miðjumenn. Því kom það manni talsvert á óvart að sjá þá mun betri aðilann í fyrri hálfleik á móti Svíum. Svíar spiluðu reyndar eins og Englendingar í den, boltanum sparkað blint fram og vonað það besta. Þetta er auðvitað taktík sem að Englendingar þekkja fram og aftur og því var þetta auðvelt fyrir þá, vörnin þeirra þekkir ekkert skemmtilegra en að taka á móti svona háum boltum, einkum þegar að framherjar andstæðinganna eru mun minni og veikbyggðari. Mark Englendinganna var gott, hornspyrna frá Beckham og skalli frá Sol Campbell. Í seinni hálfleik komu Svíar hins vegar til þess að spila fótbolta, héldu boltanum niðri og gjörsamlega völtuðu yfir enska liðið. Fyrrum Sheff Wed maðurinn Niclas Alexandersson jafnaði með flottu marki fyrir utan vítateig. Ef að Henrik Larsson hefði verið vakandi hefði hann svo getað bætt við tveimur mörkum. Englendingar sluppu því fyrir horn en ekki komast þeir upp úr riðlinum með svona spilamennsku.

    Spánn 3-1 Slóvenía
    Spánverjar eru frægir fyrir það að vera ofboðslega góðir í fótbolta með félagsliðum, og ofboðslega lélegir á stórmótum landsliða. Af þessum leik að dæma er ástæðan einföld, leikmenn hreyfa sig lítið án bolta og virðist einna helst sem að fyrirmælin sem menn fá eru “þú ert vinstri bakvörður” og búið. Mörkin sem að Spánverjarnir skoruðu komu eftir að einn leikmaður ákvað að þessi tilgangslausi bolti sem þeir spiluðu væri slappur og bjó til færi sem að annar Spánverji sá og nýtti. Leikmenn eru allir mjög flinkir og kunna fótbolta en liðssamvinnan er harla lítil, liðið bjó ekki til mörkin heldur einn maður í hvort skipti. Slóvenar börðust vel og voru Spánverjum mun erfiðari en markatalan sýnir, þeir minnkuðu muninn í 2-1 á 80. mínútu og voru svo að ógna verulega þangað til að dómarinn gaf eina fáránlegustu vítaspyrnu sem að sést hefur, Spánverjar skoruðu og staðan 3-1. Slóvenar eru af svipuðum styrkleika og Paragvæar, það verður því barátta milli þeirra hvort liðið eltir Spánverja úr riðlinum. Spánverjar verða ekki meistarar á meðan að þeir koma sér ekki upp taktík, sama hversu flinkir þeir eru hver um sig.

    Bandarískir íþróttablaðamenn gera hins vegar fátt annað þessa dagana en að segja hvað þeim finnst fótbolti asnalegur og leiðinlegur. Hefði haldið að það væri lítil gúrkutíð samt í gangi hjá þeim, NBA og fleira á fullu hjá þeim, auglýsingarnar um fótboltann í sjónvarpinu virðast hins vegar pirra þá. Sumir eru þó í betra skapi.

    Áhugavert:

  • World’s last football-free zone
  • Uncategorized

    HM:Dagur 2

    Vil byrja þessa færslu á því að óska Bjarna og Unni til hamingju með brúðkaup þeirra á morgun.

    Þar sem ég var svo vitlaus að vaka í nótt yfir leik 6 í úrslitum Vesturdeildar NBA þá náði ég ekki fyrstu tveimur HM-leikjum dagsins, Írlandi 1-1 Kamerún og Danmörku 2-1 Úrúgvæ. Horfði á Þýskaland éta einstaklega lélega Sádi-Araba upp til agna, 8-0, stærsta burst á HM síðan 1982 á Spáni (Ungverjaland 10-1 El Salvador). Sádarnarir komust upp úr riðlunum á HM ’94, en leiðin virðist hafa verið niður á við síðan. Áberandi hvað þeir voru allir að reyna að plata tvo og þrjá þýska leikmenn í einu, á meðan að liðsfélagarnir stóðu hjá og fylgdust með. Ekkert liðsspil í gangi á þessum bæ.

    Þar sem ég hafði misst af fyrri leikjunum þá vogaði ég mér ekki að hlusta á útvarp né skoða vefsíður fyrr en að ég var búinn að horfa á endursýningarnar. Kamerúnar voru svakalegir í byrjun en gáfu of mikið eftir undir lokin, Írarnir börðust vel og náðu að halda jöfnu.

    Danirnir eru með skemmtilega kantmenn og kjötfjöllin eru ennþá á miðjunni, þeir verða ekki heimsmeistarar en ættu að komast áfram úr riðlinum. Úrúgvæarnir eru með flinka leikmenn og fínt spil en þegar að þeir sækja bara með í mesta lagi 4 leikmönnum þá munu þeir ekki gera neinar rósir.

    Er núna að klára skilaverkefni fyrir skólann sem ég á að skila annað kvöld, held að rökrásirnar sem ég teiknaði ættu að virka.

    Það að horfa á endursýningar dró broddinn úr HM upplifuninni í dag, því ætla ég að fara að sofa núna um 22:00 og vakna rétt fyrir 05:00 til að geta séð leik Argentínumanna og Nígeríu, sem og hina 3 leikina sem að fylgja á eftir.

    Áhugavert:

  • So, you want to be a journalist?