HM:Dagur 4

Fyrsti leikur dagsins var á aðeins ásættanlegri tíma en í gær, því fór ég á fætur 05:45 í stað 04:45.

Króatía 0-1 Mexíkó
Fyrir leikinn furðuðu “spekingarnir” á Sýn sig á því að Mexíkó virðist alltaf gleymast þegar rætt er um Suður-Ameríkuþjóðirnar, spurning hvort að það sé af því að Mexíkó er í Norður-Ameríku? Eftir því sem leið á leikinn virtist reyndar sem að þeir áttuðu sig á þessu, en þó aðeins til hálfs, nú var Mexíkó orðið að Mið-Ameríkulandi.
Það sem vakti athygli mína þegar að byrjunarliðin voru tilgreind var að Luis Hernández, hinn magnaði sóknarmaður, og fyrirliðinn García Aspe voru á bekknum! Spekingarnir tuðuðu eitthvað um framherjann Aspe, álíka gáfulegt og fleira sem frá þeim kemur. Jozic þjálfari Króata var með númerið 24 á buxunum hjá sér, svona táknrænt til að sýna að hann sé einn af liðinu (liðin eru með 23 leikmenn hvert, númeraða 1-23, nema Írland þar sem Roy Keane var rekinn heim). Mexíkóar hófu leikinn með svakalegri pressu fyrstu 20 mínúturnar, Króatarnir vörðust bara hvað þeir gátu, og fórst það vel úr hendi. 9 leikir í röð sem að þeir hafa ekki fengið mark á sig. Það er svo sem skiljanlegt, þeir eru ekki bara með frábæra leikmenn í flestum stöðum, heldur spila þeir líka með 7 í vörn og 3 í sókn. Blanco reddaði loksins víti á 60. mínútu og skoraði úr því, Króatarnir voru nú orðnir einum færri (er víti ekki nóg refsing? af hverju rautt líka.. bara svona til að gera gjörsamlega út um annað liðið) og byrjuðu að sækja eitthvað. Þeir sýndu það að þeir geta spilað fantagóðan sóknarbolta, en dagskipun þjálfarans er víst að verjast. Milan Rapaic kom inná í lið Króata, virkilega flinkur leikmaður sem að vakti athygli þegar hann lék með Perugia í Serie A í nokkur ár. “Spekingarnir” á Sýn voru hins vegar svo sniðugir að kalla hann aldrei neitt annað en Rapaic Milan það sem eftir var, get ekki beðið eftir að sjá Owen Michael og Beckham David spila gegn Argentínu, sem að hefur þá Verón Juan og Batistuta Gabriel innanborðs…

Brasilía 2-1 Tyrkland
Tyrkirnir eru með nærri jafngott lið og Brasilíumenn! Magnaður leikur sem að hefði getað orðið klassískur hefði dómaraeintakið ekki verið gallað og haldið með Brasilíu. Tyrkir hefðu getað unnið leikinn en dómaranum leist ekkert á það (líklega í vasanum hjá Blatter sem er í vasanum hjá Havelange sem er… brasilískur… jæja). Brasilíumenn fengu því gefins vítaspyrnu, sluppu við gul spjöld fyrir atvik sem að Tyrkirnir voru spjaldaðir grimmt fyrir og svo kórónaði Rivaldo allt með því að leggjast í jörðina þegar 10 sekúndur voru eftir og plataði þar með vitlausasta dómara í heimi til að reka einn Tyrkja út af. Svona látalæti eru víst dagsskipun þjálfarans og Rivaldo sagði að þetta væri reynsla hans sem að hefði hjálpað til við þessa leikframmistöðu. Brasilíumenn eru komnir í svörtu bókina mína.

Ítalía 2-0 Ekvador
Ekvadormenn spila ágætis fótbolta, en smá sofandaháttur hjá þeim, sem og svakalegasti sóknarmaður Ítalíu sáu til þess að staðan var orðin 2-0 fyrir Vieri eftir hálftíma. Loksins sá maður leik þar sem að Ítalir pökkuðu ekki alveg í vörn eftir að hafa komist marki yfir, en mikið skelfing var Maldini slappur. Ítalir verða sterkir, þeir eru í léttari helmingi undanriðla þannig að þeir gætu farið nokkuð langt.

Í kvöld skruppum við til Rögnu í mat og til að horfa á Survivor. Skutumst svo heim og þar beið pabbi með plast fyrir sturtuna okkar. Rúmlega 10 komu svo Valur, Örn og Regína og voru til rúmlega miðnættis. Svona gestakomum mun fara fjölgandi nú þegar að allt er að komast í gott horf hérna.

Áhugavert:

  • Látið óábyrga embættismenn hafa það!
  • Comments are closed.