HM:Dagur 8 – LAN #6

Sigurrós bauð saumaklúbbnum í innflutningspartý, en ég átti bókaðan tíma á VIT-lani #6 (HM útgáfa) þannig að ég sást ekkert í því.

Lanið að þessu sinni var með HM-þema, hver leikmaður notaði nú númer og nafn leikmanns á HM, sjálfur var ég 19. Denilson, þó svo að nokkur önnur nöfn og númer hafi verið undir smásjánni líka (4. Montero, 11. Sergio Conceiçao og fleiri). Ég var harður á þessu og leyfði engum að komast upp með múður, allir skyldu hafa nafn og númer, þeir sem að eru ekkert fyrir fótboltann fengu úthlutað nafni og númeri af handahófi, veskú.

Svíþjóð 2-1 Nígería
Undarleg byrjun á leiknum, Svíar steingleymdu að heilsa dómurunum sem stóðu vandræðalegir í smá tíma. Spekingur leiksins að þessu sinni var Gaupi, sem að byrjaði á því að kalla Jay Jay Okocha hinu skemmtilega nafni Ókaka, og Oronkwo fékk nafnið Ókókó. Mig grunar að Gaupi hafi verið að lesa Lukka Láka bók fyrir svefninn. Svíar byrja leikinn af miklum krafti og Nígeríumenn bjarga á línu. Svíar mun betri aðilinn en góð fyrirgjöf frá Yobo og góður skalli frá Agahowa skilar Nígeríu 1-0 forystu. Fagnaðarlæti Agahowa líktust svo HM í fimleikum, sexfalt flikk-flakk með einu heljarstökki í lokin. Af hverju heitir þetta annars fagn núna hjá þulunum en ekki fögnuður? Er fagn ekki nýtt orð þá? Henrik Larsson heldur áfram að væflast um völlinn og gera ekkert af viti þar til að hann fær fína stungusendingu frá Ljungberg og skilar hennir örugglega í markið. Sendingar Larssons halda áfram að vera arfaslakar. Á 60. mínútu fá Svíar víti, og Larsson skorar naumlega úr því, markmaðurinn vel í boltanum. Svíar með verðskuldaðan sigur, fínt spil og mikil vinna leikmanna, þessi fyrri hálfleikur gegn Englendingum var greinilega bara glímuskjálfti. Ótti minn fyrir mótið um lélegan árangur Nígeríumanna rættist, þeir eru með frábæra leikmenn í öllum stöðum en taktíski þátturinn er verri en hann var 1994, tíð þjálfaraskipti og deilur um leikmenn hafa háð þeim verulega núna.

Spánn 3-1 Paragvæ
José Luis Chilavert hefur víst verið afar duglegur að rakka niður Spánverjana undanfarið, og sagst ætla að skora tvö mörk gegn þeim, eitt úr víti og hitt úr aukaspyrnu. Paragvæ byrja leikinn í hollensku treyjunum! Paragvæ byrja af krafti og á 9. mínútu á bakvörðurinn stórgóði, Arce, skot að marki Spánverja sem að Casillas slær frá en beint í fætur Puyol og af honum fer boltinn í markið. 1-0 fyrir Paragvæ. Spánverjar vakna við þetta og taka völdin á miðjunni. Í hálfleik eru Paragvæar enn yfir, og nú er markamaskínunni Morientes skipt inná sem og Helguera. Á 53. mínútu jafnar Morientes með skalla. Á 61. mínútu kemur hann Spáni yfir með maganum, Chilavert fer í slæmt úthlaup og boltinn hafnar í maga Morientes og fer þaðan í netið. Á 82. mínútu gulltryggir Hierro svo sigurinn með marki úr víti, mörg stig fyrir þá sem hafa hann í sínu draumaliði.

Argentína 0-1 England
Örn kíkir í heimsókn og tekur vinnufélaga sinn með sér, þetta er stórleikur þessarar umferðar og því er pizza pöntuð. Þarna sést loks í skallann á dómaranum Collina, sem að mér finnst oft vera helst til mikið í sviðsljósinu og frekar flautuglaður. Hann hefur greinilega verið sparaður hingað til og settur sérstaklega á þennan leik, enda viðbúið að hann verði erfiður. Stuðningsmenn Englands sýna fádæma virðingarleysi og púa þegar að þjóðsöngur Argentínu er leikinn, ekkert álíka átt sér stað í keppninni til þessa. Stuðningsmenn Argentínu endurlauna svo verknaðinn þegar að þjóðsöngur Englendinga fær spilun. Mér til mikillar furðu mæta Argentínumenn frekar moðvolgir í leikinn, spilamennskan sem þeir sýndu gegn Nígeríu hefur greinilega gleymst á hótelinu og þó þeir séu fyrri hluta leiks mun sterkari á miðjunni þá ná þeir voða lítið að skapa og gera fátt af viti. Engu líkara en að þeir séu hræddir við Englendinga, sem eru þó með lakara lið. Beckham skorar úr vítaspyrnu og Englendingar verða betri aðilinn í leiknum, ná fínu spili á meðan að Argentínumenn virðast hafa gleymt því að þetta væri alvöruviðureign.

Comments are closed.