HM:Dagur 7

Þetta er bara farið að venjast ágætlega að vakna svona klukkan sex á morgnana!

Danmörk 1-1 Senegal
Danir komu inn í þennan leik fullvissir um það að þeir fengju að spila sinn leik, halda boltanum og koma svo með ógnunina upp kantana. Senegalir voru sko alls ekki tilbúnir til þess, frá fyrstu mínútu keyrðu þeir grimmt í Danina sem að vissu ekki hvað var í gangi, kantarnir voru lokaðir og Senegalir börðust um hvern bolta hvar sem er á vellinum, Danir hafa talið sig svona sæmilega sterkbyggða en Senegalirnir eru þvílíkir massar að nautin á miðjunni hjá Dönum, Gravesen og Töfting, sáust hreinlega ekki. Danir fara þá að reyna langar sendingar og þær fara að valda usla í vörn Senegala sem að eru greinilega ekki viðbúnir þessari taktísku breytingu. Á 14. mínútu fá Danir innkast og algjör nýliðamistök verða í vörn Senegal þannig að Tomasson kemst inn í vítateiginn með boltann en er felldur þar klaufalega af Salif Diao. Víti fyrir Danmörku sem að Tomasson skorar úr, nokkuð gegn gangi leiksins. Það sem eftir lifir hálfleiks eru Senegalir sífellt að stríða Dönum sem að eru arfaslakir, óviðbúnir mótspyrnunni og með fá svör eftir að Senegalir læra á löngu sendingarnar. Í hálfleik skiptir þjálfari Senegal svo tveimur sóknarmönnum inná, skilaboð sem ekki er hægt að efast um, það skal verða skorað hér og það grimmt. Danir fá hornspyrnu (sína fyrstu í leiknum?) en missa boltann og frábært hraðaupphlaup Senegala skilar flottu marki, markaskorarinn er maðurinn sem að braut einmitt á Tomasson í vítateignum, Salif Diao. Áfram halda Senegalir að ógna en vantar herslumuninn að skora fleiri mörk. Á 80. mínútu fær svo Salif Diao rauða spjaldið og er rekinn útaf, maður leiksins án vafa, ábyrgur fyrir báðum mörkunum. Úrslitin eru kannski ásættanleg fyrir bæði lið, Danir sleppa vel þar sem þeir voru arfaslakir, Senegalir gætu hafa unnið þetta en þeir verða bara að ná stigi gegn Úrúgvæ til að vera öruggir áfram.

Kamerún 1-0 Sádi-Arabía
Skíttap Sáda gegn Þjóðverjum kom talsvert á óvart, liðið stóð sig vel á HM94, aðeins verr á HM98 en að þeir væru svona lélegir var eitthvað sem að gat bara ekki staðist, menn komast ekki áfram á kostnað þjóða eins og Íran (sem að eru sterkir í boltanum) nema þeir kunni fótbolta. Það sést líka frá fyrstu mínútu, Kamerúnar byrja grimmt og sækja stíft á Sádana, en þeir virðast aftur á móti vera með nóg sjálfstraust og láta ekki á sjá. Kamerúnar virðast frekar kærulausir, hafa líklega litið á þennan leik sem formsatriði eftir það sem á undan er gengið. Sádarnir ná upp fínu spili, liggja aftarlega en beita svo fínum skyndisóknum sem ógna talsvert marki Kamerún. Kamerúnar reyna að bögglast upp miðjuna en sterk vörn Sádanna étur flesta boltana sem að eru sendir þar inn. Eftir sókn Sádanna ná Kamerúnar hins vegar hraðaupphlaupi, og Eto’o klárar færið vel. Sádarnir hefðu hæglega getað skorað 2-3 mörk, sýndu og sönnuðu að leikurinn gegn Þýskalandi var bara stórslys sem að endurtekur sig ekki í bráð.

Arnar Björnsson heldur áfram að væla að ef að ekki væri fyrir ranga dóma og óþokkabrot leikmanna væri knattspyrnan ekki svona vinsæl, þessir skandalar skapi umtal sem sé lífsnauðsynlegt fyrir knattspyrnuna. Fyrir þessi orð fær hann að sjálfsögðu titilinn “spekingur” í öðru veldi, þar sem ég er kurteis maður og vil ekki nota dagbókina til að níða niður fólk þá ætla ég ekki að segja hvað mér finnst um þennan svokallaða “fréttamann” sem að virðist lesa “The Sun” og “National Enquirer” af miklum móð.

Frakkland 0-0 Úrúgvæ
Heims- og Evrópumeistararnir koma í þennan leik undir gífurlegum þrýstingi eftir að hafa tapað fyrsta leiknum. Úrúgvæar sjá að það er skrekkur í Frökkunum og spila mun framar en þeir gerðu gegn Dönum. Alvaro Recoba sýnir Frökkunum hvers þeir sakna, klobbar menn hægri og vinstri og leggur upp færin eins og Frakkarnir eru vanir að sjá Zidane gera. Tæklingar eru nokkuð fastar, Frakkar auðvitað ákveðnir í að taka þennan leik, og Úrúgvæar þekktir fyrir að spara ekki spörkin. Á 25. mínútu fer Henry í villta tæklingu fyrir framan nefið á dómaranum sem að lyftir umsvifalaust upp rauða spjaldinu. Frakkar undir gífurlegri pressu og nú manni færri! Úrúgvæar færast í aukana í eigin tæklingum og eru heppnir að verða ekki tveimur mönnum færri þegar að tvær tæklingar í svipuðum flokki og hjá Henry sjást hjá þeim. Mikill hiti í mönnum þegar að hálfleikurinn kemur. Báðir þjálfararnir hafa greinilega beðið sína menn að spara aðeins gaddana, seinni hálfleikur mun prúðari af beggja hálfu. Bæði lið fá dauðafæri, Úrúgvæar reyndar með mun betri en skora þó ekki, klaufagangur og góð staðsetning Barthez sér til þess. Leiknum lýkur með 0-0 jafntefli, því fyrsta í þessari keppni (og vonandi síðasta, en það er hæpið, lokaumferðin gæti orðið þannig að þau lið sem vantar aðeins eitt stig bakki og haldi 0-0). Frakkar þurfa nú að vinna stóran sigur í síðustu umferðinni til að eiga von um að komast áfram. Lemerre þarf greinilega að endurskoða sóknarleikinn sem er ekki að virka án Zidane.

Kippti hjólinu úr geymslunni (en það fór þangað í gær úr bílskúrnum að Kambsvegi) og hjólaði í skólann, frekar stutt að fara núna. Er í engri æfingu en það er bara ein leið til að ná henni upp, hjóla meira.

Í kvöld leit Stefa við, gestakomum fer nú óðum fjölgandi hér í Betrabóli, það verður flæði af fólki hér loksins þegar að við erum komin með allt á sinn stað.

Áhugavert:

  • 1. apríl eða gjörningur í anda Brave New World?
  • Comments are closed.